Birtingur á kolmunnaveiðar

Birtingur NK farinn á kolmunnaveiðar. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBirtingur NK hélt til kolmunnaveiða í gær en skipið hefur legið í höfn frá því að loðnuvertíð lauk. Þar með eru kolmunnaveiðiskip Síldarvinnslunnar orðin þrjú talsins en Börkur og Beitir hafa stundað veiðarnar að undanförnu. Kolmunnakvóti Síldarvinnslunnar á yfirstandandi vertíð er um 50 þúsund tonn og því þótti nauðsynlegt að fjölga veiðiskipunum í þrjú. Skipstjóri á Birtingi er Tómas Kárason.


Kolmunna landað yfir páskana

Færeyska skipið Fagraberg kom með 3000 tonn af kolmunna til Seyðisfjarðar. Ljósm. Gunnar SverrissonKolmunnaveiði í færeysku lögsögunni glæddist fyrir páska og yfir páskana komu skip til löndunar bæði til Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar. Annars hefur veiðin verið köflótt, stundum hafa skipin þurft að toga lengi en inn á milli hefur fengist góður afli eftir tiltölulega stutt hol. Holin hafa tekið á bilinu 4-14 tíma. Bjarni Ólafsson kom með fullfermi til Neskaupstaðar á föstudaginn langa og á laugardaginn fyrir páska kom Hákon EA með um 1300 tonn. Börkur NK kom síðan til heimahafnar með rúmlega 2500 tonn í fyrradag og var lokið við að landa úr honum í gær.

Á föstudaginn langa kom færeyska skipið Fagraberg til Seyðisfjarðar með 3000 tonn og þegar þetta er ritað er verið að landa um 2000 tonnum úr Polar Amaroq. Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar  segir að það sé svo sannarlega gleðiefni að fiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði skuli fá hráefni. „Verksmiðjan hefur staðið í 11 mánuði og það tók smá tíma að taka hrollinn úr véladótinu en nú gengur allt orðið vel,“ sagði Gunnar. „Það er mikilvægt fyrir fyrirtækið og samfélagið hér að hráefni skuli berast til verksmiðjunnar. Við fengum ekkert á loðnuvertíðinni, enda loðnukvótinn lítill og nánast allt sem veiddist fór til manneldisvinnslu. Nú er hinsvegar kolmunnakvótinn myndarlegur og þá fáum við hráefni til vinnslu.“

Síðustu fréttir af kolmunnamiðunum eru þær að Bjarni Ólafsson er búinn að fylla og lagður af stað til löndunar. Beitir NK er kominn með 1700 tonn og ætti að fylla í dag, en Beitir lenti í vélarbilun þegar veiðar voru að hefjast í færeysku lögsögunni og þurfti að leita til hafnar í Færeyjum til að fá viðgert. 

Bjartur með 97 tonn af blönduðum afla

Bjartsmenn í aðgerð. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í gær með 97 tonn af blönduðum afla. Um 50 tonn af aflanum var þorskur, 22 tonn ufsi og um 17 tonn karfi. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra gekk veiðiferðin vel: „Nú gekk okkur mun betur að veiða ufsa en í síðasta túr, en þá var erfitt að ná honum. Töluvert þurfti að hafa fyrir því að ná karfanum en eins og oft áður var ekkert vandamál að fá þorsk. Það þarf að gæta þess að þorskholin verði ekki alltof stór og því toguðum við einungis í hálfa til eina klukkustund hverju sinni eftir að við fórum í þorskveiðina. Við tókum þorskinn á Breiðdalsgrunni en ufsann og karfann í Berufjarðarál og í Hvalbakshalli,“ sagði Steinþór að lokum.

Kolmunnaveiðar hafnar á ný

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Berki NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir héldu úr höfn í Færeyjum á mánudagskvöld áleiðis á kolmunnamiðin suður af eyjunum. Börkur hóf veiðar strax og á miðin var komið en bilun kom upp í annarri aðalvél Beitis og var þá haldið til hafnar í Fuglafirði þar sem unnið er að viðgerð.

Heimasíðan hafði samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Berki og lét hann þokkalega af sér. Sagði hann að fiskurinn væri að ganga inn á veiðisvæðið og væru sumir íslensku bátanna að hitta í gott en 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeysku lögsögunni. Sagði Sturla að þeir á Berki væru búnir að fá 800 tonn í tveimur holum og væru nú að toga. Tæplega  300 tonn fengust í fyrra holinu og rúmlega  500 í því síðara. „Þetta gengur bara orðið nokkuð vel“, sagði Sturla að lokum.