Loðnufrystingu lokið – hrognavinnsla næst á dagskrá
- Details
- Skrifað: 01. Mars 2021

Beitir NK á loðnumiðunum með 730 tonna kast.
Ljósm. Bjarni HafsteinssonÍ fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er loðna ennþá fryst af fullum krafti en brátt líður að því að hrognavinnsla hefjist. Í gærmorgun var lokið við að frysta 1380 tonn úr Berki NK og þá var Beitir NK kominn með 1150 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að loðnan sem fékkst í veiðiferðinni sé fínasta Japansloðna. „Við fengum aflann á Meðallandsbugtinni og tókum síðan í lokin eitt 300 tonna kast á Kötlutanganum. Þetta er gæðaloðna og til dæmis í síðasta kastinu var yfir 60% hrygna og hrognafyllingin 18%. Á mánudagskvöldið var töluvert mikið að sjá af loðnu á þeim slóðum sem við vorum á en síðan gekk hún upp í fjöruna. Það var heldur óhagstætt að eiga við hana í túrnum vegna þess að hann blés úr austri og gerði okkur erfitt fyrir. Spurningin er hvort næsti túr verður ekki hrognatúr,“ segir Tómas.
Stóra torfan í Jökuldýpinu á mælum Polar AmaroqGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi af frystri loðnu í Hafnarfirði í gær. Að löndun lokinni ákvað Geir Zoëga skipstjóri að kanna hvort loðnu væri að finna í Jökuldýpinu norðvestur úr Garðskaga. Hann þurfti ekki að leita lengi. „Við komum hérna í svakalega torfu. Hún er tæpar fimm sjómílur á lengd og þétt. Hún er frá kili og niður undir botn. Hér er sko alvöru vertíðarganga á ferðinni. Þetta hljóta að vera nokkur hundruð þúsund tonn. Við erum nú að mæla þessa risalóðningu og síðan ætlum við að svipast frekar um. Þessi ganga hér verður væntanlega komin inn á Breiðafjörð um helgina og mun líklega hrygna þar í næstu viku. Það fréttist af loðnu víða þessa dagana. Það virðist vera loðna héðan frá Faxaflóanum og austur með allri suðurströndinni. Það hefur til dæmis verið mikil loðna í Háfadýpinu. Síðan hafa borist fréttir af loðnu fyrir norðan land og nú mun Bjarni Sæmundsson vera að kanna stöðuna þar. Þetta er alvöru, það fer ekkert á milli mála,“ segir Geir.
Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Verið að ljúka við að landa úr Beiti NK og Börkur NK kominn með 1100 tonn af gæðaloðnu. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1100 tonn af loðnu. Byrjað var að vinna úr honum um hádegi en þá var lokið við að vinna 900 tonn sem Beitir NK kom með í gær. Heimasíðan ræddi stuttlega við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði út í veiðiferðina. „Við fengum aflann í fjórum köstum í Meðallandsbugtinni. Tókum þrjú köst í gær og eitt 200 tonna kast á mánudagskvöld. Þetta er fínasta loðna; hrygnuhlutfall er gott, 17% hrognafylling og átan einungis 0,3. Þetta hlýtur að vera gott í Japanann. Það var ekki mikið að sjá af loðnu þarna í bugtinni í gær. Það var mun meira að sjá á mánudaginn. En þarna eru öll skipin að berja á þessu. Ég tel að þetta sé alls ekki fremsti hluti loðnugöngunnar og það eigi eftir að gjósa upp loðna í Háfadýpinu eða við Eyjar á næstu dögum. Annars er loðna mjög víða, meðal annars hérna fyrir austan,“ segir Hjörvar.
Bergey VE kemur til hafnar í Vestmannaeyjum í gær.
Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogarinn Bergey VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í gær með fullfermi. Tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra í morgun en þá var skipið að veiðum í Háfadýpinu. „Aflinn sem við lönduðum í gær var blandaður; ufsi, þorskur og ýsa. Við vorum í Breiðamerkurdýpinu og fengum þar fínasta afla í fótreipistrollið. Síðan var komið við í Háfadýpinu og þar voru tekin tvö síðustu holin. Þar fékkst rígaþorskur fullur af gotu. Það er búin að vera endalaus austan bræla og það er verulega þreytandi en það hlýtur að koma að því að henni ljúki. Við urðum ekki varir við loðnu í Breiðamerkurdýpinu en það eru fréttir af henni austar,“ segir Jón.
Athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Ljósm. Hlynur Sveinsson