Beðið eftir að makríllinn fitni

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar bíða þessi að makríllinn bæti á sig. Ljósm. Hákon Viðarsson.Skip Síldarvinnslunnar hafa ekki hafið makrílveiðar ennþá en segja má að þau séu í startholunum. Þessa dagana og vikurnar er fiskurinn að fitna og gæði hans aukast eftir því sem tíminn líður. Gera má ráð fyrir að í íslensku lögsögunni séu gæðin hvað mest í septembermánuði og enn aukast þau eftir að fiskurinn er horfinn úr lögsögunni. Á meðan skipin bíða þess að hefja veiðarnar er dyttað að þeim og unnið er af krafti að undirbúningi vertíðarinnar í fiskiðjuverinu. Þessa dagana er til dæmis verið að setja upp vélar og búnað í nýrri pökkunarstöð fiskiðjuversins.

Á meðan á biðinni stendur er að sjálfsögðu fylgst náið með gangi makrílveiða hjá þeim skipum sem þegar hafa hafið þær. Vinnsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA hefur til dæmis landað frosnum afla tvisvar í Neskaupstað eftir að hann hóf veiðar. Hann landaði fyrst 476 tonnum 25. júní og sl. þriðjudag landaði hann 480 tonnum. Vilhelm hefur ekki átt í neinum vandræðum að fiska fyrir vinnsluna um borð og sama er að segja um Polar Amaroq sem veiðir í grænlensku lögsögunni. Athygli hefur vakið að makríl virðist vera að finna víða við landið þannig að þau skip sem þegar hafa hafið veiðar eru dreifð.


Skólastarf Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Fáskrúðsfirði

Nemendur Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Fáskrúðsfirði. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir.Á Fáskrúðsfirði hófst skólastarf Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar sl. mánudag. Nemendur þar eru 16 talsins og þar af 1 frá Stöðvarfirði og 3 frá Reyðarfirði.

Kennslan á Fáskrúðsfirði hefur gengið vel. Fyrirlestrar hafa farið fram í húsinu Tanga en að auki hafa nemendur heimsótt hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar og uppsjávarskipið Hoffell ásamt því að fólk sem hefur mikla reynslu af störfum í sjávarútvegi hefur komið og frætt nemendur. Á morgun verður síðan farið í útskriftarferð til Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Þá verður Verkmenntaskóli Austurlands heimsóttur ásamt MATÍS og öðrum fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn í Fjarðabyggð. Í ferðinni verður einnig gert ýmislegt til skemmtunar og útskrifarskírteini afhent. Að sögn Sigurðar Steins Einarssonar, Sylvíu Kolbrár Hákonardóttur og Elvars Inga Þorsteinssonar, sem starfa við skólann og annast kennslu, hefur nemendahópurinn á Fáskrúðsfirði verið mjög áhugasamur og skemmtilegt að vinna með honum.

Nk. mánudag mun skólahald hefjast á Eskifirði en Eskfirðingar og Reyðfirðingar munu sækja skólann þar og enn er mögulegt fyrir þá að skrá sig.

Nýbyggingin fokheld og uppsetning vélbúnaðar hafin

Nýja pökkunarstöðin orðin fokheld. Ljósm. Hákon Viðarsson.Pökkunarstöðin sem verið hefur í byggingu á hafnarsvæðinu í Neskaupstað er nú fokheld og er hafin uppsetning á vélum og búnaði í húsinu. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í byrjun apríl og er það áfast fiskiðjuverinu. Um er að ræða 1000 fermetra byggingu og mun hún hýsa kassavélar og brettavafningsvélar. Miðað við núverandi afköst fiskiðjuversins er mikil þörf á að bæta pökkunaraðstöðuna en eins er vélbúnaðurinn í nýja húsinu miðaður við afkastaaukningu sem fyrirhuguð er í framtíðinni.

Uppsetning vélbúnaðar hafin. Ljósm. Hákon Viðarsson.Öll áhersla er lögð á að uppsetningu véla í pökkunarstöðinni verði lokið áður en makríl- og síldarvinnsla hefst í fiskiðjuverinu en gert er ráð fyrir að skip Síldarvinnslunnar hefji veiðar á makríl og síld í fyrri hluta þessa mánaðar.

Barði með hörkugóðan grálúðutúr

Grálúðu landað úr Barða í gær. Ljósm. Hákon Viðarsson.Frystitogarinn Barði kom til hafnar í Neskaupstað á sunnudagskvöld að aflokinni afar vel heppnaðri veiðiferð. Skipið hélt úr höfn eftir sjómannadag og var ætlunin að veiða úthafskarfa. Karfinn lét hins vegar hvergi á sér kræla og því var haldið til lands að viku liðinni og skipið undirbúið fyrir grálúðuveiðar austur af landinu.

Sannast sagna gengu veiðarnar á grálúðunni vel og millilandaði Barði um miðjan júní. Skipið kom síðan til löndunar að aflokinni veiðiferðinni á sunnudagskvöld eins og fyrr greinir. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er hér um að ræða einn albesta túrinn í sögu frystitogarans og áhöfnin afar sátt við veiðiárangurinn. Aflinn í veiðiferðinni var um 340 tonn upp úr sjó og nemur verðmæti aflans um 183 milljónum króna.

Barði mun halda til veiða á ný á föstudag og er þá reiknað með að sótt verði í makríl, en útgefinn makrílkvóti skipsins er um 1000 tonn.


Lyftaranámskeið – stúlkur helmingur þátttakenda

Þátttakendur á lyftaranámskeiðinu. Jónas Þór Jóhannsson leiðbeinandi stendur aftast. Ljósm.: Hákon Viðarsson.Þessa dagana er haldið tveggja daga lyftaranámskeið fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar. Námskeiðið er á vegum Vinnueftirlits ríkisins og er Jónas Þór Jóhannsson leiðbeinandi. Námskeiðið sitja 13 starfsmenn og er um helmingur þeirra stúlkur.

Á námskeiðinu er fjallað um öryggi, réttindi og skyldur ásamt því að vélum og búnaði eru gerð skil. Að sögn Jónasar Þórs gengur námskeiðið vel og eru þátttakendur áhugasamir. „Það er einstaklega gleðilegt hvað kvenfólk er að koma sterkt inn á þetta svið en en hlutur þeirra fer vaxandi hjá stærstu fyrirtækjunum hér eystra. Konur hafa reynst afar vel sem vinnuvélastjórnendur og eru oft bæði lagnari og gætnari en við karlmennirnir“, sagði Jónas Þór.

Námskeið um borð í Sæbjörgu

Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Ljósm. Hákon Viðarsson.Sæbjörg, skip Landsbjargar, liggur nú í höfn í Neskaupstað þar sem sjómönnum er boðið upp á öryggisnámskeið á vegum Slysavarnaskóla sjómanna. Í gær fór kennsla fram á tveimur námskeiðum; annars vegar eins dags námskeiði fyrir smábátasjómenn þar sem þátttakendur voru fimm og hins vegar tveggja daga endurmenntunarnámskeiði fyrir sjómenn á stærri skipum þar sem þátttakendur voru fjórtán. Annað endurmenntunarnámskeið fyrir sjómenn á stærri skipum mun síðan hefjast í dag. Sjómenn á skipum Síldarvinnslunnar hafa fjölmennt á þessi námskeið og er það svo sannarlega þægilegra fyrir þá að fá skólann til sín en að þurfa ferðast um langan veg til að geta sótt sér viðkomandi menntun.

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, sagði að námskeiðin hafi gengið vel og það væri ánægjulegt að geta komið og boðið upp á fræðsluna á heimaslóðum sjómannanna. Sæbjörgin hefur ekki siglt á milli hafna til námskeiðahalds síðan 2008 en þá voru fjárveitingar til skólahaldsins skornar niður. Hins vegar hafa kennarar Slysavarnaskóla sjómanna farið víða og kennt á námskeiðum. Nú er Sæbjörg á leið í slipp á Akureyri og þá var tækifærið notað og komið við á nokkrum höfnum og boðið upp á námskeið um borð. Fyrst var komið við í Vestmannaeyjum og nú liggur skipið í Neskaupstað. Þvínæst verður haldið til Seyðisfjarðar og loks til Akureyrar. Hilmar segir að aðsóknin á öryggisnámskeið sjómanna hafi aukist verulega eftir hrun og meðal annars hafi margir sótt sérhæfð námskeið fyrir þá sem ætla sér að stunda sjómennsku erlendis.

Öryggisnámskeið um borð í Polar Amaroq

Grænlendingarnir á Polar Amaroq í neyðarflotgöllum ásamt Þórarni Þórarinssyni kennara. Ljósm. Geir ZoëgaGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq hefur að undanförnu verið á Akureyri þar sem starfsmenn Slippstöðvarinnar hafa unnið að því að auka frystigetuna um borð. Því verki er nýlega lokið og mun skipið halda til makrílveiða í dag. Eins og lesendum heimasíðunnar er kunnugt er Polar Amaroq í eigu grænlenska fyrirtækisins Polar Pelagic og á Síldarvinnslan þriðjungshlut í því.

 Sjóæfingar fóru fram. Ljósm. Geir ZoëgaÁ meðan unnið var í skipinu á Akureyri var efnt til öryggisnámskeiðs fyrir Grænlendingana í áhöfninni. Þórarinn Þórarinsson kennari í Slysavarnaskóla sjómanna kom norður sl. mánudag og kenndi á námskeiðinu en þörf þótti á að fara yfir allan öryggisbúnað skipsins sem Polar Pelagic festi kaup á í desember sl. Á námskeiðinu var farið yfir reykköfunarbúnað, notkun neyðarflotgalla, notkun Björgvinsbeltis, flutning á meðvitundarlausum manni og björgun úr lest svo nokkuð sé nefnt. Mikil ánægja var með námskeiðið að sögn Geirs Zoega skipstjóra enda skiptir öryggisvitund skipverja miklu máli.

Arndís uppfærð og endurbætt

Stjórnendur fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar funda um Arndísi. Ljósm. Hákon Viðarsson.Arndís nefnist upplýsingakerfið eða tölvugagnaskráin sem fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar nota. Í Arndísi eru skráðar allar nauðsynlegustu upplýsingar sem verksmiðjurnar þurfa á að halda allt frá móttöku hráefnis til útskipunar afurða. Kerfið tryggir fullkominn rekjanleika þannig að unnt er að skoða einkenni  hráefnisins sem berst til vinnslu hverju sinni og eðli afurðanna úr því.

Fyrir stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna er Arndís gulls ígildi og í kerfinu er að finna allar upplýsingar um vertíðir frá árinu 1993. Þetta gagnakerfi fiskimjölsverksmiðjanna er eins og önnur tölvukerfi; ávallt þar að uppfæra þau, endurskoða og bæta. Fyrr í þessum mánuði var haldinn fundur í Neskaupstað þar sem stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna hittust og yfirfóru nýjustu breytingarnar á kerfinu. Það var Ólafur Garðarsson hjá Íkon ehf. sem kynnti breytingarnar en hann hefur unnið að mótun Arndísar frá upphafi. Nýjustu umbæturnar fela í sér meðal annars að allar skráningar verða auðveldari og unnt verður að flytja upplýsingar úr kerfinu yfir í önnur gagnakerfi fyrirtækisins. Þessar breytingar eru til mikilla þæginda fyrir stjórnendur að sögn Gunnars Sverrissonar rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar.

Arndís á sér alllanga sögu og má rekja upphaf hennar allt aftur til áranna 1984-1985 en vart er unnt að tala um heildstæða tölvugagnaskrá fyrr en á árinu 1993. Það voru í reynd verksmiðjustjórar Síldarverksmiðja ríkisins og síðar SR-mjöls sem mótuðu Arndísi í samvinnu við Ólaf Garðarsson þannig að upplýsingakerfið hefur alla tíð tekið mið af þeim þörfum sem voru til staðar í iðnaðinum. Arndís heitir eftir Arndísi Steinþórsdóttur sem starfaði í sjávarútvegsráðuneytinu og var fyrsti stjórnarformaður SR-mjöls. Þegar Síldarvinnslan og SR-mjöl sameinuðust árið 2003 kynntust starfsmenn Síldarvinnslunnar kerfinu og hófu að nota það. 


Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar tekinn til starfa

Nemendur fengu að prófa að títra og vakti það mikla lukku að vökvinn breytti um lit en rauður litur táknar sýru en blár basa. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar var settur í Neskaupstað síðastliðinn mánudag. Það var Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem setti skólann og í máli sínu lagði hann mikla áherslu á nauðsyn þess að ungt fólk í sjávarbyggðum kynntist sjávarútvegi sem atvinnugrein og áttuðu sig á mikilvægi hennar fyrir samfélagið. Kennsla í skólanum mun einnig fara fram á Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Á Fáskrúðsfirði hefst skólahaldið hinn 30. júní og á Eskifirði 7. júlí. Í Neskaupstað er  21 nemandi í skólanum en skráningar í skólann standa enn yfir á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Reyðarfirði og Eskifirði.

Að lokinni skólasetningu hófst kennsla  og voru nemendur fræddir um sögu sjávarútvegsins og þær breytingar sem átt hafa sér stað á sviði veiða. Á næsta skóladegi var fiskiðjuver Síldarvinnslunnar heimsótt og síðan fjallað um þróun fiskvinnslu. Á þriðja degi verður fluttur fyrirlestur um gæðamál og markaðsmál ásamt því að Verkmenntaskóli Austurlands verður heimsóttur en verða nemendur fræddir um nám sem tengist sjávarútvegi með beinum og óbeinum hætti. Á fjórða degi koma gestafyrirlesarar í skólann en þar er um að ræða fólk sem starfar í sjávarútvegi og hefur jafnvel upplifað afgerandi breytingar í greininni. Einnig spreyta nemendur sig í fiskiquiz þann daginn. Á lokadegi skólans verður farið í ferðalag og hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði heimsótt ásamt fiskimjölsverksmiðjunni á Eskifirði, Fiskmarkaði Austurlands, veiðarfæragerð o. fl. Einnig verður farið um borð í fiskiskip á lokadeginum og fræðst um störf sjómanna og veiðibúnað.

Hópur nemenda Sjávarútvegsskólans í Neskaupstað. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonAð sögn Sigurðar Steins Einarssonar skólastjóra hefur kennslan í Neskaupstað gengið vel til þessa og nemendur verið einkar áhugasamir. Upplýsti Sigurður að nemendum kæmi á óvart hve tæknistig væri hátt í sjávarútveginum og hve störfin í atvinnugreininni væru fjölbreytt. Þá sagði Sigurður að nemendum þætti afar gaman að spreyta sig á ýmsum verkefnum eins og til dæmis að flaka fisk. Aðspurður sagði Sigurður að skráningar í skólann gengju vel utan Neskaupstaðar en aðsóknin í Neskaupstað hefði farið fram úr björtustu vonum. 

Hlé á kolmunnaveiðum

Uppsjávarskipin í höfn. Ljósm. Hákon Viðarsson.Síldarvinnsluskipin hafa hætt kolmunnaveiðum að sinni. Beitir og Börkur héldu til veiða í síðustu viku en lítið fannst af kolmunna í veiðanlegu magni þannig að skipin komu fljótt til hafnar aftur. Alls eru 11.670 tonn óveidd af kolmunnakvóta fyrirtækisins á yfirstandandi fiskveiðiári. 

Gert er ráð fyrir að uppsjávarskipin haldi til makríl- og síldveiða í fyrri hluta júlímánaðar.

Síldarvinnslan styrkir Hugin

Síldarvinnslan og Íþróttafélagið Huginn á Seyðisfirði hafa nýverið gert styrktar- og auglýsingasamning sín á milli. Samningurinn kveður á um að Síldarvinnslan styrki félagið og að félagið auglýsi nafn fyrirtækisins með ákveðnum hætti á keppnisdögum.

Guðjón Harðarson, fulltrúi Hugins, segir að styrkur Síldarvinnslunnar sé ómetanlegur fyrir félagið. Allt íþróttastarf byggi í reyndinni á velvild og skilningi styrktaraðila og sífellt sé erfiðara að halda úti slíku starfi vegna síaukins ferðakostnaðar. „Flugfargjöld hafa hækkað mikið að undanförnu og þau eru allt að drepa,“ sagði Guðjón. „Við hjá Hugin erum afskaplega þakklát þeim fyrirtækjum og stofnunum sem styrkja starfsemi félagsins og ekki má gleyma því að bæjarbúar láta sitt ekki eftir liggja. Reksturinn er afar þungur en það er ekkert annað að gera en að halda áfram. Meginatriðið er þó þetta: Flugfargjöld eru alltof há og gera alla starfsemi íþróttafélaga á landsbyggðinni erfiða en öðrum kostnaðarliðum starfseminnar er haldið í lágmarki eins og frekast er kostur,“ sagði Guðjón að lokum.


Síldarvinnsluskip á frímerki

Síldarvinnsluskip á frímerkiÍ síðasta mánuði kom út ný útgáfa frímerkja hjá Póstinum og ber hún heitið Togarar og fjölveiðiskip. Í útgáfunni eru fjögur frímerki og á einu þeirra er mynd af skuttogaranum Barða NK 120 sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1970. Barði hefur verið talinn fyrsti skuttogarinn í eigu Íslendinga enda var hann fyrsti togari landsmanna með allan hefðbundinn skuttogarabúnað og eingöngu ætlaður til togveiða.

Barði NK var smíðaður í Frakklandi árið 1967. Hann var 327,59 lestir að stærð og með 1200 hestafla vél. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 1970 og kom það í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 14. desember það ár. Eftir að Síldarvinnslan festi kaup á skipinu voru gerðar á því ýmsar endurbætur en það hélt síðan til veiða hinn 11. febrúar 1971.

Fyrsti skipstjóri á Barða NK var Magni Kristjánsson og gegndi hann starfinu til 1973. Við af honum tók Birgir Sigurðsson og stýrði hann skipinu til 1977. Þriðji og síðasti skipstjórinn var Herbert Benjamínsson og var hann við stjórnvöl þar til skipið var selt til Frakklands árið 1979.

Barði tekur sig vel út á frímerkinu. Það er hannað af Elsu Nielsen en hönnunin byggir á ljósmynd sem Anna K. Kristjánsdóttir vélstjóri tók.

Dauft yfir kolmunnaveiðum

Beitir NK á kolmunnamiðunum fyrr á vertíðinni. Ljósm. Tómas Kárason.Kolmunnaskip Síldarvinnslunnar komu öll til löndunar í Neskaupstað í síðustu viku. Börkur landaði tæplega 1800 tonnum, Beitir um 1700 tonnum og Birtingur 500 tonnum eftir stutta veiðiferð. Afli hafði verið tregur og því voru skipin kölluð í land. Beitir hélt til veiða á ný á fimmtudagskvöld og kom til hafnar í gær með lítinn afla. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti sagði að í veiðiferðinni hefðu verið tekin tvö hol og í ljós hefði komið að fiskurinn væri dreifður og var árangur því  lítill. Annað holið var tekið við miðlínuna á milli Íslands og Færeyja og hitt við Hvalbakshallið.

Síldarvinnslunni afhent MSC-vottunarskírteini fyrir síldveiðar

Rut Hermannsdóttir verkefnisstjóri, Gunnþór, Gísli Gíslason framkvæmdastjóri MSC og Valur Ásmundsson sölustjóri. Ljósm. Hákon Viðarsson.Í gær var Síldarvinnslunni afhent MSC- vottunarskírteini fyrir síldveiðar bæði úr norsk- íslenska stofninum og úr íslenska sumargotsstofninum. Þessi vottun felur í sér viðurkenningu á því að veiðar skipa fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Þar með hafa bæði síldveiðar og síldarvinnsla Síldarvinnslunnar hlotið MSC- vottun.

Það var Gísli Gíslason sem afhenti vottunarskírteinið en Gísli er framkvæmdastjóri MSC á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Við þetta tækifæri flutti Gísli fróðlegt erindi fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar um eðli og þróun MSC-vottunarkerfisins og kom fram í því að um 80 fyrirtæki á Íslandi hafi nú fengið svonefnda rekjanleikavottun MSC. Ljóst er að vottun af þessu tagi skiptir orðið miklu máli því hún veitir neytendum traustar upplýsingar um að varan sé framleidd með sjálfbærum hætti og því styrkir hún markaðsstöðu viðkomandi framleiðslufyrirtækja. Neytendur á stórum markaðssvæðum fylgjast grannt með því hvort vörur séu merktar með vottunarmerkjum eður ei og MSC- merkið er mjög þekkt vottunarmerki.

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar 2014

Frá Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar síðastliðið sumar. Ljósm. Margrét Þórðardóttir.Á síðasta sumri starfrækti Síldarvinnslan sjávarútvegsskóla fyrir  ungmenni sem fædd voru á árunum 1998 og 1999. Skólinn var tilraunaverkefni og starfaði í tvær vikur. Meginmarkmiðið með skólahaldinu var að gefa nemendum kost á að fræðast um fiskveiðar og fiskvinnslu en skólastarfið byggði á fyrirlestrahaldi og heimsóknum þar sem vinnslustöðvar, þjónustufyrirtæki  og fiskiskip voru skoðuð. Nemendur fengu námslaun á þeim tíma sem skólinn starfaði og voru þau sambærileg þeim launum sem greidd voru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. 

Námsefnið var fjölbreytt og kennarar í skólanum voru margir. Í upphafi námsins var sögu sjávarútvegs gerð skil og fjallað um veiðiskip, veiðarfæri og verkunaraðferðir á hverjum tíma. Lögð var áhersla á að gera grein fyrir tækniþróuninni og þeim samfélagslegu áhrifum sem sjávarútvegurinn hefur haft. Fyrir utan þetta var fjallað um stoðgreinar sjávarútvegsins, markaðsmál og gæðamál og kennslunni fylgt eftir með heimsóknum í fyrirtæki og um borð í skip. Í kennslunni kom skýrt fram hve störfin innan sjávarútvegsins eru fjölbreytt og þegar Verkmenntaskóli Austurlands var heimsóttur var fjallað um allar þær námsleiðir sem þeir sem kjósa að sinna störfum innan sjávarútvegs eiga kost á að velja.

Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar þótti heppnast vel og í ár var tekin ákvörðun um að færa út kvíar skólastarfsins. Sjávarútvegsfyrirtækin Eskja og Loðnuvinnslan komu til liðs við Síldarvinnsluna og Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú einnig. Ákveðið var að efna til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir eru árið 2000 og í samræmi við það var heiti skólans breytt í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar. Mun skólinn starfa í þrjár vikur í sumar og fer kennsla fram á þremur stöðum; Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Skólastarfið hefur þegar verið auglýst og mun skólinn starfa í eina viku á hverjum stað. Í Neskaupstað verður kennt dagana 23. júní til 27. júní, á Fáskrúðsfirði 30. júní til 4. júlí og á Eskifirði 7. júlí til 11. júlí.

Það er von þeirra sem standa að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar að þeir nemendur sem fæddir eru árið 2000 fjölmenni í skólann og láti ekki þetta einstaka tækifæri fara framhjá sér. Skólahaldið verður líflegt og fjölbreytt og vissulega er það fátítt að nemendur á þessum aldri eigi kost á að sækja nám á fullum launum.  Það er mat þeirra sem standa að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar að námsefni grunnskólans fjalli afar lítið um sjávarútveg en Sjávarútvegsskólanum er ætlað að bæta úr því. Aðstandendur skólans telja brýnt að ungmenni í sjávarbyggðum eins og í Fjarðabyggð þurfi að öðlast staðgóða þekkingu á sjávarútvegi enda ráðast lífsskilyrði íbúanna beint og óbeint af gengi greinarinnar.

Sigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir nemi í sjávarútvegsfræðum og Elvar Ingi Þorsteinsson markaðsfræðingur vinna nú að gerð námsefnis fyrir Sjávarútvegsskólann auk þess sem þau skipuleggja skólahaldið í samvinnu við Austurbrú. Skólastarfið hefur þegar verið auglýst og er skráning í skólann hafin á www.sjavarskoli.net

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar{nomultithumb}

Síldarvinnslan styður Þrótt 2014

Stefán Már Guðmundsson og Gunnþór Ingvason eftir undirritun samningsins. Ljósm. Hákon Viðarsson.Síldarvinnslan hf. og Íþróttafélagið Þróttur hafa gert með sér nýjan styrktar- og auglýsingasamning og var samningurinn undirritaður í gær. Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra félaga sem stutt hafa hvað dyggilegast við bakið á Þrótti og stuðlað að því að unnt væri að halda úti öflugu íþróttastarfi í Neskaupstað.

Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri  Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sem undirrituðu samninginn. Stefán Már segir að þessi samningur skipti miklu máli fyrir Þrótt en hann felur í sér mánaðarlegar greiðslur sem renna beint til einstakra deilda félagsins og skapa þannig ákveðið öryggi í rekstri þeirra. Stefán segir einnig að ánægjulegt sé hve Þróttur njóti mikillar velvildar í Neskaupstað og komi það skýrt fram við gerð samninga sem þessa. Íbúarnir virðast kunna vel að meta starfsemi Þróttar og öflug fyrirtæki eru tilbúin að leggja félaginu lið með myndarlegum hætti.

Þungt hljóðið í kolmunnamönnum

Bjartur NK.Það er heldur þungt hljóðið í mönnum á kolmunnamiðunum. Að undanförnu hefur veiðin verið treg og útlitið sýnist mönnum ekki vera neitt sérstaklega bjart. Algengt er að skipin hafi verið að fá um 200 tonn eftir að hafa togað í rúman sólarhring. Börkur er kominn með 1570 tonn og Beitir um 1600 tonn. Birtingur hélt til veiða eftir sjómannadag seinna en fyrrnefndu skipin og er hann kominn með um 380 tonn.

Frystitogarinn Barði kom til hafnar í gær til að skipta um hlera og taka umbúðir. Áformað var að Barði legði stund á veiðar á úthafskarfa þessa dagana en karfinn hefur látið bíða eftir sér og hafa íslensku skipin gefist upp á veiðunum, allavega í bili. Ákveðið var að Barði færi á grálúðuveiðar og eru þær hafnar. Ísfisktogarinn Bjartur er að landa en afli hans er 95 tonn, uppistaðan ufsi og þorskur.

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2013

  • Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2013Hagnaður ársins nam 5,6 milljörðum króna
  • Opinber gjöld fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4 milljörðum króna 
  • Eiginfjárhlutfall er 54%
  • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 206 þúsund tonnum af hráefni
  • Fiskiðjuverið tók á móti 80 þúsund tonnum af hráefni
  • Um frystigeymslur félagsins fóru 85 þúsund tonn af afurðum
  • Framleiddar afurðir voru 101 þúsund tonn
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2013 voru alls 23,6 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 16,2 milljörðum króna. EBITDA var 7,4 milljarðar króna.  Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 168 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 6,9 milljörðum króna. Reiknaðir skattar námu 1325 milljónum króna og var hagnaður ársins því tæpir 5,6 milljarðar króna.  

Gjöld til hins opinbera
Síldarvinnslan greiddi 2,8 milljarða til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur á árinu var 1350 milljónir króna. Veiðileyfagjöld námu 940 milljónum á síðasta fiskveiðiári og önnur opinber gjöld 520 milljónum 

Fjárfestingar
Rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað var lokið á árinu.  Skipt var á skipum þegar Beitir var seldur til Noregs og nýr Beitir keyptur.

Haldið var áfram á braut uppbyggingar í fiskiðjuveri félagsins. 

Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2013 voru bókfærðar á 45,3 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 14,5 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,9  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 24,4 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 54%.

Starfsemi
Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 15.500 tonn, aflaverðmæti 3.910 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 128 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.675 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa var 8.600 milljónir króna og aflamagn 143.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013. Framleidd voru 41 þúsund tonn af mjöli og 15 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 56 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 11.554 milljónir króna.

Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 41.000 tonn. Þar vega loðnuafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks makrílafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 6.880 milljónir króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 85 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals framleiðsla á afurðum nam 101.000  tonnum á árinu 2013 að verðmæti tæplega 20 milljarðar króna.

Starfsmenn
Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar starfa um 300 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins námu 3.320 milljónum króna á árinu 2013 og greiddu starfsmennirnir 1160 milljónir í skatta.

Aðalfundur
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn föstudaginn 6. júní.  Á fundinum var samþykkt að greiða 2 milljarða í arð. 

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf.föstudaginn 6. júní 2014.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.


Aðalfundur Síldarvinnslunnar

Stjórn og varastjórn Síldarvinnslunnar hf. ásamt framkvæmdastjóra. Ljósm. Hákon Viðarsson.Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn í Neskaupstað í dag, föstudaginn 6. júní.  Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf. Sérstök fréttatilkynning verður gefin út með upplýsingum um starfsemi og afkomu Síldarvinnslusamstæðunnar á árinu 2013.

Á aðalfundinum var stjórn félagsins endurkjörin en hún er þannig skipuð:
     Anna Guðmundsdóttir
     Björk Þórarinsdóttir
     Freysteinn Bjarnason
     Ingi Jóhann Guðmundsson
     Þorsteinn Már Baldvinsson 

Varamenn:
     Arna Bryndís Baldvins McClure
     Halldór Jónasson

Undirflokkar