Beitir og Börkur í höfn í Þvereyri á Suðurey

Frá Þvereyri á Suðurey í FæreyjumKolmunnaskipin Beitir og Börkur liggja nú í höfn á Þvereyri á Suðurey í Færeyjum. Engin kolmunnaveiðiveiði sem heitið getur hefur að undanförnu verið innan færeyskrar lögsögu þar sem íslenskum skipum er heimilt að veiða. Beitir og Börkur héldu til veiða frá Neskaupstað sl. föstudag en hafa legið í höfn frá því að þeir komu til Færeyja. Önnur íslensk skip liggja ýmist í höfn eða eru úti að fylgjast með en láta reka að mestu. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Beiti og heyrði í honum hljóðið:“Við liggjum hér í höfn og það fer vel um mannskapinn, hér er sólskin og blíða en því miður lítið að frétta af fiskiríi“, sagði Hálfdan.  „ Við bíðum rólegir eftir því að fiskurinn gangi inn í færeysku lögsöguna. Færeysku skipin eru að mokfiska í skosku landhelginni hér suður af en þau hafa heimild til að veiða þar. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð misjafnt hvenær kolmunninn hefur látið sjá sig í miklu magni í færeyskri lögsögu. Í fyrra og hitteðfyrra var komin góð veiði um 10. apríl en stundum hefur þetta gerst síðar. Það skiptir hins vegar máli að bíða hérna því einungis 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeyskri lögsögu og því koma menn hér til að ná sér í númer svo unnt sé að hefja veiðar strax og fiskurinn sýnir sig. Við erðum bara að bíða þolinmóðir, það er ekkert annað í stöðunni“. 


Frystitogarinn Barði að gera það gott í gullkarfanum

Löndun úr Barða NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði kom í gærkvöldi til Hafnarfjarðar þar sem hann millilandar fullfermi af gullkarfa. Ráðgert er að togarinn haldi til veiða á ný í kvöld og verður stefnan þá tekin á karfamiðin á Melsekk. Theodór Haraldsson stýrimaður upplýsti að mjög góð veiði hefði verið í veiðiferðinni og veður gott. „ Við höfum verið að toga í um 6 tíma á sólarhring en síðan látið reka á meðan aflinn er unninn. Búið var að fylla skipið eftir einungis 9 daga á veiðum en aflinn er um 340 tonn upp úr sjó og er örugglega 95% aflans gullkarfi. Það er oft mjög góð veiði á þessum slóðum um þetta leyti árs og veiðin hjá okkur var um 5-10 tonn á togtíma“, sagði Theodór. 


Börkur NK kemur með fyrsta kolmunnafarminn til Neskaupstaðar

Börkur NK kom um hádegi í dag til Neskaupstaðar með fyrsta kolmunnafarminn á vertíðinni. Ljósm. Hákon Viðarsson.Upp úr hádeginu í dag kom Börkur NK með fyrsta kolmunnafarminn á vertíðinni til Neskaupstaðar. Afli skipsins er 1.600 tonn og fer hann til mjöl- og lýsisvinnslu. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri sagðist trúa því að þetta væri byrjunin á góðri vertíð enda eigi að vera mikill kolmunni í hafinu og kvótinn mikill. Þá sagði hann að veiðar hefðu gengið vel á nýju skipi en á meðan löndun færi fram yrði ýmislegt smávægilegt sem tengist togveiðibúnaði þess lagfært. Hjörvar lýsti fyrstu veiðiferð kolmunnavertíðarinnar þannig: „Við hófum veiðar sunnan við Rockall-svæðið utan írskrar lögsögu en þar hafði veiðst vel áður en við komum þangað. Eftir að við komum fjöruðu veiðarnar út hægt og bítandi og síðasta holið, 230 tonn, tókum við sunnan í Færeyjabanka. Það er ljóst að hrygningarfiskurinn er ekki enn genginn inn í færeyska lögsögu svo neinu nemur en það mun sennilega gerast á næstu 7-10 dögum og þá má gera ráð fyrir að kraftveiði hefjist. Fiskurinn er á leið norður eftir á fæðustöðvar að lokinni hrygningu“.

Þegar þetta er ritað er Beitir kominn með 1.400 tonn af kolmunna og var að kasta, Bjarni Ólafsson var að fylla sig og Polar Amaroq var að veiðum. Þessi skip munu væntanlega koma til löndunar á næstu dögum.


Kolmunnaskipin á sama blettinum á botnskaki

Beitir NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÞað gengur á ýmsu á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi. Kolmunninn heldur sig við botninn yfir daginn en kemur eitthvað upp á nóttunni og misjafnt er hvað veiðiskipin toga lengi hverju sinni. Um klukkan tvö í dag var Börkur að dæla um 200 tonnum eftir að hafa togað í sjö klukkustundir og var skipið þá komið með um 1300 tonna afla. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra hafði áhöfnin átt í tímabundnu brasi með veiðarfærið en veður var þokkalegt. Að vísu myndi bræla eitthvað í dag en það veður myndi ganga fljótt yfir. Börkur hífði 300 tonn í gærdag og síðan 150 tonn eftir að hafa togað í tvo og hálfan tíma.

Beitir var að toga skammt frá Berki og upplýsti Tómas Kárason skipstjóri að þeir væru komnir með um 900 tonna afla. „Það er allur flotinn hérna á sama blettinum í botnskaki og sumir hafa fest trollin í karga og skemmt þau. Hérna er töluvert lóð en þetta er klesst niður við botn eins og er. Við höfum verið að toga misjafnlega lengi en algengt er að togað sé í 5-8 tíma“, sagði Tómas.


Lélegri loðnuvertíð lokið

Beitir NK á loðnuveiðum úti af Vestfjörðum í byrjun marsmánaðar. Ljósm. Þorgeir BaldurssonLoðnuvertíðinni lauk í síðustu viku en þá gáfust skipin endanlega upp á að leita loðnunnar. Heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni var rúmlega 127 þúsund tonn en í fyrra var kvóti þeirra 463 þúsund tonn. Því má segja að vertíðin hafi valdið vonbrigðum og reynst fyrirtækjunum og þjóðfélaginu heldur rýr; gera má ráð fyrir að útflutningsverðmæti loðnuafurða á vertíðinni sé tæplega 12 milljarðar á móti 34 milljörðum í fyrra.

Afli skipa Síldarvinnslunnar á vertíðinni var sem hér segir:

Börkur eldri    5.344 tonn
Börkur nýi       2.048 tonn
Beitir             3.589 tonn
Birtingur         5.134 tonn

Alls veiddu skipin því 16.115 tonn. Tekið skal fram að áhöfn Beitis stundaði veiðar á Birtingi hluta úr vertíðinni  á meðan lagfæringar á Beiti fóru fram.

Alls tók Síldarvinnslan á móti 45.000 þúsund tonnum af loðnu á vertíðinni ef með eru talin 3000   tonn af sjófrystri loðnu sem landað var í frystigeymslur fyrirtækisins í Neskaupstað.

Alls voru fryst um 10.200 tonn af loðnu fyrir ýmsa markaði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, þar af voru liðlega 400 tonn hrogn. Þá voru unnin um 900 tonn af hrognum í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. 

Fiskimjölsverksmiðjurnar í Neskaupstað og í Helguvík tóku á móti tæplega 32.000 tonnum af loðnu á vertíðinni en verksmiðjan á Seyðisfirði var ekki nýtt. Móttekin loðna verksmiðjanna var sem hér segir:

Neskaupstaður  16.029 tonn
Helguvík            15.942 tonn

Frystar afurðir vertíðarinnar hjá Síldarvinnslunni námu samtals rúmlega 11 þúsund tonnum en afurðir fiskimjölsverksmiðjanna tæplega 8.200 tonnum.

Kolmunninn farinn að veiðast

Börkur NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir komu á kolmunnamiðin um 300 mílur vestur af Norður-Írlandi í fyrradag. Á miðunum var þá vitlaust veður og ekki unnt að stunda veiðar en í gær tók veðrið heldur að skána og hófust veiðar þá. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að þeir hafi fengið 300 tonna hol í gærkvöldi og voru að hífa þokkalegt hol þegar heimasíðan hafði tal af honum. Segir Tómas að þeir á Beiti hafi lent í dálitlu brasi við upphaf veiðanna en nú sé hins vegar ágætis veiðiútlit. Um 20 skip eru á blettinum sem veitt er á og eru þau af ýmsu þjóðerni; þarna eru Rússar, Færeyingar og Norðmenn auk íslenskra skipa. 

Börkur er á sömu slóðum og Beitir og að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra eru þeir komnir með um 580 tonn í þremur holum. „Það er loksins komið skaplegt veður og þá fer þetta allt að ganga vel“, sagði Hjörvar.

Kolmunnaveiðarnar að hefjast

Beitir NK hélt til kolmunnaveiða í gær.  Ljósm. Guðlaugur BirgissonUppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, héldu til kolmunnaveiða í gærkvöldi. Í gærdag komu Birtingur og Polar Amaroq til Neskaupstaðar eftir að hafa leitað loðnu án árangurs dögum saman. Polar Amaroq mun væntanlega einnig halda til kolmunnaveiða um helgina en Birtingi verður lagt að sinni.

Kolmunninn veiðist nú á hafsvæðinu vestur af Írlandi þannig að skipin eru um tvo og hálfan sólarhring að sigla á miðin. Vel veiddist á þessum slóðum en að undanförnu hefur veðurhamur truflað veiðarnar.

Útgefinn kolmunnakvóti Síldarvinnslunnar er um 40 þúsund tonn og líkur eru á að hann verði aukinn. Uppsjávarskipa fyrirtækisins  bíða því ærin verkefni á næstunni.

Úkraínumarkaðurinn hefur vaxið mikið - grein Útvegsblaðsins

ÚtvegsblaðiðSmelltu hér til að lesa umfjöllun Útvegsblaðsins
Furðuskrif norskra fjölmiðla um ástæður þess að Íslendingar eigi ekki aðild að makrílsamningi

Á netmiðli norska sjávarútvegsblaðsins Kystmagasynet birtist nýverið grein sem útskýrir hvers vegna Íslendingar og reyndar einnig Grænlendingar eigi ekki aðild að nýgerðum samningi Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga um makrílveiðar. Aðrir fjölmiðlar í Noregi sem fjalla um sjávarútvegsmál hafa síðan vitnað í umrædda grein og birt innihald hennar eins og hvern annan stórasannleik. Í umfjöllun Kystmagasynet um þetta mikilvæga mál er sérstaklega fjallað um Síldarvinnsluna  og vægast sagt stórfurðulegar upplýsingar veittar um stöðu og starfsemi fyrirtækisins.  Hér á eftir verða birt nokkur orðrétt brot úr viðkomandi grein og síðan bent á augljósar rangfærslur í henni.

Eftirfarandi skýring er gefin á því að Íslendingar og Grænlendingar eigi ekki aðild að umræddum makrílsamningi:

„Grænlensk og íslensk útgerðarfyrirtæki hafa fjárfest svo mikið í aukinni veiðigetu að samningur sem minnkar möguleika þeirra til makrílveiða mun leika þau grátt. Þess vegna þjónar það ekki hagsmunum Íslendinga að gerður sé samningur sem takmarkar makrílveiðar  þeirra“.

Á öðrum stað í greininni segir:

„Kystmagasynet.no hefur áður skrifað um grænlenska „rannsóknarkvótann“ sem hefur nú í ár verið aukinn úr 60.000 tonnum í 100.000 tonn. Á sama tíma hefur íslenska útgerðarfyrirtækið, Síldarvinnslan, til viðbótar við hin íslensku uppsjávarskip sín, mörg grænlensk uppsjávarskip í rekstri. Nokkur þessara skipa hafa verið keypt frá Noregi eins og greint hefur verið frá áður. Eitt þessara skipa, hin grænlenska Erika, var nú í vikunni í Las Palmas á leið sinni til Nouadibou í Máritaníu. Þar á skipið, sem er 57 metra langt og byggt 1978, að taka þátt í óvissuveiðum á sardínellu og sardínu. Síldarvinnslan veitir sjálf þær upplýsingar að hún starfræki fiskiðjuver fyrir uppsjávarfisk og bolfisk, þrjár fiskimjölsverksmiðjur, einn frystitogara og sex uppsjávarskip. Á netinu koma ekki fram upplýsingar um hvort þarna séu meðtalin grænlensku uppsjávarskipin, þar á meðal Erika, sem nú skal veiða úti fyrir ströndum Máritaníu...

Lesa meira...

Börkur og Beitir hættir loðnuveiðum – kolmunnaveiðar framundan

Birtingur NK við loðnuveiðar úti af Vestfjörðum. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBörkur og Beitir komu til hafnar í Neskaupstað í gær og eru hættir loðnuveiðum á þessari vertíð. Birtingur mun hins vegar halda áfram að leita loðnu eitthvað lengur en skip Síldarvinnslunnar eiga eftir að veiða um 3700 tonn af kvóta fyrirtækisins. Um helgina var víða leitað að loðnu, m.a. á Eyjafirði, en án árangurs. 

Gert er ráð fyrir að Börkur og Beitir haldi til kolmunnaveiða síðar í vikunni.


Slöttum landað í Helguvík

Polar Amaroq landar í Helguvík.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirLoðnuskipin hafa komið til Helguvíkur í nótt og í dag til að losa sig við slatta. Loðnuveiðarnar hafa ekki gengið sem skyldi að undanförnu og veðrið hefur alls ekki verið hagstætt. Birtingur NK landaði tæpum 400 tonnum í nótt og Polar Amaroq er að landa öðrum eins afla. Á eftir Polar Amaroq mun Börkur NK koma til löndunar með um 350 tonn og síðan er von á Vilhelm Þorsteinssyni EA þegar hann hefur lokið við að landa frystum afurðum.
 
Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri í Helguvík segir að með þessum afla verði um 16 þúsund tonn af loðnu komin á land í Helguvík á vertíðinni. Og hann segist vonast eftir meiru þó sumir sjómennirnir séu ekki alltof bjartsýnir á áframhaldandi veiði. „Það getur ýmislegt gerst enn“, segir Eggert og er vongóður.
 
Alls starfa á milli 20 og 30 manns við loðnuvinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni í Helguvík og við hrognavinnslu en Síldarvinnslan vinnur hrognin í samvinnu við fyrirtækið Saltver í Reykjanesbæ.

Frystitogarinn Barði með góðan gullkarfatúr

Barði NK að taka trollið. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum þriggja vikna túr. Heildarafli í túrnum var um 560 tonn upp úr sjó en um 220 tonnum var millilandað í Hafnarfirði 28. febrúar. Uppistaða aflans var gullkarfi en nokkur hluti hans var djúpkarfi, þorskur og gulllax. Helst var veitt á Melsekk sem er suðvestur af Reykjaneshrygg og síðan einnig á Eldeyjarbanka. Undir lok veiðiferðarinnar var gullax veiddur í Grindavíkurdýpi og á Kötluhrygg. Aflaverðmæti í túrnum nemur um 123 milljónum króna. Að sögn Theodórs Haraldssonar skipstjóra var hundleiðinlegt veður nánast allan túrinn en undir lok hans komu þó tveir góðir dagar.

Gert er ráð fyrir að Barði haldi aftur til veiða klukkan eitt eftir hádegi á sunnudag.


Bjartur heim úr brælutúr

Gott karfahol hinn 9. mars í Skeiðarárdýpi. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til löndunar í heimahöfn í hádeginu í dag. Aflinn er 76 tonn, uppistaðan þorskur en 26 tonn djúpkarfi. Karfinn fékkst í Skeiðarárdýpinu en þorskurinn á Fætinum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að hundleiðinlegt veður, sannkölluð skítabræla, hafi verið nánast allan túrinn og veiðarnar hafi verið bölvaður barningur.

Bjartur mun halda til veiða á ný á föstudagskvöld.

Leiðindaveður og loðnan stendur djúpt

Nýi Börkur að kasta á Vestfjarðamiðum.  Ljósm. Geir ZoëgaÞað er lítið um góðar fréttir af loðnumiðunum fyrir vestan. Um helgina var þar leiðindaveður og stóð loðnan djúpt. Þrátt fyrir þetta fengu skipin eitt og eitt þokkalegt kast. Polar Amaroq er að landa um 1000 tonnum í Helguvík og Vilhelm Þorsteinsson landaði þar 900 tonnum um helgina.

Loðnuskip Síldarvinnslunnar eru í síðasta túr vertíðarinnar. Börkur er kominn með rúmlega 300 tonn og Birtingur um 200 tonn. Beitir er á miðunum en  hafði ekki fengið neinn afla þegar þetta er skrifað.


Ánægjulegar öskudagsheimsóknir

Hver krakkahópurinn á fætur öðrum kom í heimsókn á skrifstofur Síldarvinnslunnar í dag og söng fyrir starfsfólkið. Krakkarnir voru gjarnan klædd hinum skrautlegustu búningum og söngvarnar virtust oft vel æfðir. Kennarar Nesskóla fylgdu mörgum hópanna og elstu og yngstu nemendur skólans mynduðu saman hópa þannig að öruggt var að allir gætu verið með. Fyrir heimsóknina og sönginn þáði unga fólkið harðfiskpoka að gjöf enda vart annað viðeigandi en að sjávarútvegsfyrirtækið gefi sælgæti úr hafinu.

Það er alltaf hressandi og upplífgandi að fá að njóta öskudagsheimsókna sem þessara og starfsfólkið á skrifstofunni brosir út að eyrum og á eftir að gera það í allan dag. Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í dag og sýna þær glaða og káta krakka syngja fyrir starfsfólkið.

Smellið á "Lesa meira" til að sjá fleiri myndir.

Lesa meira...

Loðnuskipin með góðan afla

Loðnuskipin fengu góðan afla úti fyrir Vestfjörðum í gær. Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1200 tonnum í Helguvík og síðan mun Polar Amaroq landa þar um 2000 tonnum. Hinn nýi Börkur er á austurleið og mun koma til Neskaupstaðar um klukkan 9 í kvöld með 2000 tonn. Er hér um að ræða fyrstu veiðiferð skipsins eftir að Síldarvinnslan festi kaup á því. Í kjölfar Barkar mun Birtingur koma til Neskaupstaðar í nótt og Beitir í fyrramálið en bæði skipin eru með um 1500 tonna afla.

Nokkur áta virðist vera í loðnunni sem nú veiðist og vafasamt hvort unnt verður að vinna hana til manneldis í miklum mæli.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók Þorgeir Baldursson á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum í gær en Þorgeir er um borð í Berki.

Lesa meira...

Mokveiði á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum

Polar Amaroq í dag. Ljósm. Þorgeir BaldurssonUpp úr hádegi í dag hófst afar góð veiði á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum. Skipin hafa verið að fá mjög stór köst eða allt upp í 700 tonn. Sem dæmi má nefna að Börkur hefur fengið 1100 tonn í tveimur köstum og var að ljúka við að dæla 650 tonnum um klukkan hálf sex. Bæði Beitir og Birtingur hafa einnig verið að fá góðan afla og þegar þetta er skrifað er Polar Amaroq með stórt kast á síðunni. Að sögn Geirs Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq er mikla loðnu að sjá á miðunum.

Börkur NK og Beitir NK á miðunum. Ljósm. Geir ZoëgaMeðfylgjandi myndir eru teknar á miðunum í dag og tók Geir Zoëga aðra þeirra um klukkan hálf sex. Á henni er Börkur NK til vinstri að ljúka við að dæla og til hægri er Beitir NK að hefja dælingu. Hina tók Þorgeir Baldursson af Polar Amaroq að kasta í dag.

Loðnuveiði út af Vestfjörðum

Polar Amaroq. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÍ gær voru litlar fréttir af loðnuveiðum, allavega framan af degi. Hluti flotans var við veiðar á Faxaflóa og fékk einn og einn bátur einhvern afla og þá aðallega svartan karl. Síðan voru nokkrir bátar á Breiðafirðinum og fengu þar eitthvað af hryngdri kerlingu. Horfurnar voru dapurlegar og heldur þungt yfir mönnum.

Í þessari stöðu ákvað Geir Zoëga skipstjóri á Polar Amaroq að kanna stöðuna norður með Vestfjörðum og skoða jafnvel hvað hæft væri í fréttum á loðnu á Húnaflóa. Polar Amaroq átti eftir að veiða yfir 5000 tonn á vertíðinni og því mikilvægt að veiðanleg loðna kæmi í leitirnar.

Þegar Polar Amaroq var kominn út af Ísafjarðardjúpi fannst loðna. Þarna voru góðar torfur sem stóðu að vísu djúpt en á fallaskiptunum kom loðnan upp og náðu Polarmenn einu 350 tonna kasti. Þarna reyndist vera um ágætis loðnu að ræða og að sögn Geirs virðist hrognfyllingin vera þannig að loðnan gæti vel hentað til Japansfrystingar. Þessar veiðifréttir bárust um flotann og í morgun var hann allur kominn á veiðislóðina.

Heimasíðan hafði samband við Geir núna upp úr hádeginu og var hann brattur og hress: „Við erum núna um 12 mílur út af Galtarvita og flotinn er allur hér. Ég horfi á eina 12 báta út um brúargluggann. Sennilegt er að loðnan komi upp á fallaskiptunum eins og hún gerði í gær og lóðningar á svæðinu eru verulegar. Við vorum að kasta eins og fleiri bátar og ég horfi á nýja Börk vera að snurpa hérna rétt hjá. Þetta er gríðarlega spennandi og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu. Það er allavega bjartara yfir mönnum en verið hefur síðustu dagana.“


Frystitogarinn Barði millilandar í Hafnarfirði

Barði NK millilandar í Hafnarfirði.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK er að landa um 210 tonnum í Hafnarfirði í dag og er gullkarfi uppistaða aflans. Um millilöndun er að ræða en veiðar í túrnum hófust 19. febrúar og hafa þær farið fram á svonefndum Melsekk. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að að veiðin hafi verið ágæt allan túrinn eða frá 3 og upp í 30 tonn í holi. Að vísu hafi veðrið ekki verið til að hrópa húrra fyrir: „Það hefur verið kaldaskítur allan túrinn en nú er hann að spá eitthvað betra veðri á þessum slóðum“, sagði Theodór.

Barði mun halda aftur til veiða frá Hafnarfirði klukkan fimm í dag og gert er ráð fyrir að leggja áfram áherslu á karfaveiðar. Gert er ráð fyrir að veiðiferðinni muni ljúka um 12. mars og þá verði landað í heimahöfn.

Skipstjórar á uppsjávarskipunum

Beitir NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonSkipstjórar á hinum nýja Berki verða þeir Sturla Þórðarson og Hjörvar Hjálmarsson. Sturla var áður skipstjóri á Berki en Hjörvar á Beiti. Skipstjórar á hinum nýja Beiti verða Hálfdan Hálfdanarson og Tómas Kárason. Hálfdan var áður skipstjóri á Beiti en Tómas var stýrimaður á Berki auk þess sem hann var skiptjóri á Birtingi á síðasta ári þegar hann var nýttur til loðnu- og makrílveiða.

Börkur NK.  Ljósm Þorgeir BaldurssonAuk Barkar og Beitis er Birtingur gerður út til loðnuveiða þessa dagana. Skipstjóri á honum er Sigurbergur Hauksson.

Undirflokkar