40 ár liðin frá snjóflóðunum í Neskaupstað

Rústir síldarverksmiðjunnar eftir snjóflóðið 20. desember 1974. Ljósmynd í eigu Skjala- og myndasafns NorðjarðarFöstudagurinn 20. desember 1974 er án efa mesti áfalladagurinn í sögu Síldarvinnslunnar og Neskaupstaðar. Þennan dag gengu Norðfirðingar til starfa sinna eins og venjulega og engan óraði fyrir hvað hann bæri í skauti sínu. Reyndar voru óvenju fáir við störf hjá Síldarvinnslunni þennan dag. Vegna jólaanna og óveðurs hafði verið ákveðið að vinna ekki þann fisk sem beið vinnslu í fiskvinnslustöðinni þennan dag og því voru einungis um 20 manns þar við störf í stað 100, þar af um þriðjungur smiðir og viðgerðarmenn. Um þetta leyti voru að jafnaði 10 manns við störf í síldarverksmiðjunni en þennan dag voru þeir einungis 4 meðal annars vegna þess að hluti starfsmannanna vann að viðgerðum á íbúðarhúsi í kaupstaðnum.

Það var svo sannarlega lán í óláni hve fáir voru við störf í atvinnufyrirtækjum Síldarvinnslunnar þegar ógæfan dundi yfir; tvö snjóflóð féllu með stuttu millibili og skildu eftir tortímingu og dauða.

Fyrra flóðið féll kl. 13.47. Það skall á síldarverksmiðjunni og áföstum mjölgeymsluhúsum og gereyðilagði þau ásamt smærri húsum sem stóðu norðan við verksmiðjuna. Þá braut flóðið í spón tvö starfsmannahús sem stóðu norðan við fiskvinnslustöðina og olli miklum skemmdum á fiskvinnslustöðinni. Síðara flóðið féll um kl. 14 nokkru utar. Eyðilagði það húsakost tveggja fyrirtækja, Steypusölunnar og Bifreiðaþjónustunnar og eitt íbúðarhús að auki, svonefnt Mánahús. Í hlíðinni ofan við síldarverksmiðjuna voru lýsis- og olíugeymar sem fyrra flóðið hreif með sér. Í olíutanki sem flóðið ruddi burt voru 900 lestir af svartolíu sem dreifðist um allstórt svæði auk þess sem töluvert magn fór í sjóinn. Olían olli mikilli mengun og verulegum vandræðum við björgunarstörf.

Þegar eftir flóðin hófust björgunaraðgerðir. Auk björgunarfólks frá Neskaupstað tóku sveitir sjálfboðaliða frá nágrannabyggðum þátt í aðgerðunum. Fyrst var öll áhersla lögð á að leita þeirra sem lent höfðu í flóðinu og var sex mönnum bjargað á lífi en átta höfðu bjargað sér af eigin rammleik. Einum manni var bjargað eftir að hann hafði legið í þröngri þró undir snjófargi í 20 tíma. Fljótlega kom í ljós að alls höfðu tólf manns týnt lífi í snjóflóðunum, þar af voru sjö fastir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Það ríkti sorg á öllu landinu vegna þessa voðaatburðar.

Segja má að strax eftir að hreinsunarstarfi eftir snjóflóðin lauk hafi verið hafist handa við endurreisn atvinnulífsins í Neskaupstað. Þeirri sögu verða ekki gerð skil hér.

Á morgun, laugardaginn 20. desember, verður kyrrðarstund haldin í Norðfjarðarkirkju og hefst hún kl. 15. Þá verður þess minnst að 40 ár eru liðin frá því að snjóflóðin féllu. Að kyrrðarstundinni lokinni, eða kl. 16, verður opið hús í Egilsbúð í boði Fjarðabyggðar. Þar mun forseti bæjarstjórnar flytja ávarp og eins verður þar hluti ljósmyndasýningarinnar Flóðið til sýnis. Þá munu gestir geta skoðað uppdrætti að minningarreit sem opnaður verður almenningi á næsta ári en reitnum verður komið upp til minningar um þá sem látið hafa lífið í snjóflóðum á Norðfirði.


Jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar 2014

Frá jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonHin hefðbundna jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar verður haldin í Egilsbúð þriðjudaginn 30. desember og hefst kl. 16. Öllum börnum og foreldrum í Fjarðabyggð er boðið á skemmtunina en víst er að þangað munu koma jólaveinar með hollt og gott í poka. Eins og venjulega verður dansað í kringum jólatré við undirleik og söng. Hópur nemenda úr 9. bekk Nesskóla mun leiða sönginn.

Fyrir mörg börn er jólatrésskemmtunin fastur liður í jólahaldinu og fullvíst er að þau munu skemmta sér vel í Egilsbúð hinn 30. desember.

Skipin koma til hafnar fyrir jólahátíðina

 Skipin komin í höfn fyrir jólin. Ljósm. Hákon ErnusonSkip Síldarvinnslunnar koma þessa dagana til hafnar í Neskaupstað fyrir jólahátíðina. Beitir NK hefur reyndar ekki haldið til veiða frá því hann landaði kolmunnafarmi úr færeysku lögsögunni í byrjun desembermánaðar. Börkur NK kom til hafnar í morgun en hann hefur verið í Færeyjum að undanförnu þar sem unnið hefur verið að því að koma fyrir búnaði til að dæla afla um borð frá skut. Framkvæmdum við skutdælingarbúnaðinn er þó ekki lokið. Börkur hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni og kom með 420 tonn til löndunar. „Við fengum veður til veiða í rétt tæpan sólarhring og gátum tekið tvö hol“, sagði Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri. „Það hefur svo sannarlega verið óþverraveður í Færeyjum rétt eins og hér heima. Við þurftum aftur að halda til hafnar í Færeyjum að afloknum veiðum og biðum þar í tæpa tvo sólarhringa eftir veðri til að sigla heim“, sagði Hjörvar.

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til hafnar á sunnudagsmorgun undan veðri. Aflinn var 37 tonn en skipið hafði einungis verið um sólarhring að veiðum. Aflanum var landað í gær. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að nú séu menn uppteknir við að skreyta jólatré og búa sig undir hátíðarnar. Frystitogarinn Barði er enn að veiðum og er reiknað með að hann komi til hafnar 22. desember. Theodór Haraldsson stýrimaður sagði í samtali við heimasíðuna að ótíðin að undanförnu hefði svo sannarlega sett strik í reikninginn. „Við erum búnir að vera 15 daga í veiðiferðinni til þessa en höfum einungis verið 8 daga að veiðum. Mikill tími hefur farið í að bíða af sér óveður og síðan að sigla á svæði þar sem líklegt er að unnt sé að veiða. Við erum búnir að fá 210 tonn og er aflinn að uppistöðu til gullkarfi og ufsi. Nú erum við í Seyðisfjarðardýpinu og erum að kanna með ufsa og grálúðu,“ sagði Theodór.

Grænlenska skipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í morgun. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að þeir hefðu haldið frá Hafnarfirði að afloknum slipp sl. sunnudag og siglt norður fyrir land. Þeir hefðu svipast um eftir loðnu en ekkert séð enda veður vægast sagt óhagstætt. Gert er ráð fyrir að Polar Amaroq muni liggja á Reyðarfirði yfir hátíðarnar. „Nú fáum við gott frí og söfnum kröftum fyrir komandi loðnuvertíð“, sagði Halldór.  


Bjartur landar eftir brælutúr

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum brælutúr. Aflinn er um 65 tonn og er uppistaða hans þorskur. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að helst hafi verið  veitt á Grunnfætinum og Litladýpi en undir lok túrsins hafi verið farið norður undir Reyðarfjarðardýpi. „Veðrið var hundleiðinlegt,“ sagði Steinþór, „bölvaðar umhleypingar og leiðindi“. Að sögn skipstjórans er gert ráð fyrir að Bjartur haldi á ný til veiða um hádegi á morgun og landi næstkomandi þriðjudag. Það verður væntanlega síðasti túr skipsins fyrir jól.

Landað úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon Ernuson

Jólahnossgæti frá Haraldi Jörgensen og félögum

Haraldur Jörgensen með niðurskorna síld. Ljósm. Hákon Ernuson
Haraldur Jörgensen með niðurskorna síld. Ljósm. Hákon Ernuson

Jólasíld Síldarvinnslunnar er orðin ómissandi hluti jólahátíðarinnar hjá starfsmönnum og velunnurum fyrirtækisins. Að mati flestra sem hafa smakkað jólasíldina kemst engin önnur síld í hálfkvisti við hana. Það er Haraldur Jörgensen eða Halli Kalla Jör sem stjórnað hefur framleiðslu jólasíldarinnar um áratuga skeið og hefur hann notið aðstoðar reyndra manna á borð við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni ár hvert og einungis ætluð til að gleðja og seðja starfsmennina og þá sem eru í mestum tengslum við fyrirtækið.

Að sjálfsögðu eru þær aðferðir sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar leyndarmál en þó fékkst heimild til að greina í grófum dráttum frá framleiðsluferlinum. Allt byrjar þetta á því að gæðasíld er skorin í hæfilega bita en það er gert um 10. október ár hvert. Þegar skurði er lokið er síldin sett í kör með saltpækli og þar er hún höfð í um það bil einn sólarhring. Þá er hún tekin úr körunum og sett í tunnur þar sem hún liggur í ediki í ákveðinn tíma. Loks er hún látin liggja í sykurlegi og er magn sykursins algert lykilatriði varðandi það hvernig til tekst. Lokaþáttur framleiðsluferilsins felst í því að síldin er tekin úr sykurleginum og sett í fötur ásamt lauk og tilheyrandi kryddi. Þegar síldin hefur legið í fötunum í nokkra daga er hún tilbúin til neyslu.Jólasíldin komin í fötur. Ljósm. Hákon Ernuson
Jólasíldin komin í fötur. Ljósm. Hákon Ernuson

Allur þessi framleiðsluferill byggir á mikilli þekkingu og næmri tilfinningu. Allar tímasetningar skipta höfuðmáli og grundvallaratriði er síldin fái að liggja nægilega lengi í hverjum legi fyrir sig svo hið eina rétta jólabragð náist. Þegar kemur að lokastigum framleiðsluferilsins eru kallaðir til útvaldir menn til að smakka framleiðsluna og leggja dóm á hvernig til hefur tekist. Stundum eru gerðar viðbótarráðstafanir til að ná fram þeim eðalgæðum sem sóst er eftir.

Að undanförnu hefur verið lögð áhersla á að merkimiðinn á síldarfötunum sé með jólalegri mynd af athafnasvæði eða skipum Síldarvinnslunnar. Ef einhver á góða slíka mynd og er tilbúinn að leyfa notkun hennar á síldarfötur er viðkomandi beðinn um að hafa samband við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

Guðmundur Sigurjónsson hefur kvatt

Guðmundur Sigurjónsson í tækjaklefa hraðfrystihúss Síldarvinnslunnar árið 1983. Tækjaklefinn var hans ríki í árafjöld. Ljósm. Vilberg Guðnason.Guðmundur Sigurjónsson er látinn, níræður að aldri. Hann var Norðfirðingur í húð og hár, fæddur 15. september 1924. Guðmundur starfaði lengst af við fiskvinnslu hjá Samvinnufélagi útgerðarmanna og síðar hjá Síldarvinnslunni hf. Í nokkur ár fékkst hann þó við rekstur bókabúðar og eins sinnti hann um tíma starfi framkvæmdastjóra félagsheimilisins Egilsbúðar.

Baráttan fyrir bættum hag verkalýðsins var helsta hugðarefni Guðmundar frá unga aldri. Hann gegndi ýmsum störfum innan verkalýðshreyfingarinnar og var meðal annars formaður Verkalýðsfélags Norðfirðinga á árunum 1951-1953 og varaformaður árum saman. Þá átti hann einnig um tíma sæti í stjórn Alþýðusambands Austurlands. Einnig sótti Guðmundur fjölmörg ASÍ-þing  og sinnti margvíslegum öðrum verkefnum fyrir hönd stéttarsystkina sinna. Fyrir utan verkalýðsmálin helgaði hann sig málefnum náttúruverndar og bindindismálum.

Guðmundur var einlægur sósíalisti alla tíð og aðhylltist reyndar stalínisma. Hann trúði á sovétkerfið og skipti ekki um skoðun í þeim efnum þó Sovétríkin féllu. Hann var af þessari ástæðu yfirleitt nefndur Guðmundur Stalín og við uppnefninu gekkst hann stoltur.

Alla tíð fylgdist Guðmundur náið með þróun atvinnulífsins í Neskaupstað og málefni sem tengdust Síldarvinnslunni voru honum hugleikin. Hann bar mikla umhyggju fyrir fyrirtækinu enda hefur Síldarvinnslan lengi verið kjölfesta atvinnulífsins í bænum og velgengni þess hefur styrkt byggðarlagið og eflt hag íbúanna.

Útför Guðmundar fer fram frá Norðfjarðarkirkju laugardaginn 6. desember kl. 11.00.

Barði NK heldur til veiða eftir slipp

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði NK hefur verið í slipp á Akureyri síðasta mánuðinn. Þar var hefðbundnum slippverkefnum sinnt eins og botnhreinsun og botnmálun. Eins voru botn- og síðulokar teknir upp ásamt skrúfu og stýrisbúnaði. Aðalvélin var einnig tekin upp og tengi á milli gírs og aðalvélarinnar endurnýjað. Fyrir utan þetta var ýmsum smærri viðhaldsverkefnum sinnt. 

Þegar heimasíðan hafði samband við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra klukkan hálf ellefu í morgun sagðist hann vera ánægður með að þessum verkum væri lokið og unnt yrði að halda á sjóinn á ný. „Við erum rétt að fara að sleppa og verkefnið framundan er að veiða karfa, ufsa og grálúðu. Fyrst verður haldið á Vestfjarðamið og vonandi næst þar góður árangur“, sagði Bjarni Ólafur.


Skrifstofustarf

SkrifstofustarfSíldarvinnslan leitar eftir starfsmanni á skrifstofu félagsins í Neskaupstað. Starfið felst í almennum skrifstofu- og bókhaldsstörfum. Almenn tölvuþekking er skilyrði. Vinnutíminn  er frá kl.08:00 til kl.16:00.  Áhugasamir sendi inn ferilskrá á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Umsóknarfrestur er til 20. desember.

Aðrar hæfniskröfur sem verða metnar:
 • Menntun
 • Reynsla
 • Tungumálakunnátta
 • Bókhaldskunnátta
 • Þekking á Navision
 • Hæfni í mannlegum samskiptum
Nánari upplýsingar veitir Hákon Ernuson í s.470-7050, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar hf.

Þrjú skip með um 4800 tonn af kolmunna á leið til Neskaupstaðar

Beitir NK að kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas KárasonBeitir NK, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK hafa að undanförnu verið að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni. Beitir hélt fyrst til veiðanna og er nú á landleið með nánast fullfermi eða rúmlega 2000 tonn. Börkur er einnig á landleið með 1400 tonn og Bjarni Ólafsson með 1300 tonn.  Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagði í samtali við heimasíðuna að það væri töluvert þolinmæðisverk að fá í skipið. „Við fengum þennan afla í átta holum en það er eitt hol á dag. Við drógum gjarnan í kringum 18 tíma. Aflinn var misjafn; besta holið gaf 450 tonn en það lakasta var undir 200 tonnum. Við vorum gjarnan að fá um 10 tonn á tímann en svo hittum við stundum á góða bletti sem gáfu meira. Við reiknum með að koma til Neskaupstaðar  í fyrramálið. Það er leiðindabræla á leiðinni og við tökum góðan tíma í keyrsluna“.

Börkur og Bjarni Ólafsson hófu veiðar  nokkru á eftir Beiti og hefur árangurinn hjá þeim verið svipaður. Nú spáir leiðindaveðri á veiðislóðinni.


Ísinn reyndist þeim á Polar Amaroq erfiður

Polar Amaroq að loðnuveiðum í ísnum. Ljósm. Ómar Dennis AtlasonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi að aflokinni erfiðri veiðiferð í grænlensku lögsögunni. Aflinn í túrnum var 270 tonn af loðnu og þar af voru 160 tonn fryst. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að veiðiferðin hefði gengið heldur erfiðlega. „Ísinn hrakti okkur út úr grænlensku lögsögunni. Hinar suðlægu áttir að undanförnu hafa gert okkur kleift að veiða þar en nú eru vindáttir ekki nægilega hagstæðar og þá rekur ís yfir svæðið. Við urðum varir við loðnu í kantinum norðan við Halann inn í íslensku lögsögunni en þar má ekki trolla. Þarna virtist vera töluverð loðna. Þegar síðan skall á vitlaust veður var ákveðið að halda til lands og að skipið færi í slipp. Við höldum til Hafnarfjarðar í kvöld og þar verður skipið væntanlega í slipp fram í miðja næstu viku. Að því loknu er ráðgert að halda aftur til loðnuveiða þarna norðurfrá og freista gæfunnar.“

Fyrir þessa veiðiferð hafði Polar Amaroq farið í tvo loðnutúra í grænlensku lögsöguna. Hann landaði 1300 tonnum hinn 13. nóvember og  2000 tonnum hinn 21. nóvember.

Makríl- og síldarafli ársins

Kristina EA landar hjá Síldarvinnslunni. Ljósm. Hákon ErnusonMakríl- og síldarvertíð hófst hjá skipum Síldarvinnslunnar í júlímánuði og veiðum á íslenskri sumargotssíld lauk  um 20. nóvember.  Hér á eftir verður gefið yfirlit um þessar veiðar og hvernig aflinn var unninn. 

Sá afli sem kom til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar á veiðitímabilinu nam alls 48.078 tonnum, þar af var makríll 18.731 tonn, norsk-íslensk síld 12.420 tonn og íslensk sumargotssíld 16.927 tonn. Megnið af aflanum kom frá þremur veiðiskipum, Beiti NK, Berki NK og Bjarna Ólafssyni AK. Að auki lögðu Birtingur NK og Bjartur NK upp lítilsháttar afla til vinnslu í fiskiðjuverinu. Aflinn skiptist á skipin sem hér segir:

   Makríll Norsk-íslensk síld   Íslensk síld
Börkur NK  6.749  5.722  7.988
Beitir NK  6.022  4.648   6.750
Bjarni Ólafsson AK  5.347  2.050  2.189
Bjartur NK  185    
Birtingur NK 428     

Fyrir utan þann makríl- og síldarafla sem landað var til vinnslu í fiskiðjuverinu lönduðu fjögur vinnsluskip frystum makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Frystar afurðir þeirra námu samtals 22.215 tonnum og skiptast þannig á milli skipanna:

Vilhelm Þorsteinsson EA    9.823 tonn
Kristina EA 8.131 tonn
Hákon EA 3.915 tonn   
Barði NK    346 tonn

Þá lönduðu vinnsluskipin til mjöl- og lýsisvinnslu um 8.300 tonnum af afskurði og fiski sem flokkaðist frá við vinnsluna um borð. Kristina EA landaði 125 tonnum af mjöli en fiskimjölsverksmiðja er um borð í skipinu.

Á framansögðu má sjá að alls bárust um 78.600 tonn af makríl, norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld til Neskaupstaðar á umræddu veiðitímabili.

Alsæll Hollendingur

Ben Scholten. Ljósm. Hákon ViðarssonHollendingurinn Ben Scholten er 18 ára og leggur stund á nám í flutningum ferskra matvæla með sérstakri áherslu á sjávarafurðir. Hann býr í litlu fiskiþorpi í norðvestur Hollandi og að undanförnu þegar hann hefur ekki sótt skólann hefur hann ráðið sig til starfa á litlum togveiðibáti eða á fiskmarkaðnum í heimaþorpinu. Eins hefur hann að undanförnu starfað á fiskmarkaðnum á laugardögum en þá fjölmenna íbúar Amsterdam á markaðinn til að kaupa fisk í soðið.

Í ágústmánuði síðastliðnum kom Ben til Neskaupstaðar og starfaði í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar út september. Hluti af námi hans felst í að afla sér reynslu og þekkingar utan Hollands og þar sem Ben leggur áherslu á að mennta sig á sviði flutninga á sjávarafurðum beindist áhugi hans að Íslandi. Hann aflaði sér upplýsinga og komst að raun um að Neskaupstaður væri helsti síldarbærinn á Íslandi en síldin, sem Hollendingar nefna maatjes, þykir afar áhugaverður fiskur í Hollandi og hefur reyndar haft mikil áhrif á sögu hollensku þjóðarinnar. Ben hafði samband við Síldarvinnsluna og fékk góðar viðtökur. Hann var ráðinn til starfa og aflaði sér þannig reynslu og þekkingar á íslenskum sjávarútvegi auk þess sem hann kynntist ágætlega íslensku samfélagi.

Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Ben og spurðist fyrir um hvernig honum hefði líkað Íslandsdvölin. Svar hans fer í megindráttum hér á eftir:

„Það var afar jákvæð reynsla fyrir mig að starfa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þarna kynntist ég tæknivæddri og nútímalegri framleiðslu og ég var sannast sagna undrandi á því hve afköstin voru mikil og hve mikil áhersla var lögð á gæði framleiðslunnar og fullkomna nýtingu hráefnisins. Sá sjávarútvegur sem ég þekki í Hollandi er allur smærri í sniðum og á það bæði við um veiðar og vinnslu. Hollendingar geta svo sannarlega lært margt af Íslendingum í þessum efnum þó svo að áhersla á gæði séu mikil í báðum löndunum.

Þó svo að ég hafi upplifað Neskaupstað sem einangraðan bæ leið mér afar vel þar. Ég eignaðist frábæra vini, íslenski maturinn var einstakur, það var ljúft að slappa af í sundlauginni og allt umhverfið var framandi fyrir mig. Þarna upplifði ég stórbrotna náttúru, norðurljós og opið og heiðarlegt fólk. Ég var alsæll á meðan ég dvaldi og starfaði í Neskaupstað og á þaðan ljúfar og góðar minningar. Ég mun örugglega koma þangað aftur.

Eftir að ég sneri heim á ný hef ég verið mikið spurður um ýmislegt sem tengist Íslandi. Eldgos eru þá vinsælt umræðuefni  og yfirstandandi eldgos hefur ekki dregið úr forvitni Hollendinga hvað þau varða. Þá rigndi yfir mig spurningum um land og þjóð eftir að Ísland vann Holland í landsleik í knattspyrnu á dögunum. Þá var ég glaður að geta haldið með Íslandi. 

Ég vil þakka Síldarvinnslunni fyrir að veita mér tækifæri til að kynnast íslenskum sjávarútvegi en þekkingin sem ég aflaði mér hjá fyrirtækinu er ómetanleg. Þá vil ég þakka samstarfsfólki mínu í fiskiðjuverinu fyrir afar góð kynni og vináttu. Ég vonast til að hitta alla vini mína á Íslandi sem fyrst á ný.“

Beitir NK og Börkur NK á kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni

Börkur NK og Beitir NK veiða nú kolmunna í færeysku lögsögunni. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir NK hóf kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni sl. mánudag og Börkur NK hóf veiðar í nótt. Þegar þetta er skrifað er Börkur með sitt fyrsta hol en Beitir með sitt þriðja. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti rétt fyrir hádegið og heyrði í honum hljóðið. „Það er ekki mikill kraftur í veiðinni en það er dálítið að sjá - dálítið ryk,“ sagði Tómas. „Við fengum 200 tonn í fyrsta holi og 290 í því næsta þannig að við erum komnir með tæp 500 tonn. Við togum allt upp í 18 tíma þannig að hér er um að ræða þolinmæðisverk. Veiðisvæðið er 40-50 mílur norðnorðaustur af Færeyjum. Við hér um borð erum þokkalega hressir og áttum allt eins von á því að það tæki dálítinn tíma að fá í skipið,“ sagði Tómas að lokum.

Nýju efnagreiningatæki gefið nafnið Adda

Heimir Þorsteinsson starfsmaður á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað með nýja tækinu. Ljósm. Hákon ViðarssonÍ októbermánuði síðastliðnum var nýtt efnagreiningatæki keypt á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Um er að ræða svonefnt NIR-tæki (Near Infrared Reflectance). Tæki af þessu tagi eru notuð til efnagreiningar á ýmsum efnasamböndum og nýtast einkar vel til greiningar á fiskimjöli og lýsi. Í framtíðinni er einnig ætlunin að nýta tækið til greiningar á hráefni og á framleiðslu verksmiðjunnar á ýmsum stigum.

Nýja NIR-tækið sem fengið hefur nafnið Adda. Ljósm. Hákon ViðarssonÞetta tæki er í reyndinni tölva sem mötuð er á upplýsingum og þær síðan notaðar til kvörðunar á þeim mæligildum sem eftirsóknarverð eru. Helsti kostur tækisins felst í því hve unnt er að fá niðurstöðurnar fljótt. Með fyrri búnaði rannsóknastofunnar gat tekið allt að sex klukkustundum að ná fram upplýsingum um efnainnihald framleiðslunnar en með tilkomu nýja tækisins tekur það einungis hálfa til eina mínútu. Annar stór kostur við notkun tækisins felst í því að ekki þarf lengur að nota kemísk efni við efnagreininguna.

Tæki af þessu tagi hafa verið til á Íslandi alllengi en þau hafa þróast hratt að undanförnu og þar með orðið auðveldari í notkun. Fyrir liggur að svona tæki munu sífellt verða víðar notuð við efnagreiningar.

Adda að störfum á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað. Ljósm. Guðjón B. MagnússonStarfsmenn Síldarvinnslunnar hafa ákveðið að gefa tækinu nafn fyrrverandi starfsmanns á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar en tækið verður hér eftir nefnt Adda. Er þetta í fullu samræmi við hefðir í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað og er þar skemmst að minnast loftþurrkaranna Finnboga og Freysteins og gufuþurrkarans Bubba. Adda hét fullu nafni  Hjördís Arnfinnsdóttir  en hún lést fyrr á þessu ári.

Adda hóf störf í fiskimjölsverksmiðju  Síldarvinnslunnar árið 1958 þegar fyrirtækið hóf starfsemi. Hún starfaði fyrst í mjölhúsi verksmiðjunnar og síðar um tíma á skilvindum. Störfin í bræðslunni voru framan af yfir sumarið þegar síld veiddist en á veturna vann hún í hraðfrystihúsi Sún. Þrjú sumur tók hún sér frí frá bræðslustörfum og saltaði þá síld á söltunarstöðinni Ás. Upp úr 1970 hóf Adda að starfa á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar og sinnti þar verkum þar til hún hætti að vinna árið 2010.

Á framansögðu sést að Adda starfaði hjá Síldarvinnslunni og tengdum fyrirtækjum í meira en 50 ár og á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar í hátt í 40 ár. Hún var einstaklega duglegur og samviskusamur starfsmaður og því þótti eðlilegt að nefna nýja tækið eftir henni í virðingarskyni þannig að nafn hennar lifði áfram á vinnustaðnum.

Polar Amaroq væntanlegur til Neskaupstaðar með um 2.000 tonn af loðnu

Polar Amaroq að dæla loðnu úr pokanum í grænlensku lögsögunni. Ljósm. Þorgeir Baldursson.Grænlenska skipið Polar Amaroq kom með fyrsta loðnufram haustsins til Neskaupstaðar hinn 13. nóvember sl. Strax að lokinni löndun var aftur haldið til veiða í grænlensku lögsögunni. Nú um hádegisbil hafði heimasíðan samband við Halldór Jónasson skipstjóra en þá var verið að taka síðasta hol veiðiferðarinnar. „Við munum leggja af stað til Neskaupstaðar nú eftir hádegið og aflinn verður um 2000 tonn, þar af eru um 680 tonn fryst,“ sagði Halldór. Þessi afli er fenginn í átta holum. Bestu holin voru fyrst en þá tókum við þrjú 300 tonna hol en síðan hefur aflinn farið minnkandi og í síðustu holunum hefur hann verið um 150 tonn í hverju holi. Þá hefur loðnan einnig farið minnkandi eftir því sem liðið hefur á túrinn; við erum að fá mun smærra síli nú en í upphafi veiðiferðar. Ísinn hefur sótt að okkur og er búinn að hrekja okkur frá því svæði sem við hófum veiðar á. Við erum nú staddir um 100 mílur norð-norðvestur úr Horni um það bil 10 mílur inn í grænlensku lögsögunni. Við reiknum með að verða í Neskaupstað seint annað kvöld,“ sagði Halldór að lokum.

Beitir NK á kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni

Beitir NK. Ljósm. Hákon ViðarssonVerið er að búa Beiti NK til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Rætt var við Tómas Kárason skipstjóra í morgun en þá var skipið að taka veiðarfæri á Eskifirði. „Við reiknum með að halda til veiða í dag eða á morgun“, sagði Tómas. „Færeyingarnir eru ekki byrjaðir á kolmunnanum ennþá en það var góð veiði þarna í nóvember og desember í fyrra. Ég hef heyrt að færeysku skipin áætli að hefja veiðarnar í næstu viku. Það er ekkert annað að gera en að fara og skoða þetta. Við eigum töluvert eftir af kvóta og það verður að reyna að ná honum áður en önnur verkefni kalla,“ sagði Tómas að lokum. 

Börkur í lokatúrnum á Íslandssíldinni

Nú líður að lokum síldarvertíðar. Ljósm. Hákon ViðarssonBörkur NK hélt til síldveiða vestur fyrir land í gær og er þar um að ræða síðustu veiðiferð vertíðarinnar á Íslandssíldinni hjá skipum Síldarvinnslunnar. Ráðgert var að Börkur héldi til kolmunnaveiða en ákveðið var að fresta því þar sem litlar kolmunnafréttir höfðu borist úr færeysku lögsögunni. Nokkur kolmunni veiddist  við Færeyjar í nóvember og desember í  fyrra og er því grannt fylgst með fréttum þaðan nú. Beitir NK liggur í Norðfjarðarhöfn og er verið að undirbúa hann til kolmunnaveiða.

Polar Amaroq kemur með fyrstu loðnu haustsins til Neskaupstaðar

Polar Amaroq GR 18-49. Ljósm. Hákon ViðarssonUm klukkan fjögur sl. nótt kom grænlenska vinnsluskipið Polar Amaroq með fyrstu loðnu haustsins til Neskaupstaðar. Aflinn var 430 tonn af frystri loðnu og tæplega 900 tonn sem fóru til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni eða samtals rúmlega 1300 tonn. Heimasíðan hafði samband við Halldór Jónasson skipstjóra og sagði hann að veiðiferðin í grænlensku lögsöguna hefði að mörgu leyti gengið vel en þó hefði óhagstætt veður sett strik í reikninginn. „Við héldum til veiða frá Neskaupstað 2. nóvember“, sagði Halldór. „Við náðum einungis einum degi á miðunum en þá skall á bræla. Þá var haldið inn á Ísafjarðardjúp og legið undir Grænuhlíð og loks var siglt til hafnar á Ísafirði. Á þessum eina degi tókum við þrjú hol og fengum um 50 tonn í hverju þeirra. Að aflokinni brælunni var aftur haldið á miðin og þá var veitt fyrir norðan 68. gráðu eða mun norðar en áður. Þarna fengum við tvo góða daga til veiða og fengum 1100-1200 tonn í fjórum holum. Loðnan sem veiddist þarna norðurfrá var mjög góð og mun betri en við höfðum fengið í upphafi veiðiferðarinnar. Hér um borð eru menn sáttir við þennan fyrsta loðnutúr haustsins og það verður haldið á miðin á ný strax að lokinni löndun“, sagði Halldór að lokum.

26,4 km af pönnum á sólarhring

Loðnan er fryst í pönnum eins og sjást á myndinni. Ljósm. Hákon ViðarssonÁ Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn var í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag var Síldarvinnslan með sýningarbás eins og fjölmörg önnur fyrirtæki og stofnanir. Í bás Síldarvinnslunnar voru veittar margvíslegar upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins og birtust þær bæði á veggspjöldum og eins í lifandi myndum sem sýndar voru. Á meðal upplýsinganna mátti sjá eftirfarandi staðreyndir um starfsemi fiskiðjuversins í Neskaupstað:
 • -Í fiskiðjuverinu eru fryst 550 t af loðnu á sólarhring (heilfryst í pönnur)
 • -550 t af loðnu eru um 25 milljónir fiska
 • -550 t af loðnu fara í um 44.000 pönnur
 • -Ef 44.000 pönnum er raðað enda við enda er lengdin 26,4 km eða sambærileg vegalengdinni frá miðbæ Neskaupstaðar til Eskifjarðar


Börkur á landleið með 1560 tonn af íslenskri síld – kolmunnaveiðar næst á dagskrá

Börkur NK. Ljósm. Hákon ViðarssonBörkur NK er á landleið með 1560 tonn tonn af íslenskri sumargotssíld og er væntanlegur til Neskaupstaðar seinni partinn á morgun. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra rétt fyrir hádegi í dag en skipið var þá nýkomið fram hjá Þorlákshöfn. Hjörvar sagði að veiðin hefði gengið vel í túrnum og aflinn hefði fengist í fjórum holum. „Þetta er flott síld og það gekk vel að ná í hana“, sagði Hjörvar. Stærsta holið gaf 530 tonn en við tókum það í gærdag. Veiðisvæðið var djúpt úti í Kolluál og upp í Wilson‘s Corner en svo nefnist suðvesturhorn Látragrunns“.

Hjörvar sagði að síldarvertíðin hefði gengið vel en nú væri síldarkvóti Síldarvinnslunnar að verða uppurinn. „Þetta er síðasti túrinn okkar á þessari vertíð og nú á að fara að gefa kolmunnanum gaum. Í nóvember og desember í fyrra var kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni og stefnan verður sett þangað. Við þyrftum að ná einhverjum kolmunna áður en árið kveður“, sagði Hjörvar að lokum.

Undirflokkar