Kolmunnaskipin á sama blettinum á botnskaki

Beitir NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÞað gengur á ýmsu á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi. Kolmunninn heldur sig við botninn yfir daginn en kemur eitthvað upp á nóttunni og misjafnt er hvað veiðiskipin toga lengi hverju sinni. Um klukkan tvö í dag var Börkur að dæla um 200 tonnum eftir að hafa togað í sjö klukkustundir og var skipið þá komið með um 1300 tonna afla. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra hafði áhöfnin átt í tímabundnu brasi með veiðarfærið en veður var þokkalegt. Að vísu myndi bræla eitthvað í dag en það veður myndi ganga fljótt yfir. Börkur hífði 300 tonn í gærdag og síðan 150 tonn eftir að hafa togað í tvo og hálfan tíma.

Beitir var að toga skammt frá Berki og upplýsti Tómas Kárason skipstjóri að þeir væru komnir með um 900 tonna afla. „Það er allur flotinn hérna á sama blettinum í botnskaki og sumir hafa fest trollin í karga og skemmt þau. Hérna er töluvert lóð en þetta er klesst niður við botn eins og er. Við höfum verið að toga misjafnlega lengi en algengt er að togað sé í 5-8 tíma“, sagði Tómas.


Lélegri loðnuvertíð lokið

Beitir NK á loðnuveiðum úti af Vestfjörðum í byrjun marsmánaðar. Ljósm. Þorgeir BaldurssonLoðnuvertíðinni lauk í síðustu viku en þá gáfust skipin endanlega upp á að leita loðnunnar. Heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni var rúmlega 127 þúsund tonn en í fyrra var kvóti þeirra 463 þúsund tonn. Því má segja að vertíðin hafi valdið vonbrigðum og reynst fyrirtækjunum og þjóðfélaginu heldur rýr; gera má ráð fyrir að útflutningsverðmæti loðnuafurða á vertíðinni sé tæplega 12 milljarðar á móti 34 milljörðum í fyrra.

Afli skipa Síldarvinnslunnar á vertíðinni var sem hér segir:

Börkur eldri    5.344 tonn
Börkur nýi       2.048 tonn
Beitir             3.589 tonn
Birtingur         5.134 tonn

Alls veiddu skipin því 16.115 tonn. Tekið skal fram að áhöfn Beitis stundaði veiðar á Birtingi hluta úr vertíðinni  á meðan lagfæringar á Beiti fóru fram.

Alls tók Síldarvinnslan á móti 45.000 þúsund tonnum af loðnu á vertíðinni ef með eru talin 3000   tonn af sjófrystri loðnu sem landað var í frystigeymslur fyrirtækisins í Neskaupstað.

Alls voru fryst um 10.200 tonn af loðnu fyrir ýmsa markaði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, þar af voru liðlega 400 tonn hrogn. Þá voru unnin um 900 tonn af hrognum í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. 

Fiskimjölsverksmiðjurnar í Neskaupstað og í Helguvík tóku á móti tæplega 32.000 tonnum af loðnu á vertíðinni en verksmiðjan á Seyðisfirði var ekki nýtt. Móttekin loðna verksmiðjanna var sem hér segir:

Neskaupstaður  16.029 tonn
Helguvík            15.942 tonn

Frystar afurðir vertíðarinnar hjá Síldarvinnslunni námu samtals rúmlega 11 þúsund tonnum en afurðir fiskimjölsverksmiðjanna tæplega 8.200 tonnum.

Kolmunninn farinn að veiðast

Börkur NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir komu á kolmunnamiðin um 300 mílur vestur af Norður-Írlandi í fyrradag. Á miðunum var þá vitlaust veður og ekki unnt að stunda veiðar en í gær tók veðrið heldur að skána og hófust veiðar þá. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að þeir hafi fengið 300 tonna hol í gærkvöldi og voru að hífa þokkalegt hol þegar heimasíðan hafði tal af honum. Segir Tómas að þeir á Beiti hafi lent í dálitlu brasi við upphaf veiðanna en nú sé hins vegar ágætis veiðiútlit. Um 20 skip eru á blettinum sem veitt er á og eru þau af ýmsu þjóðerni; þarna eru Rússar, Færeyingar og Norðmenn auk íslenskra skipa. 

Börkur er á sömu slóðum og Beitir og að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra eru þeir komnir með um 580 tonn í þremur holum. „Það er loksins komið skaplegt veður og þá fer þetta allt að ganga vel“, sagði Hjörvar.

Kolmunnaveiðarnar að hefjast

Beitir NK hélt til kolmunnaveiða í gær.  Ljósm. Guðlaugur BirgissonUppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, héldu til kolmunnaveiða í gærkvöldi. Í gærdag komu Birtingur og Polar Amaroq til Neskaupstaðar eftir að hafa leitað loðnu án árangurs dögum saman. Polar Amaroq mun væntanlega einnig halda til kolmunnaveiða um helgina en Birtingi verður lagt að sinni.

Kolmunninn veiðist nú á hafsvæðinu vestur af Írlandi þannig að skipin eru um tvo og hálfan sólarhring að sigla á miðin. Vel veiddist á þessum slóðum en að undanförnu hefur veðurhamur truflað veiðarnar.

Útgefinn kolmunnakvóti Síldarvinnslunnar er um 40 þúsund tonn og líkur eru á að hann verði aukinn. Uppsjávarskipa fyrirtækisins  bíða því ærin verkefni á næstunni.