Heldur döpur veiði hjá togurunum

Vinnsla er stöðug í frystihúsinu á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla er stöðug í frystihúsinu á Seyðisfirði.
Ljósm. Ómar Bogason
Í lok síðustu viku komu flestir togarar á Austfjarðamiðum til hafnar vegna brælu. Þegar veiði hófst á ný reyndist hún vera heldur döpur. Gullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði í morgun og var afli hans 83 tonn. Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri segir að þorskveiði hafi hvergi gengið vel síðustu dagana. „Þetta virðist vera svona allt í kringum landið og það eru óþægileg viðbrigði því afli hefur verið mjög góður að undanförnu hér fyrir austan og við fórum marga fullfermistúra sem tóku einungis 3-4 daga. Við vorum núna að veiða á Tangaflakinu, í Reyðarfjarðardýpinu og út af Gerpisflaki og það er alls staðar sama sagan – heldur lítið að hafa. Þetta er sláandi, en hlýtur að lagast,“ segir Rúnar.
 
Kapp hefur verið lagt á að frystihúsið á Seyðisfirði hafi nægt hráefni þó svo afli hafi minnkað. Þessa vikuna hefur þar verið unninn afli úr Gullver, Smáey VE, Vestmannaey VE og Björgu EA.  Að jafnaði eru unnar ferskar afurðir í húsinu fjóra daga vikunnar en fimmta daginn eru afurðirnar frystar. Fersku afurðirnar eru fluttar út með Norrænu, Mykinesi eða með Eimskip frá Reyðarfirði. Árdís Sigurðardóttir, vinnslustjóri í frystihúsinu, segir að það skipti miklu máli að nægur fiskur fáist til vinnslu „Hér er nóg vinna alla daga og það skiptir mestu máli. Fiskurinn kemur úr ýmsum skipum auk Gullvers. Það er ekki óalgengt að afli minnki í október eða nóvember og þá skiptir svo miklu máli að fá fisk frá fleiri skipum. Afli hefur verið óvenju góður hér fyrir austan að undanförnu og því er breytingin býsna mikil þegar hann verður tregari,“ segir Árdís.
 

Síldarvinnslan framúrskarandi

Framurskarandi 2019Nýlega tilkynnti Creditinfo hvaða fyrirtæki á Íslandi teldust framúrskaransi á rekstrarárinu 2018 samkvæmt þeim viðmiðum sem notuð eru, en Creditinfo hefur unnið lista yfir framúrskarandi fyrirtæki í tíu ár. Alls eru 874 fyrirtæki á listanum þetta árið eða 2% allra fyrirtækja á landinu.
 
Á listanum yfir framúrskarandi fyrirtæki er þeim skipt í þrjá stærðarflokka; lítil fyrirtæki, meðalstór og stór. Síldarvinnslan er í flokki stórra fyrirtækja og er þar í tólfta sæti. Reyndar hefur Síldarvinnslan verið á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki samfellt frá árinu 2012 og í fyrra var fyrirtækið í tuttugasta sæti. Fram kemur á listanum að eignir Síldarvinnslunnar séu 59.484.531 þúsundir króna og eigið fé 38.851.660 þúsundir króna eða 65,3%.
 
Þegar fyrirtæki eru skoðuð eftir landshlutum kemur fram að 35 fyrirtæki eru framúrskarandi á Austurlandi og þar er Síldarvinnslan í fyrsta sæti.

Ristilspeglun

logo

                Síldarvinnslan hefur undanfarin ár boðið starfsfólki sínu, sem er 50 ára og eldra, upp á ristilspeglun sem framkvæmd er í Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Hefur starfsfólkið hagnýtt sér þetta í ríkum mæli og í einstaka tilvikum hefur speglunin komið í veg fyrir alvarleg veikindi. Hingað til hefur verið hringt í starfsfólkið og því boðið að fara í speglunina en ný persónuverndarlög koma í veg fyrir að sá háttur verði hafður á lengur. Þess í stað þarf starfsfólkið að panta tíma í speglunina með því að senda skilaboð á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í skilaboðunum þarf að koma fram nafn, kennitala og símanúmer viðkomandi.

                Starfsfólkið þarf að greiða fyrir ristilspeglunina en Síldarvinnslan mun síðan endurgreiða kostnaðinn við framvísun greiðslukvittunar.

Indverski sendiherrann heimsækir frystihúsið á Seyðisfirði

Sendiherra

 Frá heimsókn indversku sendiherrahjónanna. Frá vinstri: Ómar Bogason, Adolf Guðmundsson, sendiherrahjónin og Þóra Bergný Guðmundsdóttir.

                Í síðustu viku kom indverski sendiherrann, T Armstrong Changsan, í heimsókn til Seyðisfjarðar ásamt eiginkonu sinni. Á Seyðisfirði hittu sendiherrahjónin Þóru Bergnýju Guðmundsdóttur sem rekur farfuglaheimili á staðnum auk þess að reka hótel á Indlandi. Þóra dvelur á Seyðisfirði yfir sumartímann en á Indlandi á öðrum árstímum. Sendiherrann óskaði eftir því að fá að skoða fiskvinnslu á staðnum og var að sjálfsögðu brugðist vel við því og hann boðinn velkominn í heimsókn í frystihús Síldarvinnslunnar. Í frystihúsinu tóku Ómar Bogason og Adolf Guðmundsson á móti sendiherrahjónunum og fræddu þau um íslenskan sjávarútveg ásamt því að hjónin fylgdust með vinnslustarfseminni. Sendiherrann reyndist vera afar áhugasamur um fiskveiðar og fiskvinnslu og spurði margs. Lýsti hann því yfir að hann væri afar ánægður með heimsóknina og taldi hana mjög lærdómsríka.