Stór og falleg loðna að ganga inn í íslenska lögsögu

Grænlenska skipið Polar Amaroq leitar nú að loðnu norður af landinuGrænlenska skipið Polar Amaroq leitar nú að loðnu norður af landinuGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq hélt til loðnuleitar sl. föstudag, en það eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem standa fyrir leitinni. Mun leitarleiðangurinn taka tæplega viku. Heimasíðan ræddi við Geir Zoëga skipstjóra skömmu fyrir hádegi en þá var verið að taka sýni norðaustur af Kolbeinsey. „Þessi leiðangur er farinn í nánu samráði við Hafrannsóknastofnun en þó er enginn fulltrúi frá stofnuninni um borð. Við tökum sýni og könnum þau og frystum einnig sýni fyrir stofnunina. Hafrannsóknastofnun fær öll gögn leiðangursins þannig að allt er gert eins og um hefðbundna vetrarmælingu sé að ræða. Við hófum leitina norðvestur af Straumnesi en síðan eru farnir ákveðnir leggir austur með kantinum. Það var full ástæða til að leita núna enda hafa borist heilmiklar loðnufréttir frá togurum sem hafa verið að veiðum á svæðinu. Við fundum strax loðnu. Hún var dálítið blönduð fyrst en fljótlega var einungis um að ræða stóra kynþroska loðnu. Það hefur semsagt verið loðna á 180 sjómílna belti sem við höfum nú farið yfir og inn á milli hafa verið góðar torfur. Loðnan kemur að norðan og virðist vera að ganga upp að landinu í verulegu magni. Þetta ætti ekki að koma á óvart og er í góðum takti við haustmælinguna 2019. Ég hef verið bjartsýnn á loðnuvertíð í vetur og nú hef ég góð rök fyrir bjartsýninni. Þetta lítur bara afskaplega vel út,“segir Geir.

Með fullt skip að afloknum brælutúr

Bergey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogarinn Bergey VE lagðist að bryggju í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi og var uppistaða aflans ufsi. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að túrinn hafi einkennst af brælu. „Það gekk vel að veiða ef tekið er tillit til þess að við vorum á sífelldum flótta undan veðri. Við byrjuðum í Sláturhúsinu og síðan færðum við okkur vestur á Öræfagrunn, Kötlugrunn og loks í Reynisdýpið. Það var ekkert hægt að kvarta undan aflanum en veðrið hefði mátt vera miklu betra. Aflanum verður landað í dag og veðurútlit mun síðan hafa mikið að segja um framhaldið,“ segir Jón.
 
Systurskipið Vestmannaey VE hefur verið að karfaveiðum fyrir sunnan og vestan Eyjar. Afli hefur verið ágætur á daginn en lélegur yfir nóttina. Gert er ráð fyrir að skipið fylli í kvöld og landi í Eyjum. 
 
 

Norskir fiskframleiðendur vilja sóttkvíarhótel á viðráðanlegu verði

Norskir fiskframleiðendur vilja sóttkvíarhótel á viðráðanlegu verðiÞorskvertíðin við Lofoten og Vesterȧlen í Noregi mun hefjast fljótlega á nýju ári og þá mun erlent starfsfólk streyma til landsins. Gert er ráð fyrir að fiskvinnslufyrirtækin á vertíðarsvæðinu þurfi að ráða allt að 4.000 manns til starfa og verður vart annað séð en að það starfsfólk muni koma erlendis frá. Að vísu er atvinnuleysi umtalsvert í Noregi en talið er að erfitt muni reynast að fá Norðmenn til að koma til starfa á vertíðarsvæðinu auk þess sem störf við fiskvinnsluna reyna á líkamlega og þykja því ekki girnileg.
 
Gert er ráð fyrir að erlent starfsfólk fari í sýnatöku við komuna til landsins og ef sýnið er neikvætt þarf fólkið að fara í tíu daga sóttkví áður en það getur hafið störf. Í sóttkvínni þarf viðkomandi að dveljast í einstaklingsherbergi sem gera má ráð fyrir að yrði þá oftast í verbúð viðkomandi fyrirtækis. Samtök fiskframleiðenda í Noregi sér galla á þessu fyrirkomulagi og telur að heppilegra sé að fólkið dvelji í þessa tíu daga á sérstökum sóttkvíarhótelum sem starfrækt yrðu við alþjóðaflugvöllinn í Gardermoen í nágrenni Osló og við landamærin þar sem verkafólkið kæmi landleiðina til Noregs. Telja samtökin að erfitt yrði fyrir starfsfólkið að dvelja í sóttkvínni í verbúð í litlu samfélagi þar sem hætta væri á að það yrði litið hornauga. Geir Ove Ystmark, framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda, telur eðlilegt að ríkið styrki dvöl erlenda starfsfólkisins á slíkum sóttkvíarhótelum. Segir Ystmark að þegar hafi orðið vart við að íbúar í sjávarbyggðunum líti erlent starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja hornauga jafnvel þó að starfsfólkið hafi fasta búsetu í Noregi. Hann hafi því verulegar áhyggjur af stöðu mála þegar mikill fjöldi starfsfólks komi erlendis frá við upphaf vertíðar og mikilvægt sé þá að unnt sé að upplýsa íbúana um að allt þetta fólk hafi farið í sýnatöku og sóttkví áður en það kom á staðinn.
 
Fram kemur í máli Ystmarks að nauðsynlegt sé að dvöl erlenda starfsfólksins á sóttkvíarhótelum verði fyrirtækjunum ekki alltof kostnaðarsöm og þurfi ríkið því að taka meiri þátt í kostnaði en gert hefur verið ráð fyrir. Þá hefur hann einnig áhyggjur af því að hótelin muni alls ekki geta rúmað allan þann fjölda starfsfólks sem þarf að fara í sóttkví við komuna til landsins.
 
(Fréttin birtist í Fiskeribladet)

Vinnsla í frystihúsinu á Seyðisfirði gengur vel

Vinnsla í frystihúsinu á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla í frystihúsinu á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hefur gengið vel að undanförnu. Ýmsar jákvæðar breytingar hafa átt sér stað og þá er húsið fullmannað, en heldur erfiðlega gekk að fá fólk til starfa sl. haust. Heimasíðan ræddi við Róbert Inga Tómasson framleiðslustjóra og spurði hvaða breytingar hefðu átt sér stað á starfseminni að undanförnu. „Það er ýmislegt sem veldur því að starfsemin í frystihúsinu hefur gengið vel síðustu mánuði. Í fyrsta lagi ber að nefna bættan vélbúnað. Hér var tekin í notkun flokkunarvél sem eykur afköst við pökkun og einnig hausari. Þessi nýi vélbúnaður er farinn að virka afar vel. Í öðru lagi höfum við verið að þróa breytingar á framleiðslunni sem virðast hafa tekist vel og er þá fyrst og fremst verið að bæta nýtingu hráefnisins. Í þriðja lagi hefur hráefnið sem unnið hefur verið reynst vera afar gott, en togarinn Gullver sér húsinu að mestu fyrir hráefni. Ný krapavél var sett í Gullver sl. sumar og hefur tilkoma hennar aukið gæði hráefnisins til muna og gefið kost á betri nýtingu þess. Í fjórða lagi hefur það gerst að húsið er fullmannað en það gekk erfiðlega að ráða fólk að afloknu sumarfríi. Nú síðustu vikurnar hafa fyrirspurnir um störf hins vegar aukist og er það í samræmi við það atvinnuástand sem ríkir í landinu vegna covid. Mestu máli skiptir þó hvað okkar góða starfsfólk er tilbúið að taka þátt í þeim breytingum sem gerðar hafa verið og vinna í nýju starfsumhverfi. Auðvitað eru allir þreyttir á ástandinu og starfsumhverfið er allt annað en það var fyrir faraldurinn. Núna er starfsfólkinu til dæmis skipt upp í hópa sem umgangast ekki hver annan og búningsklefa og kaffistofu er skipt upp. Það er allt gert til að forðast kórónuveiruna. Á heildina litið hefur þróunin hjá okkur í frystihúsinu verið jákvæð og það er ánægjulegt,“ segir Róbert Ingi.