Fyrsti kolmunnafarmurinn

Bó

Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með fyrsta kolmunnafarm vetrarins. Ljósm: Smári Geirsson

                Fyrsti kolmunnafarmurinn á þessum vetri barst til Neskaupstaðar í morgun en þá kom Bjarni Ólafsson AK með 1.800 tonn. Gísli Runólfsson segir að þeir á Bjarna Ólafssyni hafi komið með fyrsta vetrarfarminn í fyrra um sama leyti. „Við héldum til veiða 16. nóvember og til að byrja með fór mikill tími í að leita. Í fyrstu var aflinn tregur. Við vorum að draga í 20 tíma og fengum gjarnan innan við 200 tonn í holi og allt niður í 60 tonn. Síðan fór þetta að ganga betur og í lokaholinu fengum við 300 tonn eftir að hafa dregið í sjö og hálfan tíma. Þarna var veiðin að byrja af einhverju viti. Við fengum aflann norðaustur af Færeyjum og það var samfelld blíða allan túrinn. Þetta var eins og á besta sumardegi, „ segir Gísli.

                Auk kolmunnans hefur íslensk sumargotssíld borist til Neskaupstaðar að undanförnu. Margrét EA landaði um 1.000 tonnum í gær og Börkur NK er að landa 1.300 tonnum.

Rólegt á Austfjarðamiðum

Vestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í  morgun.  Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonVestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í morgun.
Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson
Ísfisktogarinn Vestmannaey VE kom til Neskaupstaðar í morgun með um 80 tonn og er þorskur uppistaða aflans. Að sögn Birgis Þórs Sverrissonar hefur verið heldur rólegt á Austfjarðamiðum að undanförnu. „Við byrjuðum túrinn á Glettinganesflaki og Seyðisfjarðadýpi og aflinn var heldur lítill. Síðan færðum við okkur yfir í Norðfjarðardýpið og þar kom skammvinnt skot. Almennt má segja að afli á Austfjarðamiðum hafi verið tregur allan þennan mánuð en við höfum takmarkað verið að veiðum vegna þess að það þurfti að sinna smávægilegum lagfæringum á skipinu. Reglan er sú að það þarf að laga ýmislegt til á nýjum skipum,“ segir Birgir Þór.
 
Vestmannaey mun halda til veiða á ný strax að löndun lokinni.

Bjartur kom í heimahöfn

Bjartur NK kom nýr í fyrsta sinn til heimahafnar 13.maí 1965. Ljósm. Guðmundur SveinssonBjartur NK kom nýr í fyrsta sinn til heimahafnar 13.maí 1965. Ljósm. Guðmundur SveinssonÁ árum áður þótti tilhlýðilegt að skáld og hagyrðingar settust á bak skáldafáknum þegar nýtt skip kom í fyrsta sinn til heimahafnar. Einn þessara hagyrðinga var Valdimar Eyjólfsson í Neskaupstað. Fyrsta skipið sem Síldarvinnslan eignaðist var Barði sem kom nýr  til heimahafnar 5. mars árið 1965. Einungis rúmum tveimur mánuðum síðar kom næsta skip sem Síldarvinnslan hafði látið smíða; Bjartur. Fljótlega eftir komu Bjarts birtist eftirfarandi pistill frá Valdimar Eyjólfssyni í vikublaðinu Austurlandi:
 
Hinn 13. þ.m. kom skipið Bjartur NK 121, hið síðara skip, sem Síldarvinnslan hf. keypti frá Austur-Þýskalandi, til Neskaupstaðar.
 
Þegar Barði, fyrra skipið kom, var ég veikur og gat ekki skoðað hann, en var hressari þegar hið síðara skip kom og brá ég mér þá um borð. Ég fór fyrst inn í stjórnklefann (stýrishúsið). Þar stóð Jóhann Sigurðsson, tollþjónn, vakt og ruddi hann mér strax braut inn í skipstjóraklefann. Þar voru fyrir fjórir menn og var mér þar vel tekið. Skipstjóri, Filip Höskuldsson, bauð mér strax sæti. Hinir aðrir, er þar voru, Guðgeir Jónsson, bílstjóri, Kristinn Sigurðsson, forstjóri, og Högni Jónasson, bílstjóri, báðu mig um að gera vísu í tilefni af komu skipsins, en það kom enginn andi yfir mig þá og því varð engin vísa. En til þess að gera þeim einhverja úrlausn bið ég Austurland fyrir vísur, sem komu í hug mér þegar heim kom og sendi ég þeim þær hér með:
 
Bjartur kom í heimahöfn
hlaðinn bestu kostum,
allvel fær í úfna dröfn,
illviðrum og frostum.
 
Sem sagt fær í flestan sjó
farkostur hinn besti.
Honum gifta gefist nóg
og gæfa í veganesti.
 
Líkt er það með Barða og Bjart,
báðir í nýjum flíkum,
útlitið er ekki svart
með útgerðina á slíkum.

Veiðar á íslenskri sumargotssíld

Beitir NK landaði 1600 tonnum af íslenskri sumargotssíld sl. mánudag. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK landaði 1600 tonnum af íslenskri sumargotssíld sl. mánudag. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÍslenskri sumargotssíld hefur verið landað í Neskaupstað að undanförnu. Beitir NK landaði um 1.600 tonnum sl. mánudag og í kjölfar hans kom Margrét EA og landaði um 1.900 tonnum. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti segir að aflinn hafi verið breytilegur í veiðiferðinni. „Það var misjöfn veiði en aflinn fékkst í sjö holum og það var lengi dregið eða í átta til tólf tíma. Við vorum allan tímann að veiðum í Faxadýpinu. Besta holið gaf 500 tonn en síðan voru þetta gjarnan um 200 tonna hol,“ segir Tómas.
 
Börkur NK hélt til síldveiða í mánudagskvöld en gert er ráð fyrir að Beitir haldi fljótlega til kolmunnaveiða.

Lóðum lyft í gamla frystihúsinu

Æfingatími í gamla frystihúsinu. Það gengur mikið á. Ljósm. Smári GeirssonÆfingatími í gamla frystihúsinu. Það gengur mikið á.
Ljósm. Smári Geirsson
Í byrjun september sl. tók Lyftingafélag Austurlands í notkun húsnæði sem Síldarvinnslan lét félaginu í té í gamla frystihúsinu í Neskaupstað. Félagið var stofnað árið 2016 og eru félagsmenn frá Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði og Egilsstöðum. Starfsemi félagsins hófst í fyrstu í gamla frystihúsinu á Eskifirði en nú fer starfsemi þess fram í Neskaupstað auk þess sem félagar hafa aðgang að CrossFit- stöðvum á Reyðarfirði og á Egilsstöðum.
 
Stofnandi félagsins er Sigrún Harpa Bjarnadóttir, lögfræðingur á Eskifirði, en hún hefur brennandi áhuga á olympískum lyftingum og þeirri hugmyndafræði sem CrossFit byggir á. Í fyrstu æfðu fáir á vegum félagsins og búnaðurinn sem notast var við var takmarkaður, en að undanförnu hefur félagið vaxið undurhratt. Starfsemi lyftingafélags á ekki vel heima í hefðbundnum líkamsræktarstöðvum því þar eru yfirleitt veruleg þrengsli og þess vegna þarf að finna starfseminni annað húsnæði. Í Neskaupstað hóf félagið þó starfsemi í líkamsræktarstöð bæjarins en fljótlega kom að því að finna þurfti stærra og hentugra húsnæði. Félagið fékk afnot af gamla prentsmiðjuhúsnæðinu og það var framfaraskref, en með auknum iðkendafjölda sprengdi það einnig það húsnæði utan af sér. Þá voru góð ráð dýr og leitað var til Síldarvinnslunnar og spurst fyrir um hvort möguleiki væri að fá inni fyrir starfsemina í gamla frystihúsinu. Síldarvinnslan tók erindinu vel og afhenti félaginu afnotarétt á húsnæði á annarri hæð þar sem meðal annars kaffistofa starfsfólks frystihússins var á sínum tíma. Það var mikil vinna að gera húsnæðið í gamla frystihúsinu hæft til notkunar fyrir Lyftingafélagið og þeirri vinnu er ekki lokið enn. Húsnæðið var hins vegar tekið í notkun í septembermánuði og þykir henta afskaplega vel fyrir starfsemina. Aðstöðuna í gamla frystihúsinu nefna félagsmenn Nesheima.
 
Jafnt konur sem karlar æfa lyftingar í gamla frystihúsinu.  Konur eru áberandi í starfi Lyftingafélags Austurlands. Ljósm. Smári GeirssonJafnt konur sem karlar æfa lyftingar í gamla frystihúsinu. Konur eru áberandi í starfi Lyftingafélags Austurlands.
Ljósm. Smári Geirsson
Til að fræðast nánar um starfsemi Lyftingafélagsins var Sylvía Dröfn Sveinsdóttir, stjórnarmaður í félaginu, tekin tali. Sylvía segir að uppgangur félagsins sé hreint ótrúlegur og sérstaklega sé starfsemin blómleg í Neskaupstað. „Félagið hefur blásið út. Í byrjun sl. sumars voru félagsmenn um 50 talsins en nú eru þeir hvorki fleiri né færri en 112 og meirihluti félagsmanna er hér í Neskaupstað. Gamla prenstsmiðjuhúsið, sem við æfðum áður í, var orðið allt of lítið. Við gátum flest verið um átta að æfa samtímis í prentsmiðjuhúsinu en hér í gamla frystihúsinu getum við verið fimmtán. Hjá félaginu eru tíu skipulagðir tímar á viku hér í gamla frystihúsinu þar sem kennsla fer fram, en félagið býr svo vel að hafa fjóra þjálfara með réttindi sem starfa í Neskaupstað. Það eru um 60 manns sem mæta í þessa tíma. Að auki geta félagsmenn notað aðstöðuna eftir hentugleikum. Flesta daga eru einhverjir byrjaðir að lyfta hér klukkan fimm á morgnana og sumir eru að koma eftir klukkan tíu á kvöldin. Fyrir utan Norðfirðinga kemur fólk hér frá Eskifirði og Reyðarfirði til að nýta aðstöðuna. Það er í reyndinni ótrúlegt hvað starfsemin hefur vaxið á ekki lengri tíma,“ segir Sylvía.
Fram kemur í máli Sylvíu að félagið standi í þakkarskuld við marga. Ýmsir félagsmenn hafa lagt mikið af mörkum til að gera húsnæðið hæft til notkunar og þá tóku starfsmenn Alcoa einnig þátt í því, en þeir sinna ýmsum þörfum samfélagsverkefnum. Enginn hefur þó stutt félagið betur en Síldarvinnslan. Auk þess að útvega húsnæðið í gamla frystihúsinu hefur Síldarvinnslan veitt styrki til búnaðarkaupa og þá komu starfsmenn Síldarvinnslunnar að ýmsum verkefnum þegar unnið var í húsnæðinu. „Við stöndum í mikilli þakkarskuld við alla sem hafa aðstoðað okkur og það hefði ekki verið unnt að halda úti þessari starfsemi ef við nytum ekki svona mikils skilnings í samfélaginu,“ segir Sylvía.
 
Sylvía telur að hægt og bítandi sé starfsemi Lyftingafélagsins að öðlast viðurkenningu í samfélaginu hér eystra, en það taki ávallt einhvern tíma fyrir nýja íþróttagrein að öðlast slíka viðurkenningu. Sem dæmi má nefna að nú nýverið fór verslunin Fjarðasport í Neskaupstað að bjóða upp á vörur sem henta lyftingafólki.
 
Til stendur að halda vígsluhátíð í húsnæði félagsins í gamla frystihúsinu þegar framkvæmdum þar verður endanlega lokið og þá geta allir komið og kynnt sér aðstöðuna og blómlegt starf Lyftingafélags Austurlands.

Þorsteinn Már hverfur frá stjórnarstörfum

Þorsteinn Már hverfur frá stjórnarstörfumÞorsteinn Már Baldvinsson hefur óskað eftir því að fara í ótímabundið leyfi frá störfum sínum sem stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og mun hann hverfa frá stjórnarstörfum. Við stjórnarformennskunni tekur Ingi Jóhann Guðmundsson og inn í stjórnina kemur Halldór Jónasson.