Yfir 21.000 tonn af frystum makríl og síld á land í Neskaupstað

Vinnsluskipin Kristina EA og Vilhelm Þorsteinsson EA mætast á Norðfirði. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÁ yfirstandandi makríl- og síldarvertíð hafa vinnsluskip landað rúmlega 21 þúsund tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Skipin sem komið hafa með mest af þessum afla eru Kristina EA með samtals 7.940 tonn, Vilhelm Þorsteinsson EA með 7.850 tonn og Hákon EA með 4.570 tonn. Að auki hefur Barði NK landað um 770 tonnum.  Í dag er Hákon síðan að landa um 700 tonnum til viðbótar.

Í septembermánuði síðastliðnum var skipað út rúmlega 10.000 tonnum af afurðum úr frystigeymslunum og nú er skip í höfninni sem tekur 2000 tonn af síld til Póllands. Útskipanir munu halda áfram á næstunni og á mánudag er væntanlegt skip sem mun taka 4000 tonn af síld og makríl til Úkraínu.

Góð síld og góð veiði

Börkur NK að landa í sumar. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirSíðustu viku hafa öll skipin þrjú sem landa afla til vinnslu í fiskiðjuver  Síldarvinnslunnar í Neskaupstað komið með síldarfarma að  landi. Bjarni Ólafsson AK landaði tæpum 600 tonnum sl. mánudag og þar með hafði hann lokið veiðum á vertíðinni. Síðan hefur Börkur NK landað um 800 tonnum og Beitir NK tæplega 900 tonnum. Börkur kom síðan á ný til löndunar í gær með 600 tonn sem fengust í færeysku lögsögunni. Síldin sem borist hefur er bæði stór og góð og er hún bæði heilfryst og flökuð.

Um helgina verður frí hjá starfsfólki fiskiðjuversins en Beitir NK hélt til veiða í dag og er væntanlegur til löndunar á mánudag.


Allt í góðu hjá togurunum

Trollið tekið á Bjarti NK fyrr í þessum mánuði. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gær. Veiðiferðin gekk afar vel og var aflinn rúmlega 362 tonn upp úr sjó, stærsti hlutinn ufsi. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri var býsna ánægður þegar í land var komið: „Þetta var lúxustúr og mokfiskirí. Við vorum yfirleitt hálfan sólarhring á veiðum og létum síðan reka hinn helminginn á meðan aflinn var unninn. Veitt var á Halanum og tók túrinn einungis 13 daga höfn í höfn. Þetta getur vart verið betra“.

Sömu sögu er að segja af ísfisktogaranum Bjarti NK. Hann kom til hafnar í gær og mun landa í dag. Afli hans er tæp 90 tonn, þar af 56 tonn þorskur og 22 tonn ufsi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var kátur þegar haft var samband við hann:“Það fiskaðist í reynd vel allan túrinn. Við byrjuðum suður í Berufjarðarál, tókum síðan eitt hol á Fætinum og ein þrjú á Herðablaðinu. Þá voru tekin þrjú-fjögur hol á Gerpistotunni og sömuleiðis þrjú-fjögur á Hryggnum í Seyðisfjarðardýpinu. Það var einmuna blíðuveður allan túrinn og segja má að allt hafi verið í lukkunnar velstandi“.


Eldri borgarar frá Héraði heimsækja fiskiðjuverið

Eldri borgarar frá Héraði í heimsókn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Þráinn SkarphéðinssonSíðastliðinn sunnudag komu eldri borgarar frá Héraði í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Það var Félag eldri borgara á Héraði sem skipulagði ferðina og taldi hópurinn 25 manns. Hópurinn fór einnig í heimsókn í Safnahúsið í Neskaupstað auk þess að skoða bæinn undir leiðsögn Ínu Gísladóttur.

Að sögn Þráins Skarphéðinssonar formanns ferðanefndar félagsins var heimsóknin til Neskaupstaðar einstaklega vel heppnuð og fyrir marga var heimsóknin í fiskiðjuverið einn af hápunktunum. Þeir sem treystu sér til fóru í skoðunarferð um fiskiðjuverið en aðrir létu sér nægja að horfa yfir helsta verksmiðjusalinn. Þá var hópnum boðið upp á glæsilegt „fermingarveisluhlaðborð“ í verinu þannig að allir fóru þaðan mettir og glaðir. Þráinn lýsir heimsókninni með svofelldum orðum: „Í fiskiðjuverinu ræður tæknin ríkjum og það er stórkostlegt að sjá hvernig fiskiðnaðurinn hefur breyst og þá um leið störfin sem honum tengjast. Enginn í hópi okkar Héraðsmanna hafði komið í fiskiðjuver af þessu tagi áður og í sannleika sagt voru allir gapandi af undrun um leið og menn voru alsælir með móttökurnar. Vélbúnaðurinn er ótrúlega fullkominn og það er ævintýri að fá að sjá og skynja allan framleiðsluferilinn, allt frá því að fiskurinn er flokkaður þegar hann kemur inn í húsið og þangað til honum er pakkað sem endanlegri frosinni afurð. Þá kom líka á óvart að sjá hve öll aðstaða fyrir starfsfólkið er glæsileg. Öllum sem tóku þátt í ferðinni er efst í huga þakklæti til þeirra sem tóku á móti hópnum og það er ljóst að ferðin spyrst vel út því ég hef hitt fólk sem hefur fengið fréttir af  þessari Norðfjarðarferð og dauðsér eftir að hafa ekki komið með“.

Árshátíð starfsmanna Síldarvinnslunnar verður í Búdapest

BúdapestDagana 17. og 18. október nk. munu starfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum halda í skemmti- og árshátíðarferð til Búdapest höfuðborgar Ungverjalands. Alls telur hópurinn rúmlega 360 manns.

Farið verður með flugi frá Egilsstöðum og þangað verður hópnum einnig skilað í lok ferðar. Hinn 17. október munu starfsmenn í Helguvík og áhafnir skipanna ásamt mökum halda til Ungverjalands og hinn 18. munu aðrir starfsmenn og makar þeirra fylgja í kjölfarið. Boðið verður upp á rútuferðir frá Neskaupstað og Seyðisfirði til Egilsstaða og sömu leið til baka að ferð lokinni. Nauðsynlegt er að farþegar séu komnir á flugvöllinn tveimur tímum fyrir brottför. Fyrri hópurinn mun halda heim á leið hinn 21. október en sá síðari degi seinna.

Árshátíð starfsmanna fyrirtækisins mun verða haldin laugardaginn 19. október og mun hún hefjast kl. 18. Árshátíðin mun fara fram á veitingastaðnum Larus sem er í um 5 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu sem gist verður á (Hotel Novotel City).

Fyrir utan árshátíðina munu starfsmennirnir nýta dvölina í Búdapest með ýmsum hætti. Meðal annars gefst þeim tækifæri til að fara í skipulagðar skoðunarferðir. Ein ferðin er borgarferð, þar sem helstu merkisstaðir borgarinnar verða skoðaðir. Önnur er kvöldsigling á Dóná og sú þriðja er ferð um Dónárdal.

Allar upplýsingar um árshátíðarferðina er unnt að fá með þvi að smella hér:  http://www.vita.is/borgarlif/stadur/item672972/Budapest


25 þúsund tonn af makríl og síld

Makrílvinnsla í fiskiðjuverinu í sumar. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirBeitir NK kom til hafnar í Neskaupstað í morgun með rúmlega 600 tonna afla og var uppistaðan síld. Þar með hafa borist rúmlega 25 þúsund tonn af makríl og síld til fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar á vertíðinni.

Börkur NK landaði um 600 tonna farmi í gær og var afli hans einnig síld að mestu leyti.

Veiðisvæði skipanna hefur verið út af Austfjörðum og þurfa þau stundum að hafa töluvert fyrir því að finna svæði þar sem veiðist hrein síld, en á sumum svæðum er síldin töluvert blönduð af makríl og jafnvel kolmunna.

Makrílveiðum að ljúka

Börkur NK að landa makríl í sumar. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirBeitir NK var að ljúka við að landa 500 tonna farmi í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og var nánast allur aflinn makríll. Þetta var síðasta veiðiferð Beitis þar sem áhersla verður lögð á makrílveiðar. Börkur NK hélt til veiða í kvöld og mun væntanlega koma til löndunar á mánudag með um 300 tonn af makríl og verður þá makrílveiðum skipa Síldarvinnslunnar á yfirstandandi vertíð lokið. Makrílveiðar skipanna hafa gengið vel að undanförnu og hefur fiskurinn sem þau hafa borið að landi verið góður til vinnslu. 

Þegar makrílkvótanum er náð munu Börkur og Beitir leggja alla áherslu á síldveiðar en skipin eiga samtals eftir að veiða 11.500 tonn af norsk-íslenskri síld. Þriðja skipið sem landar afla til vinnslu í fiskiðjuverið, Bjarni Ólafsson AK, hefur að undanförnu veitt síld.

Um helgina mun starfsfólk fiskiðjuversins fá frí frá störfum.

Áfram koma vinnsluskip til Neskaupstaðar og landa frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði 500 tonnum í gær en Kristina EA landar um 2000 tonnum í dag. Megnið af afla þeirra er síld. Hákon EA er síðan væntanlegur með 700 tonn á morgun. Afli hans er einnig mestmegnis síld.

Mikilvægar framkvæmdir

Höfnin í Neskaupstað en þar er oft þröngt á þingi. Ljósm. Guðlaugur BirgissonUm þessar mundir eru framkvæmdir að hefjast við gerð Norðfjarðarganga og á sama tíma er unnið að stækkun og breytingum á höfninni í Neskaupstað. Báðar þessir framkvæmdir eru samfélagslega mikilvægar og hafa mikla þýðingu fyrir Síldarvinnsluna og starfsemi sem tengist henni.

Í vikunni var hafist handa við uppsetningu vinnubúða á Eskifirði fyrir gangagerðarmenn en stefnt er að því að hefja framkvæmdir Eskifjarðarmegin um miðjan nóvember. Framkvæmdir við gangagerðina Norðfjarðarmegin munu hefjast eftir áramót en nú er unnið að gerð nýrrar brúar yfir Norðfjarðará og lagningu vegarslóða að gangamunnanum. Gert er ráð fyrir að 35-40 manns muni starfa við gangagerðina, helmingurinn íslenskir starfsmenn Suðurverks og helmingurinn tékkneskir starfsmenn Metrostav. Göngin verða 7,9 km löng og eru verklok áætluð í september 2017. Tilboð verktakafyrirtækjanna í gerð ganganna hljóðaði upp á 9,3 milljarða króna. 

Hin nýju Norðfjarðargöng munu valda byltingarkenndum breytingum í samgöngumálum á Austurlandi því með tilkomu þeirra þarf ekki lengur að fara yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng sem eru í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Hvað snertir Síldarvinnsluna ber að hafa í huga að þó langmest af afurðum sé flutt á brott með skipum er drjúgum hluta þeirra ekið í gámum til útflutnings frá Reyðarfirði og Seyðisfirði. Að undanförnu hafa um 1000 gámar á ári verið fluttir landleiðis yfir Oddsskarð frá Neskaupstað eða um 20 gámar á viku að jafnaði. Flutningabílarnir sem flytja gámana þurfa að nota sérbúna vagna til að komast í gegnum Oddsskarðsgöng auk þess sem ferðin yfir fjallveginn er bæði erfið og áhættusöm. Hin nýju Norðfjarðargöng munu gjörbreyta allri aðstöðu til flutninga á afurðum Síldarvinnslunnar landleiðina frá Neskaupstað auk þess sem kostnaður og áhætta vegna þeirra mun minnka mikið.

Fyrr á þessu ári hófust framkvæmdir við stækkun og umbætur á Norðfjarðarhöfn og munu þær hafa í för með sér afar jákvæðar breytingar fyrir starfsemi Síldarvinnslunnar. Vörur sem fóru um Norðfjarðarhöfn á árinu 2012 voru 140.040 tonn og voru þær mestmegnis sjávarafurðir.  Aflinn sem landað var á árinu nam 223.182 tonnum, þannig að Norðfjarðarhöfn er á meðal helstu fiskihafna landsins. Vegna afar mikillar umferðar skipa og báta um höfnina hafa oft komið upp erfiðar aðstæður þannig að þurft hefur að forfæra skip og fargangsraða afgreiðslu þeirra. Af þessum ástæðum er orðið mjög brýnt að stækka höfnina og gera á henni ýmsar lagfæringar þannig að yfirstandandi framkvæmdir eru hinar þörfustu. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er um 550 milljónir króna og fela þær meðal annars í sér eftirfarandi: Öll aðstaða í höfninni verður rýmri en nú er, viðlegurými skipa verður stækkað, ný smábátahöfn verður gerð og höfnin verður dýpkuð. Framkvæmdirnar munu bæta mjög þá aðstöðu sem umsvif Síldarvinnslunnar byggja á og reyndar mun höfnin verða rýmri og betri fyrir alla notendur hennar.

Gera má ráð fyrir að framkvæmdirnar við höfnina taki um tvö ár og mun töluvert rask verða áberandi á hafnarsvæðinu á meðan þær standa yfir. Það er hafnarsjóður Fjarðabyggðar sem stendur fyrir framkvæmdunum.

Hörku makrílveiði eystra

Úr fiskiðjuverinu í sumar í síldar- og makrílvinnslu. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirUm helgina var hörku makrílveiði austur af landinu. Beitir NK er að landa um 500 tonnum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar  í Neskaupstað og Börkur NK kom til hafnar í morgun með álíka afla. Á undan þeim hafði Bjarni Ólafsson AK landað tæplega 600 tonnum til vinnslu, en meirihluti þess afla var síld.

Makríllinn sem skipin koma með að landi er mjög góður, sterkari og átuminni en áður og vel gengur að vinna hann.

Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti segir að í reynd hafi verið afar góð makrílveiði síðustu daga úti fyrir Austfjörðum. Þó sé veiðin misjöfn eftir því hvenær sólarhringsins togað er; það er minna að fá yfir daginn en góður afli í myrkrinu. Í síðustu veiðiferð tók Beitir þrjú hol og voru þau býsna misjöfn eftir því hvenær togað var. Í fyrsta holi fengust 150 tonn, 30 tonn í öðru og rúm 300 í því þriðja. Um var að ræða nánast hreinan makríl en síldarbátarnir eru einnig að fá góðan afla bæði austar og uppi á grunnum. Til dæmis hefur góður síldarafli fengist bæði í Reyðarfjarðar- og Norðfjarðardýpi.


Síldarvinnslan styrkir Verkmenntaskólann

Frá aðalfundi Síldarvinnslunnar 5. september. Ljósm. Smári GeirssonÁ aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. fimmtudag tilkynnti Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður að stjórnin hefði ákveðið að veita Verkmenntaskóla Austurlands myndarlegan styrk til að koma upp aðstöðu og búnaði vegna fyrirhugaðs náms í vélstjórn við skólann.

Elvar Jónsson skólameistari veitti styrknum móttöku og þakkaði þann skilning og áhuga sem Síldarvinnslan sýndi skólanum og þeim verkefnum sem hann er að fást við. Fram kom í máli Elvars að tengsl skólans við atvinnulífið væru ómetanleg og þá skipti ekki síst máli tengslin við hin öflugu sjávarútvegsfyrirtæki á starfssvæði skólans. Þá upplýsti Elvar að á þessu skólaári væri unnið að undirbúningi þess að unnt yrði að hefja vélstjórnarnám við skólann en slíkt nám yrði skipulagt í tengslum við nám í vélvirkjun. Fyrirhugað er að nám í vélstjórnarfræðum hefjist haustið 2014 og þá verður allur nauðsynlegur vél- og tæknibúnaður sem nota þarf við kennsluna að vera til staðar. Slíkur búnaður er dýr og því kemur styrkur Síldarvinnslunnar að góðum notum. 


Stjórnin skiptir með sér verkum

Stjórn Síldarvinnslunnar ásamt framkvæmdastjóra, frá vinstri: Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri, Freysteinn Bjarnason, Anna Guðmundsdóttir, Halldór Jónasson varamaður, Björk Þórarinsdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður,Arna Bryndís Baldvins McClure varamaður og Ingi Jóhann Guðmundsson varaformaður.Að afloknum aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. fimmtudag hélt nýkjörin stjórn fund þar sem hún skipti með sér verkum. Þorsteinn Már Baldvinsson var kjörinn stjórnarformaður og Ingi Jóhann Guðmundsson varaformaður. Þau Anna Guðmundsdóttir,Freysteinn Bjarnason og Björk Þórarinsdóttir eru meðstjórnendur. Varamenn eru Arna Bryndís Baldvins McClure og Halldór Jónasson.


Þrjár konur kjörnar í stjórn og varastjórn Síldarvinnslunnar

Konur í stjórn Síldarvinnslunnar frá vinstri: Anna Guðmundsdóttir, Björk Þórarinsdóttir og Arna Bryndís Baldvins McClure. Ljósm. Smári Geirsson Á aðalfundi Síldarvinnslunnar hf. sem haldinn var fimmtudaginn 5. september síðastliðinn urðu þau tímamót að konur voru í fyrsta sinn kjörnar í stjórn og varastjórn félagsins. Þær Anna Guðmundsdóttir og Björk Þórarinsdóttir voru kjörnar í aðalstjórn og Arna Bryndís Baldvins McClure í varastjórn.

Á aðalfundinum var samþykkt að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm en kynjahlutföllin í nýju stjórninni eru í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Hin nýkjörna  stjórn Síldarvinnslunnar er þannig skipuð:
  Anna Guðmundsdóttir
  Björk Þórarinsdóttir
  Freysteinn Bjarnason
  Ingi Jóhann Guðmundsson
  Þorsteinn Már Baldvinsson

Varamenn:
  Arna Bryndís Baldvins McClure
  Halldór Jónasson

Síldarvinnslan var stofnuð 11. desember 1957 þannig að konur koma fyrst að stjórnun félagsins eftir 56 ára starf. Það eru svo sannarlega ánægjuleg tíðindi.

Fréttatilkynning 05.09.2013

Rekstur Síldarvinnslunnar hf. á árinu 2012:
Hagnaður Síldarvinnslunnar 7 milljarðar króna

-Hagnaður Síldarvinnslunnar fyrir afskriftir og fjármagnskostnað 9,6 milljarðar króna
-Hagnaður fyrir skatta 8,6 milljarðar króna
-Greiddur tekjuskattur og veiðileyfagjald ásamt öðrum opinberum gjöldum nema 3,1 milljarði króna
-Eiginfjárhlutfall er 59%
-Fiskiðjuverið tók á móti 80 þúsund tonnum af hráefni
-Um frystigeymslur félagsins fóru 90 þúsund tonn af afurðum
-Framleiðsla landvinnslunnar nam 106 þúsund tonnum
 

Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2012 voru alls 24 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 14,3 milljörðum króna. EBITDA var 9,6 milljarðar króna. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 260 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 8,6 milljörðum króna. Reiknaðir skattar námu 1680 milljónum króna og var hagnaður ársins því tæpir 7 milljarðar króna.


Skattar
Síldarvinnslan greiðir 3,1 milljarð til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur á árinu er 1600 milljónir króna en önnur opinber gjöld námu 650 milljónum. Veiðigjöld námu 850 milljónum á síðasta fisveiðiári.


Fjárfestingar
Fjárfestingar Síldarvinnslunnar hafa miðað að því að efla manneldisvinnslu félagsins og auka hagkvæmni og vinnslutækni í fiskimjölsverksmiðjunum.

Fiskimjölsverksmiðjan í Neskaupstað var rafvædd að fullu og nýtir eingöngu innlenda umhverfisvæna raforku. Á árinu var Börkur NK 122 keyptur. Skipið er mjög vel búið til kælingar á afla og styður koma hans við manneldisvinnslu félagsins og stuðlar að aukinni verðmætasköpun úr uppsjávarheimildum. Í fiskiðjuverinu var bætt við afkastagetuna með uppsetningu á frystiskápum og stækkun á frystikerfi. Heildarfjárfestingar félagsins námu 3,1 milljarði króna. Á árinu 2012 var undirritaður samningur um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Berg-Hugin. Bergur-Huginn gerir út tvo 29 metra togara, Vestmannaey VE 444 og Bergey VE 544. Kaupsamningurinn tók gildi þann 22. apríl sl. með samþykki Samkeppniseftirlitsins. Félagið varð hluti af samstæðu Síldarvinnslunnar frá 1. janúar 2013.


Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2012 voru bókfærðar á 36,9 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 13,6 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 15,0 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 21,9 milljarðar króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar ríflega 59%.


Starfsemi
Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipanna var 7.570 tonn, aflaverðmæti 2.050 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa félagsins var 140 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.660 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa félagsins var 6.680 milljónir króna og aflamagn 146.550 tonn á árinu.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 235 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2012. Framleidd voru 45 þúsund tonn af mjöli og 18 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 63 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 12.500 milljónir króna.
Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 43.000 tonn, þar vega síldarafurðir mest, síðan makrílafurðir og loks loðnuafurðir. Verðmæti framleiðslunnar var 8.100 milljónir króna.

Um frystigeymslurnar fóru 90 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals framleiðsla í landvinnslum félagsins nam 105.600 tonnum á árinu 2012 að verðmæti tæplega 21 milljarði króna.


Starfsmenn
Hjá Síldarvinnslunni starfa 230 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins voru 2.800 milljónir króna á árinu 2012 en af þeim greiða starfsmennirnir rúman milljarð í opinber gjöld.


Aðalfundur
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn fimmtudaginn 5. september. Í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins lagði stjórnin til að greiddur yrði 30% arður af hagnaði til hluthafa. Var það samþykkt.

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. fimmtudaginn 5. september 2013.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.
 
 

Togararnir koma og fara

Aðgerð um borð í Bjarti NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK landaði 97 tonnum í Neskaupstað í gær. Uppistaða aflans, eða 67 tonn, var þorskur  og 20 tonn  ufsi. Að sögn Jóhanns Arnar Jóhannssonar skipstjóra aflaðist jafnt og vel í veiðiferðinni. Þorskurinn var tekinn Utanfótar og á Herðablaðinu en ufsinn í Berufjarðarálnum. Bjartur mun halda til veiða á ný um hádegi á föstudag.

Frystitogarinn Barði NK mun koma til löndunar á föstudag með fullfermi af blönduðum afla. Um 70 tonn af aflanum er makríll, um 100 tonn ufsi og síðan lítilsháttar af þorski, karfa og grálúðu. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið vel og nánast allan tímann hafi verið ágætis kropp. Makríllinn var veiddur fyrir vestan land og var unnt að halda uppi fullri vinnslu á meðan á þeim veiðum stóð þrátt fyrir leiðindaveður. Að makrílveiðunum loknum var haldið á Halamið í ufsa og síðan á mið úti fyrir Suðausturlandi. 


Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar hefur tekið á móti tæplega 20 þúsund tonnum af makríl og síld

Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirFiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur tekið á móti tæplega 20 þúsund tonnum af makríl og síld á yfirstandandi vertíð. Þar af eru rúmlega 11 þúsund tonn makríll. Beitir NK er nú að landa í fiskiðjuverið til vinnslu en afli hans er 370 tonn, þar af 275 tonn makríll. Börkur NK kom inn í nótt vegna óhagstæðs veiðiveðurs með 240 tonn og er afli hans til helminga makríll og síld. Hann bíður löndunar.

Alls hafa vinnsluskip landað tæplega 14.500 tonnum af makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar á vertíðinni. Kristina EA kom til hafnar í dag og er að landa fullfermi af frystum afurðum eða rúmlega tvö þúsund tonnum.


Vaxandi vægi síldarinnar

SíldAð undanförnu hafa uppsjávarveiðiskipin sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað borið meiri síld að landi en fyrr á vertíðinni enda langt komin með makrílkvóta sína. Fram undir þetta hefur megináherslan verið lögð á veiðar á makríl en reynt að forðast eftir föngum of mikla síld sem meðafla. Börkur NK er að landa 640 tonnum í fiskiðjuverið núna og er aflasamsetningin svofelld: 493 tonn síld, 85 tonn makríll og 67 tonn kolmunni. Áður landaði Beitir NK samtals 492 tonnum og þar af var síld 352 tonn, makríll 84 tonn og 55 tonn kolmunni.

Helgarfrí stendur fyrir dyrum í fiskiðjuverinu og miðast veiðarnar við það. Áhöfn Bjarna Ólafssonar AK er í nokkurra daga fríi og Beitir mun ekki halda til veiða á ný fyrr en á laugardag.

Af togurum Síldarvinnslunnar er það að frétta að Barði NK er á ufsaveiðum í Berufjarðarál og mun væntanlega landa eftir miðja næstu viku en Bjartur NK landaði 100 tonnum í Neskaupstað sl. þriðjudag og var uppistaða aflans þorskur. Bjartur heldur til veiða á ný í dag.

Aukið öryggi fyrir yngstu nemendur Nesskóla

Kátir nemendur í nýju endurskinvestunum. Ljósm. Eysteinn Þór Kristinsson

Við skólabyrjun færði Síldarvinnslan Nesskóla endurskinsvesti að gjöf en þau eru ætluð nemendum í 1. og 2. bekk. Vestin verða notuð þegar farið verður með nemendahópana í gönguferðir um bæinn og munu þau auka mjög öryggi barnanna í umferðinni.

Skólinn er afar þakklátur fyrir þessa höfðinglegu gjöf og vill taka fram að það sé ómetanlegt fyrir hann að eiga hauka í horni á borð við Síldarvinnsluna.

Stærstu frystigeymslur landsins eru í Neskaupstað - umfjöllun Útvegsblaðsins

Smelltu hér til að lesa umfjöllun Útvegsblaðsins um frystigeymslur Síldarvinnslunnar

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf.

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf.Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf. verður haldinn fimmtudaginn 5. september 2013 í Hótel Egilsbúð Neskaupstað kl. 14:00.


Dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar
2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar
3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs
4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
5. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins
6. Breytingar á samþykktum félagsins
 • a. Tillaga um að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm
 • b. Tillaga um nýtt ákvæði til samræmis við ákvæði hlutafélagalaga varðandi kynjakvóta við stjórnarkjör
 • c. Tillaga um nýtt ákvæði er varðar tilkynningar um framboð til stjórnar og meðferð þeirra.
 • d. Tillaga um breytingu á ákvæði er varðar heimild varastjórnarmanna til setu á stjórnarfundum.
 • e. Tillaga um breytingu á ákvæði er varðar skuldbindingarheimild stjórnar þannig að undirskrift þriggja stjórnarmanna sé nauðsynleg í stað tveggja áður.
7. Kosin stjórn félagsins
8. Kosnir endurskoðendur
9. Önnur mál, löglega fram borin


Stjórn Síldarvinnslunnar hf.

Á ýmsu gengur á makríl- og síldarvertíðinni

Makrílhol tekið á Barða NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonAð undanförnu hefur afli makrílskipanna úti fyrir Austur- og Suðausturlandi verið töluvert síldarblandaður og hafa sumir farmar verið makríll og síld til helminga eða jafnvel meirihlutinn síld. Til að komast í hreinni makríl héldu Beitir NK og Börkur NK vestur fyrir land og hafa verið þar við veiðar frá því í gær. Í morgun voru komin um 300 tonn um borð í Beiti en afla beggja skipa hefur verið dælt um borð í hann. Vonast er til að Beitir geti lagt af stað til heimahafnar með góðan afla síðar í dag en þangað er um 30 tíma sigling. Börkur mun hinsvegar halda áfram veiðum vesturfrá.
 
Bjarni Ólafsson AK, þriðja skipið sem landar makríl og síld til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, er við veiðar á austurmiðum og kemur væntanlega til löndunar í kvöld.
 
Frystitogarinn Barði NK hefur verið á makrílveiðum vestur af landinu og hefur hann nú lokið við veiða sinn makrílkvótakvóta á vertíðinni. Ekki er gert ráð fyrir að Barði komi til löndunar eftir að makrílveiðum lýkur heldur mun hann þegar hefja ufsaveiðar úti fyrir Vestfjörðum en þar hefur verið góð veiði síðustu vikur. Gert er síðan ráð fyrir að Barði landi í Neskaupstað um mánaðamótin.

Undirflokkar