Fiskurinn enn ekki genginn á Selvogsbankann

Bergey VE kemur til hafnar með góðan afla. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE kemur til hafnar með góðan afla.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarinn Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum sl. miðvikudag. Aflinn var að mestu þorskur, ufsi og karfi. Ragnar Waage Pálmason var skipstjóri í veiðiferðinni og var það í fyrsta sinn sem hann stýrði hinu nýja skipi. Aflinn fékkst út af Vík í Mýrdal og á Selvogsbanka. Bergey hélt á ný til veiða aðfaranótt fimmtudags og heyrði heimasíðan  í Jóni Valgeirssyni skipstjóra í gær þar sem skipið var að toga á Selvogsbankanum. „Við erum á Selvogsbankanum að vakta stöðuna. Það er rólegt hér ennþá, þorskurinn er ekki kominn hér enn í ríkum mæli til hrygningar. Venjulega er þorskurinn mættur hingað í lok febrúar eða í byrjun mars þannig að þetta hlýtur að fara að koma. Þorskurinn er að ganga til dæmis að austan og hann gengur með fjörunum. Það hefur líka verið fín veiði í Háfadýpinu. Það er alls ekki hægt að kvarta undan fiskiríinu að undanförnu, það fékkst til dæmis stór og fallegur fiskur í síðasta túr. Nýja skipið reynist vel og það verður gaman þegar hin eiginlega vertíð byrjar af krafti,“ segir Jón.
 
Smáey VE landaði 45 tonnum í Vestmannaeyjum sl. þriðjudag og Vestmannaey VE hélt til veiða frá Akureyri í nótt, en þar var verið að lagfæra millidekk skipsins.

Þreyttir á veðurlaginu

Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 85 tonn, mestmegnis þorskur. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við vorum að veiðum á Gerpisflakinu og í Reyðarfjarðardýpi. Við sáum loðnupeðrur út um allt og fiskurinn var stútfullur af loðnu. Þarna var svo sannarlega líflegt. Við ætluðum að fara út í gær en því var frestað vegna leiðindabrælu og erum fyrst að fara út núna. Það er búin að vera ótrúlega leiðinleg tíð að undanförnu og það var kaldafýla allan síðasta túr.  Menn eru orðnir þreyttir á veðurlaginu, endalausum veltingi og látum. Það hefur oftast verið haugasjór að undanförnu. Vonandi fer þetta að lagast og okkur finnst vera kominn tími til,“ segir Þórhallur.

Enginn hlunnfarinn í verðlagningu á uppsjávarfiski hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað

Beitir sildarhol okt 2017 GL

Vegna umræðu um verðlagningu á uppsjávarfiski vil ég sýna fram á og undirstrika að Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur staðið við sinn hlut gagnvart öllum sínum starfsmönnum og samfélaginu í heild, eins og henni ber að gera. Enginn hefur verið hlunnfarinn í þeim samskiptum eins og látið hefur verið í veðri vaka. Síldarvinnslan leitast ætíð eftir því að selja afurðir á hæsta mögulega verði, skila afrakstrinum heim og afsetur engan hagnað í félögum á erlendri grundu, enda ekki tengd neinum félögum þar. Við höfum ekkert að fela í þessum efnum enda lagt metnað okkar í að hafa allt uppá borðum og er ég tilbúinn að ræða við hvern þann sem telur sig geta bent á hið gagnstæða.

Tilefni skrifa minna er að undanfarin misseri hafa grasserað gróusögur í samfélaginu um verðlagningu á uppsjávarfiski, sem fást ekki staðist þegar gögn eru skoðuð. Ýmsir málsmetandi menn hafa látið að því liggja að íslensk fyrirtæki stundi óheiðarleg viðskipti og séu hreinlega að svindla og stela af þjóðinni. Síldarvinnslan í Neskaupstað stundar ekki neitt slíkt og vísar því til föðurhúsanna.

Forsendur verðútreikninga liggja fyrir

 • Hráefnisverð á Íslandi er myndað samkvæmt samkomulagi milli fyrirtækja og áhafna. Það tekur mið af verðmæti afurðanna sem framleiddar eru hverju sinni.
 • Verðlagsstofa, sem er opinber stofnun, hefur fengið sölusamninga og forsendur verðútreikninga til yfirferðar frá Síldarvinnslunni án þess að hafa nokkurn tíma gert athugasemdir þar við, enda er farið eftir gildandi samkomulagi í uppgjöri við sjómenn. Hér ræður engin hentistefna eða undanskot.
 • Við hittum okkar áhafnir reglulega og förum yfir ástand markaða og útlit hverju sinni. Áhöfnin getur hvenær sem er fengið aðgang að upplýsingum hjá okkur, labbað inn og út úr vinnslunum og fylgst með framleiðslunni, trúnaðarmaður hefur aðgang að sölusamningum og framleiðslutölum.

 

Gagnsæ virðiskeðja hjá SVN

 • Síldarvinnslan selur frystar afurðir að stærstum hluta í gegnum sölufyrirtæki sem tekur umboðslaun, greiðir frakt og umsýslu ef einhver er og skilar verðinu sem eftir stendur.
 • Mjöl og lýsi selur Síldarvinnslan til erlendra kaupenda, á milli í þeim viðskiptum er erlendur umboðsaðili sem tekur ákveðna þóknun eins og venjan er í umboðssölu.
 • Lítill hluti af mjöli og lýsi er seldur innanlands til Fóðurverksmiðjunnar Laxár, verðlagningin tekur mið af markaðsverði hverju sinni.
 • Síldarvinnslan á ekki hlut eða tengist neinu af þeim erlendu félögum sem verslað er við. Við sum þeirra er viðskiptasamband sem staðið hefur í áratugi.
 • Síldarvinnslan á í miklum samskiptum við sína stærslu viðskiptavini erlendis.

 

Hráefnisverð samkvæmt samningum

 • Í gildi er samkomulag milli útgerða og sjómanna um með hvaða hætti staðið skuli að verðmyndun hráefnis.
 • Hjá Síldarvinnslunni er þetta alveg skýrt. Miðað er við, að lágmarki, að 33% af skilaverði til manneldisvinnslu fer til skips og 55% af skilaverði til mjöl- og lýsisvinnslu. Þetta eru þau hlutföll sem stuðst við í útreikningum á hráefnisverði.
 • Áskorunin í okkar kerfi er að við erum að áætla verð á hráefni og greiða fyrir til skipa jafnóðum, en afurðir seljast oft ekki fyrr en mörgum mánuðum seinna. Því getur þetta oft sveiflast í báðar áttir, bæði er markaðsverð sveiflukennt og eins þekkja nú flestir flöktið á íslensku krónunni.
 • Aðferðir til að tryggja rétt verð til áhafna eru skilgreindar í samningum og geta trúnaðarmenn þeirra farið yfir allar forsendur verðlagningar. Einnig fær Verðlagsstofa skiptaverðs afrit af sölusamningum send. Gagnsæið verður varla mikið meira og uppgjör miðast ávallt við gildandi samninga.

 

Útkoman jákvæð fyrir sjómenn

Hráefnisverð fiskimjöl 13 18

 • Ef við skoðum hvernig hráefnisverð hefur þróast í mjöl- og lýsisvinnslu á árunum 2013-2018 sést að hlutfallið sem fer til til áhafnar hefur verið í kringum 55% af söluverðmæti en fer niður í 51,9% og uppí 57,1%. Á þessu 6 ára tímabili fer þetta 3 sinnum yfir og 3 sinnum undir og meðaltalið er um 55%.

Hráefnisverð manneldi 13 18

 • Ef við skoðum manneldisvinnsluna hjá Síldarvinnslunni, það er sá hluti vinnslunnar á uppsjávarafurðum sem fer til manneldis, á árunum 2013-2018 sést að þar er hlutfallið af skilaverðinu sem fellur áhöfnum í skaut frá 34,4% uppí 43,3%. Meðalverð þessa tímabils er 39,1% en samkvæmt samningum skal það ekki vera lægra en 33%.

Mismunur á greiddu og samnings

 • Þegar við skoðum fyrrnefnt samkomulag og greitt verð samtals að teknu tilliti til manneldis- og fiskimjölsvinnslunnar sést að þrátt fyrir framangreindar sveiflur þá liggur verðið allstaðar yfir því sem kveðið er á um í samkomulaginu.

 

 

Ósanngjarn málflutningur sjómanna

Forsvarsmenn sjómanna Síldarvinnslunnar hafa farið fram með auglýsingar og dylgjað um það í fjölmiðlum að fyrirtækin geri hlutina eins og þeim sýnist. Slíku vísa ég til föðurhúsanna í tilfelli Síldarvinnslunnar. Málflutningur eins og þessi er engum til framdráttar og allra síst til þess fallinn að bæta samskipti útgerða og sjómanna. Rétt er að hafa í huga að sjómenn og útgerðir eiga nú í kjaraviðræðum og kann það að skýra að einhverju leyti framferði forystumanna sjómanna. Telji menn á sér brotið verða þeir að benda á hina brotlegu og tilkynna þá til viðeigandi aðila, eða setja fram trúverðug rök fyrir málflutningi sínum.

Ef sjómenn telja sig svikna tel ég rétt að gera grein fyrir hverju sú aðferðarfræði og það samkomulag, sem hér hefur verið lýst, skila uppsjávarsjómönnum Síldarvinnslunnar, en þeir eru launahæstu starfsmenn fyrirtækisins.

Engir sjómenn eru sviknir um greiðslur samkvæmt þessu kerfi sem samkomulag er um, enda skila verðmætin sér í greiðslum fyrir þeirra störf. Í töflunni fyrir neðan má sjá greiðslur til þeirra fyrir árin 2016-2019.   Hér kemur fram að laun á úthaldsdag 2019 voru 162 þúsund, á sama tíma voru laun á frystitogara fyrirtækisins um 82 þúsund á úthaldsdag og 81 þúsund á ísfisktogaranum.

Beitir NK

2016

2017

2018

2019

Verðmæti:

 1.799 millj. kr.

 1.398 millj. kr.

 1.716 millj. kr.

 1.535 millj. kr.

Hásetahlutur án orlofs:

   30,5 millj. kr.

   24,4 millj. kr.

   28,8 millj. kr.

   25,4 millj. kr.

Úthaldsdagar:

         221

         172

         230

         177

Hásetahlutur m/orlofi:

   34,3 millj. kr.

   27,5 millj. kr.

   32,4 millj. kr.

   28,6 millj. kr.

Hlutur á úthaldsdag:

      155.424 kr.

      160.041 kr.

      141.120 kr.

      161.587 kr.

Skipstjórahlutur m/orlofi

   80,0 millj. kr.

   62,2 millj. kr.

   76,3 millj. kr.

   68,3 millj. kr.

         
         
         

Börkur NK

2016

2017

2018

2019

Verðmæti:

 1.779 millj. kr.

 1.394 millj. kr.

 1.693 millj. kr.

 1.541 millj. kr.

Hásetahlutur án orlofs:

   30,0 millj. kr.

   24,5 millj. kr.

   28,4 millj. kr.

   25,5 millj. kr.

Úthaldsdagar:

         210

         191

         199

         171

Hásetahlutur m/orlofi:

   33,8 millj. kr.

   27,6 millj. kr.

   32,1 millj. kr.

   28,7 millj. kr.

Hlutur á úthaldsdag:

      161.075 kr.

      144.957 kr.

      160.990 kr.

      167.637 kr.

Skipstjórahlutur m/orlofi

   79,1 millj. kr.

   62,0 millj. kr.

   75,3 millj. kr.

   68,5 millj. kr.

Verð til erlendra skipa

 • Samdráttur hefur orðið mjög mikill á uppsjávarhráefni til fiskimjölsvinnslu síðastliðin ár og afkastageta því ónýtt og reksturinn óstöðugur. Við þessar aðstæður getur borgað sig að ná í viðbótarhráefni til að nýta afkastagetuna þrátt fyrir að hærra verð sé greítt.
 • Þetta tíðkast einnig í öðrum fisktegundum þar sem fiskverkendur ná oft í viðbótarhráefni á fiskmarkaði til að fullnýta afkastagetu. Þannig að það er ekkert öðruvísi í uppsjávarfiski, enda skapar þessi afli vinnu í landi.
 • Í samanburðafræði er bent á verðlagningu erlendis. Það liggur fyrir að þar er mikil umframafkastageta og er verð þar einfaldlega yfir því verði sem við getum selt vöruna á frá okkar vinnslum. Það liggur fyrir að norskar vinnslur eru gjarnan að greiða yfir 90% af skilaverði til skipa.
 • Samkvæmt því væri það oft skynsamlegt, ekki bara fyrir sjómennina heldur fyrirtækið líka, að sigla með aflann og fá þetta verð fyrir hann erlendis. En þá mun fólkið í vinnslunum heima sitja eftir aðgerðarlaust.
 • Þegar talið berst að makrílverðum þá liggur fyrir að við höfum ekki langa reynslu af makrílveiðum. Við erum að veiða hann í öðru ástandi en til dæmis Norðmenn, notum troll þar sem skipstjórnarmenn okkar telja hann ekki veiðanlegan í nót á þeim tíma sem við höfum aðgang að stofninum. Þetta er því verðminni afurð sem við framleiðum, stóran hluta af vertíðinni.
 • Norðmenn eru með mun sterkari stöðu t.d. á Asíumarkaði sem er best borgandi markaðurinn fyrir makríl. En þar liggur öll áhættan hjá vinnslunum sem oft á tíðum eru að borga allt uppí 95% af skilaverði afurða fyrir fiskinn.

 

 

Lokaorð

Við höfum langa reynslu af því hvernig samspil veiða og vinnslu getur tryggt ákveðinn stöðugleika, bæði á sjó og landi, í sveiflukenndu umhverfi þar sem markaðir eru síbreytilegir og ekki er gengið að aflanum vísum. Ég veit að allir í þessari virðiskeðju eru að gera sitt besta, hvort heldur er sjómenn, fólkið í vinnslunum eða þeir sem eru að selja fiskinn. Það er sjálfsagt að hafa allt uppi á borðum og ræða hlutina opinskátt og jafnvel beinskeytt. En við verðum að láta staðreyndir tala sínu máli í stað þess að hafa uppi ósanngjarnar og á stundum ófyrirleitnar upphrópanir. Ég vil vinna að sátt með samtali, samfélaginu okkar til hagsbóta.

Gunnþór Ingvason

 

 

Upplýsingar um kórónaveiruna

Upplýsingar um kórónaveirunaFyrirtæki hafa verið hvött til að miðla upplýsingum til starfsfólks um kórónaveiruna. Sóttvarnarlæknir hefur fundað með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og lagt áherslu á að fyrirtæki hafi ákveðnu hlutverki að gegna þegar heimsfaraldrar brjótast út. Fyrirtækjunum er ætlað að sinna kynningarstarfi og miðla til dæmis upplýsingum frá Landlæknisembættinu til starfsmanna sinna, sérstaklega þeirra starfsmanna sem þurfa að sinna erindum erlendis.
 
Sóttvarnarlæknir vill hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína að:
 
 • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
 • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með hósta og almenn kvefeinkenni.
 • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
 • Nota pappír/klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
 • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.
 
Nánari upplýsingar um eðli kórónaveirunnar og sýkingavarnir er að finna á vef Landlæknisembættisins og eru starfsmenn Síldarvinnslunnar hvattir til að kynna sér þær: 
 
Upplýsingavefur Landlæknis

Óveðrið setur strik í reikninginn

Óveður truflar veiðar. Ljosm. Guðmundur AlfreðssonÓveður truflar veiðar. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÓveðursspáin fyrir næstu daga setur strik í reikninginn hjá skipum Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins. Smáey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í nótt með um 50 tonn eftir stutta veiðiferð og Bergey VE landaði fullfermi í gærmorgun. Ekki er gert ráð fyrir að skipin haldi til veiða á ný fyrr en á sunnudag. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að mjög vel gangi að fiska en nú muni veðurhamurinn taka völdin. „Við vorum að veiða á Skeiðarárdýpinu, út af Ingólfshöfða og í Sláturhúsinu út af Hornafirði og alls staðar fiskaðist vel. Aflinn var mest þorskur,ufsi, ýsa og skarkoli. Það er allt farið að snúast mjög vel hér um borð í nýja skipinu og við höfum sko ekki undan neinu að kvarta. Framundan eru helvítis læti. Það verður kolvitlaust veður á föstudag og hundleiðinlegt á laugardag þannig að líklega verður ekki farið út fyrr en á sunnudag. En nú er vertíðin framundan og hún er alltaf mikið tilhlökkunarefni. Vertíðin er bara skemmtilegasti tími ársins, svo einfalt er það,“ segir Jón.
 
Síldarvinnsluskipin Gullver NS og Blængur NK munu einnig leita hafnar vegna veðurs. Ísfisktogarinn Gullver mun væntanlega koma til Seyðisfjarðar í fyrramálið en frystitogarinn Blængur er væntanlegur til Neskaupstaðar í nótt.

Vart hefur orðið við vertíðarfisk

Smáey VE landaði fullfermi í morgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonSmáey VE landaði fullfermi í morgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarinn Smáey VE landaði fullfermi eða 70 tonnum í Vestmannaeyjum í morgun. Aflinn var blandaður en mest var af karfa, ufsa og þorski. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra þegar löndun var lokið og skipið var að láta úr höfn. Fyrst var spurt hvar veitt hefði verið. „Við byrjuðum á Kötlugrunni og enduðum út af Ingólfshöfða. Það gekk ágætlega að veiða og þetta var stuttur túr, einungis þrír sólarhringar. Núna er gott veður, norðanátt og sléttur sjór, en hann spáir brælu á föstudag og laugardag. Við erum orðnir vanir brælum, allur janúar var vægast sagt hundleiðinlegur. Það hefur orðið vart við vertíðarfisk en hann er þó ekki kominn af neinum krafti. Hann hefur verið tiltölulega seint á ferðinni síðustu árin. Ég held að hann verði kominn fyrir alvöru eftir tvær til þrjár vikur. Höfnin hér í Vestmannaeyjum er full af síld núna og það virðist vera töluvert af síld við Eyjar. Síldinni fylgir mikið fuglalíf og það er tignarlegt að sjá súlurnar og skarfana sækja sér síld í matinn. Þetta er mikið sjónarspil,“ segir Birgir Þór.

Það er áhöfnin á Vestmannaey sem nú rær á Smáey en Vestmannaey er á Akureyri þar sem unnið er að lagfæringum á millidekki. Gerir Birgir Þór ráð fyrir að framkvæmdum við skipið verði lokið um miðja næstu viku.

Fleiri greinar...

 1. Hin árlega loðnuspenna
 2. Flúið norður
 3. Loðnan er laus á kostunum
 4. Þetta er svo sannarlega fínn bátur
 5. Blængur með fínan túr þrátt fyrir brælu
 6. Aukin áhersla á umhverfismál og samfélagsábyrgð
 7. Starfsmannahátíðin í ár verður í Gdansk
 8. Loksins komin langþráð bongóblíða