Til starfsmanna Síldarvinnslunnar vegna Covid 19

SVN logo SVNÁgætu starfsmenn. Það er aðdáunarvert hvernig allir hafa snúið bökum saman í slagnum við þann vágest sem Covid 19 er.  Þið hafið farið að þeim reglum sem settar hafa verið og sætt ykkur við þær takmarkanir sem þær fela í sér. Þið hafið einnig sýnt ábyrgð í ykkar frímtíma.  Nú erum við að ljúka fjögurra mánaða makríl/síldarvertíð þar sem allt hefur gengið vel, bæði veiðar og vinnsla. Við erum að upplífa aukna smithættu  allvíða á landinu, þó Austurland virðist vera þar undanskilið ennþá. Síldarvinnslan vill biðla til starfsmanna um að halda áfram að fara eftir  þeim tilmælum sem gefin hafa verið af land- og sóttvarnalækni hvað sóttvarnir varðar.

Starfsmenn eru hvattir til að  takmarka ferðir sínar eins og frekast er unnt á þau svæði þar sem sýkingar hefur orðið vart.  Ef slíkar ferðir eru farnar er mikilvægt að sýna ítrustu varkárni hvað varðar sýkingarhættu.

Mikilvægt er að virða fjarlægðarmörk og fara að einu og öllu eftir ráðleggingum um handþvott og sótthreinsun ásamt því að nota viðeigandi hlífðarbúnað eins og andlitsgrímu og hanska þar sem það á við. 

Verði starfsmaður var við einkenni eins og kvef, hósta, hita, beinverki, hálssærindi,  höfuðverk eða óeðliega þreytu er hann beðinn um að halda sig heima og hafa tafarlaust samband við heilsugæslu.
 
Hér á eftir fylgja reglur sem skulu gilda innan fyrirtækisins vegna Covid 19:

1. Starfsmenn leggi áherslu á handþvott og notkun sótthreinsivökva.

2. Tryggt verði að helstu snertifletir starfsstöðva verði sótthreinsaðir reglulega t.d. hurðarhúnar, borð o.s.frv. 

3. Óviðkomandi er bannaður aðgangur að starfsstöðvum. Gestir sem þurfa nauðsynlega að komast inn á starfsstöð hafi samband við ábyrgðaraðila og fái heimsóknarheimild.

4. Skip félagsins skulu vera lokuð fyrir alla utanaðkomandi og þeir áhafnarmeðlimir sem eru í fríi skulu ekki koma til skips að nauðsynjalausu.

5. Starfsmenn skulu ekki fara á milli starfsstöðva fyrirtækisins að nauðsynjalausu og skulu þeir afla sér heimilda ábyrgðaraðila ef það er nauðsynlegt.

6. Starfsmenn eru hvattir til að fara  ekki í ferðalög nema brýna nauðsyn beri til og á það bæði við um ferðalög innanlands og til útlanda. Starfsmenn eru beðnir um að tilkynna yfirmanni um ferðalög út fyrir Austurland.

7. Áhersla skal lögð á að nota fjarfundabúnað eða síma til fundarhalda í stað snertifunda.

Þessum slag við Covid 19 lýkur ekki fyrr en fullnægjandi bóluefni koma fram.  Verum á varðbergi, sýnum samtöðu og hugum hvert að öðru.  Það gerum við best með sóttvörnum og árvekni hvers og eins.

Starfsmenn eru hvattir til að afla sér upplýsinga og kynna sér leiðbeiningar á covid.is

                                                                            Gunnþór B. Ingvason
                                                                              framkvæmdastjóri

Enn veiðist stór og falleg síld fyrir austan

Beitir NK með gott síldarhol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK með gott síldarhol.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 790 tonn af síld og er verið að vinna hana í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Sturla þórðarson skipstjóri segir að síldin hafi fengist í Seyðisfjarðardýpinu. „Við fengum þetta 46 mílur frá höfninni hérna og það var töluvert af síld að sjá. Þetta er sama stóra og fallega síldin, meðalþyngdin 390-400 grömm. Síldin heldur sig bara á sömu slóðum og hún hefur verið á í allt haust en nú er síldarvertíðin á lokametrunum hjá okkur,“ segir Sturla.
 
Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, tekur undir með Sturlu og segir að síldin sé stór og falleg. „Þessi síld getur í rauninni ekki verið betri og vinnsla á henni gengur afar vel. Hún er heilfryst og svo er hún einnig flökuð og fryst með roði og án roðs. Öll vertíðin hefur gengið eins og í sögu hjá okkur, en nú er að koma að lokum hennar. Þetta hefur verið algjör veisla, það verður ekki annað sagt,“ segir Jón Gunnar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Bergur-Huginn ehf. festir kaup á útgerðarfélaginu Bergi ehf.

Bergur 2

Skip Bergs-Hugins, Vestmannaey og Bergey, í höfn í Vestmannaeyjum. Til hægri er togarinn Bergur VE 44. Ljósm.: Guðmundur Alfreðsson

Í dag var undirritaður samningur um kaup Bergs-Hugins ehf. á útgerðarfélaginu Bergi ehf. í Vestmannaeyjum. Bergur hefur gert út togarann Berg VE 44 en hann var smíðaður hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1998 og hefur verið í eigu fyrirtækisins frá árinu 2005. Togarinn er 569 brúttótonn að stærð og með 1.300 hestafla vél. Aflaheimildir félagsins eru 0,36% af heildarkvóta á fiskveiðiárinu 2020-2021 eða sem nemur 1.514 þorskígildistonnum.

                Segja má að saga Bergs-Hugins og Bergs sé samofin en upphaf hennar má rekja til ársins 1954 þegar vélbáturinn Bergur VE 44 var keyptur til Vestmannaeyja, en þá var Bergur hf. stofnað af þeim Kristni Pálssyni og Magnúsi Bergssyni tengdaföður hans.  Árið 1972 var útgerðarfélagið Bergur-Huginn stofnað en að því stóðu útgerðarfélögin Bergur hf. og Huginn hf. og var megintilgangur hins sameinaða félags að festa kaup á skuttogara og hefja útgerð hans. Þeir bræður Kristinn og Sævald Pálssynir, útgerðarmenn frá Þingholti í Vestmannaeyjum, renndu hýru auga til skuttogaraútgerðar og fengu mág sinn, Guðmund Inga Guðmundsson útgerðarmann Hugins, til liðs við sig og saman stofnuðu þeir útgerðarfélagið Berg-Hugin ehf. sem síðan festi kaup á skuttogaranum Vestmannaey.

Þegar togarinn var keyptur var ákveðið að gera Berg út áfram og var hann gerður út á net, troll og loðnu en skipstjóri á honum var Sævald  Pálsson.   Árið 1983 var ákveðið að skipta upp félaginu Bergur-Huginn en Sævald dróg sig út úr því og hélt áfram útgerð Bergs.

                Árið 2012 festi Síldarvinnslan hf. kaup á Bergi-Hugin ehf.  og eru skip félagsins, Vestmannaey og Bergey,  gerð út frá Vestmannaeyjum. Magnús Kristinsson stýrði daglegum rekstri Bergs-Hugins til ársins 2017, eins og hann hafði gert frá stofnun félagsins, en þá tók Arnar Richardsson tengdasonur Magnúsar við sem rekstrarstjóri. Elfa Ágústa, dóttir Magnúsar,  starfar á skrifstofu Berg- Hugins og er hún fjórði ætliðurinn sem starfar hjá fyrirtækinu.

                Útgerð skipa Bergs-Hugins hefur gengið vel og tók fyrirtækið á móti nýjum skipum á síðasta ári.   Kaupin á Bergi ehf. eru liður í að styrkja rekstur og útgerð félagsins í  Vestmannaeyjum.

                Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir eftirfarandi um kaupin: „Rekstur Bergs-Hugins hefur gengið vel. Síðastliðið ár var farið í að endurnýja skip félagsins og eru þessi kaup á Bergi ehf. liður í að styrkja enn stoðir okkar í Vestmannaeyjum. Eigendur Bergs fóru þá leið að bjóða fyrirtækjum í Eyjum að koma að kaupum á félaginu og erum við hjá Bergi-Hugin afar þakklátir fyrir að hafa átt kost á að bjóða í félagið. Bergur-Hugin og Bergur eru tengd félög frá gamalli tíð og það gerir kaupin enn ánægjulegri. Frá því að Síldarvinnslan kom að rekstri Bergs-Hugins hefur samstarfið við Eyjamenn verið afar gott, starfsmenn Bergs-Hugins hafa tekið okkur vel og við erum með toppfólk í öllum störfum hjá félaginu.“

                Kaup þessi eru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppniseftirlitsins. Frekari upplýsingar veitir Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri.

 

Síldarvinnslan framúrskarandi enn og aftur

Framurskarandi 1 2020Creditinfo hefur nú tilkynnt hvaða fyrirtæki á Íslandi töldust framúrskarandi á rekstrarárinu 2019 samkvæmt þeim viðmiðum sem stuðst er við, en Creditinfo hefur unnið lista um framúrskarandi fyrirtæki frá árinu 2010. Fyrir árið 2019 komust einungis um 2% fyrirtækja á umræddan lista.

Á listanum yfir framúrskarandi fyrirtæki er þeim skipt í þrjá stærðarflokka; lítil fyrirtæki, meðalstór og stór. Síldarvinnslan er í flokki stórra fyrirtækja og er þar í sjötta sæti. Fram kemur á listanum að eignir Síldarvinnslunnar séu 64.3 milljarðar króna og eigið fé 43.7 milljarðar króna eða 67,9%. 

Síldarvinnslan hefur verið á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki samfellt frá árinu 2012 og hefur verið að færast upp listann á síðustu árum.

Þegar fyrirtæki á listanum eru skoðuð eftir landshlutum kemur fram að 32 fyrirtæki á Austurlandi eru framúrskarandi og þar er Síldarvinnslan í fyrsta sæti.

Framurskarandi 2 2020