Öflugt samstarf Síldarvinnslunnar og háskólasamfélagsins - fyrirtækið tekur þátt í sex doktorsverkefnum

Ferskur makríl. Rannsóknir á makríl eru fjölþættarFerskur makríll. Rannsóknir á makríl eru fjölþættarSíldarvinnslan hefur á undanförnum árum tekið mikinn þátt í uppbyggingu þekkingar á sviði veiða og vinnslu uppsjávarfisks í samstarfi við Matís, Háskóla Íslands og GRÓ-sjávarútvegsskóla UNESCO. Fyrirtækið hefur verið í samstarfi við sex doktorsnema sem allir hafa verið að vinna verkefni sem tengjast bættri nýtingu og þróun vinnsluferla og er verkefnunum ætlað að stuðla að aukinni verðmætasköpun. Verkefnin hafa fengið styrki frá AVS, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði síldarútvegsins (Sigurjónsstyrkur). Doktorsnemarnir hafa dvalið lengri og skemmri tíma í Neskaupstað til að vinna að verkefnum sínum, leggja stund á mælingar og vinna að þróun nýrra afurða. Umsjónarmenn með doktorsverkefnunum eru Sigurjón Arason  prófessor og yfirverkfræðingur hjá Matís og María Guðjónsdóttir prófessor, en Sigurjón hefur haft forystu um rannsóknir og þróun á sviði vinnslu sjávarafurða um áratuga skeið. Hér skal gerð stuttlega grein fyrir umræddum doktorsverkefnum:
 
  • Paulina E. Wasik (Romotowska) vann verkefni um hámörkun gæða frosinna makrílafurða. Geymsluþol frosinna makrílafurða var kannað og lögð áhersla á að finna hvernig best væri að frysta, geyma og flytja makrílinn. Í framhaldi af þessu verkefni hefur verið unnið að bættu vinnsluferli við flökun á makríl og vöruþróun á roðlausum, frosnum makrílflökum. Paulina lauk doktorsnáminu árið 2016.
  • Hildur Inga Sveinsdóttir vinnur að verkefni sem ber heitið „Virðisaukning úr flakavinnslu Atlantshafsmakríls – geymsluþol, bestun vinnslu og nýting hliðarafurða.“ Makríllinn sem veiðist hér við land er sérlega fitumikill og því erfiður meðhöndlunar. Sérstaklega er kannað hvort unnt sé að roðskera makrílinn án þess að það hafi áhrif á gæði flakanna en með því er unnt að auka geymsluþol afurða. Verkefnið tekur einnig á nýtingu þess roðs og dökks vöðva sem skorinn er frá við roðskurðinn og stuðlar því að fullnýtingu makrílsins. Þá er kannað hvort mögulegt sé að nýta myndgreiningartækni við eftirlit og bestun vinnslu roðlausra flaka. Áætlað er að Hildur ljúki doktorsverkefninu vorið 2020.Roðlaus lausfryst makrílflökRoðlaus lausfryst makrílflök
  • Carina Fernandes vinnur að vöruþróun á afurðum úr Atlantshafsmakríl sem veiddur er við Ísland. Markmið verkefnisins er að byggja áfram á þeirri þekkingu sem hefur skapast með vinnslu makrílafurða á Íslandi til að þróa reyktar, þurrkaðar og niðursoðnar hágæðaafurðir. Verkefnið samanstendur af ítarlegum vinnslugreiningum og markaðsgreiningum fyrir nefndar afurðir til þess að tryggja að þær skili sér inn á viðeigandi markaði. Stefnt er að því að Carina ljúki verkefninu vorið 2022.
  • Stefán Þór Eysteinsson hefur unnið að rannsóknum á rauðátu, en rauðáta er ein meginfæða uppsjávarfiska í Norður-Atlantshafi. Tilgangur rannsóknanna er margþættur. Í fyrsta lagi er skaðsemi rauðátu við vinnslu uppsjávarfiska könnuð og skoðað hvernig best er að meðhöndla afla, stýra vinnslunni og geyma afurðirnar þegar áta er í fiskinum. Í öðru lagi er kannað hvaða áhrif rauðáta hefur á vinnslu á mjöli og lýsi og loks eru eiginleikar átunnar skoðaðir með tilliti til þess hvort nýta megi hana sjálfa á einhvern hátt. Gert er ráð fyrir að Stefán ljúki doktorsverkefni sínu vorið 2020.
  • Guðrún S. Hilmarsdóttir hefur unnið að rannsóknum á hvernig megi endurhanna fiskimjöls- og lýsisferla þannig að unnt verði að hefja framleiðslu á fiskpróteinum meðal annars  til manneldis. Farið er yfir mikilvægustu þrep framleiðslunnar, arðsemi metin ásamt möguleikum á vöruþróun. Efna- og eðliseiginleikar framleiðslunnar eru mældir bæði með hefðbundnum mæliaðferðum og með nýstárlegum litrófsmælingum. Nýr vinnslubúnaður er reyndur og framleiðsla úr ákveðnum hlutum hráefnisins aðskilin. Gert er ráð fyrir að doktorsverkefni Guðrúnar ljúki haustið 2020.TilraunaverksmiðjaTilraunaverksmiðja
  • • Nguyen Thi Hang vinnur að verkefni sem fjallar um gæðabreytingar í próteinum við fiskvinnslu. Aðalmarkmiðið er að rannsaka áhrif helstu vinnsluaðferða á próteingæðin s.s. við hitun, þurrkun, frystingu og frostgeymslu, fiskmjölsvinnslu og við vinnslu annarra afurða til manneldis. Megináhersla er lögð á áhrif helstu vinnsluaðferða á próteingæði við fiskmjölsframleiðslu og kannað hvernig breyta megi vinnsluferlinu til að auka gæðin. Áætlað er að Nguyen Thi Hang ljúki doktorsverkefninu síðari hluta árs 2021.Mismunandi duftafurðir úr markílMismunandi duftafurðir úr makríl
 
Sigurjón segir að samstarfið við Síldarvinnsluna hvað varðar doktorsverkefnin hafi verið afar farsælt. „Þetta samstarf hefur verið leiðandi í að tengja saman háskólaumhverfið og atvinnugreinina. Það er ómetanlegt að eiga samstarf við fyrirtæki sem leggur mikla áherslu á að stuðla að framförum og um leið auka þau verðmæti sem unnt er að ná út úr hráefninu. Með samstarfi fræðimanna og fyrirtækisins hefur tekist að ná sífellt betri tökum á vinnslu á makríl en makríllinn sem veiðist hér við land er mjög erfitt hráefni. Makríllinn getur verið átumikill og er í bráðfitun, fitan fer úr 5-10% upp í 25-30% fituinnihald og vöðvar fisksins eru lausir og viðkvæmir. Þá er verið að leita leiða til að auka fjölbreytni við  framleiðsla á fiskmjöli, finna nýja markaði og auka verðmæti þess. Á sviði mjölvinnslunnar er unnið að merkum rannsóknum í samstarfi við Síldarvinnsluna. Staðreyndin er sú að þetta eru allt spennandi og mikilvæg verkefni og niðurstöður þeirra geta haft mikil áhrif til framtíðar litið,“ segir Sigurjón.

Togaratíðindi

Bergey VE landaði fullfermi af ufsa í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE landaði fullfermi af ufsa í Vestmannaeyjum í gær.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogararnir hafa verið að fiska ágætlega síðustu daga þrátt fyrir óhagstætt veður. Bergey VE kom til Vestmannaeyja í gær eftir tvo sólarhringa á veiðum með fullfermi og var aflinn mestmegnis ufsi. Heimasíðan hafði samband við Egil Guðna Guðnason skipstjóra á Vestmannaey VE í morgun og spurði tíðinda. „Við erum á landleið með fullan bát og mun túrinn taka tæplega þrjá sólarhringa höfn í höfn. Við erum mest með ufsa sem fékkst vestast á Selvogsbankanum. Fiskiríið hefur verið gott en veðrið hefur verið leiðinlegt. Núna er norðaustan 22. Í svona veðri reynir mikið á skip, búnað og áhöfn. Það er erfitt að vinna við þessar aðstæður, en það tekst,“ segir Egill Guðni.
 
Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í morgun með 85 tonn og var aflinn að mestu þorskur. Veiðiferðin tók rúma þrjá sólarhringa og aflaðist vel.
 
Landað úr Gullver NS á Seyðisfirði í morgun. Ljósm. Ómar BogasonLandað úr Gullver NS á Seyðisfirði í morgun.
Ljósm. Ómar Bogason
 

Öll skip Bergs-Hugins landa sama daginn

Bergey VE, Vestmannaey VE og Smáey VE að landa í Vestmannaeyjum sl. fimmtudag. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE, Vestmannaey VE og Smáey VE að landa í Vestmannaeyjum sl. fimmtudag.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Sl. fimmtudag komu öll þrjú skip Bergs-Hugins til löndunar í Vestmannaeyjum. Bæði Bergey VE og Vestmannaey VE voru með fullfermi og Smáey VE, sem nú er í leigu hjá Samherja, kom einnig með góðan afla. Það hefur ekki gerst oft síðustu árin að þrjú skip í eigu Bergs-Hugins landi sama daginn.
 
Bæði Vestmannaey og Bergey komu síðan til löndunar á ný í gær. Heimasíðan ræddi við Egil Guðna Guðnason skipstjóra á Vestmannaey og spurði hvernig vertíðin gengi. „Hún gengur vel. Það er fínasta fiskirí og það væri ekki sanngjarnt að kvarta núna. Menn bera sig  mannalega, en það er hins vegar staðreynd að það er veðrið sem ræður því hvar veitt er. Í síðasta túr var fiskað austan við Eyjar og þar var bara þorskur. Nú er komin austanátt og þá erum við vestan við Eyjarnar og þar er fín ufsaveiði. Við fórum út klukkan þrjú í gærdag og það er einungis fjögurra tíma stím á miðin. Nú erum við búnir að taka þrjú hol, einu sinni sex tonn og tvisvar tíu tonn þannig að við getum bara ekki kvartað,“ segir Egill Guðni.

Kolmunninn er gæðahráefni

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Ljósm. Smári Geirsson
Þegar kolmunnaveiðar hefjast færist líf yfir starfsemi fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar. Fiskimjölsverksmiðjurnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað tóku á móti fyrstu kolmunnaförmunum frá miðunum vestur af Írlandi sl. mánudag og hófst vinnsla þá strax. Gunnar Sverrisson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að menn séu ávallt mjög ánægðir þegar hráefni berst til vinnslu en kolmunninn sem Margrét EA kom með sl. mánudag hafi verið fyrsta hráefnið sem Seyðisfjarðarverksmiðjan fær frá því um miðjan maímánuð. Þá upplýsir hann að vinnslu á farmi Margrétar sé lokið en Beitir NK komi til Seyðisfjarðar í dag með rúmlega 3000 tonn.
 
Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.
Ljósm. Ómar Bogason

 
 
Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, er einnig mjög ánægður með að hjól verksmiðjunnar séu farin að snúast en verksmiðjan þar hefur tekið á móti förmum úr Bjarna Ólafssyni AK og Berki NK síðustu daga og Hákon EA er á leiðinni með fullfermi. Hann vonar að veiðarnar muni ganga vel og sem mest hráefni berist að landi.
 
Verksmiðjustjórarnir segja að kolmunninn sé afar gott hráefni til mjölframleiðslu. Þá sé ennþá nokkur fita í fiskinum og gefi hún rúmlega 2% lýsisnýtingu.  Fitan muni hins vegar fara minnkandi því fiskurinn sé nú í hrygningarástandi og gangi þá á fituforðann.

Veðurofsi vetrarins

Vedur 3 mars 2020 KB
 
Tíðarfarið í vetur hefur reynst sjómönnum erfitt; hver brælan hefur rekið aðra og sjólag oft með versta móti. Sjómenn á frystitogurum eru orðnir langþreyttir á veðurfarinu enda eru veiðiferðirnar hjá þeim lengri en hjá öðrum sjómönnum. Að vera úti á sjó og stunda störf sín í haugabrælu samfellt í heilan mánuð reynir á alla menn. Við slíkar aðstæður verða störfin um borð helmingi erfiðari en ella og þegar líður á veiðiferðina vilja dagarnir verða býsna langir. Það eru ekki síst áhafnir frystitogaranna sem bíða eftir hækkandi sól og betri tíð. Þegar vorar verður allt bjartara og betra.
 
Kristján Birkisson, háseti á frystitogaranum Blængi NK, tók meðfylgjandi myndir í síðustu veiðiferð skipsins. Veiðiferðin var lítt frábrugðin öðrum í vetur; það var veðrið sem stjórnaði því hvar var fiskað og hraktist skipið undan veðrinu á milli miða. Engu að síður var komið að landi með góðan og verðmætan afla.
 
Vedur 1 mars 2020 KB    Vedur 2 mars 2020 KB
 
Vedur 4 mars 2020 KB   Vedur 5 mars 2020 KB

Heldur lítið fiskirí eystra

Gullver NS heldur til veiða frá Neskaupstað í gær eftir að hafa sótt Norðfirðingana í áhöfninni. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Gullver NS heldur til veiða frá Neskaupstað í gær eftir að hafa sótt Norðfirðingana í áhöfninni. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði sl. mánudag. Aflinn var 63 tonn, mest þorskur. Skipið hélt aftur til veiða í gær. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra í morgun en þá var Gullver að leita að karfa og ufsa í Berufjarðarálnum. „Það hefur verið heldur lítið fiskirí hér eystra að undanförnu og svo hefur veðrið truflað að auki. Í síðasta túr vorum við mest á Fætinum og í Hvalbakshallinu og það var leiðindaveður allan túrinn. Nú er hins vegar í lagi með veðrið. Við þurftum að fara inn á Norðfjörð og skila þar í land Norðfirðingunum í áhöfninni í lok túrsins og sækja þá síðan í gær þegar farið var út. Fjarðarheiðin var ófær og þeir komust ekki landleiðina. Ráðgert er að við komum inn á sunnudag, en við erum einir að fiska hérna fyrir austan eins og stendur og það er erfitt fyrir eitt skip að finna hvar fiskurinn heldur sig,“ segir Rúnar.

Gullver NS siglir út Seyðisfjörð í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS siglir út Seyðisfjörð í gær. Ljósm. Ómar Bogason