Á milli 40 og 50 starfsmenn Síldarvinnslunnar sækja sjávarútvegssýninguna

Frá Sjávarútvegssýningunni í Smáranum. Ljósm. Karl Rúnar RóbertssonIceFish, íslenska sjávarútvegssýningin, verður formlega opnuð í dag í Smáranum í Kópavogi. Hér er um að ræða elleftu sjávarútvegssýninguna hér á landi og munu um 500 fyrirtæki kynna starfsemi sína og framleiðslu á henni. Í tengslum við sýninguna verða því fyrirtæki sem þótt hefur skara fram úr á sviði sjávarútvegs veitt verðlaun og eins verða haldnar ráðstefnur og kynningafundir sem snerta það efni sem sýningin gerir skil.

Alls munu á milli 40 og 50 starfsmenn Síldarvinnslunnar sækja sýninguna og koma þeir frá öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Hákon Viðarsson starfsmannastjóri segir mikilvægt að starfsmenn fylgist með því nýjasta sem er að gerast innan greinarinnar og sjávarútvegssýningin veiti einstakt tækifæri til þess.


Barði kominn til hafnar með fullfermi af karfa og ufsa

Trollið tekið á Barða NK. Ljósm. Hreinn SigurðssonFrystitogarinn Barði NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í morgun eftir vel heppnaða veiðiferð sem hófst þó ekki glæsilega. Fyrst hélt skipið til úthafskarfaveiða en gafst upp eftir sex sólarhringa og fékkst enginn afli á þessum tíma. Þá var haldið til Hafnarfjarðar og skipt um hlera og síðan hafnar gullkarfaveiðar í Víkurálnum. Theodór Haraldsson stýrimaður upplýsti heimasíðuna að gullkarfaveiðin hefði í reynd verið ævintýraleg, allt upp í 700 kg. á mínútu og því hefði skipið verið langtímum saman á reki á meðan vinnsla fór fram. „Þetta var sannkölluð Holið hjá Barða NK var 20 tonn. Ljósm. Hreinn Sigurðssonmokveiði“, sagði Theodór,“og við tókum þarna nokkur 15-20 tonna hol. Undir lok túrsins var ætlunin að veiða ufsa og þá var haldið á Halann en þar hafði verið ágætis ufsaveiði. Þegar við komum þangað hafði veiðin hins vegar dottið niður og því tekin ákvörðun um að reyna við ufsa hér fyrir austan. Við fylltum síðan skipið á tveimur sólarhringum á Papagrunni og í Berufjarðarál. Þar var þokkalegt nudd í ufsanum og reyndar var síðasta holið býsna gott, ein 12 tonn. Eftir að tilrauninni til veiða á úthafskarfa  lauk vorum við 11 sólarhringa á veiðum og er heildaraflinn um 330 tonn upp úr sjó. Túrinn tók alls 18 daga höfn í höfn og var fínasta veður allan tímann ef undanskilinn er einn bræludagur,“ sagði Theodór hinn ánægðasti.

Aflinn losaður í móttökuna. Ljósm. Hreinn SigurðssonGert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný á sunnudagskvöld og aftur verði lögð áhersla á að fiska karfa og ufsa.

Bjartur NK með 100 tonn af þorski eftir þriggja daga veiðiferð

Landað úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ViðarssonBjartur NK kom til löndunar í gærkvöldi með um 100 tonn af þorski. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að sæmilega hafi aflast í túrnum en veitt var í Seyðisfjarðardýpi og á Digranesflaki. Upplýsir Steinþór að hefðbundið sé að sækja á þessi mið á haustin því þarna megi þá yfirleitt fá þokkalegan fisk.

Bjartur mun halda á ný til veiða á morgun. 

Byrjuðum á Rauða torginu og enduðum í Seyðisfjarðardýpinu

Landað úr Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonBörkur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær með rúmlega 800 tonn af síld. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra er um að ræða fína síld en hún er dálítið blönduð makríl og kolmunna. „Við byrjuðum að toga á Rauða torginu en enduðum í Seyðisfjarðardýpinu,“ sagði Hjörvar. „Það virðist ekki vera neitt mikið af síld hér nærri landinu og veiðin er dálítið gloppótt. Það er hins vegar unnt að finna verulega síld fjær landinu. Ég var að frétta að miklu meira væri að sjá austur á 9. gráðu. Annars er ekkert hægt að kvarta, veiðin hefur gengið þokkalega vel til þessa,“ sagði Hjörvar að lokum.

Unnið úr 700-800 tonnum af hráefni á sólarhring

Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSíldveiðar úti fyrir Austfjörðum ganga vel. Nú er verið að landa 350 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og hefur Bjarni þá lokið síldveiðum að sinni. Í gær var landað um 700 tonnum úr Berki NK og á undan honum landaði Beitir NK tæplega 800 tonnum. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé stór og góð og sú síld sem landað var úr Berki í gær hafi verið afar falleg. „Síldin er bæði flökuð og heilfryst og við vinnum úr 700-800 tonnum af hráefni á sólarhring,“ sagði Jón Gunnar. „ Þessi makríl- og síldarvertíð hefur gengið alveg einstaklega vel og segja má að hafi verið samfelld vinnsla hjá okkur frá því að vertíðin hófst um miðjan júlí. Stefnt er að því að ljúka veiðum og vinnslu á norsk-íslensku síldinni um næstkomandi mánaðamót eða í byrjun október,“ sagði Jón Gunnar að lokum.


Sigurður Steinn Einarsson ráðinn til Síldarvinnslunnar

Sigurður Steinn EinarssonSigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur hefur verið ráðinn til starfa hjá Síldarvinnslunni og mun sinna ýmsum sérverkefnum.  Sigurður er fæddur og uppalinn Norðfirðingur og lauk námi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri sl. vor. Hann er ekki ókunnur Síldarvinnslunni því hann hefur starfað hjá fyrirtækinu flest  sumur frá árinu 2006. Sigurður starfaði við kennslu í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar sumarið 2013 og gegndi starfi skólastjóra Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar sem ýtt var úr vör sl. sumar.

Síldarvinnslan býður Sigurð velkominn til starfa.

Vinnsluskipin landa makríl hvert á fætur öðru

Frystum makríl landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSíðustu daga hafa vinnsluskip landað hátt í 3.400 tonnum af frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Heimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslunum segir að það sé svo sannarlega nóg að gera hjá starfsmönnunum enda landanir eða útskipanir nánast upp á hvern dag. Lokið var við að landa 500 tonnum úr Vilhelm Þorsteinssyni EA sl. föstudagsmorgun og á sunnudag var 2.200 tonnum landað úr Kristinu EA. Í gær var síðan lokið við að landa 650 tonnum úr Hákoni EA.

Gert er ráð fyrir að Vilhelm Þorsteinsson komi á ný til löndunar  á miðvikudag.

Megnið af afurðunum í frystigeymslunum er skipað um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn en eins fer töluvert í gáma sem fluttir eru til útskipunar á Reyðarfirði.

Stór og falleg síld

Beitir NK að landa í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir NK kom til löndunar með rúmlega 700 tonn sl. laugardag. Aflinn var að mestu síld en hún var þó blönduð makríl. Síldin var flökuð og fryst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og gengur vinnslan vel. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra fékkst síldin í Norðfjarðar- og Seyðisfjarðardýpi og gengu veiðarnar ágætlega. „Þetta er stór og falleg síld og það virðist vera töluvert af henni á þessum slóðum,“ sagði Tómas.

Börkur NK kom síðan til löndunar í gær með 750 tonna afla, mestmegnis síld.  Beitir og Bjarni Ólafsson eru á miðunum þegar þetta er skrifað. Upplýsti Tómas rétt í þessu að Beitir væri nú að veiðum í Reyðarfjarðardýpinu og allt gengi eins og í sögu.  


Til hamingju KFF

Bikarinn fór á loft á Norðfjarðarvelli í dag. Ljósm. Eysteinn Þór Kristinsson.Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar vann 2. deild karla með yfirburðum og tók á móti sigurlaununum í dag að afloknum 2-0 sigri á Sindra á Norðfjarðarvelli. Fjarðabyggð beið einungis lægri hlut í einum leik í deildinni í sumar og hefur níu stiga forskot á næsta lið þegar einni umferð er ólokið. Stigin sem liðið hefur fengið eru 50 talsins og markahlutfallið glæsilegt og undirstrikar þá yfirburði sem liðið hefur haft.

Það ríkti svo sannarlega gleði á Norðfjarðarvelli í dag þegar bikarnum var lyft og var fjölmenni á vellinum sem samfagnaði liðsmönnum. Er þetta annað árið í röð sem KFF-liðið veitir sigurlaunum móttöku en liðið bar sigur úr býtum í 3. deildinni í fyrra.

Síldarvinnslan er stoltur stuðningsaðili KFF og sendir félaginu heillaóskir í tilefni af frábærum árangri á knattspyrnuvellinum. Áfram Fjarðabyggð !

Farið að huga að síldinni

Úr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ViðarssonUm þessar mundir er lítið eftir af makrílkvóta þeirra skipa sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar  í Neskaupstað. Því er nú farið að huga að síldveiðum af fullri alvöru. Síld hefur gjarnan verið meðafli hjá makrílveiðiskipunum og gera má ráð fyrir að makríll verði meðafli þegar öll áhersla verður lögð á síldveiðarnar. Norsk-íslenska síldin sem veiðst hefur að undanförnu hefur verið vel á sig komin og ætti að vera úrvalshráefni til vinnslu. Fyrir utan norsk íslensku síldina hefur nokkuð fengist af íslenskri sumargotssíld en hún er alls ekki eins eftirsóknarverð til vinnslu á þessum árstíma.

Bjarni Ólafsson AK er nú á landleið með um 500 tonna afla. Veiðisvæði skipsins var mun austar en það svæði sem makrílveiðarnar hafa helst farið fram á úti fyrir Austurlandi að undanförnu, en áformað var að Bjarni legði alla áherslu á að veiða síld. Aflinn er töluvert blandaður og þykir makrílhlutfallið vera of hátt. 

Beitir NK er nú á miðunum og er ætlunin að hann veiði síld. Mun hann reyna fyrir sér mun norðar en hann hefur veitt makríl að undanförnu.

Börkur NK er að landa í fiskiðjuverið tæplega 650 tonnum. Megnið af aflanum er makríll.


Makríllinn sífellt feitari og stinnari

Makríllinn verður sífellt betri. Ljósm. Smári GeirssonMakrílveiðin hjá skipunum sem landa til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur gengið vel að undanförnu. Þegar þetta er skrifað liggur Bjarni Ólafsson AK í höfn að aflokinni löndun, Börkur NK er að veiðum og Beitir NK er að landa. Beitir kom til hafnar síðastliðna nótt með 600 tonna afla, 400 tonn af makríl og 200 af síld. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti var skipið um 25 klukkustundir að veiðum í veiðiferðinni og veiðisvæðið var sunnan við svonefnda Holu eða 40-50 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni. „Aflinn er heldur blandaðri en hann hefur verið,“ sagði Tómas,“ en mestu munar þó um hreint 100 tonna síldarhol sem fékkst í Reyðarfjarðardýpinu nokkru norðar en við vorum annars að veiðum. Makríllinn er sífellt að verða betri og er orðinn býsna góður. Fiskurinn er feitur, fallegur og stinnur og afar lítil áta í honum. Hann er í reyndinni fyrirmyndarhráefni eins og hann er í dag.“

Að sögn Tómasar eru tæplega 2000 tonn eftir óveidd af makrílkvóta Síldarvinnslunnar.


Góð makrílveiði að aflokinni brælu

Beitir NK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ViðarssonUm síðustu helgi lágu makrílveiðar niðri á miðunum úti fyrir Austurlandi vegna leiðindaveðurs. Veðrið gekk niður á þriðjudag og þá hóf Bjarni Ólafsson AK veiðar. Tók skipið tvö hol og kom til löndunar í Neskaupstað í gærdag með um 250 tonn. Beitir NK kom síðan til löndunar sl. nótt með 560 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti um veiðiferðina: „Það hefur fiskast býsna vel eftir að brælunni lauk,“ sagði Tómas. „Við fengum þessi 560 tonn í þremur holum. Um er að ræða hreinan makríl og er þetta stór og góður fiskur. Við vorum að veiðum í Holunni sem er um 40 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni en Bjarni Ólafsson var að veiðum á sömu slóðum.“

Beitir hefur nú fiskað um 5.200 tonn af makríl á yfirstandandi vertíð.

Bölvuð bræla

Löndun úr Bjarti NK. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni stuttri veiðiferð. Aflinn var einungis 45 tonn sem þykir lítið en veður var vont í túrnum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri upplýsti heimasíðuna um að haldið yrði til veiða á ný í dag og vonandi væri veðrið eitthvað að ganga niður.

Brælan hefur líka haft sín áhrif á makríl- og síldveiðar en erfitt getur verið að finna makrílinn þegar brælir. Þetta hlé á veiðunum hefur verið notað til að þrífa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en það er gert með reglubundnum hætti. Þá er vinnsluhléið notað til að víxla dag- og næturvöktum í verinu. Vaktafyrirkomulagi í fiskiðjuverinu var breytt  13. ágúst og teknar upp tvískiptar vaktir í stað þrískiptra. Á þessum tíma er hefð fyrir að breyta vaktafyrirkomulaginu enda eru sumarstarfsmenn þá að hverfa á braut. Á hvorri vakt eru 25 starfsmenn en að auki eru 3 starfsmenn í fríi á hverjum tíma.

Bjarni Ólafsson AK fékk 16 túnfiska í einu holi

Einn af skipverjunum á Bjarna Ólafssyni AK og túnfiskarnirBjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar til löndunar sl. laugardag. Afli skipsins var 450 tonn og skiptist þannig að tæplega helmingur hans var makríll en rúmlega helmingur síld. Að auki færði skipið að landi meðafla sem vakti athygli, en það fékk hvorki fleiri né færri en 16 túnfiska í veiðiferðinni. Runólfur Runólfsson skipstjóri var ánægður með þennan óvænta afla og sagði eftirfarandi þegar heimasíðan ræddi við hann:“ Allir túnfiskarnir komu í eina og sama holinu. Við fórum út fyrir kantinn og tókum hol þar og þar virðist túnfiskur halda sig því Beitir NK fékk fjóra túnfiska á sömu slóðum fyrir nokkrum dögum. Þetta er óvenjulegt og ég man einungis eftir því að við á Bjarna Ólafssyni höfum einu sinni áður fengið túnfisk í trollið; það var fyrir allmörgum árum og þá voru fiskarnir sjö talsins. Fiskarnir 16 sem nú fengust voru af stærðinni 170-280 kg. en flestir þeirra voru í kringum 200 kg. að þyngd. Þegar í land var komið voru fiskarnir skornir. Við vorum svo heppnir að í Neskaupstað var staddur Japaninn Takahashi og stjórnaði hann skurðinum en Takahashi er fulltrúi japansks fyrirtækis sem kaupir mikinn fisk frá Íslandi og hefur góða þekkingu á því hvernig skal meðhöndla túnfisk. Áhöfnin á Bjarna Ólafssyni fékk að smakka túnfisk í gær og þótti hann góður. Í dag verður síðan efnt til heljarinnar túnfiskveislu um borð,“ sagði Runólfur Runólfsson að lokum.

 

Barði NK með fullfermi af karfa og ufsa úr Víkurálnum

Barði NK að landa í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ViðarssonFrystitogarinn Barði NK er að landa fullfermi af karfa og ufsa í Neskaupstað. Aflinn fékkst á Vestfjarðamiðum, mest í Víkurálnum að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra. Mokveiði var allan tímann og fiskurinn sem fékkst ágætur. Veiðiferðin tók samtals 13 daga en einungis 11 daga var verið á veiðum. Bjarni Ólafur segir að áhöfnin sé ánægð með túrinn og ráðgert sé að halda til veiða á ný undir helgi en þá verður væntanlega búið að gera við togspil sem bilaði í veiðiferðinni.

25 þúsund tonnum af makríl landað í Neskaupstað á vertíðinni

Birtingur NK kemur með makríl til löndunar. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Um þessar mundir hefur rúmlega 13.000 tonnum af makríl verið landað til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á yfirstandandi vertíð. Megnið af aflanum hafa Beitir NK, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK fært að landi en eins hafa Birtingur NK og Bjartur NK landað makríl til vinnslu. Þá hafa vinnsluskip landað tæpum 12.000 tonnum af frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Af frystiskipunum  hefur Vilhelm Þorsteinsson EA landað mestu en þar á eftir kemur Kristina EA. Þá hefur Barði NK einnig landað frystum makríl í geymslurnar.

Fyrir utan makrílinn hefur töluvert borist af síld á land í Neskaupstað en síld er meðafli á makrílvertíðinni.

14 þúsund tonn á 14 dögum

Í Neskaupstað hefur verið skipað út 14.000 tonnum af frystum makríl á sl. tveimur vikum. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Um þessar mundir er verið að skipa 5000 tonnum af frystum makríl um borð í skip sem liggur í Norðfjarðarhöfn. Skipið mun flytja farminn til Afríku. Þar með hafa fjögur flutningaskip lestað 14 þúsund tonn af frystum makríl í höfninni á tveimur vikum. Í upphafi vertíðar höfðu menn nokkrar áhyggjur af erfiðri stöðu á makrílmörkuðum en til þessa hafa þær áhyggjur reynst ástæðulausar.

Börkur er laus við allt tóbak

Hér má sjá Börk NK landa til vinnslu og Bjart NK koma til löndunar. Ljósm: Hákon ViðarssonÞegar Síldarvinnslan festi kaup á Berki NK í febrúarmánuði sl. var tekin ákvörðun um að ekki yrði reykt um borð í skipinu. Nokkrir í áhöfninni þurftu að taka sig á og hætta reykingum og notkun nef- og munntóbaks er ekki til staðar hjá áhöfninni. Börkur er því laus við alla tóbaksnotkun og mættu ýmsar aðrar áhafnir taka sér það til fyrirmyndar.

                Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra var sérstakt reykherbergi í skipinu þegar það var keypt frá Noregi en það hefur ekki verið notað eftir að Síldarvinnslan eignaðist það. Hjörvar segir eftirfarandi um hvarf tóbaksins úr lífi áhafnarinnar:“ Að mínu mati skiptir þetta miklu máli og þarna fengu þeir fáu sem reyktu gullið tækifæri til að hætta. Þeir gerðu það og sem betur fer hófst ekki notkun á nef- og munntóbaki í staðinn. Þetta er þáttur í því að gera umhverfið um borð sem heilsusamlegast og öll umgengni um skip stórbatnar þegar tóbaksnotkun heyrir sögunni til. Menn losna við reykingalyktina og staðreyndin er sú að allri tóbaksnotkun fylgir mikill sóðasakpur. Ég hef engan heyrt kvarta um borð yfir hvarfi tóbaksins, þvert á móti held ég að allir séu ánægðir með að vera lausir við þennan ófögnuð.“

Birtingur með makríl að vestan

Birtingur NK. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson           
Birtingur NK landaði makríl sem fékkst í grænlenskri lögsögu í Helguvík í lok síðustu viku. Að löndun lokinni hélt hann til veiða úti fyrir Vesturlandi og er nú á landleið til Neskaupstaðar með tæp 400 tonn af góðum makríl. Heimasíðan ræddi við Atla Rúnar Eysteinsson stýrimann í morgun þar sem báturinn var staddur í Bakkaflóadýpi og sagði hann eftirfarandi: „Við fengum þetta í Kolluál í tveimur holum. Þarna var fínasta veiði frá því um klukkan þrjú á daginn og fram til morguns. Makríllinn sem fékkst þarna er mjög góður og líklega stærri en fiskurinn sem fæst fyrir austan. Við munum koma til Neskaupstaðar klukkan þrjú í dag og allur aflinn fer að sjálfsögðu til manneldisvinnslu.“

Í gær hélt Beitir NK til veiða að aflokinni löndun í Neskaupstað og var ákveðið að hann héldi á miðin fyrir vestan land.

Hörkutúr hjá Bjarti

Prinsinn, Bjartur NK kominn til hafnar eftir hörkutúr. Ljósm: Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Bjartur kom til löndunar í Neskaupstað í morgun með 97 tonna afla. Uppistaða aflans er þorskur eða 85 tonn. Þetta er fyrsti botnfisktúr Bjarts að afloknum makrílveiðum en skipið fór í fjóra makríltúra á tímabilinu 7.-17. ágúst og veiddi rúmlega 180 tonn sem fóru til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Jóhann Örn Jóhannsson skipstjóri var ánægður með túrinn og að vera byrjaður aftur á botnfiskveiðum: „Við erum afar sáttir við að vera komnir á hefðbundnar botnfiskveiðar á ný, þar eigum við heima og þar kunnum við best við okkur. Þessi túr gekk afar vel. Við vorum einungis tvo sólarhringa á veiðum og fengum 48 tonn fyrri daginn og 49 þann síðari. Þá er fiskurinn afar vænn og góður. Við veiddum mest í Vonarbrekkunni austan við Litladýpi en það er suðaustur af Breiðdalsgrunni, innan við Utanfót,“ sagði Jóhann í samtali við heimasíðuna.


                Líklegt er að Bjartur haldi á ný til veiða á sunnudag.

Undirflokkar