Loðnufrystingu lokið – hrognavinnsla næst á dagskrá

Polar Amaroq að loðnuveiðum. Ljósm. Sævar ÁskelssonPolar Amaroq að loðnuveiðum. Ljósm. Sævar ÁskelssonLoðnufrystingu er lokið í fiskiðjuverinu í Neskaupstað á þessari loðnuvertíð og nú er beðið eftir að hrognataka hefjist. Börkur NK er á Breiðafirði, Beitir NK á leiðinni vestur fyrir land og Bjarni Ólafsson AK bíður átekta í höfn syðra. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki í morgun og spurði hvenær veiðar á hrognaloðnunni hæfust. „Ég veit það ekki alveg. Það er hálfgerð bræla hér á Breiðafirðinum og við erum bara í biðstöðu. Í augnablikinu höfum við líka lítið séð en það mun breytast þegar skipum fjölgar hérna og veðrið lagast. Veðrið á að ganga niður í dag og ég held að eigi að verða fínt veður á morgun. Síðan er það bara spurningin hvort loðnan er tilbúin til hrognatökunnar,“ segir Hálfdan.
 
Grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq frystir aflann um borð og hefur landað fullfermi sex sinnum það sem af er vertíðinni. Skipið landaði sl. laugardag og lá síðan inni á Faxaflóa að frysta afla á meðan á brælunni yfir helgina stóð en aflinn var geymdur í tönkum skipsins á meðan landað var. Ólafur Sigurðsson stýrimaður segir að vertíðin hafi gengið afar vel til þessa. „Við erum núna í sjöunda túr og það hefur allt gengið eins og í sögu. Vinnslan hefur gengið vel og veiðin verið góð. Við fórum út klukkan sex í morgun og erum núna suðvestur af Garðskaga að leita,“ segir Ólafur.

Síldarvinnslan kaupir nýtt fræðslukerfi

Síldarvinnslan kaupir nýtt fræðslukerfiSíldarvinnslan skrifaði í vikunni undir samning um kaup á nýju fræðslukerfi fyrir starfsmenn. Fyrir valinu varð kerfi sem heitir Eloomi, en fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði eru farin að nota það með góðum árangri. Kerfið býður upp á nýja möguleika til að skipuleggja fræðslu og koma námsefni á framfæri við notendur, óháð stað og stund. Notendur munu t.d. geta tekið námskeið í snjallsímunum sínum, í tölvu á vinnustöð eða heima hjá sér í hvaða snjalltæki sem hentar.
 
„Þetta einfaldar málin gífurlega mikið“, segir Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri, sem mun stýra innleiðingu kerfisins. „Í stað þess að þurfa að kalla fólk saman í sal getum við tryggt að allir fái viðeigandi þjálfun og upplýsingar hvar og hvenær sem er og geti kynnt sér efnið á sínum hraða og forsendum. Þetta einfaldar málin mjög þegar talsverður hluti starfsmanna starfar á vöktum eða á skipum félagsins. Við munum auðvitað ekki hætta að kalla fólk saman til að hittast, læra eitthvað nýtt og ræða málin, en þetta kerfi mun gera okkur kleyft að koma þekkingu á framfæri án þess. Við höfum séð það á þessum leiðinlegu Covid-tímum að fólk er fljótt að tileinka sér nýjungar á borð við þessa og Eloomi kerfið er einstaklega notendavænt. Covid-tíminn hefur líka kennt okkur hvað það er mikilvægt að hafa fjölbreyttar leiðir til að hafa samskipti við fólkið okkar þegar því fylgir skyndilega áhætta að hittast í alvörunni. Við munum með þessu nýja kerfi stíga stórt framfaraskref hvað tæknina varðar og svo munum við í kjölfarið uppfæra fræðsluáætlun fyrirtækisins í samstarfi við Austurbrú. Það mun hjálpa okkur verulega að efla fræðslu hjá fyrirtækinu að hafa nýtt kerfi til að halda utan um fræðslustarfið og bæta við það stafrænni miðlun efnis. Við ætlum að halda ótrauð áfram að gera gott fyrirtæki enn betra og öflugt fræðslustarf er mikilvægur liður í því,“ segir Sigurður að lokum.

Fryst af fullum krafti

Beitir NK á loðnumiðunum með 730 tonna kast. Ljósm. Bjarni HafsteinssonBeitir NK á loðnumiðunum með 730 tonna kast.
Ljósm. Bjarni Hafsteinsson
Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er loðna ennþá fryst af fullum krafti en brátt líður að því að hrognavinnsla hefjist. Í gærmorgun var lokið við að frysta 1380 tonn úr Berki NK og þá var Beitir NK kominn með 1150 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að loðnan sem fékkst í veiðiferðinni sé fínasta Japansloðna. „Við fengum aflann á Meðallandsbugtinni og tókum síðan í lokin eitt 300 tonna kast á Kötlutanganum. Þetta er gæðaloðna og til dæmis í síðasta kastinu var yfir 60% hrygna og hrognafyllingin 18%. Á mánudagskvöldið var töluvert mikið að sjá af loðnu á þeim slóðum sem við vorum á en síðan gekk hún upp í fjöruna. Það var heldur óhagstætt að eiga við hana í túrnum vegna þess að hann blés úr austri og gerði okkur erfitt fyrir. Spurningin er hvort næsti túr verður ekki hrognatúr,“ segir Tómas.

Blængur landar að lokinni fyrstu veiðiferð ársins

Blængur NK í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBlængur NK í Norðfjarðarhöfn í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson
Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gær að lokinni fyrstu veiðiferð ársins. Skipið hélt til veiða 4. febrúar en það hafði verið í slipp á Akureyri frá því í desember. Aflinn í veiðiferðinni var 471 tonn upp úr sjó að verðmæti 120 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvar hefði verið veitt. „Við byrjuðum á að leita að ufsa úti fyrir Norðurlandi. Það skilaði litlum árangri. Síðan var haldið austur fyrir land í grálúðu og þar var staldrað við í eina þrjá daga. Þá lá leiðin suður fyrir landið. Þar hófum við að veiða gulllax á Kötlugrunni og Sneiðinni og það gekk býsna vel. Leiðin lá þá á Selvogsbanka og Reykjanesgrunn og alveg vestur á Belgableyðu í ufsaleit. Staðreyndin er sú að það virðist vera lítið af ufsa um þessar mundir en hins vegar er nóg af ýsu og gullkarfa alls staðar. Við vorum á eilífum flótta undan ýsu og reyndar vorum við einnig að forðast þorsk. Það er alveg ótrúlegt að ýsukvóti skuli ekki vera aukinn. Þegar upp var staðið var uppistaða aflans í veiðiferðinni gulllax og gullkarfi. Við vorum með um 160 tonn af gulllaxi og um 130 tonn af gullkarfa. Veðrið í túrnum var almennt gott. Við fengum brælu þegar veitt var fyrir austan en annars var fantagott veður og hálgerður vorbragur á veðrinu,“ segir Theodór.
 
Blængur heldur á ný til veiða  síðdegis í dag.
 

„Hér er sko alvöru vertíðarganga á ferðinni“

Stóra torfan í Jökuldýpinu á mælum Polar AmaroqStóra torfan í Jökuldýpinu á mælum Polar AmaroqGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi af frystri loðnu í Hafnarfirði í gær. Að löndun lokinni ákvað Geir Zoëga skipstjóri að kanna hvort loðnu væri að finna í Jökuldýpinu norðvestur úr Garðskaga. Hann þurfti ekki að leita lengi. „Við komum hérna í svakalega torfu. Hún er tæpar fimm sjómílur á lengd og þétt. Hún er frá kili og niður undir botn. Hér er sko alvöru vertíðarganga á ferðinni. Þetta hljóta að vera nokkur hundruð þúsund tonn. Við erum nú að mæla þessa risalóðningu og síðan ætlum við að svipast frekar um. Þessi ganga hér verður væntanlega komin inn á Breiðafjörð um helgina og mun líklega hrygna þar í næstu viku. Það fréttist af loðnu víða þessa dagana. Það virðist vera loðna héðan frá Faxaflóanum og austur með allri suðurströndinni. Það hefur til dæmis verið mikil loðna í Háfadýpinu. Síðan hafa borist fréttir af loðnu fyrir norðan land og nú mun Bjarni Sæmundsson vera að kanna stöðuna þar. Þetta er alvöru, það fer ekkert á milli mála,“ segir Geir.

Ísfisktogararnir landa

Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE og Bergey VE lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonGullver NS landar 84 tonnum á Seyðisfirði í dag. Steinþór Hálfdanarson var skipstjóri í veiðiferðinni og segir hann að aflast hafi þokkalega. „Við vorum einungis rúma þrjá daga að veiðum en aflinn er mest þorskur og dálítið af ýsu með. Veitt var í Hvalbakshallinu og á Örvæntingarhorni í ágætis veðri,“ segir Steinþór.
 
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi til veiða á ný í kvöld.
 
Bæði Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Aflinn var að mestu þorskur en einnig dálítið af ýsu og ufsa. Farið var út strax að löndun lokinni og er ráðgert að landað verði á ný á miðvikudag.
 
 

Samfelld loðnuvinnsla og víða loðnu að sjá

Loðnuvinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonLoðnuvinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað.
Ljósm. Hákon Ernuson
Samfelld loðnuvinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað síðustu dagana. Lokið var við að landa 1100 tonnum úr Berki NK sl. nótt og var þá hafist handa við að þrífa en Beitir NK kom síðan klukkan sjö í morgun með 1200 tonn. Aflann fékk Beitir að mestu í Háfadýpinu austan við Vestmannaeyjar og er um að ræða fínustu Japansloðnu með upp í 19% hrognafyllingu og lítilli átu. Bjarni Ólafsson AK hélt til loðnuveiða sl. miðvikudagskvöld og er gert ráð fyrir að hann verði kominn með afla til Neskaupstaðar þegar vinnslu úr Beiti lýkur.
 
Það fréttist víða af loðnu. Til dæmis fékk grænlenska skipið Polar Amaroq góðan afla í gær út af Hornafirði og norsk skip greindu frá því að margar góðar torfur væru austur af Norðfjarðarhorni. Þá hafa einnig borist loðnufréttir frá Grímsey. Heimasíðan ræddi við Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq í morgun en þá var skipið statt á Selvogsbankanum. „Þetta er bara hörkuloðnuvertíð. Auðvitað mætti vera meiri kvóti en menn eru að gera mikil verðmæti úr því sem aflast. Þetta er fimmti veiðitúrinn hjá okkur en við erum búnir að landa fjórum sinnum fullfermi af frystri loðnu. Nú liggjum við bara og erum að vinna, það eru engin vandræði að fá í vinnsluna hæfilega skammta. Það virðist vera loðna alveg héðan frá Selvogsbankanum og austur fyrir land. Þetta er heilmikil veisla. Við gerum ráð fyrir að landa á þriðjudaginn í Hafnarfirði,“ segir Geir.
 
Loðnan sem berst að landi er stór og fallleg. Ljósm. Smári GeirssonLoðnan sem berst að landi er stór og fallleg.
Ljósm. Smári Geirsson
Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að vinnslan á loðnunni gangi mjög vel og afköstin séu góð. „Þetta er fínasta loðna með góðri hrognafyllingu og við heilfrystum hana.  Japanirnir eru afar sáttir við þessa loðnu þannig að það er allt í góðu standi. Við gerum síðan ráð fyrir að hefja framleiðslu á loðnuhrognum um mánaðamótin. Þá verður loðnan farin að losa pokann og þá er kominn tími til að byrja að kútta,“ segir Jón Gunnar.
 
 
 
 
 
 
 

Áhyggjur af ýsunni – allt of mikið af henni miðað við kvóta

Landað úr Vestmannaey VE og Bergey VE í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Vestmannaey VE og Bergey VE í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBæði skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu fullfermi eða rúmlega 70 tonnum í Vestmannaeyjum í gær. Afli beggja skipa var blandaður; þorskur, ufsi og karfi. Heimasíðan ræddi við skipstjórana, Birgi Þór Sverrisson á Vestmannaey og Jón Valgeirsson á Bergey, og spurði þá hvort vertíðarfiskur væri farinn að sjást. Birgir sagði að hann væri að byrja að ganga og drjúgur hluti afla Vestmannaeyjar hefði verið stór vertíðarþorskur. “Við byrjuðum á Selvogsbankanum með fótreipistroll en færðum okkur síðan í Háfadýpið. Það gekk vel að fiska. Það sem ég hef helst áhyggjur af um þessar mundir er ýsan. Það er búið að veiða mjög mikla ýsu miðað við kvóta og ég er hræddur um að mörg skip lendi í vandræðum á vertíðinni vegna þess að ýsan vill blandast þorskinum. Það er semsagt lítill ýsukvóti en gífurleg ýsugengd og það er ýsa alls staðar, hún er fyrir vestan, sunnan, norðan og austan. Og þetta er bæði smá ýsa og stór. Við á skipum Bergs-Hugins erum vel settir með ýsukvóta miðað við aðra en samt höfum við áhyggjur af stöðunni. Ég held að magnið af ýsu við landið sé í hámarki, allavega man ég ekki eftir slíku áður og það eru allir að flýja ýsuna,” segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson tekur undir með Birgi hvað ýsuna varðar. “Það er rétt að ýsan er að verða vandamál. Það má kannski kalla það lúxusvandamál vegna þess að það er óþægilega mikið af henni alls staðar og hvergi friður fyrir henni. Annars gekk vel hjá okkur í veiðiferðinni. Við vorum á Selvogsbankanum og fengum þar rígaþorsk og dálítið af ufsa og fleiri tegundum. Það er aðeins að koma vertíðarbragur á þetta. Sannast sagna var þessi túr eins þægilegur og hugsast getur; stutt að fara, blíðuveður og fínt fiskirí,” segir Jón.

17% hrognafylling

Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Verið að ljúka við að landa úr Beiti NK og Börkur NK kominn með 1100 tonn af gæðaloðnu. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonFrá Norðfjarðarhöfn í morgun. Verið að ljúka við að landa úr Beiti NK og Börkur NK kominn með 1100 tonn af gæðaloðnu. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1100 tonn af loðnu. Byrjað var að vinna úr honum um hádegi en þá var lokið við að vinna 900 tonn sem Beitir NK kom með í gær. Heimasíðan ræddi stuttlega við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði út í veiðiferðina. „Við fengum aflann í fjórum köstum í Meðallandsbugtinni. Tókum þrjú köst í gær og eitt 200 tonna kast á mánudagskvöld. Þetta er fínasta loðna; hrygnuhlutfall er gott, 17% hrognafylling og átan einungis 0,3. Þetta hlýtur að vera gott í Japanann. Það var ekki mikið að sjá af loðnu þarna í bugtinni í gær. Það var mun meira að sjá á mánudaginn. En þarna eru öll skipin að berja á þessu. Ég tel að þetta sé alls ekki fremsti hluti loðnugöngunnar og það eigi eftir að gjósa upp loðna í Háfadýpinu eða við Eyjar á næstu dögum. Annars er loðna mjög víða, meðal annars hérna fyrir austan,“ segir Hjörvar.

 

Þokkalegur brælutúr

Gullver NS kom til löndunar í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kom til löndunar í gær. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 83 tonn og uppistaða hans var þorskur og ýsa. Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri segir að veiði hafi verið nokkuð jöfn en túrinn hafi verið brælutúr. „Þetta var fjögurra daga túr og veiðin var þokkaleg eða allt í lagi. Við vorum mest að veiða á Herðablaðinu og í Litladýpi en í lokin fórum við í Lónsdýpið að leita að ufsa með afar litlum árangri,“ segir Rúnar.
 
Gullver mun halda á ný til veiða á morgun.
 
 

Beitir kominn með 900 tonn

Beitir NK kom með 900 tonn af loðnu til Neskaupstaðar í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kom með 900 tonn af loðnu til Neskaupstaðar í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kom í morgun til Neskaupstaðar með 900 tonn af loðnu sem fer til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Loðnan fékkst í fjórum köstum í Meðallandsbugtinni. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra. „Við fengum þennan afla í gær og í gærkvöldi. Besta kastið, tæp 500 tonn, fékkst eftir kvöldmatinn. Þegar við komum á miðin í gær var talsvert mikið að sjá en það var álandsvindur og þá hljóp loðnan upp í fjöruna. En þetta endaði mjög vel og þetta er fínasta loðna sem við erum með. Þetta er 40% hrygna, 13-14% hrognafylling og átulítið. Hér er um ekta Japansloðnu að ræða. Mér líst vel á framhaldið, það er ekkert annað í boði og gaman að loðnuveiðar skuli hafnar á ný. Nú er allur íslenski flotinn að fara af stað og þá fást betri upplýsingar um hvernig loðnan gengur,“ segir Tómas.
 
Eins og fram hefur komið hafa Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur samstarf um veiðarnar. Þegar rætt var við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki, í morgun sagði hann að heldur lítið væri að gerast þá stundina. „Í gær vorum við aðallega að leita fyrir Beiti en samkvæmt planinu átti hann fyrst að fara með afla að landi. Við tókum þó eitt kast í gærkvöldi og fengum 200 tonn. Í gærkvöldi voru fínustu lóðningar en loðnan stóð heldur djúpt. Það er lítið um að vera akkúrat núna en það getur breyst þegar líður á daginn,“ segir Hjörvar.

Beitir og Börkur halda til loðnuveiða – samstarf um veiðarnar

Beitir NK að loðnuveiðum árið 2018. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að loðnuveiðum árið 2018.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur héldu til loðnuveiða í gær. Veðrið hefur verið heldur óhagstætt á miðunum en í morgun hafði það heldur gengið niður. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti. „Við erum á Meðallandsbugtinni og það er víða eitthvað að sjá. Við erum að skoða þetta núna. Hér er heldur leiðinleg sunnanátt en það er vel hægt að kasta þannig að veðrið háir okkur ekki“, segir Tómas.
 
Samkomulag hefur verið gert við áhafnir Beitis og Barkar um samstarf skipanna við loðnuveiðarnar. Samstarfið felst í því að skipin skipuleggi veiðarnar þannig að þau skiptist á að koma með sem ferskastan afla að landi hverju sinni til að tryggja sem mest gæði framleiðslunnar. Þess vegna er gert ráð fyrir að afla verði dælt á milli skipanna á miðunum ef á þarf að halda. Áhafnirnar munu síðan skipta aflaverðmætunum á milli sín. Samstarf sem þetta hefur ekki verið reynt við loðnuveiðar áður en það gafst vel hjá Síldarvinnsluskipunum á makrílvertíðinni sl. sumar.
 
 
 
 

Japanir hafa saknað íslensku loðnunnar

Kusa að störfum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Líneik Haraldsdóttir er með honum á myndinni. Ljósm. Hákon ErnusonKusa að störfum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Líneik Haraldsdóttir er með honum á myndinni.
Ljósm. Hákon Ernuson
Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur að undanförnu verið fryst loðna úr norskum loðnuskipum allan sólarhringinn. Þrír fulltrúar japansks loðnukaupanda fylgjast grannt með starfseminni og þar á meðal er Takaho Kusayanagi sem venjulega er kallaður Kusa. Tíðindamaður heimasíðunnar hitti Kusa að máli og spurði fyrst hve lengi hann hefði fylgst með loðnuvinnslu á Íslandi. „Það er langur tími. Ég kom fyrst til landsins fyrir um 30 árum og fylgdist í upphafi mest með vinnslu í Vestmannaeyjum, Grindavík, Keflavík og Þorlákshöfn. Undanfarin ár hef ég verið í Neskaupstað. Þar þekki ég orðið allar aðstæður og fólkið þar eru kunningjar mínir og vinir. Það er afskaplega gott að koma til Neskaupstaðar og starfa þar. Nú erum við þrír hérna frá fyrirtækinu sem ég starfa hjá,“ segir Kusa.
 
Þegar Kusa er spurður út í loðnuleysið tvö síðustu ár segir hann: „Það voru dapurleg ár. Ég veit að loðnuleysið hafði slæm áhrif á mörg fyrirtæki hér á Íslandi og sömu sögu er að segja frá Japan. Fyrirtækin þar sem vinna Íslandsloðnuna lentu í verulegum erfiðleikum. Japanir söknuðu þess mjög að fá ekki íslenska loðnu. Loðnan er vinsæll matur í Japan. Hún er mest söltuð og þurrkuð og síðan hituð á pönnu eða í ofni. Loðnan er borðuð eins og hvert annað snakk og oft drukkinn bjór með. Síðan eru loðnuhrognin einnig eftirsóknarverð en þau eru til dæmis mikið notuð í sushi. Við viljum helst hafa loðnuna með yfir 13% hrognafyllingu. Sú loðna sem veiðst hefur núna hefur hingað til einungis verið með 9-10% hrognafyllingu þannig að við bíðum eftir að hrognafyllingin aukist og það mun gerast fljótlega. Við fylgjumst daglega með þeirri loðnu sem berst að landi og bíðum eftir því að hún verði hæf fyrir okkar markað. Fram að því er framleitt fyrir aðra markaði.“

Loðnustemmning

Loðnu landað úr norska skipinu Steinevik í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonLoðnu landað úr norska skipinu Steinevik í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonÁ fyrri tíð fjölluðu margir um þá stemmningu sem myndaðist í síldarbæjunum þegar síldarvertíð hófst. Síldin, þessi litli fiskur, hafði undarleg áhrif á mannfólkið. Því var líst hvernig sjúkir risu úr rekkjum sínum þegar síld tók að veiðast, hvernig daprir urðu glaðir og hvernig latasta fólk varð hamhleypur til verka. Og fólk víðs vegar að réði sig í síldarvinnu til að upplifa síldarstemmninguna og allt það fjör sem fisknum fylgdi.
 
Ef einhver fiskur kemst nálægt því að skapa þá stemmningu sem fylgir síldinni þá er það loðnan. Þegar loðna tekur að veiðast færist bros yfir mörg andlit og loðnubæirnir lifna við. Forsvarsmenn fyrirtækjanna verða glaðir og sömuleiðis verkafólkið og sjómennirnir. Þá færist vellíðunarsvipur yfir andlit sveitarstjórnarmannanna sem sjá fram á betri tíð. Það eru ekki síst þeir sem hugsa um hag hafnarsjóðsins sem fyllast kæti og sjá fram á betri tíma og jafnvel auknar framkvæmdir.
 
Gert við loðnunót norska skipsins Rav hjá Hampiðjunni í Neskaupstað. Ljósm. Smári GerissonGert við loðnunót norska skipsins Rav hjá Hampiðjunni í Neskaupstað. Ljósm. Smári GerissonTvö síðustu ár hafa verið loðnulaus og loðnustemmningin fjarlæg. Nú bregður hins vegar svo við að gefinn hefur verið út kvóti. Þó kvótinn sé ekki stór virðist hann duga til að skapa stemmninguna og það er bjart yfir austfirsku loðnubæjunum. Íslensk loðnuskip liggja að vísu enn bundin við bryggju og bíða þess að hrognafylling loðnunnar aukist, en grænlensk, færeysk og ekki síst norsk skip hafa verið að veiðum úti fyrir Austfjörðum. Norsku skipin hafa verið um 20 talsins og þau mega ekki veiða sunnan línu sem dregin er í austur frá punkti sunnan Álftafjarðar. Allmörg þessara norsku skipa hafa landað afla á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Neskaupstað.
 
Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað ríkir ótvíræð loðnustemmning. Fyrirtækið gerir út tvö skip til loðnuveiða auk þriðja skipsins sem er í eigu dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf. Áhafnir þessara skipa hafa verið í startholunum og gert er ráð fyrir að þau haldi jafnvel til veiða um komandi helgi. Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar starfa um 80 manns á loðnuvertíð og þar hefur verið fryst loðna úr norskum skipum allan sólarhringinn að undanförnu. Nær öll loðnan fer til manneldisvinnslu en ef eitthvað af aflanum færi til framleiðslu á mjöli og lýsi þá starfa um 20 manns í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Á hinu nýja netaverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað hafa verið miklar annir en þar starfa 7-8 manns að öllu jöfnu. Svo mikil verkefni hafa fylgt loðnuvertíðinni að Hampiðjan hefur sent viðbótarmannskap til starfa í Neskaupstað. 
 
Þegar tíðindamaður heimasíðunnar tók hafnarrúnt í gær var verið að landa loðnu úr norska skipinu Steinevik og við netagerðarbryggjuna lá Rav sem hafði orðið fyrir því að skemma loðnunótina mikið. Inni í fiskiðjuverinu var allt á fullu og fryst loðna hlóðst upp í frystigeymslunum. Allir sem voru á ferli voru að flýta sér því verkefnin voru næg. Loðnustemmningin var ótvírætt gengin í garð.

Góður afli í fótreipistrollið

Bergey VE kemur til hafnar í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE kemur til hafnar í Vestmannaeyjum í gær.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarinn Bergey VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í gær með fullfermi. Tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra í morgun en þá var skipið að veiðum í Háfadýpinu. „Aflinn sem við lönduðum í gær var blandaður; ufsi, þorskur og ýsa. Við vorum í Breiðamerkurdýpinu og fengum þar fínasta afla í fótreipistrollið. Síðan var komið við í Háfadýpinu og þar voru tekin tvö síðustu holin. Þar fékkst rígaþorskur fullur af gotu. Það er búin að vera endalaus austan bræla og það er verulega þreytandi en það hlýtur að koma að því að henni ljúki. Við urðum ekki varir við loðnu í Breiðamerkurdýpinu en það eru fréttir af henni austar,“ segir Jón.

 

 

 

Góður togaraafli

Vestmannaey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonVestmannaey VE að landa í Neskaupstað.
Ljósm. Smári Geirsson
Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði nánast fullfermi í Neskaupstað í gær og Gullver NS landar á Seyðisfirði í dag ríflega 120 tonnum. Það hefur almennt verið góður afli eystra að undanförnu.
 
Tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Egil Guðna Guðnason stýrimann á Vestmannaey í morgun en þá var skipið að veiðum í Breiðamerkurdýpinu. „í síðasta túr vorum við mest að veiða á Breiðdalsgrunni rétt sunnan við Norðmennina sem eru að veiða loðnuna. Það var mikið líf þarna og það virðist vera loðna víða. Ég fékk núna fréttir af loðnu úti í Hvalbakshalli og Hornfirðingarnir segja að það sé mikið af loðnu að sjá í Lónsbugtinni. Í síðasta túr vorum við mest með ýsu og þorsk en það virðist vera ýsa allsstaðar,“ segir Egill Guðni.
 
Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri á Gullver var ánægður með túrinn. „Þetta er stærsti túr hjá okkur í langan tíma en aflinn var mest þorskur og ýsa. Við vorum aðallega að veiða í Hvalbakshallinu, á Fætinum og svo fórum við suður í Berufjarðarál,“ segir Rúnar.
 
Gullver heldur á ný til veiða klukkan fjögur í dag.

Loðnuvinnsla á ný í fiskiðjuverinu

Fiskebas var fyrsti norski loðnubáturinn sem landaði í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonFiskebas var fyrsti norski loðnubáturinn sem landaði í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonSl. laugardag hófst loðnuvinnsla á ný í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eftir tæplega þriggja ára hlé. Á laugardagsmorgun landaði norski báturinn Fiskebas 310 tonnum og í kjölfar hans kom Slaatteröy með rúm 100 tonn. Í gærkvöldi kom síðan Sjöbris með 360 tonn. Ýmsum finnst það sérkennilegt að Norðmenn skuli veiða loðnuna skammt út af Austfjörðum á meðan íslensku loðnuskipin liggja í landi en skýringin er einfaldlega sú að kvótinn er lítill og beðið er eftir því að unnt verði að veiða Japansloðnu og að unnt verði að vinna hrogn úr loðnunni.
 
Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra gengur vinnslan í fiskiðjuverinu afar vel. „Þetta fer vel af stað og það er gott og gaman að finna loðnulyktina á ný. Hún er fersk og góð. Þetta er ágæt loðna en hún er ekki mjög stór og hrognafyllingin er enn ekki nægjanleg fyrir Japanina. Hér eru þrír Japanir sem fylgjast grannt með. Loðnunni fylgir ávallt ákveðin stemmning og það er gaman að upplifa hana á ný,“ segir Jón Gunnar.

Heimilaðar veiðar á 127 þúsund tonnum af loðnu

Börkur NK tekur loðnunótina. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK tekur loðnunótina. Ljósm. Smári GeirssonÍ gær var ný ráðgjöf um loðnuveiðar kynnt. Heimilt verður að veiða 127.300 tonn í stað 61 þúsund tonn samkvæmt fyrri ráðgjöf. Þetta þýðir að íslensk skip munu geta veitt tæplega 70 þúsund tonn en erlend skip fá að veiða rúmlega 57 þúsund tonn vegna fyrirliggjandi samninga. Gert er ráð fyrir að þetta þýði útflutningsverðmæti upp á um 18 milljarða króna. Ekki er áformað að Hafrannsóknastofnun mæli loðnu á ný nema sérstakt tilefni verði til þess.
 
Þessi nýja  kvótaúthlun þýðir að skip Síldarvinnslunnar, Beitir, Börkur og Bjarni Ólafsson munu fá að veiða samtals um 12.230 tonn. Auðvitað er því fagnað að loðnuveiðar geti hafist á ný eftir tveggja ára loðnuleysi en óneitanlega veldur það vonbrigðum að ekki skuli heimilaðar meiri veiðar.
 
Að sögn Gunnþórs B. Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar, verður nú með kaupendum farið yfir hvernig framleiðslunni verður háttað. Ljóst er að svonefnd Japansloðna og loðnuhrogn eru verðmætustu afurðirnar og því má gera ráð fyrir að mest áhersla verði lögð á þá framleiðslu. Það þýðir að veiðar hefjist vart fyrr en hrognafylling í loðnunni verður næg þegar líður á febrúar.

SÚN gefur líkan af Bjarti

Frá afhendingu líkansins af Bjarti NK. Gunnþór B. Ingvason, forstjóri  Síldarvinnslunnar, til vinstri og Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN til hægri. Ljósm. Smári GeirssonFrá afhendingu líkansins af Bjarti NK. Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, til vinstri og Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN til hægri.
Ljósm. Smári Geirsson
Síldarvinnslan átti sextugsafmæli árið 2017. Þá ákvað Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) að gefa fyrirtækinu líkan af skuttogaranum Bjarti í afmælisgjöf. Norðfirðingurinn Inga Höskuldsdóttir var fengin til að gera líkanið og var það afhent Síldarvinnslunni í gær. Það þótti mörgum vænt um Bjart og munu án efa njóta þess að skoða líkanið af honum sem er mjög vel gert.
 
Bjartur kom nýr til Neskaupstaðar 2. mars árið 1973. Þá hafði hann lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirsks skips fyrr og síðar. Bjartur var smíðaður í Niigata í Japan og tók siglingin þaðan til heimahafnar í Neskaupstað 49 sólarhringa en vegalengdin var um 13. 150 sjómílur. Á leiðinni kom skipið við í Honolulu á Hawaieyjum og Balboa við Panamaskurðinn.
 
Seint á árinu 1971 hafði stjórn Síldarvinnslunnar tekið ákvörðun um að láta smíða Bjart en þá hafði fengist nokkur reynsla af útgerð skuttogarans Barða sem fyrirtækið festi kaup á árið 1970 og var fyrsti togari landsmanna með hefðbundnum skuttogarabúnað. Í fyrstu var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi en eftir að smíði togarans hófst var ákveðið að gera þá báða út. Segja má að alvöru skuttogaravæðing Íslands hafi hafist árið 1971 þegar ákveðið var að láta smíða tíu skuttogara í Japan og var Bjartur eitt þeirra skipa.
 
Hinn 25. október árið 1972 var togara Síldarvinnslunnar hleypt af stokkunum í Niigata skipasmíðastöðinni og var honum þá gefið nafnið Bjartur. Síldarvinnslan fékk skipið síðan afhent 12. janúar 1973 og daginn eftir var lagt af stað í siglinguna til Íslands.
 
Bjartur var vel búið skip, stærð þess var 461 brúttótonn og aðalvélin 2000 hestöfl. Allar vélar og tækjabúnaður um borð var japanskrar gerðar að talstöðinni undanskilinni sem var dönsk.
 
Frá upphafi gekk útgerð Bjarts vel og ekki þótti ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Aðalvélin var endurnýjuð árið 1984 og árið 2004 fór skipið til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Þá var skipt um hluta spilbúnaðar, plötur í skutrennu og unnið að fleiri lagfæringum.
 
Bjartur var í eigu Síldarvinnslunnar í rúmlega 43 ár. Afli hans á þeim tíma var 142.730 tonn. Mestur var ársaflinn árið 1981 eða 4.568 tonn en alls fór ársaflinn sjö sinnum yfir 4.000 tonn. Minnstur var afli skipsins árið 2001, 1.953 tonn, en verulegan hluta þess árs var skipið í slipp á Akureyri vegna eldsvoða um borð. Miðað við núverandi fiskverð má ætla að aflaverðmæti Bjarts á þessu liðlega fjörutíu og þriggja ára tímabili hafi numið um 33 milljörðum króna. Þá ber að geta þess að Bjartur tók tuttugu og sex sinnum þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar.
 
Bjartur var seldur til Íran árið 2016 og var afhentur hinum írönsku kaupendum í ágústmánuði það ár.
 
Það var Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN, sem afhenti Síldarvinnslunni líkanið af Bjarti og veitti Gunnþór B. Ingvason , forstjóri Síldarvinnslunnar, því móttöku.

Síldarvinnslan stefnir á skráningu í Kauphöll

Athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Hlynur SveinssonAthafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Ljósm. Hlynur Sveinsson

Stjórn Síldarvinnslunnar hefur ákveðið að hefja undirbúning á skráningu hlutabréfa félagsins á aðalmarkað Nasdaq Iceland og hefur ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans til að hafa umsjón með verkefninu. Þá munu LEX lögmannsstofa og endurskoðendafyrirtækið EY sjá um gerð áreiðanleikakannana. Stjórn Síldarvinnslunnar telur félagið vel til þess fallið að vera skráð á markað hvað varðar stærð. Gangi allur undirbúningur eftir er stefnt að skráningu á fyrri helmingi þessa árs.
 
Síldarvinnslan er eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og er stærsti framleiðandi uppsjávarafurða á Íslandi. Fjárfestingar síðustu ára hafa miðað að því að styrkja félagið í bolfiskheimildum og fjölga þannig tekjustoðum félagsins. Félagið leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar, þar sem leitast er við að nota nýjustu tækni sem völ er á til veiða og vinnslu.
 
Markvisst hefur verið ráðist í fjárfestingar í skipum og vinnslum til þess að auka gæði, nýtingu og verðmæti sjávarafurða auk þess að draga úr kolefnisspori við veiðar og vinnslu.
 
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf segir:
 
„Þessi vegferð er farin með það í huga að efla félagið og opna Síldarvinnsluna fyrir fjárfestum. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og er Síldarvinnslan meðal stærstu og öflugustu sjávarútvegsfélaga landsins. Með skráningu félagsins á markað fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er framsækin atvinnugrein þar sem stöðugt er unnið að aukinni verðmætasköpun auðlindarinnar samhliða áskorunum í að draga úr kolefnisspori og umhverfisáhrifum greinarinnar.“
 
Síldarvinnslan hf. var stofnuð árið 1957 og eru höfuðstöðvar félagsins í Neskaupstað. Í dag er starfsemi Síldarvinnslunnar fjölþætt og hjá félaginu starfa um 360 manns.
 
Fyrir hönd Stjórnar Síldarvinnslunnar hf.
Gunnþór Ingvason
Forstjóri
Sími: 470-7000
 

 

Undirflokkar