Manneldisvinnslan hefur gengið vel á loðnuvertíðinni

Jóna Járnbrá Jónsdóttir og Japaninn K. Tasuta kanna gæði hráefnisins. Ljósm. Smári GeirssonAð sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hefur manneldisvinnsla gengið vel á yfirstandandi loðnuvertíð. „Loðnan er góð og heppileg til slíkrar vinnslu enda fer allur afli sem að landi berst í hana“, segir Jón Gunnar. „Frá því að veiði hófst á ný í byrjun febrúar hefur vinnslan í fiskiðjuverinu verið samfelld og afköst góð. Ýmist er framleitt á Japan eða Austur-Evrópu – kvensílið fer á Japan en karlinn á Austur-Evrópu. Hingað til hefur engin áta verið í loðnunni en fyrst nú verður dálítið vart við hana. Í fiskiðjuverinu eru nú sex Japanir sem fylgjast með framleiðslunni og gæðum hráefnisins. Þeir eru fulltrúar þriggja kaupenda í Japan“.

Aðspurður segir Jón Gunnar að nú séu síðustu dagar loðnufrystingar á vertíðinni. Hrognafylling loðnunnar er um 22% og gera megi ráð fyrir að hrognavinnsla hefjist í næstu viku.

Nú er verið að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu 850 tonnum úr Berki NK og Bjarni Ólafsson AK er á landleið með 650 tonn. 


Nýr Beitir í sína fyrstu veiðiferð

Beitir NK er nú í sinni fyrstu veiðiferð. Ljósm. Guðlaugur Birgisson.Hinn nýi Beitir NK (áður Polar Amaroq) hélt til loðnuveiða í gær. Er þetta fyrsta veiðiferð skipsins undir nýju nafni. Áhöfn Beitis hefur að undanförnu lagt stund á loðnuveiðar á Birtingi NK en honum verður nú lagt að sinni.

Það var í desember sl. sem grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic festi kaup á norska skipinu Gardar og gekk þáverandi Beitir upp í kaupin. Gardar fékk síðan nafnið Polar Amaroq en eldra skip með því nafni varð eign Síldarvinnslunnar og fékk nafnið Beitir. Síldarvinnslan á þriðjung í grænlenska útgerðarfélaginu Polar Pelagic og annast útgerð á skipi þess.

Stjórn Byggðastofnunar heimsækir fiskiðjuver Síldarvinnslunnar

Stjórn Byggðastofnunar í heimsókn í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári GeirssonByggðastofnun hélt stjórnarfund í Neskaupstað sl. föstudag og notaði tækifærið til að kynna sér atvinnulífið á staðnum. Stjórnin ásamt fylgdarliði heimsótti meðal annars fiskiðjuver Síldarvinnslunnar þar sem hún naut fyrirlesturs um sögu fyrirtækisins og fylgdist með loðnufrystingu. Þegar stjórnina bar að garði var verið að landa loðnu úr Bjarna Ólafssyni AK og frysta hana fyrir Japansmarkað og einnig fyrir austur-evrópskan markað þannig að það var handagangur í öskjunni.


Framúrskarandi fyrirtæki; Síldarvinnslan í öðru sæti í flokki stórra fyrirtækja

Framúrskarandi fyrirtæki; Síldarvinnslan í öðru sæti í flokki stórra fyrirtækjaFyrirtækið Creditinfo tilnefnir árlega framúrskarandi fyrirtæki í þremur stærðarflokkum. Með valinu er verið að veita viðurkenningu fyrir stöðugleika og ráðdeild í rekstri þar sem fyrirtækin þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði í þrjú ár í röð. Samtals í öllum flokkum voru tilnefnd 462 fyrirtæki sem framúrskarandi en alls eru 33 þúsund fyrirtæki skráð á Íslandi. Fram kom í fréttatilkynningu frá Creditinfo að framúrskarandi fyrirtækjum hefði fjölgað í öllum landshlutum á milli ára og benti það til þess að rekstur þeirra færi batnandi.

Í flokki stórra fyrirtækja var Samherji í efsta sæti og Síldarvinnslan í öðru sæti en niðurstöður valsins voru kynntar í gær.


Síldarvinnslan styrkir sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur

Stúlkur úr 7. og 8. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur. Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirDagana 10. og 11. febrúar sl. var haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur í Neskaupstað. Námskeiðið var ætlað stúlkum á aldrinum 13-16 ára (7.-10. bekkur grunnskóla) og var það sótt af öllum stúlkum á þessum aldri sem áttu þess kost eða alls 48. Það má því segja að 100% mæting hafi verið á námskeiðið. Það voru Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og félagsmálanefnd Fjarðabyggðar sem styrktu námskeiðshaldið en Hildur Ýr Gísladóttir hafði forgöngu um að námskeiðið var haldið.

Leiðbeinandi á námskeiðinu var Kristín Tómasdóttir en hún er menntuð í sálfræði og kynjafræði, hefur ritað þrjár bækur fyrir unglingsstúlkur og fylgt þeim eftir með sjálfstyrkingarnámskeiðum. Kristín hefur einnig ritað samsvarandi bók fyrir pilta ásamt Bjarna Fritzsyni og kom hún út fyrir síðustu jól.

Stúlkur úr 9. og 10. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur.  Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirNámskeiðið var haldið í Nesskóla og þótti heppnast afar vel. Haldnir voru fyrirlestrar, unnin verkefni, settir upp leikþættir, eldað og borðað. Leiðbeinandinn var ánægður með hvernig til tókst og ræddi um hversu gaman væri að vinna með svona flottum hópi.

Styrking sjálfsmyndar er mikilvæg fyrir alla unglinga í nútímasamfélagi. Góð eða jákvæð  sjálfsmynd hefur mikil áhrif á hvernig tekist er á við alla þætti lífsins eins og nám, störf, félagslegan þrýsting og hættur á borð vímuefni. 


Frystitogarinn Barði með góðan skraptúr

Barði NK að veiðum.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær eftir að hafa verið rúman hálfan mánuð á veiðum. Skipið er með fullfermi og er uppistaða aflans gulllax, djúpkarfi og ufsi. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er hér um góðan skraptúr að ræða en veitt var við Suðvesturland í heldur rysjóttu veðri. Aflinn er um 330 tonn upp úr sjó og er verðmæti hans um 67 milljónir króna.


Börkur fann loðnu austar

Börkur NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonLoðnubátarnir hafa verið að veiðum út af Skarðsfjöru og þar fyrir vestan en í morgun fann Börkur NK loðnutorfur mun austar eða um 10 mílur vestan við Ingólfshöfða. Börkur kastaði þegar og fékk á milli 400-500 tonn í fyrsta kasti. Þegar heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra var hann með næsta kast á síðunni og taldi að eitthvað minna væri í því. „Ég gæti best trúað því að við höldum heim á leið eftir að við ljúkum að dæla úr þessu kasti“, sagði Sturla. „ Það virðist vera svolítið af loðnu hérna, þetta er allavega eitthvað juð. Ég held að bátarnir sem voru fyrir vestan okkur séu að keyra í þetta“.

Loðnan sem Börkur er að fá þarna virðist vera ágæt og henta vel til manneldisvinnslu. 


Loksins, loksins

Sl. fimmtudag varð grænlenska skipið Polar Amaroq vart við loðnu úti fyrir Suðausturlandi og byrjaði að kasta. Í fyrstu fékkst afar lítið í hverju kasti. Á föstudag komu íslensk skip á miðin, þar á meðal Börkur NK. Kastað var ótt og títt þann dag en köstin reyndust lítil og annað veifið var búmmað. Á laugardaginn jókst veiðin verulega og fengust þá sæmileg köst. Við þessar fréttir hýrnaði yfir mönnum og margir sögðu loksins, loksins.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudags með 800 tonn sem fengust í 6 köstum  og fer aflinn til manneldisvinnslu. Í nótt kom síðan Polar Amaroq með 1600 tonn og mun landa í manneldisvinnsluna á eftir Berki.

Loðnan sem Börkur kom með er ágæt og nýtist vel í frystingu.

Birtingur NK hélt á miðin sl. laugardag og er lagður af stað í land með tæplega 700 tonn  og Bjarni Ólafsson AK er að koma á miðin.

Norski loðnuflotinn hefur leitað loðnu austur og norðaustur af landinu og ekkert fundið að gagni. Norðmennirnir mega veiða hér við land til 15. Þessa mánaðar og þeir mega ekki veiða fyrir sunnan 64 ̊30, þannig að þeir geta ekki veitt á þeim slóðum sem íslensku skipin og hið grænlenska eru að fá aflann um þessar mundir.

Mestum uppsjávarafla landað í Neskaupstað árið 2013

Mestum uppsjávarafla var landað í Neskaupstað árið 2013.  Ljósm. Guðlaugur BirgissonSamkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu var mestum uppsjávarafla á árinu 2013 landað í Neskaupstað eða 201.169 tonnum. Næstmestum afla var landað í Vestmannaeyjum eða 173.297 tonnum og í þriðja sæti var Vopnafjörður með 86.491 tonn. Alls nam uppsjávaraflinn á árinu 924 þúsund tonnum og var uppistaða hans loðna, síld og makríll.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti 206 þúsund tonnum árið 2013

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonSamkvæmt samantekt Fiskifrétta tóku fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á móti 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013 en það er um 33% af því heildarmagni sem fór til vinnslu á mjöli og lýsi. Verksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tók á móti langmestu hráefni allra verksmiðja á landinu eða um 123 þúsund tonnum sem er um 20% af heildinni. Verksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði tók á móti rúmlega 44 þúsund tonnum og verksmiðjan í Helguvík rúmlega 39 þúsund tonnum. Loðna var mikilvægasta hráefni fiskimjölsverksmiðja á landinu á árinu 2013. Rúmlega helmingi loðnunnar var landað beint í verksmiðjurnar en tæplega helmingur var loðna sem flokkaðist frá við manneldisvinnslu. Hverfandi hluta norsk-íslensku síldarinnar, íslensku síldarinnar og makrílsins var landað beint í verksmiðjur þar sem þessar tegundir eru nánast að öllu leyti nýttar til manneldisvinnslu. Öðru máli gegnir um kolmunnann en hann fer nánast allur beint til mjöl- og lýsisvinnslu.


Brunaæfing í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað

Frá brunaæfingu í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað.  Ljósm. Guðjón B. MagnússonHinn 23. janúar sl. var efnt til brunaæfingar í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í samvinnu við Slökkvilið Fjarðabyggðar. Samhliða æfingunni var gerð úttekt á verksmiðjunni með tilliti til brunavarna og farið yfir allan brunavarnabúnað. Allir starfsmenn verksmiðjunnar sóttu æfinguna og sýndu verkefnunum mikinn áhuga.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri lofar samstarfið við Slökkviliðið og segir þá þjálfun sem það hafi veitt starfsmönnunum ómetanlega. „Á æfingunni fengu menn að kynnast notkun slökkvitækja og annars búnaðar með tilliti til mismunandi elda og er slík þjálfun afar gagnleg. Að auki var farið yfir viðbrögð ef eldur kemur upp. Það er afar mikilvægt að starfsmenn þekki þann eldvarnarbúnað sem til staðar er á vinnustaðnum og sé þjálfaður í að nota hann. Í kjölfar æfingarinnar voru ákvarðanir teknar um umbætur á búnaðinum, til dæmis var slökkvitækjum fjölgað og staðsetningu þeirra breytt. Þá er rétt að geta þess að ekki alls fyrir löngu skipulagði Slökkviliðið námskeið fyrir starfsmenn um störf í þröngum rýmum og var það einnig afar gagnlegt“, sagði Guðjón.

Upplýsti verksmiðjustjórinn að stefnt væri að því að halda brunaæfingar oftar í framtíðinni og stuðla þannig að auknu öryggi starfsmanna á vinnustaðnum.   


Unnið að milljarðasamningum í húsakynnum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað

Pökkun í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf.  Ljósm. Hákon ViðarssonÞriðjudaginn 28. janúar  var undirritaður samningur á milli Pelagos p/f í Færeyjum og Skagans hf. á Akranesi. Felur samningurinn í sér að Pelagos festir kaup á á vinnslukerfi fyrir uppsjávarfisk frá Skaganum fyrir nýtt fiskiðjuver sem rísa skal í Fuglafirði.  Er ráðgert að fiskiðjuverið muni geta framleitt 600 tonn af frystum afurðum á sólarhring til að byrja með en síðan verði afköstin aukin upp í 1000 tonn. Gert er ráð fyrir að fiskiðjuverið geti tekið til starfa í ágústmánuði á þessu ári.

Hið nýja fiskiðjuver mun rísa við hlið fiskimjölsverksmiðjunnar Havsbrun í Fuglafirði en Havsbrun er einn eigenda hins fyrirhugaða vers ásamt útgerðarfélögunum Christian í Grjótinum og Framherja.

Samningurinn sem hér um ræðir hljóðar upp á vel á þriðja milljarð króna og er að mörgu leyti sambærilegur þeim samningi sem gerður var um byggingu fiskiðjuvers Varðinn Pelagic á Suðurey í Færeyjum. Skaginn lauk byggingu fiskiðjuvers Varðinn árið 2012 og tók það á móti um eitt hundrað þúsund tonnum af hráefni til vinnslu á síðasta rekstrarári.

Grunnur að samningunum um byggingu þessara tveggja færeysku fiskiðjuvera var lagður í Neskaupstað. Í báðum tilvikum hittust samningsaðilar þar, kynntu sér starfsemi fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar og í kjölfarið var sest að samningaborði. Umræddur samningur við Pelagos var mótaður á skrifstofum Síldarvinnslunnar nú í byrjun árs.  Þannig hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til að tryggja að þessir mikilvægu samningar gætu náð fram að ganga og að hið íslenska hugvit væri selt úr landi öllu þjóðfélaginu til hagsbóta. Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans segir að samvinnan við Síldarvinnsluna í tengslum við þessa samninga hafi verið einstaklega góð og það hafi skipt miklu máli fyrir samningsaðila að hafa aðgang að allri þeirri þekkingu og reynslu sem starfsmenn fyrirtækisins búa yfir. Þá leggur Ingólfur áherslu á að sú tækni og það hugvit sem nú hefur verið selt til Færeyja hafi verið þróað í nánu samstarfi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á borð við Síldarvinnsluna og iðnfyrirtækja eins og Skagans. Það sé einkar ánægjulegt að sjá hve þetta samstarf hefur borið ríkulegan ávöxt og leitt til farsælla viðskipta út fyrir landsteinana. 

Systurfyrirtækin Skaginn hf. og Þorgeir & Ellert hf. á Akranesi munu leiða starfið við uppbyggingu fiskiðjuversins í Fuglafirði en fjölmörg önnur íslensk fyrirtæki munu einnig koma að verkefninu. Má þar nefna fyrirtæki á borð við Kælismiðjuna Frost á Akureyri, 3X Technology á Ísafirði og Slippinn á Akureyri.  Fyrir þessi fyrirtæki er samningurinn um byggingu fiskiðjuversins afar dýrmætur auk þess sem hann sýnir svart á hvítu hve íslensk þekking á sviði vinnslu sjávarfangs er mikils metin. 


Nýr Beitir til Neskaupstaðar

Beitir NK við komuna til Neskaupstaðar. Ljósm. Guðlaugur BirgissonEins og áður hefur verið greint frá seldi Síldarvinnslan uppsjávarveiðiskipið Beiti NK til Noregs í desembermánuði sl. en festi þess í stað kaup á skipinu Polar Amaroq sem var í eigu grænlenska félagsins Polar Pelagic. Eftir kaupin á grænlenska skipinu hélt það til Akureyrar þar sem unnið var að ýmsum breytingum og lagfæringum á því. Til dæmis var nótakassinn stækkaður verulega, komið fyrir nýju slönguspili og nýrri vindu á afturskipi. Á Akureyri var skipt um einkennisstafi og nafn á skipinu og fékk það að sjálfsögðu nafnið Beitir NK 123. Á meðan Beitir var á Akureyri lagði áhöfn hans stund á loðnuveiðar á Birtingi NK.

Hinn nýi Beitir kom til Neskaupstaðar að afloknum lagfæringunum í gær og getur hann fljótlega orðið tilbúinn að halda til veiða.

Hinn nýi Beitir var smíðaður árið 1997 og er 2148 brúttótonn að stærð. Getur skipið lestað um 2100 tonn rétt eins og eldri Beitir. Í hinum nýja Beiti eru tvær aðalvélar af gerðinni MaK og er hvor um sig 3260 ha. þannig að heildarhestaflafjöldi er 6250. Annars er skipið afar vel búið tækjum, hentar vel til uppsjávarveiða með flotvörpu og nót og að sjálfsögðu útbúið til að koma með kældan afla að landi.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Beiti segir að sér lítist afar vel á nýja skipið. „Þetta skip hentar vel til veiða og ég er sannfærður um að það á eftir að reynast með ágætum“, sagði hann. „Skipið er vel búið og það er afskaplega gott að sigla því auk þess sem það er hagkvæmt í rekstri. Þetta er gæðaskip, það fer ekkert á milli mála“.

Síldarvinnslan selur eignir sínar á Siglufirði

Gunnþór Ingvason og Róbert Guðfinnsson handsala söluna á eignum Síldarvinnslunnar á SiglufirðiÍ gær handsalaði Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf.  sölu á öllum eignum Síldarvinnslunnar á Siglufirði til Róberts Guðfinnssonar athafnamanns þar. Um er að ræða eignir sem áður tilheyrðu SR-mjöli en árið 2003 runnu Síldarvinnslan og SR-mjöl saman í eitt fyrirtæki sem ber nafn Síldarvinnslunnar. 

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sagði eftirfarandi um sölu eignanna: „Við hjá Síldarvinnslunni gleðjumst yfir því að afhenda athafnamanninum og Siglfirðingnum Róberti Guðfinnssyni umræddar eignir. Róbert stendur í umfangsmikilli uppbyggingu á ferðamannaþjónustu á Siglufirði auk þess að koma að rekstri skíðasvæðisins á staðnum og uppbyggingu golfvallarins svo eitthvað sé nefnt. Með þessum kaupum stuðlar Róbert enn frekar að uppbyggingu á staðnum. Ég trúi því að þær hugmyndir sem Róbert hefur um nýtingu eignanna muni koma samfélaginu vel og stuðla að frekari framþróun á Siglufirði og í Fjallabyggð.

Við bindum vonir við að nýtingarhugmyndir Róberts boði nýtt upphaf fyrir nýtingu eignanna í þágu atvinnu og mannlífs á Siglufirði.

Kaupverð og kjör eru trúnaðarmál á milli kaupanda og seljanda. Það liggur hins vegar fyrir að verði eignanna er stillt í hóf og þannig hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til að framtíðarhugmyndir Róberts geti orðið að veruleika samfélaginu á Siglufirði og í Fjallabyggð til góða.“


„Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn“

Börkur NK. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirBörkur NK hélt út til loðnuleitar sl. þriðjudagskvöld og kom að landi í gær. Hann leitaði með fjórum öðrum skipum austur í hafi og norður fyrir Langanes og síðan nær landi ásamt Bjarna Ólafssyni AK. Leitin var árangurslaus. Heimasíðan hafði samband við Sigurberg Hauksson skipstjóra á Berki og spurði hann nánar út í þessa leit og hvernig honum litist á framhaldið: „Í þessari leit tóku þátt fimm skip, auk Barkar voru það Bjarni Ólafsson, Polar Amaroq, Faxi og Ingunn. Skipin röðuðu sér upp með 5-6 mílna millibili og leituðu í hafinu út af Austfjörðum og norður fyrir Langanes án árangurs. Að þessari leit lokinni könnuðum við á Berki ásamt Bjarna Ólafssyni grunninn en ekkert fannst þar heldur. Eins og fram hefur komið í fréttum liggur leitarskip Hafrannsóknastofnunar á Akureyri og hyggst bíða með frekari leit. Það eru afskaplega fá skip á þessari slóð núna en þegar við fórum í land voru ein 3 norsk skip komin til veiða og fleiri voru á leiðinni.

Það hefur gerst áður að loðnan hafi látið bíða eftir sér og það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Sennilegt er að menn bíði nú í nokkra daga og haldi síðan til leitar og ef ekkert finnst út af Austfjörðum verður líklega leitað norður af Sléttu og vestur fyrir Kolbeinsey .“

Test 2

 

Test 2

Veitingastaðurinn Larus (Mávur á

 latnesku) er nýr veitingastaður og í alla staði hinn glæsilegasti. Hann er í göngufæri frá hótelinu, eingöngu í 250 m fjarlæ

gð og tekur gangan um 5 mínútur. Gengið er eftir göngustíg í gegnum fallegan garð með aldargömlum kastaníutrjám. 

  

Togararnir koma að landi


Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í morgun. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍsfisktogarinn Bjartur NK kom að aflokinni veiðiferð til heimahafnar í Neskaupstað í morgun með 92 tonn og er uppistaða aflans þorskur og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri  segir að karfinn hafi fengist á Lónsdýpi, í Berufjarðarál og í Hvalbakshalli en þorskurinn í Hvalbakshalli og austur fyrir Hæl. Hér er um að ræða þriðju veiðiferð Bjarts eftir áramót og hefur fiskast þokkalega að mati Steinþórs í öllum veiðiferðunum.

Frystitogarinn Barði NK kemur til hafnar í kvöld en hann var við veiðar á Vestfjarðamiðum. Afli hans er 347 tonn upp úr sjó og er aflaverðmætið 88 milljónir króna í þessari fyrstu veiðiferð nýbyrjaðs árs. Um 160 tonn af aflanum er karfi, 52 tonn þorskur, 28 tonn ýsa, 47 tonn ufsi og 16 tonn grálúða.

Lítið um að vera á loðnumiðunum

Birtingur NK í Neskaupstað.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirFrá því á laugardag hefur lítið verið um að vera á loðnumiðunum, fá skip hafa verið að veiðum og afli hefur verið lítill í trollið. Það viðrar ekki vel til nótaveiða og spáin er óhagstæð fyrir næstu daga. Þetta ástand hefur leitt til þess að sum loðnuskipanna hafa haldið til hafnar og liggja þar bundin við bryggju. 

Birtingur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 350 tonn og er verið að frysta úr honum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.


Samfelld loðnuvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar

Fryst loðna á leið í pökkun.  Ljósm. Hákon ViðarssonFrá upphafi loðnuvertíðinnar hefur vinna við loðnufrystingu verið samfelld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Börkur NK kom með fyrstu loðnuna aðfaranótt 13. janúar og síðan hefur unnið á vöktum. Þegar þetta er skrifað er verið að landa úr Berki en löndun úr Bjarna Ólafssyni AK lauk í morgun. Gert er ráð fyrir að frysting á loðnu úr Berki ljúki á morgun en þá hefjist löndun úr Polar Amaroq sem enn er á miðunum.

Loðnufrystingin hefur gengið vel og er allt kapp lagt á að stýra veiðum þannig að hráefnið sem kemur til vinnslu sé ávallt sem best og ferskast.


Test

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað

 

Test

Veitingastaðurinn Larus (Mávur á latnesku) er nýr veitingastaður og í alla staði hinn glæsilegasti. Hann er í göngufæri frá hótelinu, eingöngu í 250 m fjarlægð og tekur gangan um 5 mínútur. Gengið er eftir göngustíg í gegnum fallegan garð með aldargömlum kastaníutrjám.

Undirflokkar