Síldarvinnslunni afhent MSC-vottunarskírteini fyrir síldveiðar

Rut Hermannsdóttir verkefnisstjóri, Gunnþór, Gísli Gíslason framkvæmdastjóri MSC og Valur Ásmundsson sölustjóri. Ljósm. Hákon Viðarsson.Í gær var Síldarvinnslunni afhent MSC- vottunarskírteini fyrir síldveiðar bæði úr norsk- íslenska stofninum og úr íslenska sumargotsstofninum. Þessi vottun felur í sér viðurkenningu á því að veiðar skipa fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Þar með hafa bæði síldveiðar og síldarvinnsla Síldarvinnslunnar hlotið MSC- vottun.

Það var Gísli Gíslason sem afhenti vottunarskírteinið en Gísli er framkvæmdastjóri MSC á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Við þetta tækifæri flutti Gísli fróðlegt erindi fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar um eðli og þróun MSC-vottunarkerfisins og kom fram í því að um 80 fyrirtæki á Íslandi hafi nú fengið svonefnda rekjanleikavottun MSC. Ljóst er að vottun af þessu tagi skiptir orðið miklu máli því hún veitir neytendum traustar upplýsingar um að varan sé framleidd með sjálfbærum hætti og því styrkir hún markaðsstöðu viðkomandi framleiðslufyrirtækja. Neytendur á stórum markaðssvæðum fylgjast grannt með því hvort vörur séu merktar með vottunarmerkjum eður ei og MSC- merkið er mjög þekkt vottunarmerki.

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar 2014

Frá Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar síðastliðið sumar. Ljósm. Margrét Þórðardóttir.Á síðasta sumri starfrækti Síldarvinnslan sjávarútvegsskóla fyrir  ungmenni sem fædd voru á árunum 1998 og 1999. Skólinn var tilraunaverkefni og starfaði í tvær vikur. Meginmarkmiðið með skólahaldinu var að gefa nemendum kost á að fræðast um fiskveiðar og fiskvinnslu en skólastarfið byggði á fyrirlestrahaldi og heimsóknum þar sem vinnslustöðvar, þjónustufyrirtæki  og fiskiskip voru skoðuð. Nemendur fengu námslaun á þeim tíma sem skólinn starfaði og voru þau sambærileg þeim launum sem greidd voru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. 

Námsefnið var fjölbreytt og kennarar í skólanum voru margir. Í upphafi námsins var sögu sjávarútvegs gerð skil og fjallað um veiðiskip, veiðarfæri og verkunaraðferðir á hverjum tíma. Lögð var áhersla á að gera grein fyrir tækniþróuninni og þeim samfélagslegu áhrifum sem sjávarútvegurinn hefur haft. Fyrir utan þetta var fjallað um stoðgreinar sjávarútvegsins, markaðsmál og gæðamál og kennslunni fylgt eftir með heimsóknum í fyrirtæki og um borð í skip. Í kennslunni kom skýrt fram hve störfin innan sjávarútvegsins eru fjölbreytt og þegar Verkmenntaskóli Austurlands var heimsóttur var fjallað um allar þær námsleiðir sem þeir sem kjósa að sinna störfum innan sjávarútvegs eiga kost á að velja.

Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar þótti heppnast vel og í ár var tekin ákvörðun um að færa út kvíar skólastarfsins. Sjávarútvegsfyrirtækin Eskja og Loðnuvinnslan komu til liðs við Síldarvinnsluna og Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú einnig. Ákveðið var að efna til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir eru árið 2000 og í samræmi við það var heiti skólans breytt í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar. Mun skólinn starfa í þrjár vikur í sumar og fer kennsla fram á þremur stöðum; Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Skólastarfið hefur þegar verið auglýst og mun skólinn starfa í eina viku á hverjum stað. Í Neskaupstað verður kennt dagana 23. júní til 27. júní, á Fáskrúðsfirði 30. júní til 4. júlí og á Eskifirði 7. júlí til 11. júlí.

Það er von þeirra sem standa að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar að þeir nemendur sem fæddir eru árið 2000 fjölmenni í skólann og láti ekki þetta einstaka tækifæri fara framhjá sér. Skólahaldið verður líflegt og fjölbreytt og vissulega er það fátítt að nemendur á þessum aldri eigi kost á að sækja nám á fullum launum.  Það er mat þeirra sem standa að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar að námsefni grunnskólans fjalli afar lítið um sjávarútveg en Sjávarútvegsskólanum er ætlað að bæta úr því. Aðstandendur skólans telja brýnt að ungmenni í sjávarbyggðum eins og í Fjarðabyggð þurfi að öðlast staðgóða þekkingu á sjávarútvegi enda ráðast lífsskilyrði íbúanna beint og óbeint af gengi greinarinnar.

Sigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir nemi í sjávarútvegsfræðum og Elvar Ingi Þorsteinsson markaðsfræðingur vinna nú að gerð námsefnis fyrir Sjávarútvegsskólann auk þess sem þau skipuleggja skólahaldið í samvinnu við Austurbrú. Skólastarfið hefur þegar verið auglýst og er skráning í skólann hafin á www.sjavarskoli.net

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar{nomultithumb}

Síldarvinnslan styður Þrótt 2014

Stefán Már Guðmundsson og Gunnþór Ingvason eftir undirritun samningsins. Ljósm. Hákon Viðarsson.Síldarvinnslan hf. og Íþróttafélagið Þróttur hafa gert með sér nýjan styrktar- og auglýsingasamning og var samningurinn undirritaður í gær. Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra félaga sem stutt hafa hvað dyggilegast við bakið á Þrótti og stuðlað að því að unnt væri að halda úti öflugu íþróttastarfi í Neskaupstað.

Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri  Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sem undirrituðu samninginn. Stefán Már segir að þessi samningur skipti miklu máli fyrir Þrótt en hann felur í sér mánaðarlegar greiðslur sem renna beint til einstakra deilda félagsins og skapa þannig ákveðið öryggi í rekstri þeirra. Stefán segir einnig að ánægjulegt sé hve Þróttur njóti mikillar velvildar í Neskaupstað og komi það skýrt fram við gerð samninga sem þessa. Íbúarnir virðast kunna vel að meta starfsemi Þróttar og öflug fyrirtæki eru tilbúin að leggja félaginu lið með myndarlegum hætti.

Þungt hljóðið í kolmunnamönnum

Bjartur NK.Það er heldur þungt hljóðið í mönnum á kolmunnamiðunum. Að undanförnu hefur veiðin verið treg og útlitið sýnist mönnum ekki vera neitt sérstaklega bjart. Algengt er að skipin hafi verið að fá um 200 tonn eftir að hafa togað í rúman sólarhring. Börkur er kominn með 1570 tonn og Beitir um 1600 tonn. Birtingur hélt til veiða eftir sjómannadag seinna en fyrrnefndu skipin og er hann kominn með um 380 tonn.

Frystitogarinn Barði kom til hafnar í gær til að skipta um hlera og taka umbúðir. Áformað var að Barði legði stund á veiðar á úthafskarfa þessa dagana en karfinn hefur látið bíða eftir sér og hafa íslensku skipin gefist upp á veiðunum, allavega í bili. Ákveðið var að Barði færi á grálúðuveiðar og eru þær hafnar. Ísfisktogarinn Bjartur er að landa en afli hans er 95 tonn, uppistaðan ufsi og þorskur.

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2013

 • Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2013Hagnaður ársins nam 5,6 milljörðum króna
 • Opinber gjöld fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4 milljörðum króna 
 • Eiginfjárhlutfall er 54%
 • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 206 þúsund tonnum af hráefni
 • Fiskiðjuverið tók á móti 80 þúsund tonnum af hráefni
 • Um frystigeymslur félagsins fóru 85 þúsund tonn af afurðum
 • Framleiddar afurðir voru 101 þúsund tonn
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2013 voru alls 23,6 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 16,2 milljörðum króna. EBITDA var 7,4 milljarðar króna.  Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 168 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 6,9 milljörðum króna. Reiknaðir skattar námu 1325 milljónum króna og var hagnaður ársins því tæpir 5,6 milljarðar króna.  

Gjöld til hins opinbera
Síldarvinnslan greiddi 2,8 milljarða til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur á árinu var 1350 milljónir króna. Veiðileyfagjöld námu 940 milljónum á síðasta fiskveiðiári og önnur opinber gjöld 520 milljónum 

Fjárfestingar
Rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað var lokið á árinu.  Skipt var á skipum þegar Beitir var seldur til Noregs og nýr Beitir keyptur.

Haldið var áfram á braut uppbyggingar í fiskiðjuveri félagsins. 

Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2013 voru bókfærðar á 45,3 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 14,5 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,9  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 24,4 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 54%.

Starfsemi
Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 15.500 tonn, aflaverðmæti 3.910 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 128 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.675 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa var 8.600 milljónir króna og aflamagn 143.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013. Framleidd voru 41 þúsund tonn af mjöli og 15 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 56 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 11.554 milljónir króna.

Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 41.000 tonn. Þar vega loðnuafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks makrílafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 6.880 milljónir króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 85 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals framleiðsla á afurðum nam 101.000  tonnum á árinu 2013 að verðmæti tæplega 20 milljarðar króna.

Starfsmenn
Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar starfa um 300 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins námu 3.320 milljónum króna á árinu 2013 og greiddu starfsmennirnir 1160 milljónir í skatta.

Aðalfundur
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn föstudaginn 6. júní.  Á fundinum var samþykkt að greiða 2 milljarða í arð. 

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf.föstudaginn 6. júní 2014.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.


Aðalfundur Síldarvinnslunnar

Stjórn og varastjórn Síldarvinnslunnar hf. ásamt framkvæmdastjóra. Ljósm. Hákon Viðarsson.Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn í Neskaupstað í dag, föstudaginn 6. júní.  Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf. Sérstök fréttatilkynning verður gefin út með upplýsingum um starfsemi og afkomu Síldarvinnslusamstæðunnar á árinu 2013.

Á aðalfundinum var stjórn félagsins endurkjörin en hún er þannig skipuð:
     Anna Guðmundsdóttir
     Björk Þórarinsdóttir
     Freysteinn Bjarnason
     Ingi Jóhann Guðmundsson
     Þorsteinn Már Baldvinsson 

Varamenn:
     Arna Bryndís Baldvins McClure
     Halldór Jónasson

Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla Austurlands

Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla AusturlandsÍ dag hófst verknámsvika í Verkmenntaskóla Austurlands og mun henni ljúka 12. júní. Í verknámsvikunni fer fram kynning á iðnnámi og munu allir þeir sem luku námi í 9. bekk grunnskóla í Fjarðabyggð í vor og eru skráðir í Vinnuskóla Fjarðabyggðar hefja sumarstarfið með því að sækja kynninguna. Í verknámsvikunni eiga ungmennin kost á að kynnast námi og námsaðstöðu í fjórum deildum Verkmenntaskólans: málmdeild, trédeild, rafdeild og hárdeild. Mun hver nemandi eiga kost á að velja sér tvær deildir til að kynnast og vinna að ýmsum verkefnum í þeim undir traustri leiðsögn kennara Verkmenntaskólans. Verkefnunum verður sinnt í tvo daga í hvorri deild en á lokadegi verknámsvikunnar verður veitt almenn fræðsla um iðnnám auk þess sem haldin verður uppskeruhátíð þar sem foreldrum og velunnurum verður boðið að koma og skoða afrakstur nemendanna.

Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla AusturlandsÞetta kynningarstarf er samvinnuverkefni Verkmenntaskóla Austurlands og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og er það stutt af sjö fyrirtækjum sem starfa í Fjarðabyggð, þar á meðal Síldarvinnslunni. Verknámsvikan var haldin í fyrsta sinn í fyrra og þótti takast afar vel að mati allra hlutaðeigandi. Sérstaklega er fróðlegt að skoða ummæli ýmissa nemenda sem sóttu verknámsvikuna þá, en fram kom í þeim að kynningin hefði opnað augu þeirra fyrir nýjum og spennandi námsmöguleikum á framhaldsskólastigi. Alls munu 46 nemendur sækja kynninguna að þessu sinni og fást við spennandi verkefni  við góðar aðstæður undir faglegri leiðsögn.

Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla AusturlandsOft er rætt um mikilvægi þess að auka kynningu á iðn- og tækninámi og upplýsa börn og ungmenni um þá möguleika sem slíkt nám getur gefið. Á iðn- og tæknisviðinu liggja margvísleg tækifæri fyrir ungt fólk, ekki síst í Fjarðabyggð þar sem starfa öflug fyrirtæki á sviði iðnaðar og sjávarútvegs. Það er von allra þeirra sem standa að verknámsvikunni að hún efli áhuga nemenda á iðn- og tækninámi og leiði til þess að fleiri íhugi að afla sér menntunar á því sviði í framtíðinni.

Verknámsvikan hefur vakið töluverða athygli víða um land og var verkefnið meðal annars kynnt á skólaþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var í nóvember sl.
Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla Austurlands


 

Kolmunnaveiðin að glæðast

Kolmunnaveiðin er að glæðast. Ljósm. Tómas Kárason.Þegar kolmunnaveiðiskipin héldu út eftir sjómannadag hófu þau veiðar á Þórsbanka en hafa síðan fært sig austur úr Þórsbankanum og eru við veiðar út við miðlínu. Í fyrstu var aflinn heldur tregur en hann hefur verið að glæðast og seinni partinn í gær voru skipin gjarnan að hífa 300-500 tonn. Beitir hífði 350 tonn síðdegis í gær og Börkur um 400 tonn. Minni veiði var í nótt en þó var Börkur að hífa 320 tonn nú skömmu fyrir hádegi.

Ísfisktogarinn Bjartur hélt til veiða eftir sjómannadag og landaði um 40 tonnum af þorski á þriðjudagskvöld eftir rúman sólarhring að veiðum. Hann verður aftur í landi í dag með svipaðan afla. Frystitogarinn Barði er að hefja veiðar á úthafskarfa.

Síldveiðar Síldarvinnslunnar vottaðar

Síldveiðar skipa Síldarvinnslunnar hafa verið vottaðar. Ljósm. Vilhelm Harðarson.Nýverið fékk Síldarvinnslan allar síldveiðar sínar vottaðar. Um er að ræða svonefnda MSC – vottun og nær hún bæði til veiða á norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Vottunin felur í sér viðurkenningu á því að síldveiðar á vegum fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum hætti og að fyrirtækið muni fyrir sitt leyti vinna að því að strandríki nái samkomulagi um ábyrgar veiðar úr viðkomandi síldarstofnum.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir að vottun veiðanna sé mikilvægur áfangi en áður hafði öll síldarvinnsla á vegum fyrirtækisins hlotið vottun. Segir hann að vottun af þessu tagi skipti miklu máli fyrir sölu afurðanna enda veiti hún kaupendum traustar upplýsingar um að veiðarnar séu sjálfbærar og nýting aflans eins og best verður á kosið. Vottunin styrkir því markaðslega stöðu fyrirtækisins með ótvíræðum hætti.


Skipin til veiða eftir sjómannadag

Börkur NK að veiðum. Ljósm. Geir ZoegaSkip Síldarvinnslunnar hafa verið að halda til veiða eftir sjómannadag. Ísfisktogarinn Bjartur lét úr höfn í gær og kolmunnaveiðiskipin Börkur og Beitir einnig. Frystitogarinn Barði mun halda til úthafskarfaveiða í dag. Kolmunnaveiðiskipið Birtingur mun ekki halda til veiða fyrr en fréttir berast af miðunum.

Alls eiga kolmunnaveiðiskip Síldarvinnslunnar eftir að veiða 15.600 tonn af kvóta yfirstandandi vertíðar en það þýðir að skipin eigi 2-3 veiðiferðir eftir. 


Fjöldi fólks kom að skoða Börk og Beiti og hlýða á Pollapönk

Fjöldi fólks kom til að skoða Börk og Beiti og hlýða á Pollapönk. Ljósm. Hákon ViðarssonSjómannadagshelgin í Neskaupstað var vel heppnuð og hátíðarhöldin sem stóðu yfir í fjóra daga voru fjölsótt. Síðdegis á föstudag voru nýjustu skip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, almenningi til sýnis og um leið var efnt til tónleika með Pollapönk á hafnarbakkanum. Mikill fjöldi fólks kom að skoða skipin og hlýða á Pollapönk og virtist fólk njóta stundarinnar til hins ítrasta í veðurblíðunni, ekki síst yngsta kynslóðin. Boðið var upp á grillaðar pylsur með tilheyrandi drykkjum á hafnarbakkanum á meðan skipin voru til sýnis og samkvæmt upplýsingum þeirra sem stóðu við grillið runnu hvorki fleiri né færri en 900 pylsur niður í svanga maga þetta ljúfa og skemmtilega síðdegi.

Síldarvinnslan styrkir Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF)

Gunnþór Ingvason og Ívar Sæmundsson undirrituðu styrktarsamninginn. Ljósm. Hákon Viðarsson.Föstudaginn 30. maí var undirritaður nýr styrktar- og auglýsingasamningur á milli Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF) og Síldarvinnslunnar en Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra fyrirtækja sem helst hafa stutt við bakið á kraftmiklu starfi Knattspyrnufélagsins.

Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Ívar Sæmundsson formaður Knattspyrnufélagsins sem undirrituðu samninginn. Ívar segir að samningurinn við Síldarvinnsluna skipti miklu máli og það sé mikilvægt að finna að fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna kunni að meta það starf sem Knattspyrnufélagið sinnir. „Það er eilíf barátta hjá félagi eins og okkar að halda starfseminni úti og kostnaðurinn vex ár frá ári,“segir Ívar. „Helstu útgjöld félagsins eru ferðakostnaður. Sem dæmi má nefna að í síðustu viku lék meistaraflokkur karla bikarleik á Ísafirði við BÍ/Bolungarvík og ferðakostnaður vegna leiksins nam einni milljón króna. Þó svo að ítrasta aðhalds sé gætt þá er kostnaðurinn óheyrilegur.“ Fyrir okkur sem stöndum í að reka félagið er afar mikilvægt að finna þann stuðning og þá velvild sem ríkir í garð þess hjá fyrirtækjum í Fjarðabyggð og samningurinn við Síldarvinnsluna er einmitt tákn um slíkan stuðning.“

Vélstjórnarbraut í Verkmenntaskóla Austurlands - vígsla glæsilegs kennslubúnaðar

Frá vígslu vélarúmshermisins í Verkmenntaskóla Austurlands. Ljósm. Hákon ViðarssonHinn 26. maí sl. var hátíðarstund í málmdeild Verkmenntaskóla Austurlands þegar nýr og fullkominn vélarúmshermir var vígður. Viðstaddir vígsluna voru starfsmenn skólans og fulltrúar þeirra fyrirtækja sem styrktu kaupin á herminum en það voru Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og Olíusamlag útvegsmanna. Hermirinn er tölvubúnaður þar sem með nákvæmum hætti er unnt að líkja eftir starfsemi véla í skipum og framkalla allskonar bilanir í vélbúnaðinum.

Hermirinn mun nýtast við kennslu á vélstjórnarbraut sem mun taka til starfa við skólann í haust. Við brautina verður boðið upp á nám sem veitir réttindi til að gegna starfi yfirvélstjóra og á skipum með vélarafl 1500 kW og minna og undirvélstjóra á skipum með 3000 kW vélarafl og minna. Einnig er stefnt að því að nemendur á vélstjórnarbraut geti að námi loknu gengist undir sveinspróf í vélvirkjun.

Kennslubúnaðurinn sem hér um ræðir er viðurkenndur og uppfyllir alla alþjóðlega staðla til vélstjórnarkennslu.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fagnar mjög tilkomu vélstjórnarbrautar við Verkmenntaskóla Austurlands. „Þessi áfangi er mjög ánægjulegur fyrir atvinnulífið á Austurlandi,“ sagði Gunnþór. „ Sterkur skóli með öflugu verknámi styður mjög við starfsemi fyrirtækja í landshlutanum. Með tilkomu þessa nýja og öfluga vélarúmshermis skapast traustur grundvöllur fyrir nám í vélstjórn í heimabyggð og það er afar þýðingarmikið. Öflugir vélstjórar eru mikilvægir atvinnulífinu hvort heldur er við keyrslu fiskiskipa eða framleiðslubúnaðar í landi. Tel ég að það gæti verið áhugavert framhald á samvinnu Verkmenntaskólans og atvinnulífsins að taka frumkvæði í því að skapa starfsþjálfunarpláss úti í atvinnulífinu fyrir nema í vélstjórn bæði um borð í fiskiskipum og í framleiðslufyrirtækjum í landi.“

Skipin komin til hafnar fyrir sjómannadag

Floti Síldarvinnslunnar kominn að landi fyrir sjómannadag. Ljósm. Hákon Viðarsson.Öll skip Síldarvinnslunnar eru komin til hafnar í Neskaupstað og munu áhafnir þeirra að sjálfsögðu taka þátt í hátíðarhöldum sjómannadagsins sem hefjast í dag. Beitir  landaði fullfermi af kolmunna, 2100 tonnum, sl. miðvikudag og Börkur landaði einnig fullfermi af kolmunna, 2500 tonnum, á Seyðisfirði í gær. Þriðja kolmunnaveiðiskipið, Birtingur, kom til hafnar í Neskaupstað í gær með 1000 tonn. Ísfisktogarinn Bjartur kom til löndunar með 103 tonn sl. miðvikudag og var uppistaða aflans þorskur og ufsi. Frystitogarinn Barði kom síðan að landi í gær með afla að verðmæti 98 milljónir króna. Aflinn var 210 tonn upp úr sjó og var meirihluti hans grálúða.

Börkur NK og Beitir NK til sýnis!

Börkur NK og Beitir NK til sýnis{nomultithumb}

Sjómannadagskveðja 2014

Síldarvinnslan þakkar fyrir{nomultithumb}

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2014

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2014Verður haldinn föstudaginn 6. júní 2014 í Hótel Egilsbúð Neskaupstað kl. 11:00.

Dagskrá:

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar
 3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs
 4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
 5. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins
 6. Kosin stjórn félagsins
 7. Kosnir endurskoðendur
 8. Önnur mál, löglega fram borin


Stjórn Síldarvinnslunnar hf.


Ungir háskólanemar sinna áhugaverðum verkefnum

Ungir háskólanemar á skrifstofu Síldarvinnslunnar. Talið frá vinstri: Ásgeir Heimisson, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir, Sigurður Steinn Einarsson og Elvar Ingi Þorsteinsson. Ljósm. Hákon Viðarsson.Það er óvenju fjölmennt á skriftstofum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um þessar mundir. Ástæðan er sú að fjórir ungir háskólanemar vinna þar að athyglisverðum verkefnum sem tengjast sjávarútvegi og fylgir þeim eðlilega líf og fjör. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir námsmönnunum og verkefnum þeirra:

Elvar Ingi Þorsteinsson er að vinna lokaverkefni við Viðskiptaháskólann í Árósum. Verkefnið fjallar um möguleika þurrkaðs kolmunna á kínverskum mörkuðum. Markaðssvæði í Kína eru könnuð og farið yfir markaðsaðstæður á hverju svæði. Hafa verður í huga í þessu sambandi að efnahagur fólks batnar hratt á ýmsum svæðum í Kína og þar er mikil eftirspurn eftir þurrkuðum fiski. Elvar kom heim til Neskaupstaðar í janúar og hefur síðan unnið að lokaverkefninu ásamt því að kanna möguleika á síldarmörkuðum í Austur-Evrópu fyrir Síldarvinnsluna.

Sigurður Steinn Einarsson og Sylvía Kolbrá Hákonardóttir vinna að verkefni sem felur í könnun á því hvernig best verður staðið að þurrkun á kolmunna. Sigurður Steinn er að ljúka námi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri og Sylvía Kolbrá stundar slíkt nám við sama skóla. Um þessar mundir er verið að þýða upp sjófrystan kolmunna og gera þau tilraunir með flökun á honum og síðan þurrkun.  Verkefnið er styrkt af Rannís og samstarfsmaður þeirra tveggja er Snorri Halldórsson sem stundar meistaranám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann í Tromsö í Noregi. Auk þessa verkefnis eru þau Sigurður Steinn og Sylvía Kolbrá að vinna að undirbúningi sjávarútvegsnáms fyrir grunnskólanema sem byggt yrði á reynslunni sem fékkst af Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar á síðasta ári.

Ásgeir Heimisson er nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og vinnur að verkefni sem felur í sér könnun á umsvifum sjávarútvegsins á Austfjörðum og samfélagslegum áhrifum hans. Á síðasta ári vann Ásgeir sambærilegt verkefni fyrir Faxaflóahafnir og vöktu niðurstöður þess verulega athygli. Verkefni Ásgeirs er kostað af Útvegsmannafélagi Austfjarða og Fjarðabyggðarhöfnum og unnið í samstarfi við Austurbrú.


Kolmunnaveiðin gengur heldur treglega

Birtingur NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBirtingur NK er á landleið með 1400 tonn af kolmunna og verður í Neskaupstað um klukkan tvö í dag. Heimasíðan hafði samband við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvernig túrinn hefði gengið. „Þetta er búinn að vera langur túr,“ sagði Steinþór. „Við héldum til veiða 10. maí þannig að túrinn er 11 dagar. Rúmir tveir dagar fara í stím en flestir sjá að því fer fjarri að þarna sé um kraftveiði að ræða. Veiðisvæðið er í færeysku lögsögunni, vestur og suðvestur úr Suðurey. Það hefur alls ekki verið mikið af fiski á miðunum og skipin hafa því leitað nokkuð út fyrir veiðisvæðið en afar lítið fundið. Við toguðum oft í um 20 tíma í þessum túr og vorum að fá 300 tonn mest og allt niður í 70 tonn. Við gerum ráð fyrir að halda aftur til veiða strax að lokinni löndun. Það verður að berja á kvótanum“, sagði Steinþór að lokum.

Undirflokkar