2017 var þungt ár í bolfiskvinnslunni

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju framan við stöðina. Ljósm. Ómar BogasonFiskvinnslustöðin á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju
framan við stöðina. Ljósm. Ómar Bogason
Á árinu 2017 tók fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði á móti 2.625 tonnum af bolfiski til vinnslu, þar af var þorskur um 1.980 tonn og ufsi 491 tonn. Er þetta mun minna hráefni en unnið var á árinu 2016 en þá var tekið á móti um 3.500 tonnum. Ein helsta ástæða minnkandi vinnslu á milli áranna er sjómannaverkfallið í upphafi sl. árs. Ómar Bogason framleiðslustjóri fiskvinnslustöðvarinnar segir að árið 2017 hafi verið þungt í bolfiskvinnslunni. „Verkfallið í upphafi árs hafði sín áhrif og leiddi til þess að ekkert var unnið fyrstu tvo mánuði ársins. Hin sterka króna hafði neikvæð áhrif á afkomuna og eins lækkaði afurðaverð á okkar helstu mörkuðum, einkum varð verðlækkunin mikil á ufsaafurðum. Þá hefur launakostnaður aukist til muna. Á árinu lauk framkvæmdum við að klæða fiskvinnslustöðina að utan og nú er húsið orðið til fyrirmyndar sem okkur finnst afar jákvætt,“ sagði Ómar.
 
Aflinn sem kemur til vinnslu í fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði kemur frá togaranum Gullver NS og að hluta til frá Vestmannaeyjatogurunum Vestmannaey og Bergey. Gullver fiskaði 4.350 tonn á árinu 2017 og er það mesti afli sem skipið hefur borið að landi á einu ári. Afli Gullvers var 300 tonnum meiri en á árinu 2016 en aflaverðmætið hins vegur 15 milljón krónum minna.

Skipin til veiða á nýju ári

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS er fyrsta skipið í Síldarvinnsluflotanum sem heldur til veiða á árinu 2018. Gullver lét úr höfn á Seyðisfirði í dag kl 14.00. Frystitogarinn Blængur NK mun halda til veiða klukkan 10.00 í fyrramálið en Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey og Bergey munu leysa festar seinni partinn á fimmtudag.
 
Ekki liggur fyrir hvenær uppsjávarskipin halda til veiða. Gert var ráð fyrir að þau héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í byrjun ársins en þar sem ekki hefur tekist að semja um gagnkvæmar veiðar í lögsögum Íslands og Færeyja ríkir óvissa um það. Þá ber að geta þess að loðnuvertíð er á næsta leiti og eru menn þegar farnir að hyggja að henni. 

Athyglisverður fyrirlestur

Metoo

Fyrilestur Magnúsar Orra vakti athygli. Ljósm: Hákon Ernuson

Síldarvinnslan bauð upp á opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo í Egilsbúð í Neskaupstað í gær. Fyrirlesari var Magnús Orri Schram stjórnarmaður í UN Women á Íslandi.

                Fyrirlesturinn var athyglisverður og fjallaði Magnús Orri um ábyrgð karlmanna í breyttum heimi ekki síst í ljósi nýrra viðhorfa sem tengjast hinni svonefndu #metoo byltingu. Í máli hans kom fram hvatning til karlmanna um að endurskoða viðhorf sín og hegðun í garð kvenna. Það væri svo sannarlega þörf á að hlusta á hinar fjölmörgu raddir kvenna sem upplýstu um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni. Á fyrirlestrinum lásu þær Ingibjörg Þórðardóttir, Birta Sæmundsdóttir og Sólveig Helga Björgúlfsdóttir frásagnir kvenna sem orðið hafa fyrir áreitni. Um 70 manns sóttu fyrirlesturinn og höfðu margir orð á því að þarna væri um þarft og gott framtak að ræða.

                Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar kynnti fyrirlesarann í upphafi og hafði orð á því að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan þyrfti að taka fullt mark á þeirri umræðu sem byrjað hefði fyrir alvöru með #metoo byltingunni. Sagði hann að nauðsynlegt væri að hvert einasta fyrirtæki og hver einasta stofnun hugsaði sinn gang og gripi til aðgerða til að hindra að kynbundin mismunun og áreitni ætti sér stað. Þá tilkynnti hann að framvegis myndu hin hefðbundnu dagatöl með fáklæddum eða berum konum ekki fara upp á vegg á vinnustöðum og í skipum Síldarvinnslunnar. Þegar sendingar af slíkum dagatölum bærust fyrirtækinu í upphafi nýs árs færu þau öll með tölu beint í ruslið.

 

Vel heppnað jólaball

26178639 10213106762650919 888268967 o

Stúlkur úr 9. bekk Nesskóla leiddu söng og Jón Hilmar Kárason lék undir. Ljósm: Ragnhildur Tryggvadóttir

Hin árlega jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar var haldin í gær og var fjölsótt og vel heppnuð. Skemmtunin var haldin í Egilsbúð og var í umsjá 9. bekkjar Nesskóla eins og undanfarin ár. Stúlkur úr 9. bekk leiddu sönginn við undirleik Jóns Hilmars Kárasonar og allir tóku hressilega undir um leið og gengið var í kringum jólatréð. Jólasveinar komu í heimsókn með hollt og gott í poka og vöktu mikla athygli. Einnig var gestum boðið upp á veitingar.

                Jólaball Síldarvinnslunnar er fastur liður í jólahaldinu fyrir marga og skemmtu börnin sér vel í ár eins og ávallt áður.