Síld og kolmunni

Beitir NK kom með 700 tonn af kolmunna og 800 tonn af síld í gær. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom með 700 tonn af kolmunna og 800 tonn af síld í gær. Ljósm. Hákon ErnusonUppsjávarskipin Beitir NK og Bjarni Ólafsson AK komu til Neskaupstaðar í gær og í morgun með síldar- og kolmunnaafla. Börkur NK er síðan væntanlegur í dag.

Beitir NK kom með 700 tonn af kolmunna og 800 tonn af síld í gær. Vinnsla á síldinni hófst strax en nú er unnið í fiskiðjuverinu á tveimur vöktum í stað þriggja eins og þegar síldarvertíðin stóð sem hæst, enda ekki um samfellda vinnslu að ræða. Bjarni Ólafsson AK kom í morgun með um 870 tonn af kolmunna og segir Runólfur Runólfsson skipstjóri að heldur hafi dregið úr kolmunnaveiðinni og síld hafi flætt yfir kolmunnaslóðina.

Börkur NK er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag og er hann með um 940 tonn af síld og 430 tonn af kolmunna. Síldin fékkst í þremur holum norðantil í Norðfjarðardýpi og var töluvert að sjá þar.

Sumarblíða einkenndi túrinn

Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GerissonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GerissonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær að lokinni rúmlega þriggja vikna veiðiferð. Afli skipsins var 570 tonn upp úr sjó að verðmæti um 180 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við veiddum víða. Við vorum hér fyrir austan land, úti fyrir Norðurlandi, vestur í Víkurál og reyndar einnig á Skerjadýpinu. Mest vorum við fyrir vestan. Aflinn er blandaður en þó mest af karfa. Segja má að túrinn hafi gengið vel og veðurfarið hefur verið einstakt. Það sem einkenndi túrinn var sannkölluð sumarblíða. Ufsaleysi skyggði þó á. Við leituðum sífellt að ufsa án árangurs. Það virðist bara enginn ufsi vera á ferðinni nú um stundir,“ segir Bjarni Ólafur.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða næstkomandi fimmtudag og verður þá stefnan sett á Barentshafið. Gert er ráð fyrir að skipið veiði þar 600-700 tonn. Skipstjóri í Barentshafstúrnum verður Theodór Haraldsson.

Síldarvinnslan auglýsir eftir aðalbókara

Síldarvinnslan auglýsir eftir aðalbókaraAðalbókari hefur yfirumsjón með  fjárhags- og viðskiptabókhaldi félagsins og tryggir réttmæti fjárhagsupplýsinga. Jafnframt kemur aðalbókari að gerð ársreiknings, árshlutareikninga og annarra reglubundinna uppgjöra móðurfélagsins og samstæðunnar í samvinnu við fjármálastjóra. Aðalbókari tekur þátt í greiningu fjárhagsupplýsinga og undirbúningi upplýsinga fyrir stjórn og framkvæmdastjóra. 
 
Menntun og hæfni: 
• Háskólamenntun á sviði viðskiptafræði.  Meistaragráða (MACC) í reikningshaldi og endurskoðun er kostur 
• Reynsla af uppgjörsvinnu og ársreikningsgerð 
• Reynsla af færslu og umsjón bókhalds 
• Þekking á Navision, Excel og PowerBI 
• Góð íslensku- og enskukunnátta 
• Færni í mannlegum samskiptum og teymisvinnu 
 
Vinnustöð aðalbókara er á skrifstofu félagsins í Neskaupstað. Ef nýr aðalbókari býr ekki þegar á svæðinu mun Síldarvinnslan aðstoða við búferlaflutninga, þ.m.t. atvinnuleit maka.  
 
Umsækjendur eru beðnir um að sækja um starfið í gegnum Alfreð (www.alfred.is). Umsóknarfrestur er til og með 1. nóvember 2020. 
 
Nánari upplýsingar um starfið gefur Hákon Ernuson, starfsmannastjóri (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). 

Svona stór kolmunni hefur ekki sést í mörg ár

Svona stór kolmunni hefur ekki sést í mörg árBjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar sl. nótt með 1.835 tonn af kolmunna. Þetta er þriðji kolmunnafarmurinn sem skipið landar á skömmum tíma. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra um kolmunnaveiðarnar. „Þessi veiðiferð gekk afskaplega vel og við fengum aflann um 60 mílur beint út af Norðfirði. Það er stutt að fara og þetta er eins þægilegt og það getur verið. Aflinn fékkst í fimm holum. Stærsta holið var 560 tonn og það minnsta um 200 tonn. Það er bara dregið yfir daginn. Við köstum klukkan hálfsjö á morgnana og drögum í tíu og hálfan tíma. Það er látið reka yfir nóttina því þá gengur fiskurinn upp í sjó og dreifir sér. Hér er um að ræða stóran og fallegan kolmunna, fiskurinn er í reynd ótrúlega fallegur. Nú er að fjölga skipum á miðunum. Víkingur og Venus eru að hefja kolmunnaveiðar og Börkur og Beitir eru farnir að veiða kolmunna á milli þess sem þeir veiða síld. Það er afskaplega ánægjulegt að geta veitt kolmunnann í íslenskri lögsögu en síðast gátum við það í einhverjum mæli sumarið 2018 ef ég man rétt. Við munum ljúka við að landa í kvöld og þá verður strax haldið á ný út til áframhaldandi veiða,“ segir Runólfur.

Börkur NK kom í gær til Neskaupstaðar með 630 tonn af síld og 250 tonn af kolmunna. Hann hóf löndun strax og lokið var við að landa liðlega 1.000 tonnum af síld úr Beiti NK. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki sagði að þeir hefðu tekið eitt kolmunnahol með síldartrollinu og það hefði bara gengið vel. „Þetta er sérstaklega stór og myndarlegur kolmunni sem þarna fæst. Við höfum ekki séð svona stóran kolmunna í mörg ár. Við munum ljúka við að landa í kvöld og þá verður örugglega strax haldið til kolmunnaveiða á ný,“ segir Hjörvar.

Beitir NK hélt til veiða að lokinni löndun í gærkvöldi. Gert er ráð fyrir að hann veiði kolmunna fram á sunnudag en snúi sér þá að síldinni og komi inn til löndunar á mánudag.

Margt býr í djúpinu

Ankerið sem Beitir NK fékk í vörpuna. Ljósm. Tómas KárasonAnkerið sem Beitir NK fékk í vörpuna.
Ljósm. Tómas Kárason
Í lok september sl.  var Beitir NK að síldveiðum í sunnanverðu Seyðisfjarðardýpi og fékk þá forláta ankeri í vörpuna. Síldin er veidd með flotvörpu en á daginn heldur hún sig niður við botn og þá er varpan dregin eftir botninum við veiðarnar. Þegar varpan var tekin eftir eitt botnholið kom ankerið í ljós, en það er augljóslega gamalt.

Við lauslega athugun gæti ankerið verið frá tímabilinu frá miðri 19. öld til byrjunar 20. aldar þannig að ekki er ósennilegt að hér sé um ankeri frá skútuöld að ræða. Á ensku kölluðust ankeri af þessari gerð fisherman´s anchor eða admiralty anchor en í Ameríku var gjarnan talað um stock anchors. Hér á landi voru ankeri eins og þetta gjarnan nefnd bátsankeri eða stokkankeri, þó stokkankeri hafi hugsanlega frekar verið notað um ankeri  þar sem stokkurinn var úr tré. Ankeri af þessari gerð hafa verið til mjög lengi en það er ekki fyrr en á 19. öld sem farið er að steypa þau í heilu lagi og um leið verður þá hnakkinn bogadregnari. Einnig er hægt að benda á að lykkja er fest í efra auga ankersins en á eldri gerðum var venjulega járnhringur þar í gegn.

Fróðir menn hafa verið spurðir um hugsanlegan aldur ankersins og hafa þeir hallast að því að það sé frá seinni hluta 19. aldar.

 

 

Þeir sem voru á frívakt sváfu af sér veiðina

Börkur að dæla síld og mikið líf að sjá - fuglar, háhyrningar og hnúfubakar. Ljósm. Atli Rúnar EysteinssonBörkur að dæla síld og mikið líf að sjá - fuglar, háhyrningar og hnúfubakar. Ljósm. Atli Rúnar EysteinssonBörkur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gærmorgun eftir örstutta veiðiferð á síldarmiðin austur af landinu. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra og spurði nánar út í þessa stuttu veiðiferð. „Já, veiðiferðin tók einungis 12 tíma. Við fórum norður á Glettinganesflak og þar var mjög mikla síld að sjá og reyndar mikið líf. Við köstuðum og fórum rétt inn í lóðninguna og hífðum síðan. Við drógum í um það bil klukkutíma. Aflinn reyndist vera 872 tonn af stórri og fallegri síld og við héldum strax af stað í land með það. Þetta er óvenju stuttur túr og til marks um það þá sváfu þeir sem voru á frívakt af sér veiðina. Þeir vöknuðu ekki fyrr en við vorum komnir langleiðina í land. Auðvitað er þessi túr sérstakur en síldveiðin í haust hefur verið afskaplega þægileg. Síldin dvelur lengur hér upp við landið en síðustu ár og það er nóg af henni. Það er bæði þægilegt og ódýrt að gera út á veiðarnar við þessar aðstæður og fullyrða má að þetta sé með alþægilegustu vertíðum. Það er orðið lítið eftir af kvóta hjá okkur þannig að við sjáum orðið fyrir endann á vertíðinni,“ segir Hjörvar.

 

 

 

 

 

 

Góður afli á stuttum tíma

Gullver NS kemur til hafnar á Seyðisfirði í morgun. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til hafnar á Seyðisfirði í morgun.
Ljósm. Ómar Bogason
Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í morgun með rúmlega 120 tonn af góðum fiski eftir stutta veiðiferð. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Það er ekki hægt að segja annað en að hún hafi gengið vel. Túrinn tók einungis rúma fjóra sólarhringa höfn í höfn. Við byrjuðum á að reyna við ufsa og karfa í Berufjarðarál og Lónsdýpi en það gekk ekkert sérstaklega vel. Síðan snerum við okkur að þorskinum á Fætinum og í Hvalbakshallinu og þá fór að ganga betur og við fylltum skipið. Uppistaða aflans í veiðiferðinni er þorskur en einnig erum við með ufsa, ýsu og dálítinn karfa. Það hefur verið mikil traffík á þessum miðum að undanförnu. Ég held að megnið af togaraflotanum sé þarna og þá fer án efa brátt að draga úr veiði,“ segir Rúnar.
 
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða í kvöld

Átak í meðhöndlun á úrgangi

JonTraustiHSGJón Trausti Guðjónsson og Húnbogi Sólon Gunnþórsson við undirritun samnings. Ljósm. Áslaug Stefánsdóttir

Í framhaldi af vinnu við samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar og greiningu á umhverfisfótspori fyrirtækisins kom í ljós að frammistaða við flokkun úrgangs og endurvinnslu var ekki eins og best var á kosið. Í framhaldi af þessari niðurstöðu var ákveðið að efna til átaks í meðhöndlun á þeim úrgangi sem kemur frá starfsemi fyrirtækisins og koma þessum málum í lag til frambúðar. Starfsmenn Síldarvinnslunnar hafa sýnt þessum málum mikinn áhuga og hefur komið fram eindreginn vilji hjá þeim til að breyta vinnubrögðum varðandi flokkun úrangs og auka endurvinnsluhlutfall. Í framhaldi á þessu hafa Síldarvinnslan og Terra hf hafa gert með sér samstarfssamning um meðhöndlun á úrgangi sem fellur til hjá fyrirtækinu. Markmiðið samningsins er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með því að auka hlutfall þess úrgangs sem fer í endurvinnslu.

            Um nokkurt skeið hefur Síldarvinnlsan verið í samstarfi við Hampiðjuna um meðhöndlun á úrgangsveiðarfærum. Veiðarfærin eru þung og efnismikil og þegar þau eru tekin úr notkun er töluvert mál að losna við þau. Hampiðjan hefur tekið að sér að að vinna við frágang á veiðarfærum þegar hætt er að nota þau ásamt starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Við fráganginn eru einstakir hlutar veiðarfæranna flokkaðir eins og net og vírar sem síðan eru nýttir til endurvinnslu. Úr þessum úrgangi eru til dæmis gerðar mottur sem nýttar eru á byggingarsvæðum. Þess ber að geta að nú á tímum eru til dæmis framleiddar úlpur úr nyloni sem unnið er úr veiðarfæraúrgangi. Með endurnýtingunni má minnka það magn mikið sem þarf að farga.

Húnbogi Sólon Gunnþórsson hefur að undanförnu unnið að þessu verkefni hjá Síldarvinnslunni og ræddi heimasíðan stuttlega við hann. „Það eru mikil tækifæri hjá Síldarvinnslunni hvað varðar flokkun og endurnýtingu á úrgangi. Frumforsendan er að flokka sorp og alls kyns úrgang betur en gert hefur verið. Hjá fyrirtækinu var meðferð á sorpi og úrgangi ekki til fyrirmyndar og því var ákveðið að ganga til samstarfs við Terra til að bæta stöðuna. Terra býr yfir mikilli reynslu og þekkingu í þessum málaflokki og bindur Síldarvinnslan vonir við gott samstarf við fyrirtækið og árangur í samræmi við það. Við vitum að stór hluti af þeim úrgang sem við náum ekki að endurvinna er óhreint plast en við erum að leita leiða með Terra til að hreinsa það og  ná þannig að endurvinna það. Staðreyndin er sú að með því að auka endurvinnsluhlutfall úrgangs er unnt að lækka kostnað vegna hans verulega. Auðvitað tekur einhvern tíma að koma þessum málum í lag hjá fyrirtæki eins og Síldarvinnslunni en fyrir liggur að það skortir ekki áhuga starfsmanna fyrir umbótum í þessum efnum,“ segir Húnbogi Sólon.

Verkun jólasíldarinnar hafin

Jólasíldin niðurskorin og tilbúin til verkunarJólasíldin niðurskorin og tilbúin til verkunarFyrir marga starfsmenn og velunnara Síldarvinnslunnar er jólasíld fyrirtækisins ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Flestir telja að önnur síld komist ekki í hálfkvisti við Síldarvinnslusíldina. Starfsmenn fyrirtækisins hafa framleitt jólasíldina um áratuga skeið, fyrst undir stjórn Haraldar Jörgensens og síðan tók Jón Gunnar Sigurjónsson við af honum. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni og fyrst og fremst ætluð til að gleðja starfsmenn fyrirtækisins og þá sem næst því standa.

Að sjálfsögðu hvílir leynd yfir þeim aðferðum sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar en þó er unnt að segja frá framleiðsluferlinu í grófum dráttum. Ferlið hefst á því að gæðasíldarflök eru skorin í hæfilega bita og í ár var það gert um miðjan september. Þegar skurðinum er lokið eru bitarnir settir í kör með saltpækli og þar eru þeir hafðir í um það bil einn sólarhring. Þá er síldin tekin úr körunum og sett í tunnur þar sem hún liggur í ediki í ákveðinn tíma. Loks er síldin látin liggja í sykurlegi og er magn sykursins algert lykilatriði varðandi það hvernig til tekst. Lokaþáttur framleiðsluferilsins felst í því að síldin er tekin úr sykurleginum og sett í fötur með lauk og tilheyrandi kryddi. Þegar síldin hefur legið í fötunum í nokkra daga er hún tilbúin til neyslu og þá er hátíð í bæ hjá mörgum.

Allur þessi framleiðsluferill byggir á þekkingu og mikilli næmni. Tímasetningar skipta höfuðmáli og grundvallaratriði er að síldin fái að liggja í hverjum legi í hárréttan tíma svo hið rétta bragð náist. Þegar kemur að lokastigum framleiðslunnar er kallað á útvalda menn til að bragða á síldinni og leggja dóm á hvernig til hefur tekist. Stundum þarf að gera viðbótarráðstafanir til að ná fram þeim miklu gæðum sem gerð er krafa um.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, segir að sér lítist vel á síldina í ár. „Þetta er alger úrvalssíld og eins og venjulega er hún tekin úr því skipi sem kemur með besta hráefnið að landi. Ég held að fólk geti farið að hlakka til jólasíldarinnar í ár. Síldin er fyrst og síðast framleidd fyrir starfsfólk fyrirtækisns og ég er viss um að enginn á eftir að verða fyrir vonbrigðum með hana,“ segir Jón Gunnar.

Nýi Börkur kominn til Skagen

Nýi Börkur dreginn inn á ytri höfnina í Skagen. Ljósm. Stefán P. HaukssonNýi Börkur dreginn inn á ytri höfnina í Skagen.
Ljósm. Stefán P. Hauksson
Eins og áður hefur komið fram var nýi Börkur dreginn frá Gdynia í Póllandi til Skagen í Danmörku og þangað kom hann síðdegis í gær. Það gekk vel að draga skipið enda blíðuveður allan tímann. Koma skipsins til Skagen vakti töluverða athugli og safnaðist fólk saman til að berja hið glæsilega skip augum. Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri eru í Skagen og fylgjast vandlega með öllum framkvæmdum í skipinu. Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann í dag og spurði frétta. „Þegar Börkur kom í gær var hann dreginn að hafnarkanti og bíður þar. Ráðgert er að systurskipið Vilhelm Þorsteinsson EA fari í dokk í dag og þá verður Börkur færður að hafnarkanti við skipasmíðastöðina. Þá verður byrjað að vinna í skipinu og ég geri ráð fyrir að um það bil 100 manns fari þá til starfa um borð. Það er verið að keyra hingað alls konar búnaði sem fer í skipið og má þar til dæmis nefna allar vindur. Þegar framkvæmdir um borð í skipinu verða komnar á fullt má gera ráð fyrir að 170-180 manns verði þar að störfum. Hér í skipasmíðastöð Karstensens er gott skipulag á öllu. Samskipti eru öll til fyrirmyndar og allir virðast fullkomlega kunna sitt fag. Flestir starfsmennirnir eru danskir en síðan eru hér einnig iðnaðarmenn af öðru þjóðerni, flestir pólskir. Það er lögð áhersla á það við séum gagnrýnir á öll verk því það hjálpi fyrirtækinu að gera enn betri skip. Við höfum fylgst með vinnunni um borð í Vilhelm Þorsteinssyni undanfarna daga og hún hefur gengið afar vel. Reynslan af störfunum um borð í Vilhelm mun koma okkur til góða því skipin eru eins. Skipasmíðastöðin gefur upp að vinnan um borð í skipinu í Skagen taki 5 til 6 mánuði og því megi gera ráð fyrir að henni ljúki í aprílmánuði næstkomandi. Það fer vel um okkur Jóhann Pétur hér og tíminn er fljótur að líða enda erum við að fást við virkilega spennandi verkefni,“ segir Karl Jóhann.

Nýi Börkur kominn til hafnar í Skagen. Ljósm. Karl Jóhann Birgisson Nýi Börkur kominn til hafnar í Skagen.
Ljósm. Karl Jóhann Birgisson

Bjarni Ólafsson með góðan kolmunnafarm

Bjarni Ólafsson kemur til löndunar í NeskaupstaðBjarni Ólafsson kemur til löndunar í NeskaupstaðBjarni Ólafsson AK hefur að undanförnu verið að kolmunnaveiðum austur af landinu og kom hann sl. nótt til Neskaupstaðar með 1.770 tonn. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra um kolmunnaveiðarnar. „Þetta hefur gengið tiltölulega vel. Um er að ræða stóran kolmunna, en í þessum túr var aflinn síldarblandaður. Við fengum töluvert af síld í einu holinu. Veiðarnar fóru fram út af Héraðsflóa og í Seyðisfjarðardýpi alveg út við kant. Það voru 56 mílur í Norðfjarðarhorn þegar við hættum veiðum.  Aflinn fékkst í sjö holum. Stærsta holið gaf um 300 tonn og hið minnsta um 200. Kolmunninn sést varla á mæli, hann sést einungis sem afar dauft ryk. Einungis er veitt á daginn en á nóttunni dreifir fiskurinn sér og fer upp í sjó og þá þýðir ekkert að eiga við hann. Auðvitað er mikilvægt að kolmunni veiðist í lögsögunni og það er þægilegt að eiga við þetta í blíðuveðri eins og verið hefur,“ segir Runólfur.
 
Lokið verður við að landa úr Bjarna Ólafssyni síðdegis í dag.

Nýting gagna við ákvarðanatöku

Huginn Ragnarsson  Ljósm. Smári GeirssonHuginn Ragnarsson. Ljósm. Smári GeirssonSíðustu mánuði hefur Huginn Ragnarsson starfað hjá Síldarvinnslunni við að skoða hvernig nýta má ýmis fyrirliggjandi gögn og upplýsingar við ákvarðanatöku innan fyrirtækisins. Huginn er Norðfirðingur og hefur undanfarin ár starfað við viðskiptagreiningar hjá icelandair. Hann er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er að ljúka meistaranámi í Finance and Strategic Management í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.
 
Þegar Huginn er spurður um verkefni sitt hjá Síldarvinnslunni leggur hann áherslu á að hans hlutverk sé að tryggja nýtingu fyrirliggjandi upplýsinga við ákvarðanatöku. „Síldarvinnslan er með mikið magn allskonar upplýsinga sem ná til allra þátta í rekstrinum. Sem dæmi söfnuðu vigtarnar og pökkunarvélarnir í fiskiðjuverinu í Neskaupstað meira en 1,5 milljón röðum af gögnum í seinasta mánuði. Hingað til hefur ekki verið unnt að fella allar upplýsingarnar saman og nýta þær við ákvarðanatöku en mitt hlutverk er að búa til kerfi sem duga til þess. Á seinustu árum hefur framþróun í greiningarforritum gert þetta mögulegt og lausnirnar eru einfaldari og ódýrari en áður. Með aðstoð starfsmanna Síldarvinnslunnar er farið yfir öll gögn sem safnað er innan fyrirtækisins og gerðar úr þeim sjálfvirkar skýrslur og greiningar. Með þessu sparast mikill tími sem  annars færi í upplýsingasöfnun til dæmis vegna uppgjöra, veiðiferða skipa, sölu afurða og fyrirliggjandi birgða. Þá gera gögnin kleift að skoða nýtingu véla, mannauðs og fleiri þátta. Með því að nota þær upplýsingar sem hægt er að safna saman með þessum hætti er unnt að haga rekstrinum eins og skynsamlegast er hverju sinni,“ segir Huginn. 
 
 
 

Ísfisktogararnir gera það gott

Vestmannaey VE að veiðum fyrir austan land. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonVestmannaey VE að veiðum fyrir austan land.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Gullver NS er að landa á Seyðisfirði í dag. Aflinn er 110 tonn og er uppistaðan þorskur. Að sögn Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra er um að ræða þokkalegan fisk. „Við byrjuðum og enduðum túrinn á Tangaflakinu, er þar var heldur lítið að hafa. Megnið af aflanum fékkst á Gerpisflaki og reyndar fórum við einnig í Litladýpið. Mér finnst vera heldur minna af fiski hérna fyrir austan en verið hefur síðustu ár. Ef einhvers staðar finnst fiskur er þar óðar kominn fjöldi skipa. Aftur á móti virðist vera mikið af síld á miðunum hérna og hún er hreint allsstaðar,“ segir Rúnar.

Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða annað kvöld.

Bergey VE landaði fullfermi í Neskaupstað í gær og var aflinn mest þorskur. Heimasíðan ræddi í morgun við Ragnar Waage Pálmason, skipstjóra í veiðiferðinni, þar sem skipið var að veiðum í Norðfjarðardýpi í blíðuveðri. „Það gekk vel að veiða í síðasta túr en aflann fengum við mest í Litladýpi og á Grunnfætinum. Það er áberandi hve mikið er af síld fyrir austan landið,“ segir Ragnar.

Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Aflinn var þorskur, ufsi og karfi. Egill Guðni Guðnason, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, segir að túrinn hafi verið nokkuð sérstakur. „Við hófum veiðar fyrir austan eftir löndun í Neskaupstað og fengum þorsk og örlítið af ýsu á Skrúðsgrunni og Fætinum. Síðan kom upp grunur um covid-smit um borð og þá var haldið til Eyja en þangað var 30 tíma sigling. Þegar til Eyja var komið var strax tekið sýni úr viðkomandi og flaug Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri með það á Selfoss þar sem Arnar Richardsson rekstrarstjóri útgerðarinnar tók við því og kom því til Reykjavíkur. Þetta þýddi að niðurstaða var fengin eftir um það bil 8 tíma og reyndist ekki um covid-smit að ræða. Strax og niðurstaðan lá fyrir var haldið til veiða á ný og lögð áhersla á ufsa- og karfaveiðar í Háfadýpinu og skipið fyllt,“ segir Egill Guðni.

Nýi Börkur dreginn til Skagen

Nýi Börkur NK í höfninni í Gdynia í gær áður en lagt var af stað til SkagenNýi Börkur NK í höfninni í Gdynia í gær áður en lagt var af stað til SkagenNýi Börkur, sem hefur verið í smíðum hjá skipsmíðastöð Karstensens í Gdynia í Póllandi, er nú á leið til Skagen í Danmörku þar sem framkvæmdum við skipið verður haldið áfram. Dráttarbátur dregur skipið til Skagen og var lagt af stað með það síðdegis í gær og er áætluð koma á áfangastað að morgni fimmtudagsins 8. október.

Frá því að skipið var sjósett í Gdynia hafa framkvæmdir gengið vel. Nú er yfirbygging komin á skipið og sést vel hvernig það mun líta út. Karl Jóhann Birgisson er í Skagen og mun fylgjast þar með áframhaldandi smíði á Berki. Í Skagen er verið að vinna í systurskipi Barkar, Vilhelm Þorsteinssyni EA og fylgist Karl Jóhann með öllum framkvæmdum þar um borð þar til Börkur kemur. Að hans sögn ganga öll verk um borð í Vilhelm ágætlega.

 

 

Áfram góð síldveiði austur af landinu

Beitir hol sept 2020 HFOGott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 1.300 tonn af síld. Löndun úr honum hófst strax og löndun úr Berki NK lauk en Börkur var með 860 tonn. Hákon EA landaði einnig frystri síld í Neskaupstað um helgina og grænlenska skipið Polar Amaroq hélt með frysta síld til Reykjavíkur þar sem henni verður landað. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við fengum þetta utarlega í Norðfjarðardýpinu, alveg út við kantbrún. Þarna var síldin stærri og betri en síldin sem fengist hefur nær landi. Þessi síld er að meðaltali um 400 grömm og alveg glimrandi hráefni. Það var mikið að sjá af síld þarna á meðan við vorum að veiðum. Hún heldur sig niðri við botn yfir daginn en á næturna kemur hún upp. Það er yfirleitt mikil ferð á henni,“ segir Tómas.

 

 

Ekkert COVID um borð í Vestmannaey

Í vikunni kom upp grunur um COVID smit um borð í togaranum Vestmannaey. Vestmannaey landaði í Neskaupstað síðastliðinn þriðjudag. Eftir að skipið hélt til sjós kom upp grunur um COVID smit þegar einn í áhöfninni veiktist og sýndi einkenni sem svipa til COVID. Skipinu var tafarlaust siglt til lands og áhöfnin sett í sóttkví og sýni tekin. 

                Í kvöld fékkst niðurstaða sýnatökunnar og enginn í áhöfninni er smitaður af COVID og mun skipið halda aftur til veiða á morgun.

 

Vestmanney Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaey ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Samstarf við makrílveiðar

Börkur NK að dæla makrílafla í Beiti NK á miðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að dæla makrílafla í Beiti NK á miðunum.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Nú er nýlega lokið óvenjulegri makrílvertíð sé miðað við síðustu ár. Makríllinn breytti göngum sínum og gekk í afar takmörkuðum mæli upp á landgrunnið og vestur eftir allt inn í grænlenska lögsögu eins og hann hefur gert að undanförnu. Þess í stað hélt hann sig lengst austur af landinu og reyndar mest á alþjóðlegu hafsvæði sem þekkt er undir nafninu Síldarsmugan. Makrílskipin þurftu því að sækja aflann langt og meira var haft fyrir veiðunum en á undanförnum árum.
 
Til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum var myndað einskonar veiðifélag þeirra skipa sem lönduðu makríl til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Skipin sem um ræðir voru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Samstarf skipanna byggðist á því að hverju sinni var afla þeirra allra dælt um borð í eitt skip sem síðan flutti hann til vinnslu í landi. Skiptust skipin á um að taka aflann um borð. Álitið var að þetta væri skynsamlegt fyrirkomulag þegar jafn langt væri að sækja aflann og raun bar vitni. Hér er um nýjung að ræða og því kann að vera forvitnilegt að heyra viðhorf skipstjóra á umræddum skipum til samstarfsins.
 
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði að samstarf skipanna á makrílvertíðinni hefði gengið afar vel að sínu mati: „Við þær aðstæður sem ríktu á nýliðinni makrílvertíð var samstarf skipanna góð ráðstöfun og ég held svei mér þá að allir sem tóku þátt í því séu sáttir. Staðreyndin er sú að þetta samstarf var hagkvæmt fyrir alla, bæði veiðiskip og vinnslu. Auðvitað voru það ákveðnar aðstæður sem knúðu á um samstarfið. Þar má nefna að miðin voru fjarlæg og siglingin þangað og þaðan tók  sólarhring eða meira. Veiðin var stundum ekki alltof mikil þannig að skynsamlegt var að setja allan afla skipanna um borð í eitt þeirra sem síðan flutti hæfilegt magn að landi fyrir vinnsluna. Þetta kom í veg fyrir að skipin væru að sigla með smáslatta í land og skipulagið kom einnig í veg fyrir löndunarbið, en öllu máli skiptir að hráefnið sé sem ferskast þegar það er tekið til vinnslu. Það var regla á veiðunum og ákveðin stýring til að skipulagið gengi sem best upp. Þegar síðan brast á með mikilli veiði þá voru skipin send með þann afla sem ekki var unnt að vinna í Neskaupstað til Færeyja eða Noregs. Þannig var reynt að tryggja að kvótinn sem til ráðstöfunar var næðist. Þetta gekk einnig ágætlega að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að þetta samstarf hafi verið mjög athyglisvert og lærdómsríkt og ég tel að við ákveðnar aðstæður mætti einnig reyna það við síldveiðar og jafnvel loðnuveiðar þegar þær hefjast á ný,“ segir Tómas.
 
Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni. telur að það hafi verið mjög skynsamlegt að efna til veiðisamstarfsins á nýliðinni makrílvertíð. „Ég tel að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun og ég held að það sé skoðun allrar áhafnarinnar. Aðstæðurnar á makrílvertíðinni kölluðu í reynd á breytt fyrirkomulag vegna þess hve langt var að sækja makrílinn og hve mikilvægt var að koma hráefninu nýju og fersku til vinnslu. Þegar síðan mikið veiddist og fiskiðjuverið í Neskaupstað hafði ekki undan voru skipin látin landa erlendis. Engu máli skipti þó eitthvert skipanna í samstarfinu fengi hærra verð fyrir aflann í Noregi eða Færeyjum því áhafnir allra skipanna nutu þess jafnt. Veiðinni var annars stýrt þannig að sem mestur afli færi í gegnum fiskiðjuverið í Neskaupstað og hráefnið væri sem best þegar það kæmi þar til vinnslu. Niðurstaða mín er sú að þetta samstarf hafi tekist afar vel og almenn ánægja ríki með það,“ segir Runólfur.
 
Mestu máli skiptir að aflinn komi sem ferskastur til vinnslu. Ljósm. Hákon ErnusonMestu máli skiptir að aflinn komi sem ferskastur til vinnslu. Ljósm. Hákon ErnusonGuðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Margréti, tekur undir með þeim Tómasi og Runólfi. „Mér fannst þetta veiðisamstarf koma afar vel út og mér fannst gaman að taka þátt í því. Ég er sannfærður um að þetta á eftir að endurtaka, ég tala nú ekki um ef aðstæður verða svipaðar og voru á nýliðinni makrílvertíð. Með samstarfinu er verið að hámarka gæði aflans og tryggja vinnslunni stöðugt hráefni og það er einfaldlega það sem skiptir mestu máli. Ég heyri ekki betur en áhöfnin hafi verið afar kát með samstarfið – það kom vel út bæði fyrir skipin og vinnsluna og ég gæti þess vegna trúað því að þetta sé komið til að vera,“ segir Guðmundur. 
 
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, er sammála skipstjórunum á hinum skipunum í samstarfinu. „Samstarfið tókst afskaplega vel að mínu mati. Það var jákvætt bæði fyrir áhafnir skipanna og fyrirtækið í heild sinni. Komið var með góðan og ferskan afla að landi, vinnslunni haldið gangandi og með samstarfinu var unnt að veiða meira en ella. Fullvíst er að við hefðum aldrei náð þeim afla sem við náðum án samstarfsins. Í ljósi þessa er það ekki skrítið að áhöfnin á Berki hafi verið mjög sátt við þetta fyrirkomulag eftir því sem ég veit best. Það kæmi mér ekki á óvart að samstarf af þessu tagi verði endurtekið þegar uppi eru svipaðar aðstæður og voru á makrílvertíðinni sem var að ljúka,“ segir Hálfdan.
 
Miklum meirihluta afla skipanna í samstarfinu, eða tæplega 29 þúsund tonnum, var landað í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og þar gekk vinnsla vel. Alls lönduðu skipin níu sinnum erlendis en það var fyrst og fremst gert til að ná þeim kvóta sem var til ráðstöfunar. Samtals lönduðu skipin fjögur 41 sinni á vertíðinni og þar af voru 39 landanir hluti af umræddu veiðisamstarfi. Alls veiddu skipin 38.500 tonn af makríl á vertíðinni auk 4.600 tonna af síld sem fékkst sem meðafli. Heildarerðmæti aflans var um þrír milljarðar króna.
 

Enginn á Gullver með COVID

Gullver sept 2017 OB

Gullver NS heldur aftur til veiða í kvöld. Ljósm: Ómar Bogason

Eins og komið hefur fram í fréttum kom togarinn Gullver NS til heimahafnar á Seyðisfirði í gærkvöldi vegna þess að fimm úr áhöfninni fundu fyrir slappleika og í öryggisskyni þótti nauðsynlegt að taka sýni og kanna hvort þeir væru smitaðir af kórónuveirunni.
 
Snemma í morgun voru tekin sýni úr fimmmenningunum og héldu þeir síðan í einangrun á hóteli í bænum. Aðrir í áhöfninni fóru í sóttkví.
 
Nú er niðurstaða fengin og kom í ljós að enginn fimmmenninganna er smitaður af COVID og mun Gullver halda á ný til veiða í kvöld.

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf.

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf. Verður haldinn miðvikudaginn 14. október 2020 á skrifstofu félagsins að Hafnarbraut 6, Neskaupstað, kl. 14:00.

Dagskrá:

1. Fyrirtaka á þeim dagskrárliðum sem frestað var á aðalfundi félagsins þann 18. ágúst sl.

2. Önnur mál, löglega fram borin

 

Stjórn Síldarvinnslunnar hf.

Ráðgjöf um veiðar á kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld

Beitir NK á síldveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK á síldveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonAlþóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur sent frá sér ráðgjöf varðandi veiðar á kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld fyrir árið 2021. Þessi ráðgjöf hefur áhrif á veiðar Íslendinga, sérstaklega hvað varðar kolmunna og norsk-íslenska síld, og skiptir máli hvað varðar afkomu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Ráðgjöfin er svofelld:

Kolmunni: Lagt er til að veiði á kolmunna verði 929.292 tonn. Ráðgjöfin fyrir árið 2020 nam 1.161.615 tonnum.

Makríll: Lagt er til að makrílveiðin verði 852.284 tonn. Ráðgjöfin fyrir árið 2020 nam 922.064 tonnum.

Norsk-íslensk síld: Lagt er til að síldveiðin 651.033 tonn. Ráðgjöfin fyrir árið 2020 nam 525.594 tonnum.

Eins og hér kemur fram er lagt til að veiðin verði minni á kolmunna og makríl en hún verði aukin á norsk-íslenskri síld.

Undirflokkar