Í mörg horn að líta hjá Bergi-Hugin
- Details
- Dagsetning: 27. September 2019

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 105 tonn, uppistaðan þorskur en einnig dálítið af ufsa, ýsu og karfa. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvort auðvelt væri að finna þorskinn um þessar mundir. „Það hefur ekki verið þannig, en það virðist vera að breytast núna. Þorskurinn hélt sig á takmörkuðu svæði hér eystra, aðallega á Glettinganesflaki og Tangaflaki en nú er hægt að nálgast hann víðar. Það er ekki ósennilegt að síldin hérna út af Austfjörðunum hafi áhrif á hegðun þorskins. Annars hefur okkur gengið ágætlega að ná í þorsk og það hefur verið dálítið af ýsu í bland við hann, en erfiðlega hefur hins vegar gengið að finna ufsann. Þessi túr var ekki langur eða tæpir fjórir sólarhringar höfn í höfn. Við byrjuðum í Lónsbugtunni, vorum síðan lítilsháttar í Berufjarðarál en megnið af þorskinum var tekið í Seyðisfjarðardýpinu. Veðrið hefur verið indælt að undanförnu og segja má að þetta hafi almennt verið þægilegt,“ segir Steinþór.
Börkur NK siglir inn Norðfjörð í morgun með 1.470 tonn af eðalsíld. Ljósm. Smári GeirssonVinnsla á síld hefur verið samfelld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað undanfarna daga. Lokið var við að vinna 1230 tonn úr Berki NK upp úr hádegi á laugardag og þá var Beitir NK kominn til hafnar með 1270 tonn. Hófst vinnsla strax úr honum. Börkur hélt til veiða strax að löndun lokinni og var kominn að landi í morgun með 1470 tonn. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki og spurði hann hvort síldin héldi sig alltaf á sömu slóðum. „Já, hún gerir það. Við fengum þennan afla í fimm holum innarlega á Héraðsflóanum. Við toguðum afar stutt og vorum ekkert að flýta okkur. Lengsta holið var tveir tímar og það stysta 20 mínútur og við gáfum okkur góðan tíma á milli hola. Menn þurfa að gæta að sér því það er hætta á að fá allt of mikið. Það er gríðarlega mikið af síld á þessum slóðum og hún virðist kunna vel við sig þarna. Síldin er afar falleg og hún er stærri en í síðasta túr eða yfir 400 grömm. Hún er líka átulaus og sterk og afar góð til vinnslu. Þetta verður ekki mikið þægilegra. Við erum að veiða við bæjardyrnar í blíðuveðri dag eftir dag. Og frá miðunum til Norðfjarðarhafnar voru 47 mílur þegar við hættum veiðum núna. Þetta er alger veisla,“ segir Hálfdan.