Brunaæfing um borð í Blængi NK

Blængsmenn fengu þjálfun í meðferð slökkvitækja. Ljósm. Guðjón B. MagnússonBlængsmenn fengu þjálfun í meðferð slökkvitækja.
Ljósm. Guðjón B. Magnússon
Sl. miðvikudag fór fram brunaæfing um borð í frystitogaranum Blængi NK sem lá í Norðfjarðarhöfn. Æfingunni var stýrt af Slökkviliði Fjarðabyggðar og gekk vel í alla staði. Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri Síldarvinnslunnar, segir að æfing eins og þessi sé afar mikilvæg. Í henni séu æfð viðbrögð við eldi sem gæti komið upp um borð. Í því sambandi er lögð áhersla á að áhöfnin kynni sér staðsetningu á öllum öryggisbúnaði og æfi notkun á honum. Þá eru menn einnig þjálfaðir í reykköfun. Telur Guðjón að æfing eins og þessi auki mjög öryggi áhafnarinnar og segir hann að stefnt sé að því að hafa sambærilegar æfingar með áhöfnum allra skipa Síldarvinnslunnar. 
 
Guðmundur Sigfússon slökkviliðsstjóri segir að slökkviliðið sé afar ánægt með að efnt sé til brunaæfinga með áhöfnum skipa. „Við leggjum áherslu á forvarnir og hluti af því er að koma að æfingu eins og þessari. Slökkviliðið hóf samstarf við Síldarvinnsluna um brunaæfingar um borð í skipum árið 2014 en við teljum þörf á að efna til svona æfinga árlega. Sjómennirnir fara á fimm ára fresti í Slysavarnaskóla sjómanna og læra þar ákveðin grundvallaratriði en það er ekki síður mikilvægt að þeir hljóti þjálfun um borð í því skipi sem þeir eru á. Þeir þurfa að vita allt um staðsetningu öryggistækja um borð í eigin skipi, flóttaleiðir og fleiri öryggisatriði. Þá er ávallt farið yfir öryggisbúnaðinn um borð þegar efnt er til brunanámskeiða eins og þessa og þá er ekki óalgengt að í ljós komi eitthvað sem betur má fara eða þörf er á að lagfæra. Almennt má segja að námskeið af þessu tagi auki mjög öryggi áhafnar enda eru brunar um borð í skipum afar erfiðir viðfangs og hættulegir mönnum. Þekking á öryggisbúnaði skips gerir það að verkum að hver einstaklingur er líklegri til að gefa honum gaum reglulega og bregðast við ef eitthvað er athugavert við ástand hans,“ sagði Guðmundur slökkviliðsstjóri.
 
Frá brunaæfingunni um borð í Blængi NK. Ljósmynd: Guðjón B. MagnússonFrá brunaæfingunni um borð í Blængi NK.
Ljósmynd: Guðjón B. Magnússon
 

150 milljónir til heilbrigðismála á sex árum

Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartæki sem Síldarvinnslan gaf sjúkrahúsinu 2016. Ljósm. Hákon ErnusonJón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartæki
sem Síldarvinnslan gaf sjúkrahúsinu 2016.
Ljósm. Hákon Ernuson
Í tilefni af 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar 11. desember sl. var tilkynnt um ýmsa samfélagsstyrki fyrirtækisins. Á meðal þeirra var sjö milljón króna styrkur til Umdæmissjúkrahúss Austurlands (Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað) til kaupa á nýju sérhæfðu hjartaómskoðunartæki. Afhending þessa styrks leiddi til þess að vert þótti að athuga hve Síldarvinnslan ásamt Samvinnufélagi útgerðarmanna og Olíusamlagi útvegsmanna hefði styrkt sjúkrahúsið og heilbrigðismálefni mikið á sl. sex árum. Til skýringar skal þess getið að Samvinnufélagið og Olíusamlagið eiga hluti í Síldarvinnslunni og nýta drjúgan hluta af arði hlutabréfanna til að styrkja samfélagsleg málefni.
 
Á sl. sex árum hafa umrædd fyrirtæki annars vegar styrkt sjúkrahúsið til tækjakaupa og hins vegar lagt fram fjármuni til endurbóta á Norðfjarðarflugvelli en flugvöllurinn skiptir afar miklu máli fyrir sjúkraflug og er fyrst og fremst nýttur til slíks flugs. Ekkert fer á milli mála að umræddir styrkir hafa stuðlað að stórauknu öryggi Austfirðinga og gert sjúkrahúsið í alla staði hæfara til að sinna hinu mikilvæga hlutverki sínu. Hvað varðar framlög til tækjakaupa hafa fyrirtækin haft náið samráð við stjórnendur sjúkrahússins og Hollvinasamtök þess.
 
Framlög Síldarvinnslunnar og Samvinnufélagsins til endurbóta á flugvellinum voru samtals 50 milljónir króna en ríkið og sveitarfélagið Fjarðabyggð lögðu einnig af mörkum fjármuni til framkvæmdarinnar. Til viðbótar stóð Samvinnufélag útgerðarmanna, sveitarfélagið og verktakafyrirtækið Héraðsverk straum af kostnaði við gerð flughlaðsins. Framkvæmdum við völlinn lauk sl. sumar og var hann endurvígður í ágústmánuði. Til viðbótar kostaði Samvinnufélagið lýsingu á völlinn á árinu 2012. Fyrir utan framlag til endurbóta á flugvellinum hefur Síldarvinnslan styrkt sjúkrahúsið um 45 milljónir króna til tækjakaupa á sl. sex árum.
 
Árlega hefur Samvinnufélagið styrkt sjúkrahúsið til kaupa á mikilvægum tækjum og búnaði og eins hefur Olíusamlagið styrkt það til endurnýjunar á öllum sjúkrarúmum. Samtals hefur Samvinnufélagið veitt styrki til kaupa á tækjum að upphæð 45 milljónir króna á sl. sex árum og Olíusamlagið hefur veitt slíka styrki að upphæð 12,3 milljónir.
 
Þegar allt er saman tekið kemur í ljós að þessi þrjú fyrirtæki hafa veitt styrki til heilbrigðismála að upphæð rúmlega 150 milljónir króna á umræddu sex ára tímabili. Heimasíðan sneri sér til Guðjóns Haukssonar forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands og spurði hvaða máli þessir styrkir skiptu fyrir stofnunina. Guðjón sagði að sá stuðningur sem Heilbrigðisstofnun Austurlands hefði notið frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum væri algjörlega ómetanlegur og þar hefðu ofangreind fyrirtæki verið í fararbroddi. „Það er staðreynd að ef þessara styrkja nyti ekki við væri heilbrigðisþjónusta á Austurlandi á öðrum og verri stað en hún er í dag. Það er líka mikilvægt fyrir okkur sem vinnum innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands að finna hversu samfélagið stendur þétt við bakið á okkur, það hvetur okkur áfram í allri okkar vinnu. Það er auðvitað alltaf von okkar að þær fjárveitingar sem við fáum til reksturs heilbrigðisþjónustunnar dugi til tækjakaupa en hingað til hefur sú einfaldlega ekki verið raunin. Í því ljósi hefur sá stuðningur sem við höfum notið gert okkur kleift að sinna þjónustu sem við að öðrum kosti hefðum ekki getað sinnt,“ sagði Guðjón Hauksson.
 

2017 var þungt ár í bolfiskvinnslunni

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju framan við stöðina. Ljósm. Ómar BogasonFiskvinnslustöðin á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju
framan við stöðina. Ljósm. Ómar Bogason
Á árinu 2017 tók fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði á móti 2.625 tonnum af bolfiski til vinnslu, þar af var þorskur um 1.980 tonn og ufsi 491 tonn. Er þetta mun minna hráefni en unnið var á árinu 2016 en þá var tekið á móti um 3.500 tonnum. Ein helsta ástæða minnkandi vinnslu á milli áranna er sjómannaverkfallið í upphafi sl. árs. Ómar Bogason framleiðslustjóri fiskvinnslustöðvarinnar segir að árið 2017 hafi verið þungt í bolfiskvinnslunni. „Verkfallið í upphafi árs hafði sín áhrif og leiddi til þess að ekkert var unnið fyrstu tvo mánuði ársins. Hin sterka króna hafði neikvæð áhrif á afkomuna og eins lækkaði afurðaverð á okkar helstu mörkuðum, einkum varð verðlækkunin mikil á ufsaafurðum. Þá hefur launakostnaður aukist til muna. Á árinu lauk framkvæmdum við að klæða fiskvinnslustöðina að utan og nú er húsið orðið til fyrirmyndar sem okkur finnst afar jákvætt,“ sagði Ómar.
 
Aflinn sem kemur til vinnslu í fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði kemur frá togaranum Gullver NS og að hluta til frá Vestmannaeyjatogurunum Vestmannaey og Bergey. Gullver fiskaði 4.350 tonn á árinu 2017 og er það mesti afli sem skipið hefur borið að landi á einu ári. Afli Gullvers var 300 tonnum meiri en á árinu 2016 en aflaverðmætið hins vegur 15 milljón krónum minna.

Skipin til veiða á nýju ári

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS er fyrsta skipið í Síldarvinnsluflotanum sem heldur til veiða á árinu 2018. Gullver lét úr höfn á Seyðisfirði í dag kl 14.00. Frystitogarinn Blængur NK mun halda til veiða klukkan 10.00 í fyrramálið en Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey og Bergey munu leysa festar seinni partinn á fimmtudag.
 
Ekki liggur fyrir hvenær uppsjávarskipin halda til veiða. Gert var ráð fyrir að þau héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í byrjun ársins en þar sem ekki hefur tekist að semja um gagnkvæmar veiðar í lögsögum Íslands og Færeyja ríkir óvissa um það. Þá ber að geta þess að loðnuvertíð er á næsta leiti og eru menn þegar farnir að hyggja að henni. 

Athyglisverður fyrirlestur

Metoo

Fyrilestur Magnúsar Orra vakti athygli. Ljósm: Hákon Ernuson

Síldarvinnslan bauð upp á opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo í Egilsbúð í Neskaupstað í gær. Fyrirlesari var Magnús Orri Schram stjórnarmaður í UN Women á Íslandi.

                Fyrirlesturinn var athyglisverður og fjallaði Magnús Orri um ábyrgð karlmanna í breyttum heimi ekki síst í ljósi nýrra viðhorfa sem tengjast hinni svonefndu #metoo byltingu. Í máli hans kom fram hvatning til karlmanna um að endurskoða viðhorf sín og hegðun í garð kvenna. Það væri svo sannarlega þörf á að hlusta á hinar fjölmörgu raddir kvenna sem upplýstu um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni. Á fyrirlestrinum lásu þær Ingibjörg Þórðardóttir, Birta Sæmundsdóttir og Sólveig Helga Björgúlfsdóttir frásagnir kvenna sem orðið hafa fyrir áreitni. Um 70 manns sóttu fyrirlesturinn og höfðu margir orð á því að þarna væri um þarft og gott framtak að ræða.

                Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar kynnti fyrirlesarann í upphafi og hafði orð á því að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan þyrfti að taka fullt mark á þeirri umræðu sem byrjað hefði fyrir alvöru með #metoo byltingunni. Sagði hann að nauðsynlegt væri að hvert einasta fyrirtæki og hver einasta stofnun hugsaði sinn gang og gripi til aðgerða til að hindra að kynbundin mismunun og áreitni ætti sér stað. Þá tilkynnti hann að framvegis myndu hin hefðbundnu dagatöl með fáklæddum eða berum konum ekki fara upp á vegg á vinnustöðum og í skipum Síldarvinnslunnar. Þegar sendingar af slíkum dagatölum bærust fyrirtækinu í upphafi nýs árs færu þau öll með tölu beint í ruslið.

 

Vel heppnað jólaball

26178639 10213106762650919 888268967 o

Stúlkur úr 9. bekk Nesskóla leiddu söng og Jón Hilmar Kárason lék undir. Ljósm: Ragnhildur Tryggvadóttir

Hin árlega jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar var haldin í gær og var fjölsótt og vel heppnuð. Skemmtunin var haldin í Egilsbúð og var í umsjá 9. bekkjar Nesskóla eins og undanfarin ár. Stúlkur úr 9. bekk leiddu sönginn við undirleik Jóns Hilmars Kárasonar og allir tóku hressilega undir um leið og gengið var í kringum jólatréð. Jólasveinar komu í heimsókn með hollt og gott í poka og vöktu mikla athygli. Einnig var gestum boðið upp á veitingar.

                Jólaball Síldarvinnslunnar er fastur liður í jólahaldinu fyrir marga og skemmtu börnin sér vel í ár eins og ávallt áður.  

Opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo

Magnus Orri ScramMagnus Orri SchramSíldarvinnslan mun bjóða upp á opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo í Egilsbúð föstudaginn 29. desember kl. 15.00. Fyrirlesari verður Magnús Orri Schram stjórnarmaður UN Women á Íslandi.
 
Í fyrirlestrinum verður fjallað um eðli #metoo byltingarinnar og sjónum beint sérstaklega að Íslandi í þeim efnum. Áhersla verður lögð á ábyrgð karlmanna í breyttum heimi.
 
Allir eru hjartanlega velkomnir á fyrirlesturinn.
 

Jólakveðja

Síldarvinnslan hf. óskar starfsfólki sínu, viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Capture

Enn og aftur sterk skata

Skötuveislukóngarnir Guðjón B. Magnússon og Halldór Þorbergsson. Upplýsingar um TVN-gildi skötunnar eru upp á vegg. Ljósm. Jón Már JónssonSkötuveislukóngarnir Guðjón B. Magnússon og Halldór Þorbergsson.
Upplýsingar um TVN-gildi skötunnar eru upp á vegg. Ljósm. Jón Már Jónsson
Allt frá árinu 2000 hefur verið boðið til skötuveislu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á Þorláksmessu en þar sem Þorláksmessu ber nú upp á laugardag fór skötuveislan fram í dag. Lílega er þetta eina skötuveislan á landinu þar sem styrkur skötunnar er árlega mældur. Mælt er hve mikið ammoníak er í skötunni og reiknað út svonefnt TVN-gildi. Ef TVN-gildi í hráefni verksmiðjunnar fer yfir 100 taka viðvörunarbjöllur að klingja en þetta á aldeilis ekki við um skötuna. Í veislunni núna mældist TVN - gildi skötunnar hvorki meira né minna 851,5 og þótti hún afar góð. Að vísu er þetta ekki hæsta gildi sem mælst hefur í skötuveislum í verksmiðjunni, en hæst hefur það farið í 974. 
 
Það voru þeir Guðjón B. Magnússon og Halldór Þorbergsson sem lengi sáu um framkvæmd skötuveislanna, fyrst með góðri hjálp Hjördísar Arnfinnsdóttur. Í fyrra fréttist að sjónvarpið ætlaði að koma í veisluna og gera frétt um hana og þá voru þeir Guðjón og Halldór settir af. Það voru yngri menn sem rændu völdum og stýrðu þeir Jóhann Hákonarson og Stefán Pétursson veislunni. Ungu mennirnir töldu að andlit þeirra Guðjóns og Halldórs hentuðu engan veginn sjónvarpi og því væri nauðsynlegt að skipta um valdhafa. Nú í ár náðu Guðjón og Halldór hins vegar aftur völdum og fullyrða þeir að sannast hafi í fyrra að yngri menn hafi ekkert lag á því að halda skötuveislu og því sé stjórn þeirra á veislunni tryggð til framtíðar.
 
Starfsmenn verksmiðjunnar fullyrða að hér sé um að ræða einu skötuveisluna í heiminum þar sem styrkur skötunnar er mældur með vísindalegum hætti. Þegar þeir eru spurðir um veisluna segja þeir alls ekki einungis að skatan hafi verið sterk heldur gefa þeir upp TVN- gildi hennar. Þetta er meiri nákvæmni en annars staðar þekkist.
 

Jólaball Síldarvinnslunnar

Jólaball SíldarvinnslunnarHið árlega jólaball Síldarvinnslunnar verður haldið í Egilsbúð í Neskaupstað 28. desember kl. 16.00. Ballið er haldið í samvinnu við 9. bekk Nesskóla. Öllum börnum og foreldrum er boðið á ballið og er aðgangur ókeypis. Samkvæmt venju verður dansað í kringum jólatré við undirleik og söng og jólasveinar munu koma í heimsókn. Fyrir mörg börn er jólaballið fastur liður í jólahaldinu og skemmta þau sér yfirleitt konunglega á samkomunni.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Skipin komin til hafnar fyrir hátíðarnar

Frá Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonFrá Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonSkip Síldarvinnslunnar verða öll í höfn um jól og áramót. Uppsjávarskipin þrjú, Börkur, Beitir og Bjarni Ólafsson, lönduðu öll kolmunna 14. – 19. desember og munu ekki halda til veiða á ný fyrr en á nýju ári. Vestmannaeyjaskipin, Vestmannaey og Bergey, komu til hafnar 11. og 14. desember og að aflokinni löndun fengu áhafnirnar kærkomið jóla- og áramótafrí. Gullver kom síðan til löndunar á Seyðisfirði 19. desember úr síðustu veiðiferð fyrir hátíðar.
 
Frystitogarinn Blængur kom til Neskaupstaðar í dag að lokinni hálfs mánaðar veiðiferð. Afli skipsins var 370 tonn upp úr sjó og uppistaða aflans er ufsi og karfi. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra byrjaði veiðiferðin á Vestfjarðamiðum vegna brælu eystra en megnið af tímanum var verið á Austfjarðamiðum. Blængur mun halda á ný til veiða 3. janúar. 

Beitir með metafla af kolmunna

Beitir NK aflaði vel af kolmunna í síðustu veiðiferð ársins. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK aflaði vel af kolmunna í síðustu
veiðiferð ársins. Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Sl. sunnudag kom Beitir NK til Neskaupstaðar með kolmunnafarm úr færeysku lögsögunni. Upp úr skipinu kom hvorki meira né minna en 3.201 tonn og er það líklega stærsti farmur sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi. Hafa skal í huga að skipið kom með aflann kældan en án kælingar hefði farmurinn orðið stærri. Beitir hefur áður komið með farma yfir 3.000 tonn, en stærsti kolmunnafarmur skipsins á undan þessum var 3.123 tonn og var honum landað í Neskaupstað í aprílmánuði sl.
 
 
 
 
 
 
 

Metár hjá Eyjunum

Bergey VE. Ljósm. Guðmudur AlfreðssonBergey VE. Ljósm. Guðmudur Alfreðsson

Um þessar mundir fagnar útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. 45 ára afmæli sínu. Félagið var stofnað í desembermánuði 1972 af útgerðum Bergs VE 44 og Hugins VE 55 sem voru í eigu Kristins Pálssonar og Guðmundar Inga Guðmundssonar. Síldarvinnslan hf. festi kaup á útgerðarfélaginu árið 2012.
 
Afmælisárið hófst með sjómannaverkfalli sem stóð fyrstu sjö vikur ársins. Haldið var á miðin að loknu verkfalli hinn 19. febrúar. Mjög góð aflabrögð voru yfir vertíðartímann og lönduðu skip félagsins, Vestmannaey og Bergey, tvisvar til þrisvar í viku fram á vorið. Bergey fór síðan í slipp í maí og Vestmannaey í vélarupptekt í júní.
 
Að lokinni vertíð héldu Eyjarnar áfram að afla vel. Júlímánuður var til dæmis afar góður og afli skipanna yfir þúsund tonn í þeim mánuði. Haustið reyndist heldur rysjótt en þá voru skipin mest að veiðum fyrir austan land. Skipin komu síðan til hafnar í Vestmannaeyjum 11. og 14. desember og þar með voru áhafnirnar komnar í kærkomið jóla- og áramótafrí.
 
Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonHeildarafli skipanna tveggja á árinu var 8.575 tonn og aflaverðmæti rétt tæplega tveir milljarðar króna. Hér er um að ræða nýtt aflamet hjá skipum félagsins. Fyrra met er frá árinu 2008 en þá var aflinn 8.493 tonn hjá þremur skipum; Vestmannaey, Bergey og Smáey. Það sem gerir hið nýja aflamet einkar athyglisvert er að skipin tvö voru einungis gerð út í 10 mánuði á árinu, frá 19. febrúar til 14. desember. Afli á sóknardag á árinu var 22 tonn hjá hvoru skipi.
 
Á þessu afmælisári lét Magnús Kristinsson af störfum hjá félaginu um mitt sumar eftir 44 ára starf. Við starfi hans tók Arnar Richardsson.
 
Þau ánægjulegu tímamót urðu á árinu að skrifað var undir samning við skipasmíðastöðina Vard Aukra í Noregi um smíði á tveimur nýjum togskipum fyrir félagið. Þessum nýju skipum er ætlað að leysa núverandi Vestmannaey og Bergey af hólmi. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar og verða þau með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum og allur búnaður um borð verður hinn fullkomnasti. Áætlað er að skipin verði afhent kaupanda í mars- og maímánuði árið 2019. 
 

10 námskeið á árinu

Á þessu ári hafa 10 námskeið verið haldin fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonÁ þessu ári hafa 10 námskeið verið haldin fyrir starfsmenn
Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Ernuson
Í tengslum við gerð nýrrar starfsmannastefnu var unnin ný fræðsluáætlun fyrir Síldarvinnsluna síðasta vetur og var þar vandað til verka. Í starfsmannastefnunni er lögð áhersla á fræðslu, uppbyggingu þekkingar og hæfni starfsmanna og var fræðsluáætlunin unnin í samræmi við ákvæði hennar. Nefnd starfsmanna kom að gerð áætlunarinnar, framkvæmd var viðhorfskönnun á meðal starfsmanna og fundað með stjórnendum um fræðsluþarfir. Austurbrú stýrði vinnunni við gerð áætlunarinnar og sér um framkvæmd hennar ásamt Hákoni Ernusyni starfsmannastjóra. Áætlunin er til þriggja ára og hófst námskeiðahald þegar á árinu sem nú er að líða.
 
Á yfirstandandi ári hefur verið efnt til 10 námskeiða og má þar nefna tölvunámskeið, skyndihjálparnámskeið, námskeið um rafmagnsöryggi, fallvarnanámskeið og námskeið í íslensku fyrir erlent starfsfólk. Yfir 100 manns hafa sótt námskeiðin og hefur ríkt mikil ánægja með þau. 
 
Á næstu vikum eru fyrirhuguð eldvarnanámskeið fyrir áhafnir skipa, samskiptanámskeið, gæðastjórnunarnámskeið auk frekari námskeiða sem tengjast öryggismálum. Starfsmenn eru hvattir til að fylgjast með auglýsingum um námskeiðahald og grípa þau tækifæri sem gefast til að fræðast. Vert er að hafa í huga að þekking verður sífellt mikilvægari í fyrirtæki sem ætlar sér að nýta tækni og vera í fremstu röð á sem flestum sviðum. 

7.100 tonn af kolmunna til Síldarvinnslunnar

Beitir NK á kolmunnaveiðum við Færeyjar Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK á kolmunnaveiðum við Færeyjar.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Síðustu dagana hafa 7.100 tonn af kolmunna borist til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Kolmunninn fæst í færeysku lögsögunni og hefur veiðin þar verið nokkuð góð.
 
Bjarni Ólafsson AK kom með 1.800 tonn til Neskaupstaðar sl. fimmtudag og upplýsti Gísli Runólfsson skipstjóri að aflinn hefði hengist í fjórum holum en venjulega var togað í 5-12 tíma í hvert sinn. Á föstudag kom Börkur NK til Seyðisfjarðar með 2.200 tonn sem fengust í átta holum. Að sögn Háfdans Hálfdanarasonar skipstjóra var töluvert af fiski að sjá á miðunum en hann var ekki mjög þéttur þannig að veiðin var ekki með skarpasta móti þótt engin ástæða væri til að kvarta. Beitir NK kom síðan til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 3.100 tonn. Tómas Kárason skipstjóri tók undir með Hálfdani og sagði að vart yrði við töluverðan fisk á svæðinu. „Við vorum að veiða austur af Akrabergi sem er syðsti oddi Færeyja og veiðin var nokkuð góð.  Við fengum að jafnaði hátt í 400 tonn í holi en við toguðum allt upp í 20 tíma. Slæmt veður um þarsíðustu helgi truflaði veiðiferðina nokkuð en við notuðum bræluna til að lagfæra veiðarfærin. Þarna gekk ofsaveður yfir og við viðgerðarvinnuna stóðum við í færeyskum snjóbyl. Slíkt veður er ekki algengt þarna,“ sagði Tómas.  

Fleiri brot úr sögunni

Fleiri brot úr sögunni
 
Í tilefni af því að Síldarvinnslan varð 60 ára á þessu ári hafa birst pistlar um sögu fyrirtækisins hér á heimasíðunni. Hér verða birt nokkur sögubrot til viðbótar við þau sem áður hafa komið fyrir sjónir lesenda.
 
 
 • Í lok síldarvertíðar í nóvember 1988 fagnaði starfsfólk Síldarvinnslunnar því að fryst hefðu verið 1000 tonn af síld á Japansmarkað á vertíðinni. Þetta þóttu merk tímamót og í ávarpi, sem Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri hélt í glæsilegri kaffiveislu sem haldin var í frystihúsinu af þessu tilefni, kom fram að þetta væri mesta magn síldar sem nokkurt frystihús hefði fryst á Japansmarkað. Upplýsti Finnbogi að hátt í þrjár milljónir sílda hefðu farið um hendur starfsfólks frystihússins við þessa frystingu. Þetta leiðir hugann að þeim breytingum sem hafa orðið á frystingu á uppsjávarfiski á síðari árum. Með tilkomu fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar árið 1997 jukust afköst við frystingu gífurlega og allt fram á þennan dag hafa afköstin í verinu verið aukin jafnt og þétt. Ef ætti að efna til veislu í hvert sinn sem 1000 tonn af síld væru framleidd í fiskiðjuverinu nú þyrfti að halda upp á það annan hvern dag ef um framleiðslu á heilfrystri síld væri að ræða og þriðja hvern dag ef um flakaframleiðslu væri að ræða.
 • Síld var flökuð og fryst í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar árið 1988.Síld var flökuð og fryst í fiskvinnslustöð
  Síldarvinnslunnar árið 1988.
  Á árinu 1988 var Síldarvinnslan eitt fárra sjávarútvegsfyrirtækja á landinu sem skilaði hagnaði. Hagnaðurinn nam 11 milljónum króna. Fram kom að heildarvelta Síldarvinnslunnar á árinu hafði verið 1.920 milljónir og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað 302 milljónir. Afskriftirnar námu 90 milljónum en fjármagnskostnaður 201 milljón ! Fjármagnskostnaðurinn kom til vegna uppsafnaðra skulda frá fyrri tíð og þá ekki síst vegna lána sem tekin voru í tengslum við uppbyggingu í kjölfar snjóflóðanna 1974. Heildarskuldir fyrirtækisins á þessum tíma námu 1.250 milljónum króna og uppsafnað tap 530 milljónum. Miðað við svipaða afkomu og á árinu 1988 þurfti 50 ár til að koma fyrirtækinu á græna grein efnahagslega að mati þáverandi framkvæmdastjóra.
 • Starsmenn Síldarvinnslunnar á árinu 1989 voru að meðaltali 420 talsins. Þeir voru fleiri þegar mest var um að vera en færri þegar minna var umleikis. Um vorið var starfsmönnum og mökum þeirra boðið til matarveislu og dansleiks í félagsheimilinu Egilsbúð. Þrískipta þurfti gleðskapnum því alls var 700 manns boðið. Fyrst voru það starfsmenn Dráttarbrautarinnar og  fiskimjölsverksmiðjunnar ásamt áhöfnum loðnuskipa og löndunargengi sem skemmtu sér ásamt mökum, síðan kom röðin að starfsfólki skrifstofu, saltfiskverkunar og frystihúss og loks voru það togarasjómenn og þeir trillukarlar sem lögðu upp afla hjá Síldarvinnslunni.
 • Smábátar bíða löndunar við bryggju fiskvinnslustöðvar Síldarvinnslunnar sumarið 1986. Ljósm. Jóhann ZoёgaSmábátar bíða löndunar við bryggju fiskvinnslustöðvar
  Síldarvinnslunnar sumarið 1986. Ljósm. Jóhann Zoёga
  Áður fyrr lögðu margir smábátar upp afla hjá Síldarvinnslunni. Smábátaútgerðin var misjafnlega mikil, stundum blómstraði hún en á öðrum tímum var hún í lægð. Á síldarárunum svonefndu voru til dæmis fáar trillur gerðar út frá Neskaupstað en að þeim loknum fór þeim fjölgandi. Líklega hafa aldrei jafn margir smábátar verið gerðir út og undir lok níunda áratugar síðustu aldar, en sumarið 1989 var talið að um 120 smábátar reru frá Neskaupstað og þá hafði þeim fjölgað um 20 frá árinu áður. Þegar þarna var komið sögu dugði smábátahöfnin engan veginn fyrir allan þennan fjölda báta og var því ráðist í stækkun hennar. Þess skal getið að smábátaaflinn sem barst á land í Neskaupstað árið 1989 nam um 4.000 tonnum.
 

Verkefnastjóri á sviði starfsmannamála

Sigurður Ólafsson. Ljósm. Hákon ErnusonSigurður Ólafsson. Ljósm. Hákon ErnusonSíldarvinnslan hefur ráðið Sigurð Ólafsson í stöðu verkefnastjóra á sviði starfsmannamála. Sigurður er ráðinn í hálft starf og mun hann fylgja eftir innleiðingu á nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins, en hann veitti einmitt ráðgjöf við gerð stefnunnar. 
 
Sigurður er Norðfirðingur og starfaði töluvert hjá Síldarvinnslunni á yngri árum. Hann var einungis 12 ára gamall þegar hann réðst í sumarstarf í fiskimjölsverksmiðjunni og vann síðan hjá Síldarvinnslunni öll sumur fram að tvítugu, þar af heilt ár í saltfiskverkuninni að loknu stúdentsprófi. Sigurður skrifaði síðan BA - ritgerð í félagsfræði um fyrirtækið þar sem hann gerði samanburðarrannsókn á félagssálrænum áhættuþáttum í ólíkum framleiðsluferlum í fiskvinnslu.
 
Að loknu háskólanámi á Íslandi hóf Sigurður MA - nám í mannauðsstjórnun við háskólann í Bournemouth á Englandi og hefur frá árinu 2001 starfað að mannauðsmálum. Hann starfaði sem ráðgjafi hjá Skýrr hf., sem sérfræðingur og deildarstjóri íslenskrar starfsmannaþjónustu hjá Varnarliðinu, sem framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Austurlands og síðan sem mannauðssérfræðingur og fræðslustjóri hjá Alcoa – Fjarðaáli á árunum 2005-2012. Síðustu árin hefur Sigurður starfað sjálfstætt sem ráðgjafi, leiðbeinandi og fyrirlesari. Hann hefur á þeim tíma m.a. sinnt umfangsmiklum verkefnum fyrir Alcoa í Saudi Arabíu, þar sem hann kenndi hópi 250 stjórnenda í nýrri súrálsverksmiðju, álveri og völsunarverksmiðju. Sigurður hefur unnið með fjölda fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga að verkefnum sem lúta að stjórnun og mannlegum samskiptum. Hann mun áfram sinna slíkum verkefnum samhliða starfinu hjá Síldarvinnslunni auk þess sem hann vinnur að uppbyggingu fyrirtækisins Lifðu betur ásamt Orra Smárasyni sálfræðingi, en fyrirtækið vinnur að því að gera gagnreyndar aðferðir til að bæta andlega líðan aðgengilegar á netinu.
 
Hjá Síldarvinnslunni mun Sigurður aðstoða Hákon Ernuson starfsmannastjóra og aðra stjórnendur fyrirtækisins við innleiðingu hinnar nýju starfsmannastefnu, en stefnan er bæði metnaðarfull og framsækin og mun kalla á ýmsar breytingar á vinnubrögðum innan fyrirtækisins. Síldarvinnslan býður Sigurð velkominn til starfa.
 

Hvar fæst Síldarvinnslusagan?

Hvar fæst Síldarvinnslusagan?Sl. mánudag kom út bókin Síldarvinnslan í 60 ár eftir Smára Geirsson. Í bókinni er farið yfir sögu fyrirtækisins í máli og myndum en Síldarvinnslan var stofnuð 11. desember 1957. Ýmsir hafa að undanförnu hringt á skrifstofu Síldarvinnslunnar og spurt hvar unnt sé að festa kaup á bókinni. Það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur bókina út og fengust eftirfarandi upplýsingar hjá útgáfunni: Fullt verð bókarinnar er 6.980 kr. en boðið verður upp á Norðfirðingaafslátt og fá Norðfirðingar bókina á 5.000 kr. hjá útgefandanum fram til jóla. Verðið miðast við að bókin verði sótt en ef hún er send í pósti bætast við 1.000 kr. Best er að hafa samband við útgefandann í netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 692-8508 eftir kl. 15 á daginn. Þess utan verður bókin fáanleg í Tónspili í Neskaupstað, Bókaverslun Forlagsins og Eymundssonarverslununum í Vestmannaeyjum, Austurstræti, Smáralind, Borgarkringlunni, Hafnarfirði, Ísafirði og Akureyri.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Vel heppnuð afmælisveisla í Egilsbúð

Rúmlega 150 gestir sóttu afmælisveislu Síldarvinnslunnar í gær. Ljósm. Smári GeirssonRúmlega 150 gestir sóttu afmælisveislu Síldarvinnslunnar í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Í gær bauð Síldarvinnslan fyrrverandi starfsmönnum, eldri borgurum og fulltrúum viðskiptafyrirtækja til veislu í félagsheimilinu Egilsbúð í tilefni sextugsafmælis fyrirtækisins. Alls sóttu rúmlega 150 gestir afmælisveisluna og nutu þeirrar dagskrár sem boðið var upp á. Nemendur Tónskóla Neskaupstaðar fluttu jólatónlist og áttu stóran þátt í að skapa notalega stemmningu á samkomunni. Smári Geirsson sagði frá bókinni Síldarvinnslan í 60 ár sem kom formlega út í gær og Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu Síldarvinnslunnar um þessar mundir. Guðmundur R. Gíslason stýrði veislunni en boðið var upp á glæsilegt afmæliskaffi. Góðar kveðjur til afmælisbarnsins bárust víða að.
 
Undir lok samkomunnar var LungA – skólanum á Seyðisfirði, Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og Myndlistarsafni Tryggva Ólafssonar afhentir myndarlegir styrkir frá Síldarvinnslunni.
 
Að samkomunni lokinni fengu allir gestir afmælisrit Síldarvinnslunnar að gjöf ásamt fötu af jólasíld sem mörgum þykir nauðsynlegt að hafa á borðum yfir jólahátíðina. 

Síldarvinnslan er sextug í dag

Athafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur SveinssonAthafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn.
Ljósm. Hlynur Sveinsson
Hinn 11. desember árið 1957 var stofnfundur Síldarvinnslunnar hf. haldinn í Neskaupstað. Stofnfundinn sátu 43 menn og samþykktu þeir lög fyrir félagið. Samkvæmt lögunum var tilgangur þess að eiga og reka síldarverksmiðju, síldarverkun og annan skyldan atvinnurekstur í Neskaupstað. Fyrir stofnfundinn hafði hlutafjársöfnun farið fram og gekk hún ekki vel. Markmiðið var að safna einni milljón króna en þegar fundurinn var haldinn höfðu einungis fengist loforð fyrir 455.000 kr. Aðalhluthafinn í Síldarvinnslunni í upphafi var Samvinnufélag útgerðarmanna með 60% hlutafjárins en stærstu hluthafarnir þess utan voru Bæjarsjóður Neskaupstaðar og Dráttarbrautin hf. en alls voru hluthafarnir 35 talsins.
 
Hér verður saga Síldarvinnslunnar ekki rakin en áður en áratugur var liðinn frá stofnfundinum var hún orðin stærsta fyrirtækið á Austurlandi. Í tilefni sextíu ára afmælisins kemur út bókin Síldarvinnslan í 60 ár eftir Smára Geirsson og þar er sögu fyrirtækisins gerð góð skil. 
 
60 ára afmælisrit Síldarvinnslunnar kemur út í dag. Ljósm. Guadalupe Laiz60 ára afmælisrit Síldarvinnslunnar
kemur út í dag. Ljósm. Guadalupe Laiz
Í dag kl. 16 – 18 verður haldin afmælisveisla í félagsheimilinu Egilsbúð í Neskaupstað. Þangað er boðið fyrrverandi starfsmönnum, eldri borgurum og fulltrúum samstarfsfyrirtækja Síldarvinnslunnar. Í veislunni mun Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri fjalla um núverandi stöðu fyrirtækisins og Smári Geirsson segja frá afmælisritinu. Þá verða félagasamtökum og stofnunum afhentir styrkir í tilefni tímamótanna.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Undirflokkar