Þegar síld var landað úr landgöngupramma

Síld söltuð á söltunarstöðinni Sólbrekku í Mjóafirði sumarið 1965.Síld söltuð á söltunarstöðinni Sólbrekku í
Mjóafirði sumarið 1965.
Hinn 24. mars árið 1965 var hlutafélagið Sólbrekka stofnað. Tilgangur félagsins var að koma á fót síldarsöltunarstöð og hefja síldarsöltun í Mjóafirði eystra. Hluthafarnir í félaginu voru Þórður Óskarsson, skipstjóri á Sólfara AK, Björn J. Björnsson og Gunnar Ólafsson, en þeir voru allir frá Akranesi. Þá átti Dýrleif Hallgrímsdóttir, eiginkona Gunnars, hlut í félaginu og einnig Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði.
 
Bryggjan á Brekku var lagfærð og endurbætt og  kom  félagið þar upp myndarlegri söltunarstöð. Ráðast þurfti í ýmsar framkvæmdir og meðal annars var reistur íbúðarbraggi fyrir starfsfólk. Söltun hófst síðan sumarið 1965 og var saltað á stöðinni í fjögur sumur. Árið 1965 var saltað í 5.490 tunnur, árið 1966 í 7.580 tunnur, árið 1966 í 4.396 tunnur og árið 1968 í 4.092 tunnur.
 
Sólfari AK landar síld til söltunar. Myndin er líklega tekin í hádegishléi. Ljósm. Jón SkaptiSólfari AK landar síld til söltunar. Myndin er líklega tekin
í hádegishléi. 
Söltunarstöðin Sólbrekka var um margt einstök. Hún var eina stöðin á þessu síldveiðitímabili sem ekki var starfrækt í þéttbýli eða í næsta nágrenni þéttbýlis. Þá var engin síldarverksmiðja í Mjóafirði og því þurfti að flytja slóg og úrgangssíld til Neskaupstaðar þar sem síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók við hráefninu. Fyrsta árið var slógið og úrgangssíldin  flutt á milli í landgöngupramma sem flóabáturinn dró. Eftir það voru þurrafúabátar notaðir til flutninganna en flóabáturinn dró þá einnig. Heimasíðan ræddi stuttlega við Gunnar Ólafsson, sem var einn eigenda Sólbrekku, og spurði hann fyrst hvort það hafi almennt þótt skynsamlegt að koma upp síldarsöltunarstöð í Mjóafirði. „Nei, blessaður vertu, mörgum þótti þetta arfavitlaust. Sumir sögðu að þetta væri það vitlausasta sem við gætum gert, því þarna væri ekkert fólk og engin síldarverksmiðja. Menn hristu endalaust hausinn yfir þessu en samt sem áður létum við af þessu verða. Þarna var byggður þrjátíu manna braggi, keyptar tvær rafstöðvar og allur búnaður á söltunarstöðina. Mjóafjarðarhreppur lagfærði bryggjuna og fékk olíutank sem nauðsynlegt var að hafa. Landgönguprammann til að flytja slóg og úrgangssíld til Neskaupstaðar fengum við vestur á fjörðum. Hann var einungis notaður fyrsta sumarið. Hann lak og ekki var talið forsvaranlegt að nota hann lengur. Eftir það notuðum við afskráða þurrafúabáta í flutningana sem flóabáturinn dró. Fyrst var það bátur sem hét Skíðblaðnir frá Vestmannaeyjum og síðan Hafnfirðingur frá Hafnarfirði. Pramminn er sérstaklega eftirminnilegur, en hann var yfirleitt kallaður“ Járnhausinn“ á meðan hann var í notkun eystra. Við áttum víst að skila prammanum aftur vestur en af því varð aldrei og hann er því enn í Mjóafirði. Slógið og úrgangssíldin fóru í verksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og við áttum afar gott samstarf við Norðfirðinga. Fyrst vorum við í sambandi við Hermann Lárusson framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar en síðasta árið hafði Ólafur Gunnarsson tekið við af honum. Hjá söltunarstöðinni var mest saltað úr Sólfara AK en eins komu Norðfjarðarbátar og lönduðu hjá okkur í töluverðum mæli. Starfsfólk kom víða að til starfa á stöðinni. Þarna störfuðu til dæmis Akurnesingar og Siglfirðingar og svo auðvitað einhverjir heimamenn. Það fól í sér mikla vinnu að láta þetta gerast en þessi tími var skemmtilegur og hann er afskaplega eftirminnilegur,“ segir Gunnar.
 
Flóabáturinn að draga landgönguprammann til Neskaupstaðar.Flóabáturinn að draga landgönguprammann
til Neskaupstaðar.
Allir sem heimsækja Mjóafjörð sjá merkisprammann sem einu sinni gegndi því hlutverki að flytja síld á milli fjarða og var kallaður „Járnhausinn“.  Pramminn liggur í fjörunni innarlega í firðinum norðanverðum rétt við þjóðveginn þar sem hann hægt og bítandi verður riði að bráð. Þess má einnig geta að bragginn sem Sólbrekkumenn reistu í Mjóafirði hefur gegnt mikilvægu hlutverki í byggðarlaginu eftir að síldin hvarf á braut. Hann hefur meðal annars verið notaður sem skóli og gistiheimili.
 
Myndirnar sem fylgja og teknar voru sumarið 1965 eru úr safni Jóns Skafta Kristjánssonar sem gegndi starfi vélstjóra á Sólfara AK á síldarárunum.
 
 Við bryggjuna sést landgöngupramminn hálffullur af slógi og úrgangssíld. Ljósm. Jón SkaptiVið bryggjuna sést landgöngupramminn hálffullur af
slógi og úrgangssíld. 
 Landgöngupramminn liggur nú í fjörunni innarlega í Mjóafirði norðanverðum. Ljósmynd fengin hjá FjarðabyggðLandgöngupramminn liggur nú í fjörunni innarlega í Mjóafirði norðanverðum. Ljósmynd fengin hjá Fjarðabyggð
 
 

Kolmunnaskipin halda til veiða

Gott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonKolmunnaskipin sem legið hafa í Norðfjarðarhöfn að undanförnu halda nú til veiða í færeysku lögsöguna hvert af öðru. Polar Amaroq lét úr höfn um hádegi í gær og Beitir NK í morgun. Gert er ráð fyrir að Bjarni Ólafsson AK sigli í kjölfar þeirra á fimmtudag. Börkur NK er hins vegar í slipp á Akureyri og mun væntanlega ekki fara niður fyrr en á fimmtudag.
 
Samkvæmt nýjustu heimildum eru heldur litlar fréttir af veiði í færeysku lögsögunni. Þar eru rússnesk og færeysk skip að veiðum eins og er.
 
 
 
 

Örlagaríkt fótbrot

Börkur NK lætur úr höfn um mánaðamótin maí/júní 1976 áleiðis í Norðursjó. Norðfirðingar gerðu ekki ráð fyrir að sjá skipið á ný. Ljósm. Björn Björnsson yngriBörkur NK lætur úr höfn um mánaðamótin maí/júní 1976
áleiðis í Norðursjó. Norðfirðingar gerðu ekki ráð fyrir að
sjá skipið á ný. Ljósm. Björn Björnsson yngri
Síldarvinnslan festi kaup á stóru uppsjávarskipi árið 1973. Skipið fékk nafnið Börkur og var gjarnan nefnt Stóri-Börkur á sínum tíma. Gert var ráð fyrir að Börkur myndi henta vel til loðnuveiða og eins voru bundnar vonir við að skipið gæti veitt kolmunna. Kaupin á Berki vöktu nokkra athygli og þótti sumum að þau einkenndust af mikilli bjartsýni.
 
Erfiðlega gekk að finna næg verkefni fyrir Börk fyrstu árin eftir að skipið var keypt. Loðnuvertíðin var stutt og kolmunnaveiðarnar gengu ekki sem skyldi. Reynt var að finna ný verkefni fyrir skipið og haustið 1975 var það sent til loðnuveiða í Barentshafi ásamt fleiri íslenskum skipum og síðar þetta sama haust lagði það stund á makrílveiðar undan ströndum norðvestur Afríku.
 
Að því koma að stjórn Síldarvinnslunnar taldi óhjákvæmilegt að setja Börk á söluskrá vegna verkefnaskorts. Ekki var þess langt að bíða að fyrirspurnir bærust um kaup á skipinu og komu þær frá norskum útgerðarfyrirtækjum. Í maímánuði 1976 kom norskur útgerðarmaður til Neskaupstaðar í þeim tilgangi að skoða Börk með kaup í huga. Leiddi sú skoðun til þess að undirritaður var bráðabirgðasamningur um kaupin en í samningnum voru nokkrir fyrirvarar. Samkvæmt samningnum var gert ráð fyrir að Börkur yrði afhentur norska kaupandanum hinn 15. júlí og yrði skipið afhent með veiðarfærum. Í stað Barkar ráðgerði Síldarvinnslan að festa kaup á togara.
 
Ekki voru allir sáttir við þá ákvörðun að selja Börk og bentu á að nýlokið væri við byggingu nýrrar loðnuverksmiðju í Neskaupstað í stað þeirrar sem eyðilagðist í snjóflóði 1974 og því væri nauðsynlegt fyrir fyrirtækið að eiga öflugt loðnuskip.
 
Börkur NK tók kveðjuhring á Norðfirði áður en lagt var af stað í Norðursjóinn. Ljósm. Björn Björnsson yngriBörkur NK tók kveðjuhring á Norðfirði áður en lagt var af
stað í Norðursjóinn. Ljósm. Björn Björnsson yngri
Þegar þarna var komið sögu hafði Síldarvinnslunni verið úthlutað 340 tonna síldarkvóta í Norðursjó fyrir Börk og var ákveðið að skipið héldi þangað til síldveiða um mánaðamótin maí-júní. Áður en Börkur lagði af stað var gengið frá öllu um borð með það í huga að skipið yrði síðan afhent nýjum eiganda í Danmörku þegar síldveiðinni lyki. Börkur hafði verið tekinn vel í gegn og var nýmálaður og fínn. Síldarnótin var í nótakassanum og loðnunótin í lestinni enda áttu veiðarfærin að fylgja skipinu til nýs eiganda. Þegar Börkur lét úr höfn tók hann hring á firðinum og flautaði með skipsflautunni í kveðjuskyni. Norðfirðingar áttu ekki von á því að sjá Stóra-Börk á ný.
 
Á meðan Börkur var við síldveiðarnar í Norðursjó fóru Síldarvinnslumenn til Noregs og skoðuðu þar 400 tonna togara sem mögulegt var að kaupa þegar salan á Berki yrði að veruleika. Væntanlegur kaupandi Barkar ætlaði að koma til Danmerkur og skoða skipið enn frekar áður en af kaupunum yrði. Bið varð á því að kaupandinn skilaði sér og loks bárust þær fréttir að hann hefði fótbrotnað og væri ekki ferðafær eins og á stæði. 
 
Aflaskipið Börkur NK með fullfermi af loðnu, en alls fiskaði skipið yfir 1,5 milljón tonna á meðan það var í eigu SíldarvinnslunnarAflaskipið Börkur NK með fullfermi af loðnu,
en alls fiskaði skipið yfir 1,5 milljón tonna á meðan það var í eigu Síldarvinnslunnar
Einmitt á þeim tíma sem beðið var eftir norska kaupandanum í Norðursjó hófust sumarloðnuveiðar í fyrsta sinn við Ísland. Börkur var samstundis kallaður heim úr Norðursjónum og sendur til loðnuveiða fyrir norðan land. Tilkoma sumarloðnuveiðanna breytti miklu hvað söluáformin varðaði og brátt tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að taka Stóra-Börk af söluskrá.
 
Fótbrot norska útgerðarmannsins skipti miklu máli í þessari sögu. Ekki er ólíklegt að ef norski útgerðarmaðurinn hefði komið til Danmerkur á tilsettum tíma hefði skipið verið selt. Einn stjórnarmanna Síldarvinnslunnar hafði orð á því síðar að þarna hefðu örlögin gripið inn í og fótbrotið reynst gæfuríkt fyrir Síldarvinnsluna. Hér skal það rifjað upp að Stóri-Börkur var í eigu Síldarvinnslunnar allt til ársins 2016 og bar reyndar nafnið Birtingur á árunum 2012-2016. Afli skipsins á þeim 43 árum sem það var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum sem er með því almesta sem íslenskt skip hefur borið að landi.
 
 
 
 
 
 
 
 

Blængur með fullfermi

Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum tuttugu og fjögurra daga túr, en haldið var til veiða hinn 10. mars. Aflinn er rúmlega 600 tonn upp úr sjó og er frystilestin sneisafull. Uppistaða aflans er karfi og ýsa og er verðmæti hans 181 milljón króna. Í veiðiferðinni var gullkarfi veiddur á Melsekk, djúpkarfi í Skerjadýpinu og ýsa á Selvogsbanka. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að þetta hafi verið fínasti túr hvað veiðina varðar en veðrið hafi verið djöfullegt nánast allan tímann. „ Í sannleika sagt var veðrið einungis skaplegt síðustu tvo dagana. Einu sinni fórum við í var við Garðskagann en þá var veðrið snarvitlaust og tíu metra ölduhæð. Í túrnum vorum við tvo sólarhringa frá veiðum vegna veðurs en annars var oft verið að veiða í vitlausu veðri. Manni fannst vera blíða þegar hann fór undir fimmtán metrana. Veðurfarslega var þetta fjarri því að vera skemmtileg veiðiferð en það var hins vegar ávallt góð veiði,“ segir Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi aftur til veiða á sunnudagskvöld.