Bjartur í biliríi

Bjartur NK í höfn. Ljósm. Hákon ViðarssonUpp úr hádegi í dag kom ísfisktogarinn Bjartur til hafnar í Neskaupstað að aflokinni heldur erfiðri sjóferð. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri sagði að þrennt hefði einkennt veiðiferðina; lítið fiskirí, bræla og bilirí. „Stundum er lífið svona til sjós, það er ekki alltaf dans á rósum“, sagði Steinþór. „Það var heldur lélegt fiskirí framan af og veðrið var bölvað. Við þurftum til dæmis að halda sjó samfellt í eina 18 tíma. Þegar við svo loksins vorum komnir í þokkalegan fisk bilaði vélin í skipinu. Vélin tók að hita sig og  þá var ekki annað að gera en að halda til lands og þangað var siglt á hálfum hraða. Þrátt fyrir óhagstætt veður og fiskileysi lengst af náðum við einum 70 tonnum og er uppistaða aflans þorskur og ufsi. Nú verður vélin skoðuð og vonandi finna menn fljótt út úr því hvað er að svo við getum haldið til veiða á ný hressir í bragði“, sagði Steinþór að lokum.

Hörkusíldveiði vestsuðvestur af Öndverðarnesi

Beitir NK að landa. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir NK er á landleið með 1245 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst um 65 mílur vestsuðvestur af Öndverðarnesi. Hann er væntanlegur til löndunar í Neskaupstað í fyrramálið, en siglt er norður fyrir land vegna slæms veðurútlits suður af landinu. Haft var samband við Tómas Kárason skipstjóra um tíuleytið í morgun þegar skipið var komið rétt austur fyrir Hornbjarg. Tómas lét vel af veiðiferðinni og sagði að mikið hefði verið að sjá á veiðislóðinni þó torfurnar hefðu gefið misjafnlega mikið. „Túrinn gekk afar vel í alla staði og við fengum góð hol“, sagði Tómas. Aflinn fékkst í fjórum holum og tvö þeirra voru afar góð. Eitt holið gaf 550 tonn eftir að togað hafði verið í klukkutíma og annað um 300 tonn eftir að togað hafði verið í tvo tíma. Að auki fengum við 220 tonn gefins hjá Vilhelm Þorsteinssyni EA. Við toguðum í gegnum sömu torfuna og Vilhelm en  þeir fengu heldur meiri afla en æskilegt var fyrir vinnsluna um borð þrátt fyrir stutt hol og nutum við góðs af því. Allt gengur þetta út á að vinna síldina sem ferskasta og mikilvægt er að hún bíði ekki lengi áður en hún er unnin“.

Nú líður að lokum veiðanna á íslensku síldinni hjá Síldarvinnsluskipunum en vertíðin hefur gengið afar vel. Börkur NK er á miðunum og var kominn með 800 tonn þegar haft var samband við skipið í morgun. 

FABLAB Austurland vígt

Gestir á tæknideginum höfðu mikinn áhuga á nýju FABLAB-smiðjunni. Ljósm. Smári GeirssonÁ tæknidegi fjölskyldunnar sl. laugardag var FABLAB Austurland formlega vígt og verður það að teljast tímamót í austfirskri mennta- og tæknisögu. FABLAB er stafræn smiðja með einföldum stýribúnaði sem gerir fólki á öllum aldri og með lágmarks tækniþekkingu kleift að hanna og smíða eigin frumgerðir. Hægt er að segja að í FABLAB-smiðjunni séu tæki og búnaður til að búa til næstum hvað sem er. Allur búnaður í smiðjunni er valinn með einfaldleika að leiðarljósi og í flestum tilvikum er unnt að gera hluti sem prentaðir eru frá venjulegu PDF-skjali.

Tækin í FABLAB-smiðjunni eru eftirtalin fyrir utan hefðbundnar tölvur: Fínfræsari, vínylskeri. laserskeri, stór fræsari, þrívíddarprentari og rafeindabúnaður af ýmsu tagi. 

Það hefur verið mikið átak að koma FABLAB-smiðjunni á fót. Verkmenntaskóli Austurlands hefur haft frumkvæði að verkefninu frá upphafi og hefur hann notið góðs fjárhagslegs stuðnings fyrirtækja. Síldarvinnslan hefur styrkt verkefnið myndarlega en auk þess hafa Samvinnufélag útgerðarmanna, Olíusamlag útvegsmanna, Alcoa-Fjarðaál og sveitarfélagið Fjarðabyggð styrkt það. Fasteignir ríkisins kostuðu nauðsynlegar breytingar á húsnæði svo unnt yrði að koma búnaðinum haganlega fyrir í verkkennsluhúsi Verkmenntaskólans. Að rekstri smiðjunnar munu koma Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Austurbrú auk Verkmenntaskóla Austurlands.

Vígsla FABLAB- smiðjunnar fór fram með tilheyrandi ræðuhöldum og borðaklippingu. Á borðann klipptu Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Elvar Jónsson skólameistari Verkmenntaskólans, Þorsteinn Sigfússon framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

Í ræðu sem menntamálaráðherra hélt við vígsluna lagði hann áherslu á að stuðningur við FABLAB og aðrar slíkar nýjungar væru einhver besta fjárfesting sem unnt væri að ráðast í. Lét hann í ljós mikla ánægju með að tækni eins og þarna um ræðir væri að halda innreið sína á Austurlandi.

Það verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með notkun FABLAB-smiðjunnar í framtíðinni en auk nemenda Verkmenntaskólans verður nemendum í öðrum skólum í landhlutanum gert kleift að nýta aðstöðuna og eins mun almenningur fá greiðan aðgang að þeim tækniundrum sem felast í FABLAB.


Tæknidagur fjölskyldunnar var vel sóttur

Fjölmargir kynntu sér starfsemi Síldarvinnslunnar á Tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonTæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag. Þetta er í annað sinn sem slíkur dagur er haldinn og er lögð áhersla á að allir aldurshópar finni eitthvað við sitt hæfi á deginum. Það eru Verkmenntaskólinn og Austurbrú sem standa fyrir þessum kynningar- og fræðsludegi en hann á ekki marga sína líka hér á landi. Dagurinn þótti heppnast vel í alla staði og sóttu hann á milli 500 og 600 gestir. Þeir sem lögðu leið sína í Verkmenntaskólann þennan dag virtust ánægðir með það sem boðið var upp á. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir kynntu starfsemi sína á deginum og auk þess var boðið upp á fyrirlestra af ýmsu tagi. Það voru ekki síst börnin sem nutu dagsins en þau fylgdust spennt með krufningu dýra, sýnikennslu Vísinda-Villa og fleiri forvitnilegum atriðum sem voru á dagskrá. Ef til vill var hápunktur dagsins vígsla á FABLAB Austurland en það er stafræn smiðja sem gerir fólki á öllum aldri kleift að hanna og smíða eigin frumgerðir.

Síldarvinnslan tók þátt í tæknideginum og deildi þar kennslustofu með verkfræðifyrirtækinu Eflu. Fjöldi gesta heimsóttu stofuna og kynntu sér starfsemi fyrirtækjanna. Síldarvinnslan lét útbúa veggspjöld með upplýsingum um þróun og starfsemi fyrirtækisins og auk þess voru sýndar lifandi myndir frá veiðum og vinnslu. Þá var einnig sýnt NIR-tæki sem notað er til efnagreiningar  og fengu gestir að sjá hvernig unnt er að nýta það til efnagreiningar á fiskimjöli. Með hjálp tækisins tekur slík greining einungis örfáar sekúndur. 

Jón Már Jónsson yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni segir að tæknidagurinn sé til hreinnar fyrirmyndar og afar ánægjulegt sé fyrir fyrirtækið að fá tækifæri til að kynna starfsemi sína á þessum degi. Þá sé frábært að koma í Verkmenntaskólann og sjá og skynja hve öflug og vel búin stofnun hann er orðinn. Telur Jón Már afar mikilvægt að gefa almenningi kost á því að kynna sér stöðu fyrirtækja í landshlutanum og átta sig á því hve mikilvæg stofnun eins og Verkmenntaskólinn er fyrir atvinnulífið og framþróun þess.

Barði NK í slipp

Barði NK 120. Ljósm. Hákon ViðarssonFrystitogarinn Barði NK hélt til Akureyrar í gær þar sem hann mun fara í slipp. Barði hefur legið í höfn í Neskaupstað í tvær vikur vegna bilunar í túrbínu en nú hefur verið skipt um hana í skipinu. 

Gert er ráð fyrir að Barði verði í slippnum í um þrjár vikur. Þar mun hefðbundnum slippverkum verða sinnt eins og botnhreinsun, botnmálun og endurnýjun fórnarskauta. Allir botn- og síðulokar verða teknir upp til skoðunar og sama gildir um skrúfu og stýrisbúnað. Eins verður aðalvél skipsins tekin upp og endurnýjað tengi á milli gírs og aðalvélar. Þá mun verða unnið að ýmsum smærri viðhaldsverkefnum.

Bjarni Ólafsson AK lýkur síldarvertíð með stæl

Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonBjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 640 tonn af íslenskri sumargotssíld sem veiddist fyrir vestan land. Þetta er síðasta veiðiferð skipsins á vertíðinni. Runólfur Runólfsson skipstjóri sagði að þessi veiðiferð hefði gengið einstaklega vel. „Við fengum þennan afla í einu holi og toguðum einungis í rúmlega tvo tíma“, sagði Runólfur. Runólfur upplýsti að á miðunum mætti finna ágætar torfur, einkum síðari hluta dags í ljósaskiptunum. „Yfir hádaginn splundrast torfurnar gjarnan og þá er lítið að hafa“, sagði hann. Þetta hol sem við tókum í þessum túr var einmitt seinnipartshol; við köstuðum um klukkan hálf fjögur og tókum trollið rétt fyrir sex með þessum góða afla“, sagði Runólfur að lokum. Það má því segja að Bjarni Ólafsson hafi lokið vertíðinni með stæl.

Beitir NK lagði af stað af síldarmiðunum síðla dags í gær með 1050 tonna afla. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í nótt. Börkur er að veiðum og fékk góðan afla í fyrsta holi.

Tæknidagur fjölskyldunnar er á laugardaginn

Starfsmenn Síldarvinnslunnar undirbúa tæknidaginn. Ljósm. Smári GeirssonTæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands á laugardaginn kemur. Það er Verkmenntaskólinn ásamt  Austurbrú sem standa fyrir deginum og hefur undirbúningur hans staðið lengi yfir.

Mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana mun taka þátt í deginum og er Síldarvinnslan á meðal þeirra. Á tæknidegi fjölskyldunnar er kappkostað að höfða til allra aldurshópa og þar verður unnt að kynnast ýmsum tækninýjungum ásamt því að meðtaka margskonar fróðleik og hlýða á fyrirlestra. Þá geta gestir kynnt sér námsframboð Verkmenntaskólans og þá aðstöðu og tækjakost sem skólinn býður upp á. Á deginum gefst fólki tækifæri til að skoða nýjan vélarúmshermi skólans og eins mun menntamálaráðherra vígja FABLAB Austurland sem skólinn hefur komið á fót með tilstyrk sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og fyrirtækja í sveitarfélaginu. FABLAB er stafræn smiðja með einföldum stýribúnaði og gerir hún fólki á öllum aldri kleift að hanna og smíða næstum hvað sem er. 

Þó svo að allir eigi að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á tæknideginum verður sérstök áhersla lögð á að höfða til barna og unglinga. Vísinda –Villi verður til dæmis með sýnikennslu á deginum og gestir frá Vísindasmiðju Háskóla Íslands munu leika sínar listir. Þá verður hægt að fylgjast með krufningu dýra, heimsækja störnuver og forritunarsmiðju svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna munu síðan kynna háþróaða tækni við framleiðslustarfsemi og veiðar og gestir munu eiga kost á að taka þátt í ýmsum vísindatilraunum. Þá verður tæknisögu Austurlands einnig gerð nokkur skil.

Þetta er í annað sinn sem tæknidagur fjölskyldunnar er haldinn í Verkmenntaskólanum en slíkur dagur var fyrst haldinn 16. mars 2013 og þótti heppnast afar vel. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir tóku þá þátt í deginum og lögðu mikið upp úr því að fróðleikur kæmist til skila með skýrum og greinargóðum hætti. Á þennan fyrsta tæknidag komu um 500 manns víða að af Austurlandi og bendir flest til þess að tæknidagurinn á laugardaginn verði fjölsóttur. Heilu hóparnir hafa þegar boðað komu sína og eftirvænting ríkir hjá mörgum.

Íslenska sumargotssíldin er gott hráefni

Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonÍ fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er tekið á móti íslenskri sumargotssíld frá þremur skipum: Beiti NK, Berki NK og Bjarna Ólafssyni AK. Síldin er ýmist heilfryst eða flökuð og er unnið úr um 700 tonnum á sólarhring. Lokið var við að landa 1000 tonnum úr Beiti í gær og Bjarni Ólafsson mun koma með 550 tonn í fyrramálið. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé mjög gott hráefni til vinnslu og öll starfsemi í fiskiðjuverinu gangi vel. „Nú er hins vegar svo komið að vinnslan hjá okkur er ekki samfelld. Það er langt að sækja síldina vestur fyrir land og veður hefur eðlilega mikil áhrif. Nú spáir til dæmis brælu og við gætum þurft að bíða töluvert eftir næsta farmi þegar búið verður að vinna síldina sem Bjarni Ólafsson kemur með á morgun. Þá ber að geta þess að síðustu daga hafa verið framkvæmdir um borð í Berki og því þurfti hann að gera hlé á veiðum. Bjarni Ólafsson er núna í sínum næstsíðasta túr á vertíðinni en Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur eiga samtals eftir að veiða um 6500 tonn,“sagði Jón Gunnar.


Framkvæmdir um borð í Berki NK

Gamli nótakraninn kominn í land af Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonEftir að Börkur NK hafði lokið við að landa 1300 tonnum af íslenskri sumargotssíld sl. laugardag var gert hlé á veiðum skipsins. Hléið er notað til ýmissa framkvæmda um borð. Í fyrsta lagi verður nótaleggjari skipsins endurnýjaður og komið fyrir mun öflugri leggjara en áður var. Í öðru lagi er unnið að gerð undirstaða fyrir búnað sem notaður verður til að dæla aflanum af skut en með tilkomu slíks búnaðar þarf ekki lengur að dæla afla úr trollpokanum af síðunni. Vindur og annar búnaður sem tengist skutdælingunni er væntanlegur í lok desembermánaðar og verður þá komið fyrir. Í þriðja lagi er unnið að ýmsum breytingum á vélbúnaði skipsins.

Iðnaðarmenn að störfum um borð í Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonMargir iðnaðarmenn koma að þessum framkvæmdum. Frá Vélsmiðjunni Hamri kom sjö járniðnaðarmenn og fimm frá Vélaverkstæði G. Skúlasonar. Þá koma þrír iðnaðarmenn frá Færeyjum og tveir frá fyrirtækinu Raftíðni. Fleiri iðnaðarmenn koma síðan að verkefnum um borð í skipinu dag og dag.

Ráðgert er að Börkur haldi á ný til veiða um komandi helgi.

Bjartur NK með 96 tonn – túrinn reddaðist á síðustu stundu

Bjatur NK að lokinni löndun. Ljósm. Hákon ViðarssonÍsfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í Neskaupstað í nótt með 96 tonn og er uppistaða aflans þorskur. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra var víða veitt í túrnum: „Við byrjuðum á Herðablaðinu og héldum þaðan á Breiðdalsgrunn, þvínæst á Þórsbanka og enduðum í Seyðisfjarðardýpinu. Það var heldur lítið að hafa þar til í gær en þá fékkst ágætis afli. Það má því segja að túrinn hafi reddast á síðustu stundu“.


Beitir með 1150 tonn úr Kolluálnum

Landað úr Beiti NK í dag. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir NK kom í gær til Neskaupstaðar með 1150 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst utarlega í Kolluálnum vestur af landinu. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra fékkst aflinn í fimm holum og var skipið um 50 klukkutíma að veiðum. „Við vorum heldur sunnar en í síðasta túr,“ sagði Tómas,“og það var misjafnlega mikið að sjá þarna. Þetta var mun lélegra en í síðasta túr og við þurftum að leita töluvert. Nú skilst mér að verið sé að leita að síld inni á Breiðafirði en ef marka má orð smábátasjómanna þarna þá er heldur ólíklegt að eitthvað finnist þar. Það mun vera heldur lítið líf í firðinum; lítill fiskur og lítið fuglalíf en síldinni fylgir almennt mikið líf eins og menn vita,“ sagði Tómas. Gert er ráð fyrir að lokið verði við að landa úr Beiti í nótt.

Börkur NK er að síldveiðum fyrir vestan og er kominn með 500 tonn. Þegar haft var samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra í morgun sagði hann að lítið væri um að vera. „Það var bræla í gær, ekkert fannst í nótt og við vorum að kasta núna á einhverja peðru. Héðan er því ansi lítið að frétta ,“ sagði Sturla.

Barði með fullfermi og bilaða túrbínu

Gott karfahol á dekkinu á Barða NK. Ljósm. Hreinn SigurðssonFrystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar í nótt. Skipið er með nánast fullfermi og bilaða túrbínu. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er uppisatða aflans karfi og ufsi og aflaverðmætið 97 milljónir króna. „Við vorum mest að veiðum fyrir vestan, í Víkurál og á Halanum,“ sagði Bjarni Ólafur. „Það var jöfn og góð veiði í túrnum, sérstaklega var karfaveiðin góð,“ sagði Bjarni Ólafur ánægður með árangurinn. 

Að sögn Bjarna Ólafs stóð til að Barði færi í slipp um næstu mánaðamót, en nú yrði væntanlega reynt að flýta slippferðinni. Ráðgert var að skipið yrði í slipp í einar þrjár vikur þannig að ljóst er að nokkur tími mun líða þar til Barði heldur til veiða á ný.

Þess skal getið að ísfisktogarinn Bjartur kom til löndunar á þriðjudag og var afli hans 99 tonn, uppistaðan þorskur og ufsi. 

Bleiki dagurinn 16. október

Bleikur októberEins og öllum er kunnugt er október mánuður Bleiku slaufunnar, árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Af því tilefni eru allir landsmenn beðnir um að hampa bleikum lit fimmtudaginn 16. október til þess að sýna samstöðu í báráttunni gegn hinum illvíga sjúkdómi. Síldarvinnslan lætur sitt ekki eftir liggja í dag. Bleiki liturinn er hafður í hávegum og tertur skreyttar með bleiku eru á boðstólum á kaffistofum. Þá var öllum konum sem starfa hjá fyrirtækinu afhent hálsmen með Bleiku slaufunni.Aldís Kristjánsdóttir starfsmanður fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Gunnar Sverrisson

Lesa meira...

Vinnsluskip landa enn norsk-íslenskri síld í Neskaupstað

Frystri síld landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í gærkvöldi. Ljósm. Hákon ViðarssonVinnsluskipin koma enn reglulega til hafnar í Neskaupstað og landa þar frystri norsk-íslenskri síld. Í gær var landað 500 tonnum úr Vilhelm Þorsteinssyni EA og nú er verið að landa tæpum 2000 tonnum úr Kristinu EA. Afli Kristinu er mestmegnis síld en að hluta til makríll. Von er á Hákoni EA til löndunar á morgun með 750 tonn af síld. Miklar annir eru hjá starfsmönnum frystigeymsla Síldarvinnslunnar bæði við móttöku afla og eins við útskipanir.

Bleik ljós í tankahúsi

Tankahúsið bleiklýst. Ljósm. Hákon ViðarssonOktóber er bleikur í ár eins og undanfarin ár. Bleiki liturinn er hafður í hávegum til að sýna samstöðu í baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Í tilefni af átaki Krabbameinsfélags Íslands gegn þessum vágesti hefur Síldarvinnslan lýst húsið á mjöltönkum fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað með bleiku. Húsið er áberandi og blasir við þegar ekið er inn í bæinn og þegar siglt er inn í höfnina þannig að þeir sem eiga leið hjá eru tryggilega minntir á átaksverkefnið og hve brýnt er að allir taki virkan þátt í baráttunni fyrir bættri heilsu og heilbrigði lífi. 


Börkur með 1400 tonn af síld að vestan – vinnslan gengur vel

Börkur NK að veiðum. Ljósm. Atli Rúnar EysteinssonBörkur NK er með 1400 tonn af íslenskri sumargotssíld á landleið en síldina fékk hann 40-50 mílur vestur af Öndverðarnesi. Gert er ráð fyrir að skipið komi til Neskaupstaðar á milli kl. 8 og 9 annað kvöld. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra um hádegisbil þegar skipið var statt suðvestur af Malarrifi. Lét Sturla vel af sér og sagði að misjafnlega mikið væri að sjá af síld á þessum miðum en hægt væri að fá góð hol, einkum yfir daginn. Börkur fékk aflann í 5 holum í þessari veiðiferð.

Nú er verið að vinna íslenska sumargotssíld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar sem Beitir kom með að vestan í nótt sem leið. Að sögn Jóns  Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra gengur vinnslan vel. Síldin er ýmist flökuð eða heilfryst og er unnið úr um 700 tonnum á sólarhring.

Beitir með fyrsta síldarfarminn að vestan

Beitir NK í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir er á leið til Neskaupstaðar með 1050 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst á Flákanum um 40 mílur vestur af Öndverðarnesi. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra um klukkan tvö í dag en þá var skipið statt við Tvísker í algeru blíðuveðri. Tómas var mjög ánægður með þessa fyrstu veiðiferð vestur fyrir land og taldi fulla ástæðu til bjartsýni hvað varðaði áframhaldandi veiðar. „Við komum á miðin á laugardagsmorgun og vorum lagðir af stað austur rúmum sólarhring síðar þannig að það er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Tómas. „Aflinn fékkst í fjórum holum og var talsvert af síld að sjá á meðan við vorum á miðunum. Holin voru stutt; í einu þeirra fengust 320 tonn eftir að togað hafði verið í tvo tíma og tuttugu mínútur og í öðru fengust 370 tonn eftir tvo og hálfan tíma. Síldin sem þarna um ræðir er hin fallegasta og ætti að henta vel til vinnslu“, sagði Tómas að lokum.

Yfirleitt hafa Síldarvinnsluskipin veitt íslenska sumargotssíld í nót inni á Breiðarfirði á seinni árum en nú hefur engin síld fundist þar.

Börkur er kominn vestur og er við veiðar á Flákanum.


Stærsta skip sem lagst hefur að bryggju í Norðfjarðarhöfn

Stærsta skip sem komið hefur til Norðfjarðarhafnar. Ljósm. Berglind Lilja GuðlaugsdóttirÁ sunnudagsmorgun kom skipið Wild Peony sem á heimahöfn í Panama til Norðfjarðar til að lesta rúmlega 3000 tonn af frystum makríl. Makrílinn mun skipið flytja til Nígeríu. Skipið er 150 metrar að lengd og stærsta skip sem komið hefur inn í Norðfjarðarhöfn. Guðlaugur Birgisson hafnarstarfsmaður greindi heimasíðunni frá því að vel hefði  gengið að koma skipinu inn í höfnina og að bryggju. „Við notuðum hafnsögubátinn Vött og björgunarbátinn Hafbjörgu við þetta verk og gekk það vel, enda algjör blíða þegar skipið kom,“ sagði Guðlaugur. „Við hefðum sennilega ekki getað tekið á móti þessu skipi ef ekki hefði verið búið að stækka höfnina, en framkvæmdir við stækkunina eru langt komnar og höfnin orðin miklu rýmri en áður,“ sagði Guðlaugur að lokum.

Gert er ráð fyrir að lokið verði við að lesta skipið í Neskaupstað á miðvikudag.


Síldarvinnsluskipin að hefja veiðar á íslenskri sumargotssíld fyrir vestan

Úr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf. Ljósm. Hákon ViðarssonNú eru hafnar veiðar á íslenskri sumargotssíld vestur af landinu og hafa skipin verið að fá góðan afla á Flákanum, 30-40 mílur vestur af Öndverðarnesi. Beitir er á leiðinni á þessi mið og mun væntanlega hefja veiðar á morgun. Börkur er nú að landa um 250 tonnum af norsk-íslenskri síld í Neskaupstað en mun væntanlega halda til veiða fyrir vestan að löndun lokinni.

Vinnsluskip með 18.000 tonn af makríl og síld

Útskipun á makríl og síld í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ViðarssonÁ yfirstandandi makríl- og síldarvertíð hafa vinnsluskip landað um 18.000 tonnum af frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Það eru einkum þrjú skip sem fært hafa þennan afla að landi; Vilhelm Þorsteinsson EA, Kristina EA og Hákon EA. Hákon hefur landað þrisvar sinnum en skipið hóf veiðar seint vegna þess að unnið var að breytingum á því. Að sögn Heimis Ásgeirssonar yfirverkstjóra í frystigeymslunum er vertíðin enn í fullum gangi og er von á Vilhelm Þorsteinssyni og Kristinu til löndunar eftir helgina.

Auk þess að taka á móti afla vinnsluskipanna eru afurðir fiskiðjuversins einnig geymdar í frystigeymslunum þannig að mikið magn fer í gegnum þær. Mest af hinum frystu afurðum fer um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn en hluti af þeim er fluttur landleiðina í gámum til Reyðarfjarðar þar sem þeir fara um borð í skip. Að sögn Heimis er von á tveimur skipum til Neskaupstaðar á næstunni til að lesta frystar afurðir. Annað þessara skipa mun taka 3000 tonn til Afríku og er það stærsta skip sem nokkru sinni hefur komið inn í Norðfjarðarhöfn, 150 metra langt.


Undirflokkar