Nýbyggingin fokheld og uppsetning vélbúnaðar hafin

Nýja pökkunarstöðin orðin fokheld. Ljósm. Hákon Viðarsson.Pökkunarstöðin sem verið hefur í byggingu á hafnarsvæðinu í Neskaupstað er nú fokheld og er hafin uppsetning á vélum og búnaði í húsinu. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í byrjun apríl og er það áfast fiskiðjuverinu. Um er að ræða 1000 fermetra byggingu og mun hún hýsa kassavélar og brettavafningsvélar. Miðað við núverandi afköst fiskiðjuversins er mikil þörf á að bæta pökkunaraðstöðuna en eins er vélbúnaðurinn í nýja húsinu miðaður við afkastaaukningu sem fyrirhuguð er í framtíðinni.

Uppsetning vélbúnaðar hafin. Ljósm. Hákon Viðarsson.Öll áhersla er lögð á að uppsetningu véla í pökkunarstöðinni verði lokið áður en makríl- og síldarvinnsla hefst í fiskiðjuverinu en gert er ráð fyrir að skip Síldarvinnslunnar hefji veiðar á makríl og síld í fyrri hluta þessa mánaðar.

Barði með hörkugóðan grálúðutúr

Grálúðu landað úr Barða í gær. Ljósm. Hákon Viðarsson.Frystitogarinn Barði kom til hafnar í Neskaupstað á sunnudagskvöld að aflokinni afar vel heppnaðri veiðiferð. Skipið hélt úr höfn eftir sjómannadag og var ætlunin að veiða úthafskarfa. Karfinn lét hins vegar hvergi á sér kræla og því var haldið til lands að viku liðinni og skipið undirbúið fyrir grálúðuveiðar austur af landinu.

Sannast sagna gengu veiðarnar á grálúðunni vel og millilandaði Barði um miðjan júní. Skipið kom síðan til löndunar að aflokinni veiðiferðinni á sunnudagskvöld eins og fyrr greinir. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er hér um að ræða einn albesta túrinn í sögu frystitogarans og áhöfnin afar sátt við veiðiárangurinn. Aflinn í veiðiferðinni var um 340 tonn upp úr sjó og nemur verðmæti aflans um 183 milljónum króna.

Barði mun halda til veiða á ný á föstudag og er þá reiknað með að sótt verði í makríl, en útgefinn makrílkvóti skipsins er um 1000 tonn.


Lyftaranámskeið – stúlkur helmingur þátttakenda

Þátttakendur á lyftaranámskeiðinu. Jónas Þór Jóhannsson leiðbeinandi stendur aftast. Ljósm.: Hákon Viðarsson.Þessa dagana er haldið tveggja daga lyftaranámskeið fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar. Námskeiðið er á vegum Vinnueftirlits ríkisins og er Jónas Þór Jóhannsson leiðbeinandi. Námskeiðið sitja 13 starfsmenn og er um helmingur þeirra stúlkur.

Á námskeiðinu er fjallað um öryggi, réttindi og skyldur ásamt því að vélum og búnaði eru gerð skil. Að sögn Jónasar Þórs gengur námskeiðið vel og eru þátttakendur áhugasamir. „Það er einstaklega gleðilegt hvað kvenfólk er að koma sterkt inn á þetta svið en en hlutur þeirra fer vaxandi hjá stærstu fyrirtækjunum hér eystra. Konur hafa reynst afar vel sem vinnuvélastjórnendur og eru oft bæði lagnari og gætnari en við karlmennirnir“, sagði Jónas Þór.

Námskeið um borð í Sæbjörgu

Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Ljósm. Hákon Viðarsson.Sæbjörg, skip Landsbjargar, liggur nú í höfn í Neskaupstað þar sem sjómönnum er boðið upp á öryggisnámskeið á vegum Slysavarnaskóla sjómanna. Í gær fór kennsla fram á tveimur námskeiðum; annars vegar eins dags námskeiði fyrir smábátasjómenn þar sem þátttakendur voru fimm og hins vegar tveggja daga endurmenntunarnámskeiði fyrir sjómenn á stærri skipum þar sem þátttakendur voru fjórtán. Annað endurmenntunarnámskeið fyrir sjómenn á stærri skipum mun síðan hefjast í dag. Sjómenn á skipum Síldarvinnslunnar hafa fjölmennt á þessi námskeið og er það svo sannarlega þægilegra fyrir þá að fá skólann til sín en að þurfa ferðast um langan veg til að geta sótt sér viðkomandi menntun.

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, sagði að námskeiðin hafi gengið vel og það væri ánægjulegt að geta komið og boðið upp á fræðsluna á heimaslóðum sjómannanna. Sæbjörgin hefur ekki siglt á milli hafna til námskeiðahalds síðan 2008 en þá voru fjárveitingar til skólahaldsins skornar niður. Hins vegar hafa kennarar Slysavarnaskóla sjómanna farið víða og kennt á námskeiðum. Nú er Sæbjörg á leið í slipp á Akureyri og þá var tækifærið notað og komið við á nokkrum höfnum og boðið upp á námskeið um borð. Fyrst var komið við í Vestmannaeyjum og nú liggur skipið í Neskaupstað. Þvínæst verður haldið til Seyðisfjarðar og loks til Akureyrar. Hilmar segir að aðsóknin á öryggisnámskeið sjómanna hafi aukist verulega eftir hrun og meðal annars hafi margir sótt sérhæfð námskeið fyrir þá sem ætla sér að stunda sjómennsku erlendis.