Loðnuveiði út af Vestfjörðum

Polar Amaroq. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÍ gær voru litlar fréttir af loðnuveiðum, allavega framan af degi. Hluti flotans var við veiðar á Faxaflóa og fékk einn og einn bátur einhvern afla og þá aðallega svartan karl. Síðan voru nokkrir bátar á Breiðafirðinum og fengu þar eitthvað af hryngdri kerlingu. Horfurnar voru dapurlegar og heldur þungt yfir mönnum.

Í þessari stöðu ákvað Geir Zoëga skipstjóri á Polar Amaroq að kanna stöðuna norður með Vestfjörðum og skoða jafnvel hvað hæft væri í fréttum á loðnu á Húnaflóa. Polar Amaroq átti eftir að veiða yfir 5000 tonn á vertíðinni og því mikilvægt að veiðanleg loðna kæmi í leitirnar.

Þegar Polar Amaroq var kominn út af Ísafjarðardjúpi fannst loðna. Þarna voru góðar torfur sem stóðu að vísu djúpt en á fallaskiptunum kom loðnan upp og náðu Polarmenn einu 350 tonna kasti. Þarna reyndist vera um ágætis loðnu að ræða og að sögn Geirs virðist hrognfyllingin vera þannig að loðnan gæti vel hentað til Japansfrystingar. Þessar veiðifréttir bárust um flotann og í morgun var hann allur kominn á veiðislóðina.

Heimasíðan hafði samband við Geir núna upp úr hádeginu og var hann brattur og hress: „Við erum núna um 12 mílur út af Galtarvita og flotinn er allur hér. Ég horfi á eina 12 báta út um brúargluggann. Sennilegt er að loðnan komi upp á fallaskiptunum eins og hún gerði í gær og lóðningar á svæðinu eru verulegar. Við vorum að kasta eins og fleiri bátar og ég horfi á nýja Börk vera að snurpa hérna rétt hjá. Þetta er gríðarlega spennandi og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu. Það er allavega bjartara yfir mönnum en verið hefur síðustu dagana.“


Frystitogarinn Barði millilandar í Hafnarfirði

Barði NK millilandar í Hafnarfirði.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK er að landa um 210 tonnum í Hafnarfirði í dag og er gullkarfi uppistaða aflans. Um millilöndun er að ræða en veiðar í túrnum hófust 19. febrúar og hafa þær farið fram á svonefndum Melsekk. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að að veiðin hafi verið ágæt allan túrinn eða frá 3 og upp í 30 tonn í holi. Að vísu hafi veðrið ekki verið til að hrópa húrra fyrir: „Það hefur verið kaldaskítur allan túrinn en nú er hann að spá eitthvað betra veðri á þessum slóðum“, sagði Theodór.

Barði mun halda aftur til veiða frá Hafnarfirði klukkan fimm í dag og gert er ráð fyrir að leggja áfram áherslu á karfaveiðar. Gert er ráð fyrir að veiðiferðinni muni ljúka um 12. mars og þá verði landað í heimahöfn.

Skipstjórar á uppsjávarskipunum

Beitir NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonSkipstjórar á hinum nýja Berki verða þeir Sturla Þórðarson og Hjörvar Hjálmarsson. Sturla var áður skipstjóri á Berki en Hjörvar á Beiti. Skipstjórar á hinum nýja Beiti verða Hálfdan Hálfdanarson og Tómas Kárason. Hálfdan var áður skipstjóri á Beiti en Tómas var stýrimaður á Berki auk þess sem hann var skiptjóri á Birtingi á síðasta ári þegar hann var nýttur til loðnu- og makrílveiða.

Börkur NK.  Ljósm Þorgeir BaldurssonAuk Barkar og Beitis er Birtingur gerður út til loðnuveiða þessa dagana. Skipstjóri á honum er Sigurbergur Hauksson.

Börkur NK - eitt glæsilegasta skip íslenska flotans

Ekkert fer á milli mála að hinn nýi Börkur NK er eitt glæsilegasta skip íslenska fiskiskipaflotans. Skipið liggur í Norðfjarðarhöfn og er keppst við að gera það klárt til loðnuveiða. Í morgun var meðal annars unnið að því að mála nýtt nafn og einkennisnúmer á skipið en loðnunót var tekin um borð í gær og reyndar kastað í tilraunaskyni í Norðfjarðarflóanum í gærkvöldi.

Skipið hefur ekki  verið sýnt almenningi enda öll áhersla lögð á að koma því á veiðar enda mikilvægt að ná þeirri loðnu sem eftir er að veiða svo hún nýtist til hrognatöku og skili sem mestum verðmætum. Gert er ráð fyrir að skipið verði almenningi til sýnis síðar.

Þeir sem átt hafa erindi um borð í nýja Börk láta mikið af því hvað skipið sé vel búið og sérstaklega er dáðst að aðbúnaði áhafnarinnar. Það er sama hvert er litið; klefarnir eru notalegir, setustofan hlýleg, matsalurinn eins og á nútímanlegu veitingahúsi og vinnuaðstaða öll eins og best verður á kosið. Hér á eftir eru birtar nokkrar myndir sem teknar eru í skipinu og sýna þær aðstæður sem áhöfnin býr við. 

 

 

Birtingur NK hélt til loðnuveiða í dag

Birtingur NK hélt til loðnuveiða í dag. Skipstjóri er Sigurbergur Hauksson. Áhöfnin á Beiti NK nýtti Birting fyrr á loðnuvertíðinni um tíma en nú hefur hún flutt sig yfir á hinn nýja Beiti (áður Polar Amaroq). Birtingur er því þriðja skip Síldarvinnslunnar við loðnuveiðar um þessar mundir en ástæðan fyrir nýtingu skipsins er sú að langt virðist liðið á loðnuvertíðina og allt kapp er lagt á að ná loðnunni þannig að unnt sé að vinna hrognin og gera sem mest verðmæti úr aflanum.Birtingur NK í Neskaupstað. Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir

Hrognataka hafin í Helguvík og Neskaupstað

Hrognavinnsla í Helguvík. Ljósm. Guðjón Helgi ÞorsteinssonVinnsla á loðnuhrognum hófst í Helguvík aðfaranótt sl. mánudags en þá voru hrogn unnin úr  afla grænlenska skipsins  Polar Amaroq. Vinnslan hefur gengið ágætlega en hún fer fram í samvinnu við fyrirtækið Saltver í Reykjanesbæ.

Vinnsla á hrognum hófst í Neskaupstað í gærkvöldi en þá hófst löndun á 1300 tonnum sem Börkur NK kom með að landi. Þarna er um ræða farminn úr síðustu veiðiferð þessa Barkar en nýr Börkur (áður Malene S) mun leysa hann af hólmi og væntanlega halda til veiða á morgun, miðvikudag.  Löndun úr Berki mun ljúka síðdegis en Hákon EA er væntanlegur með 1200 tonn og er gert ráð fyrir að sá afli fari í hrognavinnslu.

Malene S verður nýr Börkur

Hinn nýi Börkur NK (áður Malene S). Ljósm. Þorgeir BaldurssonSíldarvinnslan hefur fest kaupa á norska uppsjávarveiðiskipinu Malene S en Börkur NK 122 gengur upp í kaupin.  Skiptin á skipunum munu fara fram miðvikudaginn 25.febrúar nk. og mun nýja skipið fá nafnið Börkur NK 122.

Malene S er glæsilegt skip, smíðað í Tyrklandi og var afhent hinum norsku eigendum í desembermánuði árið 2012.  Skipið er 3588 tonn að stærð, 80,30 metrar að lengd og 17 m á breidd.  Aðalvél þess er 4320 KW af gerðinni MAK, auk þess er skipið búið tveimur ljósavélum 1760 KW og 515 KW.  Skipið er búið svo kölluðum „Diesel Electric“-búnaði sem þýðir að hægt er að keyra skipið eingöngu með ljósavél og kúpla út aðalvélinni.

Skipið er búið öflugum hliðarskrúfum 960 KW og er vel búið til tog-  og nótaveiða.  Burðargeta skipsins er 2500 tonn, skipið er búið öflugum RSW kælibúnaði eða 2 milljón Kcal með ammoníak kælimiðli.   Ekkert fer á milli mála að hið nýja skip verður á meðal best búnu og glæsilegustu fiskiskipa íslenska flotans. 

Allur aðbúnaður áhafnar er eins og best verður á kosið, í áhöfn skipsins verða 7-8 menn á trollveiðum og 10-11 á nótaveiðum.

Börkur NK gengur upp í kaupin eins og fyrr greinir en Síldarvinnslan festi kaup á honum í febrúarmánuði árið 2012.  Börkur var byggður árið 2000 og er 2190 tonn af stærð.  Lengd skipsins 68,3 metrar og breidd 14 metrar.  Burðargeta Barkar er 1750 tonn, skipið hefur reynst afar vel í þau tæplega tvö ár sem það hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar hf.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri segir eftirfarandi um skiptin:

„Á síðastliðnum  mánuðum erum við búnir að skipta út báðum uppsjávarskipum okkar Berki og Beiti.  Við vorum vissulega með góð skip en stærsti munurinn í þessum skiptum felst  í því að við erum að fá mun hagkvæmari skip hvað snertir olíunotkun og vonast ég til að sjá allt að þriðjungi minni olíunotkun á nýju skipunum.  Sem dæmi þá var gamli Beitir með 11 þúsund hestafla vél en sá nýi er búinn tveimur 3200 hestafla aðalvélum þar sem dugir að keyra á annarri.  Gamli Börkur var með 7500 hestafla aðalvél en nýi Börkur er með 5800 hestöfl, auk þess sem hann getur keyrt eingöngu á ljósavél sem er 2300 hestöfl.   Samantekið þýðir þetta að við þurfum að ræsa 5500 hestöfl til að færa skipin á milli staða í stað 18500 hestafla áður.

Auk minni orkunotkunar mun aukin burðargeta einnig nýtast okkur vel við veiðar á kolmunna og til að hjálpa okkur þegar loðnukvótar verða stórir.

Skipið mun styðja við ennfrekari uppbyggingu á uppsjávarfrystingu okkar.  Það mun styðja við þá stefnum okkar að auka verðmæti þeirra aflaheimilda sem við höfum aðgang að með minni tilkostnaði“.


Loðnu landað í Helguvík

Polar Amaroq að landa í Helguvík í morgun.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍ gær kom fyrsta loðnan á vertíðinni til Helguvíkur þegar Vilhelm Þorsteinsson EA landaði þar 260 tonnum. Síðan kom Beitir NK þangað til löndunar með rúmlega 500 tonn og grænlenska skipið Polar Amaroq er nú að landa þar á milli 1600 og 1700 tonnum. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri  í Helguvík reiknar með að verksmiðjan verði gangsett í kvöld. Segir hann að þeir í Helguvík séu að fá loðnu á þessari vertíð mun fyrr en í fyrra en þá barst fyrsta loðnan ekki fyrr en 24. febrúar. Verksmiðjan í Helguvík tók á móti 28.154 tonnum af loðnu á síðustu vertíð en lokalöndun á vertíðinni átti sér þá stað 20. mars.

Norska loðnuskipið Norafjell til Neskaupstaðar með 850 tonn

Norska loðnuskipið Norafjell væntanlegt til Neskaupstaðar með 850 tonn.Síðdegis í dag er norska loðnuskipið Norafjell væntanlegt til Neskaupstaðar með 850 tonn. Loðnan fékkst á Skjálfanda og er gert ráð fyrir að aflinn fari til manneldisvinnslu. Norafjell er annað tveggja norskra loðnuskipa sem tilkynnt hafa um afla á Skjálfanda en tvö önnur norsk skip eru þar að veiðum og er annað þeirra með kast á síðunni þegar þetta er ritað.

Börkur NK er nýkominn á miðin á Skjálfanda en var ekki búinn að kasta þegar haft var samband við Sigurberg Hauksson skipstjóra. Höfðu þeir á Berki orðið varir við einhverja loðnu á miðunum og upplýsti Sigurbergur að veður væri sæmilegt á þessum slóðum.

Veiði er töluverð á miðunum fyrir suðvestan land og var Polar Amaroq að dæla úr 500-600 tonna kasti um tvöleytið. Eins voru Beitir NK og Vilhelm Þorsteinsson EA að kasta og fá afla.


Fyrsta áfanga stækkunar Norðfjarðarhafnar að ljúka

Gröfuprammi vinnur að dýpkun í höfninni. Ljósm. Hákon Viðarsson.Fyrsta áfanga jarðvinnu vegna stækkunar Norðfjarðarhafnar lauk um síðustu mánaðamót en síðan hefur verið unnið að nokkrum smærri verkefnum. Það er Héraðsverk sem hefur annast jarðvinnuframkvæmdirnar. Björgun hefur einnig lokið fyrsta áfanga við dýpkun hafnarinnar og hélt dýpkunarskipið Perlan á brott um sl. mánaðamót en gröfuprammi  hefur síðan sinnt ýmsum verkefnum. Lokið er við að dæla um 140 þúsund rúmmetrum af efni í nýja garðstæðið en með færslu garðsins verður höfnin öll rýmri og aðgengilegri fyrir skip. Núverandi garður verður fluttur á vormánuðum og með færslu hans bætast 50 þúsund rúmmetrar við hinn nýja garð. Bæði Héraðsverk og Björgun munu halda áfram framkvæmdum í aprílmánuði næstkomandi.

Um þessar mundir eru að hefjast framkvæmdir við lengingu stálþils togarabryggjunnar en bryggjan verður lengd um 60 metra. Það er fyrirtækið Hagtak sem annast það verkefni og eru verklok áætluð um mánaðamótin apríl-maí.

Samhliða öllum þessum framkvæmdum hefur verið unnið að úrbótum á löndunaraðstöðu fyrir smábáta í höfninni. Guðmundur Guðlaugsson bryggjusmiður frá Dalvík hefur haft með það verkefni að gera og er því að ljúka. Þessi bryggjusmíði er  langt á undan áætlun en henni  átti að vera lokið 15. apríl.

Framkvæmdirnar við höfnina skipta Síldarvinnsluna afar miklu máli en þrengsli í henni hafa verið til mikilla óþæginda enda umferðin mikil. Sem dæmi má nefna að þegar flutningaskip koma til að taka frystar vörur verður oft að gera hlé á löndun í fiskiðjuverið á meðan verið er að koma skipunum inn í höfnina. Þá geta stór flutningaskip einungis siglt inn í höfnina í blíðviðri og jafnvel þarf björgunarbáturinn Hafbjörg að aðstoða lóðsbátinn Vött við að koma þeim að bryggju. Núverandi framkvæmdir koma til með að gjörbreyta allri aðstöðu og verður höfnin bæði rýmri og öruggari að þeim loknum.


Manneldisvinnslan hefur gengið vel á loðnuvertíðinni

Jóna Járnbrá Jónsdóttir og Japaninn K. Tasuta kanna gæði hráefnisins. Ljósm. Smári GeirssonAð sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hefur manneldisvinnsla gengið vel á yfirstandandi loðnuvertíð. „Loðnan er góð og heppileg til slíkrar vinnslu enda fer allur afli sem að landi berst í hana“, segir Jón Gunnar. „Frá því að veiði hófst á ný í byrjun febrúar hefur vinnslan í fiskiðjuverinu verið samfelld og afköst góð. Ýmist er framleitt á Japan eða Austur-Evrópu – kvensílið fer á Japan en karlinn á Austur-Evrópu. Hingað til hefur engin áta verið í loðnunni en fyrst nú verður dálítið vart við hana. Í fiskiðjuverinu eru nú sex Japanir sem fylgjast með framleiðslunni og gæðum hráefnisins. Þeir eru fulltrúar þriggja kaupenda í Japan“.

Aðspurður segir Jón Gunnar að nú séu síðustu dagar loðnufrystingar á vertíðinni. Hrognafylling loðnunnar er um 22% og gera megi ráð fyrir að hrognavinnsla hefjist í næstu viku.

Nú er verið að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu 850 tonnum úr Berki NK og Bjarni Ólafsson AK er á landleið með 650 tonn. 


Nýr Beitir í sína fyrstu veiðiferð

Beitir NK er nú í sinni fyrstu veiðiferð. Ljósm. Guðlaugur Birgisson.Hinn nýi Beitir NK (áður Polar Amaroq) hélt til loðnuveiða í gær. Er þetta fyrsta veiðiferð skipsins undir nýju nafni. Áhöfn Beitis hefur að undanförnu lagt stund á loðnuveiðar á Birtingi NK en honum verður nú lagt að sinni.

Það var í desember sl. sem grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic festi kaup á norska skipinu Gardar og gekk þáverandi Beitir upp í kaupin. Gardar fékk síðan nafnið Polar Amaroq en eldra skip með því nafni varð eign Síldarvinnslunnar og fékk nafnið Beitir. Síldarvinnslan á þriðjung í grænlenska útgerðarfélaginu Polar Pelagic og annast útgerð á skipi þess.

Stjórn Byggðastofnunar heimsækir fiskiðjuver Síldarvinnslunnar

Stjórn Byggðastofnunar í heimsókn í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári GeirssonByggðastofnun hélt stjórnarfund í Neskaupstað sl. föstudag og notaði tækifærið til að kynna sér atvinnulífið á staðnum. Stjórnin ásamt fylgdarliði heimsótti meðal annars fiskiðjuver Síldarvinnslunnar þar sem hún naut fyrirlesturs um sögu fyrirtækisins og fylgdist með loðnufrystingu. Þegar stjórnina bar að garði var verið að landa loðnu úr Bjarna Ólafssyni AK og frysta hana fyrir Japansmarkað og einnig fyrir austur-evrópskan markað þannig að það var handagangur í öskjunni.


Framúrskarandi fyrirtæki; Síldarvinnslan í öðru sæti í flokki stórra fyrirtækja

Framúrskarandi fyrirtæki; Síldarvinnslan í öðru sæti í flokki stórra fyrirtækjaFyrirtækið Creditinfo tilnefnir árlega framúrskarandi fyrirtæki í þremur stærðarflokkum. Með valinu er verið að veita viðurkenningu fyrir stöðugleika og ráðdeild í rekstri þar sem fyrirtækin þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði í þrjú ár í röð. Samtals í öllum flokkum voru tilnefnd 462 fyrirtæki sem framúrskarandi en alls eru 33 þúsund fyrirtæki skráð á Íslandi. Fram kom í fréttatilkynningu frá Creditinfo að framúrskarandi fyrirtækjum hefði fjölgað í öllum landshlutum á milli ára og benti það til þess að rekstur þeirra færi batnandi.

Í flokki stórra fyrirtækja var Samherji í efsta sæti og Síldarvinnslan í öðru sæti en niðurstöður valsins voru kynntar í gær.


Síldarvinnslan styrkir sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur

Stúlkur úr 7. og 8. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur. Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirDagana 10. og 11. febrúar sl. var haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur í Neskaupstað. Námskeiðið var ætlað stúlkum á aldrinum 13-16 ára (7.-10. bekkur grunnskóla) og var það sótt af öllum stúlkum á þessum aldri sem áttu þess kost eða alls 48. Það má því segja að 100% mæting hafi verið á námskeiðið. Það voru Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og félagsmálanefnd Fjarðabyggðar sem styrktu námskeiðshaldið en Hildur Ýr Gísladóttir hafði forgöngu um að námskeiðið var haldið.

Leiðbeinandi á námskeiðinu var Kristín Tómasdóttir en hún er menntuð í sálfræði og kynjafræði, hefur ritað þrjár bækur fyrir unglingsstúlkur og fylgt þeim eftir með sjálfstyrkingarnámskeiðum. Kristín hefur einnig ritað samsvarandi bók fyrir pilta ásamt Bjarna Fritzsyni og kom hún út fyrir síðustu jól.

Stúlkur úr 9. og 10. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur.  Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirNámskeiðið var haldið í Nesskóla og þótti heppnast afar vel. Haldnir voru fyrirlestrar, unnin verkefni, settir upp leikþættir, eldað og borðað. Leiðbeinandinn var ánægður með hvernig til tókst og ræddi um hversu gaman væri að vinna með svona flottum hópi.

Styrking sjálfsmyndar er mikilvæg fyrir alla unglinga í nútímasamfélagi. Góð eða jákvæð  sjálfsmynd hefur mikil áhrif á hvernig tekist er á við alla þætti lífsins eins og nám, störf, félagslegan þrýsting og hættur á borð vímuefni. 


Frystitogarinn Barði með góðan skraptúr

Barði NK að veiðum.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær eftir að hafa verið rúman hálfan mánuð á veiðum. Skipið er með fullfermi og er uppistaða aflans gulllax, djúpkarfi og ufsi. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er hér um góðan skraptúr að ræða en veitt var við Suðvesturland í heldur rysjóttu veðri. Aflinn er um 330 tonn upp úr sjó og er verðmæti hans um 67 milljónir króna.


Börkur fann loðnu austar

Börkur NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonLoðnubátarnir hafa verið að veiðum út af Skarðsfjöru og þar fyrir vestan en í morgun fann Börkur NK loðnutorfur mun austar eða um 10 mílur vestan við Ingólfshöfða. Börkur kastaði þegar og fékk á milli 400-500 tonn í fyrsta kasti. Þegar heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra var hann með næsta kast á síðunni og taldi að eitthvað minna væri í því. „Ég gæti best trúað því að við höldum heim á leið eftir að við ljúkum að dæla úr þessu kasti“, sagði Sturla. „ Það virðist vera svolítið af loðnu hérna, þetta er allavega eitthvað juð. Ég held að bátarnir sem voru fyrir vestan okkur séu að keyra í þetta“.

Loðnan sem Börkur er að fá þarna virðist vera ágæt og henta vel til manneldisvinnslu. 


Loksins, loksins

Sl. fimmtudag varð grænlenska skipið Polar Amaroq vart við loðnu úti fyrir Suðausturlandi og byrjaði að kasta. Í fyrstu fékkst afar lítið í hverju kasti. Á föstudag komu íslensk skip á miðin, þar á meðal Börkur NK. Kastað var ótt og títt þann dag en köstin reyndust lítil og annað veifið var búmmað. Á laugardaginn jókst veiðin verulega og fengust þá sæmileg köst. Við þessar fréttir hýrnaði yfir mönnum og margir sögðu loksins, loksins.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudags með 800 tonn sem fengust í 6 köstum  og fer aflinn til manneldisvinnslu. Í nótt kom síðan Polar Amaroq með 1600 tonn og mun landa í manneldisvinnsluna á eftir Berki.

Loðnan sem Börkur kom með er ágæt og nýtist vel í frystingu.

Birtingur NK hélt á miðin sl. laugardag og er lagður af stað í land með tæplega 700 tonn  og Bjarni Ólafsson AK er að koma á miðin.

Norski loðnuflotinn hefur leitað loðnu austur og norðaustur af landinu og ekkert fundið að gagni. Norðmennirnir mega veiða hér við land til 15. Þessa mánaðar og þeir mega ekki veiða fyrir sunnan 64 ̊30, þannig að þeir geta ekki veitt á þeim slóðum sem íslensku skipin og hið grænlenska eru að fá aflann um þessar mundir.

Mestum uppsjávarafla landað í Neskaupstað árið 2013

Mestum uppsjávarafla var landað í Neskaupstað árið 2013.  Ljósm. Guðlaugur BirgissonSamkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu var mestum uppsjávarafla á árinu 2013 landað í Neskaupstað eða 201.169 tonnum. Næstmestum afla var landað í Vestmannaeyjum eða 173.297 tonnum og í þriðja sæti var Vopnafjörður með 86.491 tonn. Alls nam uppsjávaraflinn á árinu 924 þúsund tonnum og var uppistaða hans loðna, síld og makríll.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti 206 þúsund tonnum árið 2013

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonSamkvæmt samantekt Fiskifrétta tóku fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á móti 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013 en það er um 33% af því heildarmagni sem fór til vinnslu á mjöli og lýsi. Verksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tók á móti langmestu hráefni allra verksmiðja á landinu eða um 123 þúsund tonnum sem er um 20% af heildinni. Verksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði tók á móti rúmlega 44 þúsund tonnum og verksmiðjan í Helguvík rúmlega 39 þúsund tonnum. Loðna var mikilvægasta hráefni fiskimjölsverksmiðja á landinu á árinu 2013. Rúmlega helmingi loðnunnar var landað beint í verksmiðjurnar en tæplega helmingur var loðna sem flokkaðist frá við manneldisvinnslu. Hverfandi hluta norsk-íslensku síldarinnar, íslensku síldarinnar og makrílsins var landað beint í verksmiðjur þar sem þessar tegundir eru nánast að öllu leyti nýttar til manneldisvinnslu. Öðru máli gegnir um kolmunnann en hann fer nánast allur beint til mjöl- og lýsisvinnslu.


Undirflokkar