Gott að hafa tvær vélar og tvær skrúfur

Bergey VE kemur til hafnar á annarri skrúfunni laust fyrir hádegi. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE kemur til hafnar á annarri skrúfunni laust fyrir hádegi. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogarinn Bergey VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum nú skömmu fyrir hádegi með fullfermi að aflokinni sex daga veiðiferð. Skipstjóri var Ragnar Waage Pálmason og ræddi tíðindamaður heimasíðunnar við hann í morgun. „Jú, við erum á landleið með góðan afla en því miður fengum við í aðra skrúfuna í lokaholinu. Það er fúlt að fá í skrúfuna en nú er svo sannarlega gott að hafa tvær vélar og tvær skrúfur. Við siglum á sjö til átta mílna ferð á annarri skrúfunni og nálgumst Eyjarnar hratt og örugglega. Í þessum túr vorum við mest að fiska í Skaftárdýpi og Skeiðarárdýpi og fengum þar blandaðan afla. Aflinn er mest ýsa en einnig dálítið af þorski, ufsa, lýsu og karfa. Veðrið í þessari veiðiferð var hundleiðinlegt allan tímann, samfelld norðaustan bræla. Yfirleitt voru þetta 20-25 metrar en í fyrradag dúraði svolítið, þá voru bara 15. Þegar veðrið lét sem verst þurftum við að flýja upp að landinu,“ segir Ragnar.
 
Systurskipið Vestmannaey VE kom til löndunar í Vestmannaeyjum sl. nótt með fullfermi. Aflinn er blandaður og fékkst í Breiðamerkurdýpinu. Að sögn Egils Guðna Guðnasonar skipstjóra var það veðrið sem réði algerlega för í túrnum. „Þetta var erfitt. Við þurftum sífellt að vera að sæta lagi og urðum jafnvel að flýja upp í fjöru. Þetta var leiðindaveður allan túrinn og það getur verið þreytandi,“ segir Egill Guðni.
 
Trollið fast í annarri skrúfu skipsins. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonTrollið fast í annarri skrúfu skipsins.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
  Bergey VE að leggjast að bryggju. Verið að landa úr Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE að leggjast að bryggju. Verið að landa úr Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson  

Eftir flóðið

Eftir flóðið

Ólafur Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, hefur sent frá sér ritið Eftir flóðið en í því fjallar hann um uppbyggingu Síldarvinnslunnar eftir snjóflóðin sem féllu í Neskaupstað 20. desember 1974. Hér er um að ræða fróðlega samantekt sem varpar skýru ljósi á þá baráttu sem háð var fyrir enduruppbyggingu atvinnufyrirtækjanna sem skemmdust eða eyðilögðust í hamförunum, en fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar gjöreyðilagðist og frystihús fyrirtækisins stórskemmdist.
 
Ólafur Gunnarsson var ráðinn framkvæmdastjóri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar árið 1968 og síðar sama ár tók hann einnig við starfi framkvæmdastjóra frystihúss fyrirtækisins. Þegar Ólafur settist í stól framkvæmdastjóra var hinum svonefndu síldarárum í raun lokið og sífellt meiri áhersla lögð á bolfiskveiðar og vinnslu. Síldarvinnslan festi kaup á fyrsta skuttogara landsmanna árið 1970, árið 1973 var stórt nótaskip keypt til loðnuveiða og sama ár bættist annar skuttogari í flota fyrirtækisins. Síldarbátarnir sem fyrirtækið hafði keypt á síldarárunum voru hins vegar seldir.
 
Segja má að ágætlega hafi tekist að laga starfsemi Síldarvinnslunnar að nýjum aðstæðum og síðla árs 1974 var staða fyrirtækisins nokkuð góð og var það rekið með hagnaði. En þá dundi ógæfan yfir og snjóflóðin áttu eftir að hafa gífurleg áhrif á allt samfélagið í Neskaupstað. Helstu atvinnufyrirtæki bæjarbúa voru rústir einar eða óstarfhæf eftir flóðin og það sem verra var þá fórust 12 manns í flóðunum, þar á meðal starfsmenn Síldarvinnslunnar. 
 
Ólafur Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Myndin er tekin árið 1982. Ljósm. Vilberg GuðnasonÓlafur Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Myndin er tekin árið 1982.
Ljósm. Vilberg Guðnason
Eftir hamfarirnar var oft fundað í stjórn Síldarvinnslunnar og gefa fundargerðir stjórnarinnar góða mynd af því hvernig brugðist var við áfallinu að hálfu fyrirtækisins. Í ritinu birtir Ólafur fundargerðir þeirra funda sem fjölluðu um viðbrögðin auk þess sem hann bætir við ýmsum upplýsingum. Þarna birtist saga baráttunnar fyrir endurreisn atvinnulífsins í bænum eftir flóðin og þau átök sem áttu sér stað um bótagreiðslur vegna skaðans. Mikill ágreiningur um upphæð bótagreiðslanna ríkti á milli Viðlagasjóðs og heimamanna og lauk samskiptunum við sjóðinn ekki fyrr en á árinu 1980 með sáttargerð. Þótti mat sjóðsins á bótagreiðslum og aðrar kröfur sem sjóðurinn setti fram afar ósanngjarnar. Til dæmis kemur fram í riti Ólafs að Viðlagasjóður hafi jafnvel talið eðlilegt að afkastamikil fiskimjölsverksmiðja yrði ekki reist á ný í Neskaupstað heldur einungis lítil beinaverksmiðja í tengslum við starfsemi frystihússins.
 
Eins og fyrr greinir var Síldarvinnslan tiltölulega öflugt fyrirtæki áður en flóðin féllu en í hönd fóru mikil erfiðleikaár sem reyndu mjög á stjórnendur þess. Uppbyggingin var kostnaðarsöm, bætur Viðlagasjóðs vanreiknaðar og sjávarútvegurinn almennt átti í rekstrarerfiðleikum. Þess skal getið að verðbólgan var mikil á umræddum tíma eða á bilinu 30 til 80% á árunum 1974-1983 og auðveldaði það ekki verkefni stjórnenda Síldarvinnslunnar.
 
Ólafur Gunnarsson gegndi starfi framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar til ársins 1984 en þá voru liðin 10 ár frá því að snjóflóðin félllu.
 
Nokkur eintök af riti Ólafs Gunnarssonar fást á skrifstofu Síldarvinnslunnar auk þess sem Bókasafnið í Neskaupstað og Skjala- og myndasafn Norðfjarðar hafa fengið eintök. Hægt er að verða sér úti um eintak með því að hringja á skrifstofu Síldarvinnslunnar og sækja síðan ritið þangað.
 
 

Fyrsta samfélagsskýrsla Síldarvinnslunnar

 

Fyrsta samfélagsskýrsla SíldarvinnslunnarSeint á síðasta ári gaf Síldarvinnslan út samfélagsskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2019. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins (svn.is). Um er að ræða fyrstu samfélagsskýrsluna sem Síldarvinnslan gefur út en hún er liður í að auka gegnsæi og greina frá ýmsum þáttum starfseminnar sem ekki eru endilega metnir í magni eða fjármunum. Skýrslan er gerð samkvæmt alþjóðlega staðlinum Global Reporting Initiative (GRI).
 
Samfélagsskýrslunni er ætlað að bæta vinnubrögð og auka umhverfisvitund. Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfsemi fyrirtækisins og eins eru birtar upplýsingar er varða umhverfis- og samfélagsmál. Í skýrslunni segir eftirfarandi um starfsemi Síldarvinnslunnar:
 
„Síldarvinnslan einsetur sér að vera fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti og vinna í sátt við umhverfi og samfélag. Síldarvinnslan kappkostar að umgangast lífríki hafsins af virðingu og nýta sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti. Lögð er áhersla á að fylgja ráðgjöf vísindanna, þar sem stuðst er við bestu vitneskju hverju sinni, til að sjálfbærni fiskistofna sé tryggð til framtíðar og komandi kynslóðir fái notið góðs af. Við veiðar og vinnslu er lögð áhersla á að lögum og reglum sé fylgt í hvívetna.
 
Síldarvinnslan framleiðir afurðir sínar eftir viðurkenndum stöðlum sem tryggja eiga sjálfbærni, rekjanleika og heilnæmi afurðanna. Allar starfsstöðvar félagsins eru undir eftirliti Matvælastofnunar (MAST). Félagið er með vottuð gæðastjórnunarkerfi sem styðja við þessi markmið.“
 
Í skýrslunni er ítarlega farið yfir þau umhverfisáhrif sem starfsemi Síldarvinnslunnar veldur og þá einkum losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt er farið yfir hvað áunnist hefur á sviði umhverfismálanna á undanförnum árum. Þar er meðal annars getið um ný og umhverfisvænni fiskiskip og raforkuvæðingu fiskimjölsverksmiðja.
 
Ítarlega er fjallað um starfsmannamál og kemur þar til dæmis fram að fyrsta jafnlaunaúttektin hjá fyrirtækinu var framkvæmd árið 2018 og fannst þá enginn óútskýrður launamunur. Viðhaldsúttekt var síðan framkvæmd árið 2019 og varð niðurstaðan hin sama.
 
Í skýrslunni er einnig fjallað um þætti eins og öryggi og heilsu starfsfólksins, fræðslu og uppbyggingu mannauðs, mannréttindi og kjarasamninga. Þá kemur skýrt fram að vilji fyrirtækisins er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og nærumhverfi sitt. Fyrirtækið veitir margvíslega styrki til góðra málefna og styður við bakið á ýmsum samtökum og stofnunum. Þá hefur verið lögð áhersla á samstarf við menntastofnanir og stuðlað að fræðslu um sjávarútveginn á meðal ungs fólks.
 
Er fólk eindregið hvatt til að kynna sér efni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar á heimasíðu fyrirtækisins.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins blómstrar

Nemendur sem útskrifuðust úr Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirNemendur sem útskrifuðust úr Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirÁrið 2013 hóf Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar starfsemi í Neskaupstað. Mikill áhugi reyndist vera fyrir skólastarfinu og voru nemendur 27 að tölu, 17 stúlkur og 10 piltar. Nemendurnir voru 14-15 ára að aldri og voru þeir á launum á meðan skólinn starfaði. Launin voru sambærileg laununum sem greidd voru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar.
 
Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar var tilraunaverkefni en forsvarsmenn fyrirtækisins töldu mikilvægt að gefa ungmennum kost á að fræðast um sjávarútveg. Í skólanum var fjallað um gæða- og markaðsmál, starfsmannamál, menntun starfsfólks í atvinnugreininni og sögu sjávarútvegsins. Mikil áhersla var lögð á heimsóknir í sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki sem tengjast sjávarútveginum. Til dæmis var fiskiðjuver heimsótt og fiskimjölsverksmiðja og einnig netagerð, vélaverkstæði, rannsóknastofur o.fl. Þá var farið um borð í fiskiskip og allur búnaður um borð í þeim skoðaður ásamt því að fjallað var um starfsemina um borð.
 
Þórhallur Jónasson heldur fyrirlestur í Sjávarútvegsskólanum árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirÞórhallur Jónasson heldur fyrirlestur í Sjávarútvegs-skólanum árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirSjávarútvegsskólinn vakti strax mikla athygli og var mörgum ljóst að þörf væri fyrir slíkan skóla. Staðreyndin er sú að íslenska skólakerfið veitir litla innsýn í þessa grunnatvinnugrein þjóðarinnar og unnt er að alast upp í sjávarplássi án þess að öðlast þekkingu á veiðum og vinnslu. Því er nauðsynlegt að fræða unga fólkið um atvinnugreinina með öðrum hætti.
 
Víða kviknaði áhugi fyrir starfsemi Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar og strax árið 2014 var boðið upp á fræðsluna í allri Fjarðabyggð. Þá var skólinn nefndur Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 var fræðslan síðan skipulögð um allt Austurland og var þá nafni skólans breytt og hann nefndur Sjávarútvegsskóli Austurlands. Árið 2016 hóf Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og teygði skólinn þá anga sína til Norðurlands og reyndar víðar. Eftir að Háskólinn tók við skólanum hefur hann verið nefndur Sjávarútvegsskóli unga fólksins. Tekið skal fram að fljótlega varð Sjávarútvegsskólinn samvinnuverkefni með viðkomandi sveitarfélögum í gegnum vinnuskóla þeirra, en skólahaldið er að öllu leyti fjármagnað af fyrirtækjum í sjávarútvegi.
 
Nemendur Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar í heimsókn í fiskiðjuveri fyrirtækisins árið 2013. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirNemendur Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar í heimsókn í fiskiðjuveri fyrirtækisins árið 2013.
Ljósm. Margrét Þórðardóttir
Umsjónarmaður skólans eftir að Háskólinn á Akureyri tók við starfseminni er Guðrún Arndís Jónsdóttir forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Guðrún upplýsir að Sjávarútvegsskólinn hafi stækkað mikið og einkum á síðasta ári. Á árinu 2018 voru 157 nemendur í skólanum en í fyrra voru þeir um fjögur hundruð. Þá hefur starfsstöðvum skólans fjölgað og á síðasta ári hófst starfsemi í Reykjavík, Vesturbyggð og á Sauðárkróki. Þá greinir Guðrún frá því að Sjávarútvegsskólinn hafi vakið athygli erlendis og nú sé ráðgert að koma á fót Fiskeldisskóla unga fólksins sem myndi byggja á sömu hugmyndafræði og sambærilegu skipulagi.
 
Það verður vart annað sagt en Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar, sem varð til árið 2013, hafi svo sannarlega skotið föstum rótum og haft áhrif víða til hagsbóta fyrir mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.
 
 
 
 
 

Fyrstu loðnutonnin frá 2018 – bullandi bræla á miðunum

Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq.
Ljósm. Hákon Ernuson
Grænlenska skipið Polar Amaroq fékk 20-30 tonn af loðnu í gærkvöldi í trollhólfinu austur af landinu en það er fyrsta loðnan sem veiðist hér við land frá árinu 2018. Tekið var eitt hol í leiðindaveðri. Heimasíðan ræddi við Sigurð Grétar Guðmundsson skipstjóra. „Við prufuðum að kasta í gær rétt áður en dimmdi en veðrið var afskaplega leiðinlegt. Við leituðum síðan í nótt en það er bara ekkert veiðiveður. Við fengum um 20-30 tonn af stórri loðnu en það er töluverð áta í henni. Við munum frysta aflann um borð. Það er bullandi bræla og ég held að sé ekkert annað að gera en að leita vars,“ segir Sigurður.
 
Útgefinn loðnukvóti Polar Amaroq er 1155 tonn.
 
 
 
 

Gullver landar á Seyðisfirði

Gullver NS að landa. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS að landa. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í morgun með tæplega 96 tonn. Aflinn er mestmegnis þorskur og ufsi. Landað verður úr skipinu í dag og það mun síðan halda til veiða á ný í kvöld. Heimasíðan ræddi stuttlega við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig túrinn hefði gengið. „Hann gekk svona þokkalega en við vorum fimm daga að veiðum. Við hófum veiðar á Öræfagrunni og enduðum á Glettinganesflakinu. Mér finnst vanta dálítinn kraft í þorskinn, það hefði mátt ganga betur að eiga við hann. Það liggur fyrir að loðna er komin hér fyrir austan land því það er talsvert af henni í fiskinum,“ segir Rúnar.
 
Að sögn Ómars Bogasonar hjá frystihúsinu á Seyðisfirði fer vinnslan þar vel af stað og enginn skortur á hráefni. Segir hann mjög mikilvægt að fyrirtækin á Seyðisfirði séu farin að starfa eftir skriðuföllin og lífið á staðnum sé óðum að nálgast eðlilegt horf.