Úkraínumarkaðurinn hefur vaxið mikið - grein Útvegsblaðsins

ÚtvegsblaðiðSmelltu hér til að lesa umfjöllun Útvegsblaðsins
Furðuskrif norskra fjölmiðla um ástæður þess að Íslendingar eigi ekki aðild að makrílsamningi

Á netmiðli norska sjávarútvegsblaðsins Kystmagasynet birtist nýverið grein sem útskýrir hvers vegna Íslendingar og reyndar einnig Grænlendingar eigi ekki aðild að nýgerðum samningi Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga um makrílveiðar. Aðrir fjölmiðlar í Noregi sem fjalla um sjávarútvegsmál hafa síðan vitnað í umrædda grein og birt innihald hennar eins og hvern annan stórasannleik. Í umfjöllun Kystmagasynet um þetta mikilvæga mál er sérstaklega fjallað um Síldarvinnsluna  og vægast sagt stórfurðulegar upplýsingar veittar um stöðu og starfsemi fyrirtækisins.  Hér á eftir verða birt nokkur orðrétt brot úr viðkomandi grein og síðan bent á augljósar rangfærslur í henni.

Eftirfarandi skýring er gefin á því að Íslendingar og Grænlendingar eigi ekki aðild að umræddum makrílsamningi:

„Grænlensk og íslensk útgerðarfyrirtæki hafa fjárfest svo mikið í aukinni veiðigetu að samningur sem minnkar möguleika þeirra til makrílveiða mun leika þau grátt. Þess vegna þjónar það ekki hagsmunum Íslendinga að gerður sé samningur sem takmarkar makrílveiðar  þeirra“.

Á öðrum stað í greininni segir:

„Kystmagasynet.no hefur áður skrifað um grænlenska „rannsóknarkvótann“ sem hefur nú í ár verið aukinn úr 60.000 tonnum í 100.000 tonn. Á sama tíma hefur íslenska útgerðarfyrirtækið, Síldarvinnslan, til viðbótar við hin íslensku uppsjávarskip sín, mörg grænlensk uppsjávarskip í rekstri. Nokkur þessara skipa hafa verið keypt frá Noregi eins og greint hefur verið frá áður. Eitt þessara skipa, hin grænlenska Erika, var nú í vikunni í Las Palmas á leið sinni til Nouadibou í Máritaníu. Þar á skipið, sem er 57 metra langt og byggt 1978, að taka þátt í óvissuveiðum á sardínellu og sardínu. Síldarvinnslan veitir sjálf þær upplýsingar að hún starfræki fiskiðjuver fyrir uppsjávarfisk og bolfisk, þrjár fiskimjölsverksmiðjur, einn frystitogara og sex uppsjávarskip. Á netinu koma ekki fram upplýsingar um hvort þarna séu meðtalin grænlensku uppsjávarskipin, þar á meðal Erika, sem nú skal veiða úti fyrir ströndum Máritaníu...

Lesa meira...

Börkur og Beitir hættir loðnuveiðum – kolmunnaveiðar framundan

Birtingur NK við loðnuveiðar úti af Vestfjörðum. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBörkur og Beitir komu til hafnar í Neskaupstað í gær og eru hættir loðnuveiðum á þessari vertíð. Birtingur mun hins vegar halda áfram að leita loðnu eitthvað lengur en skip Síldarvinnslunnar eiga eftir að veiða um 3700 tonn af kvóta fyrirtækisins. Um helgina var víða leitað að loðnu, m.a. á Eyjafirði, en án árangurs. 

Gert er ráð fyrir að Börkur og Beitir haldi til kolmunnaveiða síðar í vikunni.


Slöttum landað í Helguvík

Polar Amaroq landar í Helguvík.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirLoðnuskipin hafa komið til Helguvíkur í nótt og í dag til að losa sig við slatta. Loðnuveiðarnar hafa ekki gengið sem skyldi að undanförnu og veðrið hefur alls ekki verið hagstætt. Birtingur NK landaði tæpum 400 tonnum í nótt og Polar Amaroq er að landa öðrum eins afla. Á eftir Polar Amaroq mun Börkur NK koma til löndunar með um 350 tonn og síðan er von á Vilhelm Þorsteinssyni EA þegar hann hefur lokið við að landa frystum afurðum.
 
Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri í Helguvík segir að með þessum afla verði um 16 þúsund tonn af loðnu komin á land í Helguvík á vertíðinni. Og hann segist vonast eftir meiru þó sumir sjómennirnir séu ekki alltof bjartsýnir á áframhaldandi veiði. „Það getur ýmislegt gerst enn“, segir Eggert og er vongóður.
 
Alls starfa á milli 20 og 30 manns við loðnuvinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni í Helguvík og við hrognavinnslu en Síldarvinnslan vinnur hrognin í samvinnu við fyrirtækið Saltver í Reykjanesbæ.

Frystitogarinn Barði með góðan gullkarfatúr

Barði NK að taka trollið. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum þriggja vikna túr. Heildarafli í túrnum var um 560 tonn upp úr sjó en um 220 tonnum var millilandað í Hafnarfirði 28. febrúar. Uppistaða aflans var gullkarfi en nokkur hluti hans var djúpkarfi, þorskur og gulllax. Helst var veitt á Melsekk sem er suðvestur af Reykjaneshrygg og síðan einnig á Eldeyjarbanka. Undir lok veiðiferðarinnar var gullax veiddur í Grindavíkurdýpi og á Kötluhrygg. Aflaverðmæti í túrnum nemur um 123 milljónum króna. Að sögn Theodórs Haraldssonar skipstjóra var hundleiðinlegt veður nánast allan túrinn en undir lok hans komu þó tveir góðir dagar.

Gert er ráð fyrir að Barði haldi aftur til veiða klukkan eitt eftir hádegi á sunnudag.


Bjartur heim úr brælutúr

Gott karfahol hinn 9. mars í Skeiðarárdýpi. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til löndunar í heimahöfn í hádeginu í dag. Aflinn er 76 tonn, uppistaðan þorskur en 26 tonn djúpkarfi. Karfinn fékkst í Skeiðarárdýpinu en þorskurinn á Fætinum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að hundleiðinlegt veður, sannkölluð skítabræla, hafi verið nánast allan túrinn og veiðarnar hafi verið bölvaður barningur.

Bjartur mun halda til veiða á ný á föstudagskvöld.

Leiðindaveður og loðnan stendur djúpt

Nýi Börkur að kasta á Vestfjarðamiðum.  Ljósm. Geir ZoëgaÞað er lítið um góðar fréttir af loðnumiðunum fyrir vestan. Um helgina var þar leiðindaveður og stóð loðnan djúpt. Þrátt fyrir þetta fengu skipin eitt og eitt þokkalegt kast. Polar Amaroq er að landa um 1000 tonnum í Helguvík og Vilhelm Þorsteinsson landaði þar 900 tonnum um helgina.

Loðnuskip Síldarvinnslunnar eru í síðasta túr vertíðarinnar. Börkur er kominn með rúmlega 300 tonn og Birtingur um 200 tonn. Beitir er á miðunum en  hafði ekki fengið neinn afla þegar þetta er skrifað.


Ánægjulegar öskudagsheimsóknir

Hver krakkahópurinn á fætur öðrum kom í heimsókn á skrifstofur Síldarvinnslunnar í dag og söng fyrir starfsfólkið. Krakkarnir voru gjarnan klædd hinum skrautlegustu búningum og söngvarnar virtust oft vel æfðir. Kennarar Nesskóla fylgdu mörgum hópanna og elstu og yngstu nemendur skólans mynduðu saman hópa þannig að öruggt var að allir gætu verið með. Fyrir heimsóknina og sönginn þáði unga fólkið harðfiskpoka að gjöf enda vart annað viðeigandi en að sjávarútvegsfyrirtækið gefi sælgæti úr hafinu.

Það er alltaf hressandi og upplífgandi að fá að njóta öskudagsheimsókna sem þessara og starfsfólkið á skrifstofunni brosir út að eyrum og á eftir að gera það í allan dag. Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í dag og sýna þær glaða og káta krakka syngja fyrir starfsfólkið.

Smellið á "Lesa meira" til að sjá fleiri myndir.

Lesa meira...

Loðnuskipin með góðan afla

Loðnuskipin fengu góðan afla úti fyrir Vestfjörðum í gær. Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1200 tonnum í Helguvík og síðan mun Polar Amaroq landa þar um 2000 tonnum. Hinn nýi Börkur er á austurleið og mun koma til Neskaupstaðar um klukkan 9 í kvöld með 2000 tonn. Er hér um að ræða fyrstu veiðiferð skipsins eftir að Síldarvinnslan festi kaup á því. Í kjölfar Barkar mun Birtingur koma til Neskaupstaðar í nótt og Beitir í fyrramálið en bæði skipin eru með um 1500 tonna afla.

Nokkur áta virðist vera í loðnunni sem nú veiðist og vafasamt hvort unnt verður að vinna hana til manneldis í miklum mæli.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók Þorgeir Baldursson á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum í gær en Þorgeir er um borð í Berki.

Lesa meira...

Mokveiði á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum

Polar Amaroq í dag. Ljósm. Þorgeir BaldurssonUpp úr hádegi í dag hófst afar góð veiði á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum. Skipin hafa verið að fá mjög stór köst eða allt upp í 700 tonn. Sem dæmi má nefna að Börkur hefur fengið 1100 tonn í tveimur köstum og var að ljúka við að dæla 650 tonnum um klukkan hálf sex. Bæði Beitir og Birtingur hafa einnig verið að fá góðan afla og þegar þetta er skrifað er Polar Amaroq með stórt kast á síðunni. Að sögn Geirs Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq er mikla loðnu að sjá á miðunum.

Börkur NK og Beitir NK á miðunum. Ljósm. Geir ZoëgaMeðfylgjandi myndir eru teknar á miðunum í dag og tók Geir Zoëga aðra þeirra um klukkan hálf sex. Á henni er Börkur NK til vinstri að ljúka við að dæla og til hægri er Beitir NK að hefja dælingu. Hina tók Þorgeir Baldursson af Polar Amaroq að kasta í dag.

Loðnuveiði út af Vestfjörðum

Polar Amaroq. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÍ gær voru litlar fréttir af loðnuveiðum, allavega framan af degi. Hluti flotans var við veiðar á Faxaflóa og fékk einn og einn bátur einhvern afla og þá aðallega svartan karl. Síðan voru nokkrir bátar á Breiðafirðinum og fengu þar eitthvað af hryngdri kerlingu. Horfurnar voru dapurlegar og heldur þungt yfir mönnum.

Í þessari stöðu ákvað Geir Zoëga skipstjóri á Polar Amaroq að kanna stöðuna norður með Vestfjörðum og skoða jafnvel hvað hæft væri í fréttum á loðnu á Húnaflóa. Polar Amaroq átti eftir að veiða yfir 5000 tonn á vertíðinni og því mikilvægt að veiðanleg loðna kæmi í leitirnar.

Þegar Polar Amaroq var kominn út af Ísafjarðardjúpi fannst loðna. Þarna voru góðar torfur sem stóðu að vísu djúpt en á fallaskiptunum kom loðnan upp og náðu Polarmenn einu 350 tonna kasti. Þarna reyndist vera um ágætis loðnu að ræða og að sögn Geirs virðist hrognfyllingin vera þannig að loðnan gæti vel hentað til Japansfrystingar. Þessar veiðifréttir bárust um flotann og í morgun var hann allur kominn á veiðislóðina.

Heimasíðan hafði samband við Geir núna upp úr hádeginu og var hann brattur og hress: „Við erum núna um 12 mílur út af Galtarvita og flotinn er allur hér. Ég horfi á eina 12 báta út um brúargluggann. Sennilegt er að loðnan komi upp á fallaskiptunum eins og hún gerði í gær og lóðningar á svæðinu eru verulegar. Við vorum að kasta eins og fleiri bátar og ég horfi á nýja Börk vera að snurpa hérna rétt hjá. Þetta er gríðarlega spennandi og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu. Það er allavega bjartara yfir mönnum en verið hefur síðustu dagana.“


Frystitogarinn Barði millilandar í Hafnarfirði

Barði NK millilandar í Hafnarfirði.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK er að landa um 210 tonnum í Hafnarfirði í dag og er gullkarfi uppistaða aflans. Um millilöndun er að ræða en veiðar í túrnum hófust 19. febrúar og hafa þær farið fram á svonefndum Melsekk. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að að veiðin hafi verið ágæt allan túrinn eða frá 3 og upp í 30 tonn í holi. Að vísu hafi veðrið ekki verið til að hrópa húrra fyrir: „Það hefur verið kaldaskítur allan túrinn en nú er hann að spá eitthvað betra veðri á þessum slóðum“, sagði Theodór.

Barði mun halda aftur til veiða frá Hafnarfirði klukkan fimm í dag og gert er ráð fyrir að leggja áfram áherslu á karfaveiðar. Gert er ráð fyrir að veiðiferðinni muni ljúka um 12. mars og þá verði landað í heimahöfn.

Skipstjórar á uppsjávarskipunum

Beitir NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonSkipstjórar á hinum nýja Berki verða þeir Sturla Þórðarson og Hjörvar Hjálmarsson. Sturla var áður skipstjóri á Berki en Hjörvar á Beiti. Skipstjórar á hinum nýja Beiti verða Hálfdan Hálfdanarson og Tómas Kárason. Hálfdan var áður skipstjóri á Beiti en Tómas var stýrimaður á Berki auk þess sem hann var skiptjóri á Birtingi á síðasta ári þegar hann var nýttur til loðnu- og makrílveiða.

Börkur NK.  Ljósm Þorgeir BaldurssonAuk Barkar og Beitis er Birtingur gerður út til loðnuveiða þessa dagana. Skipstjóri á honum er Sigurbergur Hauksson.

Börkur NK - eitt glæsilegasta skip íslenska flotans

Ekkert fer á milli mála að hinn nýi Börkur NK er eitt glæsilegasta skip íslenska fiskiskipaflotans. Skipið liggur í Norðfjarðarhöfn og er keppst við að gera það klárt til loðnuveiða. Í morgun var meðal annars unnið að því að mála nýtt nafn og einkennisnúmer á skipið en loðnunót var tekin um borð í gær og reyndar kastað í tilraunaskyni í Norðfjarðarflóanum í gærkvöldi.

Skipið hefur ekki  verið sýnt almenningi enda öll áhersla lögð á að koma því á veiðar enda mikilvægt að ná þeirri loðnu sem eftir er að veiða svo hún nýtist til hrognatöku og skili sem mestum verðmætum. Gert er ráð fyrir að skipið verði almenningi til sýnis síðar.

Þeir sem átt hafa erindi um borð í nýja Börk láta mikið af því hvað skipið sé vel búið og sérstaklega er dáðst að aðbúnaði áhafnarinnar. Það er sama hvert er litið; klefarnir eru notalegir, setustofan hlýleg, matsalurinn eins og á nútímanlegu veitingahúsi og vinnuaðstaða öll eins og best verður á kosið. Hér á eftir eru birtar nokkrar myndir sem teknar eru í skipinu og sýna þær aðstæður sem áhöfnin býr við. 

 

 

Birtingur NK hélt til loðnuveiða í dag

Birtingur NK hélt til loðnuveiða í dag. Skipstjóri er Sigurbergur Hauksson. Áhöfnin á Beiti NK nýtti Birting fyrr á loðnuvertíðinni um tíma en nú hefur hún flutt sig yfir á hinn nýja Beiti (áður Polar Amaroq). Birtingur er því þriðja skip Síldarvinnslunnar við loðnuveiðar um þessar mundir en ástæðan fyrir nýtingu skipsins er sú að langt virðist liðið á loðnuvertíðina og allt kapp er lagt á að ná loðnunni þannig að unnt sé að vinna hrognin og gera sem mest verðmæti úr aflanum.Birtingur NK í Neskaupstað. Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir

Hrognataka hafin í Helguvík og Neskaupstað

Hrognavinnsla í Helguvík. Ljósm. Guðjón Helgi ÞorsteinssonVinnsla á loðnuhrognum hófst í Helguvík aðfaranótt sl. mánudags en þá voru hrogn unnin úr  afla grænlenska skipsins  Polar Amaroq. Vinnslan hefur gengið ágætlega en hún fer fram í samvinnu við fyrirtækið Saltver í Reykjanesbæ.

Vinnsla á hrognum hófst í Neskaupstað í gærkvöldi en þá hófst löndun á 1300 tonnum sem Börkur NK kom með að landi. Þarna er um ræða farminn úr síðustu veiðiferð þessa Barkar en nýr Börkur (áður Malene S) mun leysa hann af hólmi og væntanlega halda til veiða á morgun, miðvikudag.  Löndun úr Berki mun ljúka síðdegis en Hákon EA er væntanlegur með 1200 tonn og er gert ráð fyrir að sá afli fari í hrognavinnslu.

Malene S verður nýr Börkur

Hinn nýi Börkur NK (áður Malene S). Ljósm. Þorgeir BaldurssonSíldarvinnslan hefur fest kaupa á norska uppsjávarveiðiskipinu Malene S en Börkur NK 122 gengur upp í kaupin.  Skiptin á skipunum munu fara fram miðvikudaginn 25.febrúar nk. og mun nýja skipið fá nafnið Börkur NK 122.

Malene S er glæsilegt skip, smíðað í Tyrklandi og var afhent hinum norsku eigendum í desembermánuði árið 2012.  Skipið er 3588 tonn að stærð, 80,30 metrar að lengd og 17 m á breidd.  Aðalvél þess er 4320 KW af gerðinni MAK, auk þess er skipið búið tveimur ljósavélum 1760 KW og 515 KW.  Skipið er búið svo kölluðum „Diesel Electric“-búnaði sem þýðir að hægt er að keyra skipið eingöngu með ljósavél og kúpla út aðalvélinni.

Skipið er búið öflugum hliðarskrúfum 960 KW og er vel búið til tog-  og nótaveiða.  Burðargeta skipsins er 2500 tonn, skipið er búið öflugum RSW kælibúnaði eða 2 milljón Kcal með ammoníak kælimiðli.   Ekkert fer á milli mála að hið nýja skip verður á meðal best búnu og glæsilegustu fiskiskipa íslenska flotans. 

Allur aðbúnaður áhafnar er eins og best verður á kosið, í áhöfn skipsins verða 7-8 menn á trollveiðum og 10-11 á nótaveiðum.

Börkur NK gengur upp í kaupin eins og fyrr greinir en Síldarvinnslan festi kaup á honum í febrúarmánuði árið 2012.  Börkur var byggður árið 2000 og er 2190 tonn af stærð.  Lengd skipsins 68,3 metrar og breidd 14 metrar.  Burðargeta Barkar er 1750 tonn, skipið hefur reynst afar vel í þau tæplega tvö ár sem það hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar hf.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri segir eftirfarandi um skiptin:

„Á síðastliðnum  mánuðum erum við búnir að skipta út báðum uppsjávarskipum okkar Berki og Beiti.  Við vorum vissulega með góð skip en stærsti munurinn í þessum skiptum felst  í því að við erum að fá mun hagkvæmari skip hvað snertir olíunotkun og vonast ég til að sjá allt að þriðjungi minni olíunotkun á nýju skipunum.  Sem dæmi þá var gamli Beitir með 11 þúsund hestafla vél en sá nýi er búinn tveimur 3200 hestafla aðalvélum þar sem dugir að keyra á annarri.  Gamli Börkur var með 7500 hestafla aðalvél en nýi Börkur er með 5800 hestöfl, auk þess sem hann getur keyrt eingöngu á ljósavél sem er 2300 hestöfl.   Samantekið þýðir þetta að við þurfum að ræsa 5500 hestöfl til að færa skipin á milli staða í stað 18500 hestafla áður.

Auk minni orkunotkunar mun aukin burðargeta einnig nýtast okkur vel við veiðar á kolmunna og til að hjálpa okkur þegar loðnukvótar verða stórir.

Skipið mun styðja við ennfrekari uppbyggingu á uppsjávarfrystingu okkar.  Það mun styðja við þá stefnum okkar að auka verðmæti þeirra aflaheimilda sem við höfum aðgang að með minni tilkostnaði“.


Loðnu landað í Helguvík

Polar Amaroq að landa í Helguvík í morgun.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍ gær kom fyrsta loðnan á vertíðinni til Helguvíkur þegar Vilhelm Þorsteinsson EA landaði þar 260 tonnum. Síðan kom Beitir NK þangað til löndunar með rúmlega 500 tonn og grænlenska skipið Polar Amaroq er nú að landa þar á milli 1600 og 1700 tonnum. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri  í Helguvík reiknar með að verksmiðjan verði gangsett í kvöld. Segir hann að þeir í Helguvík séu að fá loðnu á þessari vertíð mun fyrr en í fyrra en þá barst fyrsta loðnan ekki fyrr en 24. febrúar. Verksmiðjan í Helguvík tók á móti 28.154 tonnum af loðnu á síðustu vertíð en lokalöndun á vertíðinni átti sér þá stað 20. mars.

Norska loðnuskipið Norafjell til Neskaupstaðar með 850 tonn

Norska loðnuskipið Norafjell væntanlegt til Neskaupstaðar með 850 tonn.Síðdegis í dag er norska loðnuskipið Norafjell væntanlegt til Neskaupstaðar með 850 tonn. Loðnan fékkst á Skjálfanda og er gert ráð fyrir að aflinn fari til manneldisvinnslu. Norafjell er annað tveggja norskra loðnuskipa sem tilkynnt hafa um afla á Skjálfanda en tvö önnur norsk skip eru þar að veiðum og er annað þeirra með kast á síðunni þegar þetta er ritað.

Börkur NK er nýkominn á miðin á Skjálfanda en var ekki búinn að kasta þegar haft var samband við Sigurberg Hauksson skipstjóra. Höfðu þeir á Berki orðið varir við einhverja loðnu á miðunum og upplýsti Sigurbergur að veður væri sæmilegt á þessum slóðum.

Veiði er töluverð á miðunum fyrir suðvestan land og var Polar Amaroq að dæla úr 500-600 tonna kasti um tvöleytið. Eins voru Beitir NK og Vilhelm Þorsteinsson EA að kasta og fá afla.


Fyrsta áfanga stækkunar Norðfjarðarhafnar að ljúka

Gröfuprammi vinnur að dýpkun í höfninni. Ljósm. Hákon Viðarsson.Fyrsta áfanga jarðvinnu vegna stækkunar Norðfjarðarhafnar lauk um síðustu mánaðamót en síðan hefur verið unnið að nokkrum smærri verkefnum. Það er Héraðsverk sem hefur annast jarðvinnuframkvæmdirnar. Björgun hefur einnig lokið fyrsta áfanga við dýpkun hafnarinnar og hélt dýpkunarskipið Perlan á brott um sl. mánaðamót en gröfuprammi  hefur síðan sinnt ýmsum verkefnum. Lokið er við að dæla um 140 þúsund rúmmetrum af efni í nýja garðstæðið en með færslu garðsins verður höfnin öll rýmri og aðgengilegri fyrir skip. Núverandi garður verður fluttur á vormánuðum og með færslu hans bætast 50 þúsund rúmmetrar við hinn nýja garð. Bæði Héraðsverk og Björgun munu halda áfram framkvæmdum í aprílmánuði næstkomandi.

Um þessar mundir eru að hefjast framkvæmdir við lengingu stálþils togarabryggjunnar en bryggjan verður lengd um 60 metra. Það er fyrirtækið Hagtak sem annast það verkefni og eru verklok áætluð um mánaðamótin apríl-maí.

Samhliða öllum þessum framkvæmdum hefur verið unnið að úrbótum á löndunaraðstöðu fyrir smábáta í höfninni. Guðmundur Guðlaugsson bryggjusmiður frá Dalvík hefur haft með það verkefni að gera og er því að ljúka. Þessi bryggjusmíði er  langt á undan áætlun en henni  átti að vera lokið 15. apríl.

Framkvæmdirnar við höfnina skipta Síldarvinnsluna afar miklu máli en þrengsli í henni hafa verið til mikilla óþæginda enda umferðin mikil. Sem dæmi má nefna að þegar flutningaskip koma til að taka frystar vörur verður oft að gera hlé á löndun í fiskiðjuverið á meðan verið er að koma skipunum inn í höfnina. Þá geta stór flutningaskip einungis siglt inn í höfnina í blíðviðri og jafnvel þarf björgunarbáturinn Hafbjörg að aðstoða lóðsbátinn Vött við að koma þeim að bryggju. Núverandi framkvæmdir koma til með að gjörbreyta allri aðstöðu og verður höfnin bæði rýmri og öruggari að þeim loknum.


Undirflokkar