Stærsti mánuður ársins í útflutningi á frystum afurðum

Frystar afurðir lestaðar í Neskaupstað. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍ októbermánuði síðastliðnum fóru samtals 13.500 tonn af frystum afurðum úr frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Langstærstur hluti afurðanna var makríll og norsk-íslensk síld. Alls lestuðu 7 flutningaskip um 12.000 tonn úr geymslunum og að auki voru um 1.500 tonn flutt á brott landleiðis í gámum og með flutningabílum. Heimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslunum segir að októbermánuður hafi verið stærsti mánuður ársins hvað varðar útflutning á frystum afurðum úr frystigeymslum Síldarvinnslunnar. Jafnframt upplýsir hann að langmest af afurðunum þennan mánuðinn hafi verið flutt til kaupenda í Austur-Evrópu.

Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja - grein Útvegsblaðsins

ÚtvegsblaðiðSmelltu hér til að lesa umfjöllun Útvegsblaðsins

Á ýmsu gengur í Breiðafirðinum

Beitir NK er á landleið með 1250 tonn af síld. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirBeitir NK er á leið til heimahafnar með 1250 tonn af sumargotssíld úr Breiðafirðinum. Er skipið væntanlegt í fyrramálið og þá mun vinnsla hefjast á ný í fiskiðjuverinu en hlé hefur verið á vinnslunni meðal annars vegna ótíðar. Atli Rúnar Eysteinsson stýrimaður á Beiti segir að þessi veiðiferð hafi verið heldur sérkennileg en skipið var fimm daga í Breiðafirðinum en gat ekkert aðhafst vegna brælu í eina þrjá daga. „Það er mjög erfitt að athafna sig þarna inn á milli skerjanna á svona stóru skipi í miklum vindi“, sagði Atli Rúnar,“ þannig að við gátum ekkert gert á meðan veðrið gekk yfir. Síðan er alls ekki mikið að sjá af síld ennþá en menn eru vongóðir; hún hlýtur að fara að ganga þarna inn fljótlega. Við fengum 90 tonn í fyrsta kastinu okkar en í næsta kasti rifnaði nótin og ekkert kom út úr því. Jóna Eðvalds SF gaf okkur síðan 370 tonn. Börkur NK tók síðan kast sem við áttum að njóta góðs af og það reyndist ekki vera neitt  smákast því í nótinni voru 1000 tonn. Við fengum 800 tonn af því en hann dældi síðan 200 tonnum í sig. Á þessu sést að það gengur á ýmsu í Breiðafirðinum“.

Vinnsla á sumargotssíld gengur vel

Vinnsla á síld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.Vinnsla á íslenskri sumargotssíld hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í síðustu viku og hefur hún gengið vel. Síldin hefur reynst stærri og betri en á síðustu vertíð en hún er bæði heilfryst og flökuð. Þá hefur ekki orðið vart við nýja sýkingu í síldinni og er sýkingarvandi síðustu vertíða á hröðu undanhaldi. Segja má því að vertíðin hafi farið ágætlega af stað og nú bíða menn þess að síldin þétti sig í miklu magni á Breiðafirðinum.

Börkur með 1000 tonn úr Breiðafirðinum

Börkur NK að síldveiðum á Hofsstaðavogi á Breiðafirði. Ljósm. Kristján Mar UnnarssonBörkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun úr sinni fyrstu veiðiferð í Breiðafjörðinn á þessari vertíð. Aflinn var 1000 tonn af íslenskri sumargotssíld og hófst löndun um hádegisbil þegar lokið var við að vinna aflann úr Beiti NK en hann kom úr sinni fyrstu veiðiferð í Breiðafjörðinn  sl. laugardag. Haft var samband við Sigurberg Hauksson skipstjóra á Berki þegar skipið sigldi inn Norðfjörð og spurt tíðinda af veiðiferðinni. „Við fengum aflann í þremur köstum á laugardaginn og vorum að veiðum á Hofsstaðavogi. Góður afli fékkst í síðasta kastinu og dældum við 200 tonnum úr því í Kap VE. Veiðum lauk um sjöleytið á laugardagskvöld. Síldin sem fékkst þarna er ágætlega stór og falleg og ætti að henta vel til vinnslu. Hins vegar sést ekki enn mikið af síld en hafa ber í huga að í fyrra varð ekki vart við mikla síld þarna fyrr en um mánaðamótin október-nóvember“.


Breiðafjarðarballið er byrjað

Beitir NK á landleið. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBeitir NK hélt til veiða á íslenskri sumargotssíld sl. þriðjudag. Eins og síðustu ár var stefnan tekin á Breiðafjörðinn en þangað er 36 tíma stím frá Neskaupstað. Skipið hóf veiðar í gærmorgun og lagði af stað heimleiðis með 1100-1200 tonn á milli klukkan 9 og 10 í gærkvöldi. Beitir var að nálgast Vestmanneyjar þegar haft var samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og hann spurður út í gang veiðiferðarinnar. „Það var  ekkert sérstaklega mikið af síld að sjá þarna“,sagði Hálfdan,“ það voru einungis tvö skip á miðunum, við og Ingunn AK og þess vegna fengum við góðan afla. Við köstuðum tvisvar við Hrútey á Breiðafirðinum og fengum samtals um 700 tonn. Ingunn AK fékk hinsvegar 1000 tonna kast og við fengum gefins hjá þeim 400-500 tonn“.

Börkur NK liggur nú á Grundarfirði og bíður eftir að hefja veiðar á Breiðafirðinum. Mikilvægt er að hann komi ekki að landi með afla fyrr en vinnslu á afla Beitis er um það bil að ljúka í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Allt er lagt upp úr að hráefnið sé sem ferskast  þegar það kemur til vinnslu og því er tímasetning veiðanna lykilatriði.

Frábær ferð til Búdapest og mögnuð árshátíð

Frá árshátíðinni í Búdapest. Ljósm. Guðlaugur BirgissonStarfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum héldu til Búdapest í síðustu viku og skiluðu sér heim eftir helgina að aflokinni frábærri ferð og árshátíð sem allir minnast með  gleði og ánægju. Samtals voru ferðalangarnir  rúmlega 360 talsins og skiptust í tvo hópa. Fyrri hópurinn flaug utan sl. fimmtudag og kom heim á mánudag en sá síðari hélt af landi brott á föstudag og kom heim á þriðjudag. Flogið var með Boeing 757 vél frá Icelandair sem ber heitið Grímsvötn og var Norðfirðingurinn Kári Kárason flugstjóri en Kári starfaði áður hjá Síldarvinnslunni bæði til lands og sjávar. Síðari hópnum er upphaf flugferðarinnar einkar hugstætt en þegar vélin hafði hafið sig á loft frá Egilsstaðaflugvelli í veðurblíðunni var flogið rétt yfir jökulinn Fönn og síðan niður í Fannardal. Þá var flogið lágflug út alla Norðfjarðarsveit og yfir Neskaupstað en síðan var gefið í og flugið hækkað yfir Norðfjarðarflóanum. Fullvíst má telja að aldrei áður hafi svo stórt loftfar flogið lágflug yfir byggðinni  í Norðfirði og vissu sumir á jörðu niðri vart hvaðan á sig stóð veðrið þegar flugvélin birtist með þessum hætti og sumum fannst þeir nánast geta snert hana með því að tylla sér á tá.

Í Búdapest nutu allir lífsins til hins ítrasta og á laugardagskvöldinu var haldin árshátíð starfsmanna á veitingastaðnum Larus. Farið var í skipulagðar skoðunarferðir um borgina, margir nutu siglingar á Dóná og þar fyrir utan ráðstafaði fólk tíma sínum til að kynna sér matarmenningu og aðra siði innfæddra. Þá má ekki gleyma verslunarröltinu sem er fastur liður hjá landanum þegar erlendar borgir eru heimsóttar. Búið var á góðu hóteli þannig að vel fór um alla og ekki skemmdi veðrið fyrir; alla dagana var þurrt og hlýtt og rigningin sem oft heimsækir Ungverja um þetta leyti árs hélt sig víðs fjarri.

Árshátíðin þótti heppnast afar vel í alla staði og allt það kvöld mátti sjá bros á hverju andliti. Eftir að Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri hafði sett hátíðina tók Brynja Valdís Gísladóttir leikkona  við veislustjórn og stýrði hún gleðinni styrkri hendi. Sjálfur Geir Ólafs birtist og söng þannig að jafnvel stífustu menn tóku að dilla sér og ekki minnkaði ánægjan þegar ungverskur kór undir stjórn Ferenc Utassy sté á svið. Kórinn var hreinasta afbragð og sannaði ágæti sitt þegar hann flutti „Úr útsæ rísa Íslands fjöll“ sem enginn hefur haldið fram að sé auðveldasta kórlag sem þekkist. Hér skal þess getið að kórstjórinn var um nokkurra ára skeið búsettur á Stöðvarfirði og stýrði þar tónlistarmálum. Á árshátíðinni voru bornar fram dýrindis veitingar í mat og drykk og ekki var það til að draga úr ánægjunni. Að afloknu borðhaldi var síðan dans stíginn fram eftir nóttu þar til haldið var heim á hótel í ungverskri næturkyrrð.

Í reynd hjálpaðist allt að til að gera þessa Búdapestferð eftirminnilega og virðist það samdóma álit ferðalanganna að ferð sem þessi eigi svo sannarlega sinn þátt í því að þjappa starfsfólkinu saman og gera gott fyrirtæki enn betra.


Eitt kemur þá annað fer

Flutningaskip mætast í Norðfirði. Ljósm. Jón Már JónssonUm þessar mundir er mikið skipað út af frystum makríl og síld úr frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Koma flutningaskipin hvert á fætur öðru og lesta stóra farma. Í gær var lokið við að lesta skip og þegar það hélt úr höfn  sigldi næsta skip inn Norðfjarðarflóann til lestunar og mættust skipin á miðjum flóanum. Alls taka þessi tvö skip rúmlega 7000 tonn af frystum afurðum og um þessar mundir er skipað út allan sólarhringinn. Skipin tvö sem hér um ræðir eru engin smásmíði, annað er 137 metrar á lengd og hitt 134. Mun farmur beggja skipanna fara til hafna við Svartahaf.


Leiðin liggur til Búdapest – nokkrar hagnýtar upplýsingar

Búdapest á góðum eftirmiðdegi.Næstkomandi fimmtudag og föstudag heldur starfsfólk Síldarvinnslunnar ásamt mökum í árshátíðar- og skemmtiferð til Búdapest. Árshátíðin verður haldin á skemmtistaðnum Larus á laugardagskvöld en skemmtistaðurinn er í einungis 5 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu sem gist verður á ( Hotel Novotel City). Fyrir utan árshátíðina munu þátttakendur í ferðinni nýta dvölina til að skoða borgina og njóta ánægjulegra samvista.

Hér þarf að koma á framfæri nokkrum hagnýtum upplýsingum fyrir ferðalangana sem mikilvægt er að starfsmenn deili sín á milli:

 • Þeir sem koma til Egilsstaðaflugvallar akandi á eigin bifreiðum þurfa að mæta til innritunar á milli kl. 6 og 6.30, en innritun hefst kl. 6 báða brottfarardagana.
 • Á fimmtudagsmorgun fer rútan frá Neskaupstað til Egilsstaðaflugvallar stundvíslega kl. 6.15. Lagt er af stað frá versluninni Nesbakka en farþegar einnig teknir upp við Olís.
 • Á föstudagsmorgun fara tvær rútur frá Neskaupstað til Egilsstaðaflugvallar. Sú fyrri fer kl. 6.15 en sú síðari kl. 6.45. Starfsfólk í fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðju ásamt mökum fara með fyrri rútunni en með síðari rútunni fer starfsfólk skrifstofu ásamt mökum. Báðar rúturnar leggja af stað frá versluninni Nesbakka og taka einnig upp farþega við Olís.
 • Síldarvinnslan býður ferðalöngunum upp á morgunhressingu á Egilsstaðaflugvelli.
 • Allir þurfa að muna eftir að taka með farseðla og vegabréf.
GÓÐA SKEMMTUN


Lífrænt ræktaðar gulrætur og fiskimjöl frá Síldarvinnslunni

Starfsmenn fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað gæða sér á gulrótunum frá Stefáni. Ljósm. Smári GeirssonÁ Akurseli í Öxarfirði eru ræktaðar lífrænar gulrætur í stórum stíl og eru þær þekktar fyrir bragðgæði. Uppskeran í ár mun vera um 130 tonn. Við ræktunina er enginn tilbúinn áburður notaður en í stað hans er notað fiskimjöl frá Síldarvinnslunni í Neskaupstað sem er sérstaklega vottað til lífrænnar ræktunar ásamt höfrum sem bændurnir í Akurseli rækta sjálfir. Þá er lögð áhersla á að akurinn sé vökvaður með vatni úr Jökulsá á Fjöllum sem fellur til sjávar spölkorn frá Akurseli. Nánast öll uppskeran frá Akurseli er seld í verslunum Hagkaupa og Bónus og er eftirspurn eftir þessari gæðavöru mikil og vaxandi.

Stefán Gunnarsson bóndi í Akurseli segir að þegar unnt var að kaupa vottað fiskimjöl til lífrænnar framleiðslu hafi skapast forsendur til hinnar lífrænu ræktunar á gulrótunum. Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er eina verksmiðjan á landinu sem hefur slíka vottun og fiskimjölið sem notað er í Akurseli er keypt þaðan. „Við höfum sinnt þessari lífrænu ræktun í 4-5 ár“, segir Stefán,“og allan þann tíma höfum við fengið fiskimjölið frá Neskaupstað.  Það hefur verið einstaklega gott að eiga viðskipti við starfsmenn Síldarvinnslunnar og þeir hafa allt viljað fyrir okkur gera bæði hvað varðar afgreiðslu og umbúðir“. Að sögn Stefáns  anna þau á Akurseli ekki eftirspurn í ár enda líki framleiðslan afar vel.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir það mikið gleðiefni að framleiðsla verksmiðjunnar skuli notuð til lífrænnar ræktunar. Hann upplýsir að í vor hafi verið seld rúmlega 8 tonn af lífrænu mjöli til Akursels og mjög ánægjulegt sé að eiga samskipti við fólkið þar. „Við fáum líka send sýnishorn af framleiðslunni á Akurseli með reglulegu millibili og þá er veisla hjá okkur. Þessar gulrætur eru einstaklega safaríkar og bragðgóðar og það verður enginn svikinn af þeim. Um daginn kom hér fullur poki af gulrótum og hann hvarf eins og dögg fyrir sólu – menn hakka þær í sig“.


Makríl- og síldarvertíð lokið hjá skipum Síldarvinnslunnar

Börkur NK á landleið. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBörkur NK kom til hafnar í Neskaupstað í nótt með 870 tonn af norsk-íslenskri síld sem fékkst í færeysku lögsögunni. Allur aflinn fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þar með er makríl- og síldarvertíðinni sem hófst í júní lokið hjá skipum Síldarvinnslunnar en Beitir NK landaði sínum síðasta síldarfarmi sl. þriðjudag.

Vinnsluskipin Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA eru enn að veiðum en þau landa afla sínum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.


Áhrif makrílaveiða og makrílvinnslu á Síldarvinnsluna - grein Útvegsblaðsins

ÚtvegsblaðiðSmelltu hér til að lesa umfjöllun Útvegsblaðsins
Ennþá berst norsk-íslensk síld til Neskaupstaðar

Börkur NK og Beitir NK að landa í Neskaupstað.Makríl- og síldarvertíðinni er ekki lokið í Neskaupstað. Þrjú skip hafa veitt til löndunar í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og hafa tvö þeirra, Bjarni Ólafsson AK og Beitir NK lokið veiðum, en Börkur NK er í sinni síðustu veiðiferð. Vinnsluskipin Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA hafa ekki lokið veiðum en þau landa frystum aflanum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Bæði Hákon og Vilhelm Þorsteinsson eru að landa í dag, Hákon um 750 tonnum og Vilhelm um 600 tonnum.     

Nú er farið að hyggja að veiðum á íslenskri sumargotssíld og leitar hugurinn þá í ríkum mæli vestur í Breiðafjörð.

„Samstarfið gengur mjög vel“, segir Gísli Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK

Bjarni Ólafsson AK að landa í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar.Þegar Síldarvinnslan og SR-mjöl runnu saman í eitt fyrirtæki, sem hefur starfað undir merkjum Síldarvinnslunnar, árið 2003 fylgdu ýmis hlutdeildarfyrirtæki SR-mjöls með. Eitt þessara fyrirtækja var Runólfur Hallfreðsson ehf. á Akranesi sem gerir út uppsjávarveiðiskipið Bjarna Ólafsson AK. Við samrunann eignaðist Síldarvinnslan 38% hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf. og síðan má segja að Bjarni Ólafsson hafi átt sína aðra heimahöfn í Neskaupstað. Norðfirðingar líta gjarnan á Bjarna Ólafsson sem eitt af heimaskipunum og ekki er óalgengt að krakkarnir á staðnum tali um „gula bátinn“ sem sker sig með skýrum hætti frá blámáluðum heimaskipum Síldarvinnslunnar og rauðmáluðum skipum Samherja sem koma mikið til löndunar í Neskaupstað.

Upphaflega var Runólfur Hallfreðsson ehf. fjölskyldufyrirtæki í eigu Runólfs heitins Hallfreðssonar skipstjóra og Ragnheiðar Gísladóttur konu hans. Fjölskyldan á enn  meirihlutann í fyrirtækinu og er Ragnheiður framkvæmdastjóri þess og Gísli Runólfsson, sonur þeirra hjóna, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni. Til gamans skal þess getið að fyrsta skipið í eigu fyrirtækisins, elsti Bjarni Ólafsson, var einmitt keypt frá Neskaupstað og hafði borið nafnið Börkur. Þarna var um að ræða þriðja skipið sem Síldarvinnslan eignaðist og fyrsta skipið sem bar Barkarnafnið.

Fyrir nokkru birtist fróðlegt viðtal við Gísla Runólfsson í blaðinu Skessuhorni. Þar segir Gísli frá sögu útgerðarinnar sem hann þekkir í smáatriðum enda verið skipstjóri á skipum hennar í 33 ár. Þá víkur Gísli að samstarfinu við Síldarvinnsluna í viðtalinu og segir eftirfarandi orðrétt um það efni: „Þetta er mjög gott samstarf og báðir njóta góðs af þessum viðskiptum. Við leggjum allan afla okkar upp á Norðfirði er þar er mjög vel útbúið uppsjávarfisksfrystihús, tækjavætt frá Skaganum, sem vinnur hráefnið í afurðir í hæsta gæðaflokki og afkastar miklu. Það þýðir aftur hærra verð til okkar og síðan er SVN að útvega okkur viðbótarkvóta ef þarf. Norðfjörður hefur nánast verið okkar önnur heimahöfn og það er langt síðan við höfum landað hér á Skaganum. Áhöfnin er mest öll frá Akranesi en þó er einn úr Keflavík og annar úr Reykjavík. Þetta getur því verið talsverð útivist þegar vertíðirnar standa yfir, þótt menn skreppi öðru hvoru heim með flugi í frí. Norðfjörður liggur mjög vel við kolmunnamiðunum og norsk-íslensku síldinni. Á hefðbundinni loðnuvertíð liggur hann líka lengst af vel við en síðustu árin hefur verið tveggja sólarhringa sigling þangað af síldarmiðunum í Breiðafirði“.


Fiskflutningabílar fóru um 360 sinnum yfir Oddsskarð í september

Ísaður bolfiskur settur í flutningabíl á höfninni í Neskaupstað. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÍ nýliðnum septembermánuði var skipað út rúmum 10.000 tonnum af frystum afurðum úr frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hér er fyrst og fremst um að ræða makríl og síld. Alls fóru 7.500 tonn beint í skip en um 2.500 tonn fóru í gáma sem ekið var með yfir Oddsskarð til útskipunar á Reyðarfirði. Þetta þýðir að rúmlega 100 gámar af frystum afurðum hafa verið fluttir yfir Oddsskarð í mánuðinum og ferðir flutningabílanna yfir Skarðið fram og til baka vegna þessara flutninga hafa verið á þriðja hundrað.

Fyrir utan þetta hefur mikið af ísuðum bolfiski verið flutt með flutningabílum yfir Skarðið í mánuðinum og hefur sá fiskur bæði komið frá Bjarti NK og eins smærri bátum, ekki síst línubátum sem róið hafa frá Neskaupstað að undanförnu og oft aflað vel. Ferðirnar með ferskan fisk voru um 70 talsins og fóru flutningabílarnir vegna þeirra um 140 sinnum  yfir Skarð og í gegnum Oddsskarðsgöng . Loks voru farnar 10 ferðir með fiskimjöl yfir Skarðið í mánuðinum og það gera 20 ferðir þeirra bíla sem sinntu þeim flutningum.

Niðurstaðan er skýr: Alls fóru flutningabílar frá Eimskip-Flytjanda og Samkipum-Landflutningum um 360 ferðir yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng vegna flutninga á fiski og fiskafurðum frá Neskaupstað í septembermánuði síðastliðnum. Vegna þessara flutninga eingöngu fóru því slíkir bílar 12 ferðir á dag yfir Skarðið  hvern einasta dag mánaðarins.

Fyrir utan flutninga á ferskum fiski og fiskafurðum eru aðrir vöruflutningar yfir Skarðið verulegir en um þá verður ekki fjallað hér. Eins verður ekkert fjallað hér um mikla mannflutninga sem hafa farið mjög vaxandi með tilkomu álvers Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði og aukinnar starfsemi Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.

Haft var samband við Rúnar Gunnarsson þjónustustjóra hjá Eimskip á Austurlandi til að fá staðfestingu á framangreindum upplýsingum. Rúnar staðfesti þær tölur sem hér hafa komið fram og sagði síðan eftirfarandi um flutninga yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng: „ Flutningar yfir Skarðið eru gífurlega miklir og í því sambandi vega flutningar með fisk og sjávarafurðir þungt. Ekið er upp í rúmlega 600 metra hæð og síðan í gegnum Oddsskarðsgöng sem henta afar illa fyrir umferð sem þessa. Þessi akstur reynir mikið á bílana og gerir það að verkum að þeir gefa sig fljótt; mótorar og gírkassar bila gjarnan. Til að mæta þessu hafa verið keyptir dýrari bílar sem henta betur í flutninga af þessu tagi en það dugar vart til. Þá þurfa bílarnir sem flytja gáma að vera með sérbyggða vagna undir gámana svo þeir komist í gegnum göngin, en þau eru þröng, dimm og einbreið með útskotum auk þess sem blindhæð er í þeim. Þá er mikilvægt að allir geri sér ljóst að hin mikla umferð flutningabíla veldur truflun á annarri umferð og mörgum finnst vægast sagt óþægilegt að mæta þessum þungu stóru bílum á fjallveginum eða þá í göngunum. Tíðarfar skiptir afar miklu máli hvað varðar þessa flutninga; flutningar um svona fjallveg og göng er ávallt hættulegir en hættan margfaldast þegar veður er slæmt og hálka mikil.

Við sem sinnum þessum flutningum fögnum gríðarlega þeim tímamótum að nú skuli hafnar framkvæmdir við ný Norðfjarðargöng. Ég held að sé varla unnt að finna þarfara verkefni á sviði samgöngumála á landinu“.


Yfir 21.000 tonn af frystum makríl og síld á land í Neskaupstað

Vinnsluskipin Kristina EA og Vilhelm Þorsteinsson EA mætast á Norðfirði. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÁ yfirstandandi makríl- og síldarvertíð hafa vinnsluskip landað rúmlega 21 þúsund tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Skipin sem komið hafa með mest af þessum afla eru Kristina EA með samtals 7.940 tonn, Vilhelm Þorsteinsson EA með 7.850 tonn og Hákon EA með 4.570 tonn. Að auki hefur Barði NK landað um 770 tonnum.  Í dag er Hákon síðan að landa um 700 tonnum til viðbótar.

Í septembermánuði síðastliðnum var skipað út rúmlega 10.000 tonnum af afurðum úr frystigeymslunum og nú er skip í höfninni sem tekur 2000 tonn af síld til Póllands. Útskipanir munu halda áfram á næstunni og á mánudag er væntanlegt skip sem mun taka 4000 tonn af síld og makríl til Úkraínu.

Góð síld og góð veiði

Börkur NK að landa í sumar. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirSíðustu viku hafa öll skipin þrjú sem landa afla til vinnslu í fiskiðjuver  Síldarvinnslunnar í Neskaupstað komið með síldarfarma að  landi. Bjarni Ólafsson AK landaði tæpum 600 tonnum sl. mánudag og þar með hafði hann lokið veiðum á vertíðinni. Síðan hefur Börkur NK landað um 800 tonnum og Beitir NK tæplega 900 tonnum. Börkur kom síðan á ný til löndunar í gær með 600 tonn sem fengust í færeysku lögsögunni. Síldin sem borist hefur er bæði stór og góð og er hún bæði heilfryst og flökuð.

Um helgina verður frí hjá starfsfólki fiskiðjuversins en Beitir NK hélt til veiða í dag og er væntanlegur til löndunar á mánudag.


Allt í góðu hjá togurunum

Trollið tekið á Bjarti NK fyrr í þessum mánuði. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gær. Veiðiferðin gekk afar vel og var aflinn rúmlega 362 tonn upp úr sjó, stærsti hlutinn ufsi. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri var býsna ánægður þegar í land var komið: „Þetta var lúxustúr og mokfiskirí. Við vorum yfirleitt hálfan sólarhring á veiðum og létum síðan reka hinn helminginn á meðan aflinn var unninn. Veitt var á Halanum og tók túrinn einungis 13 daga höfn í höfn. Þetta getur vart verið betra“.

Sömu sögu er að segja af ísfisktogaranum Bjarti NK. Hann kom til hafnar í gær og mun landa í dag. Afli hans er tæp 90 tonn, þar af 56 tonn þorskur og 22 tonn ufsi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var kátur þegar haft var samband við hann:“Það fiskaðist í reynd vel allan túrinn. Við byrjuðum suður í Berufjarðarál, tókum síðan eitt hol á Fætinum og ein þrjú á Herðablaðinu. Þá voru tekin þrjú-fjögur hol á Gerpistotunni og sömuleiðis þrjú-fjögur á Hryggnum í Seyðisfjarðardýpinu. Það var einmuna blíðuveður allan túrinn og segja má að allt hafi verið í lukkunnar velstandi“.


Eldri borgarar frá Héraði heimsækja fiskiðjuverið

Eldri borgarar frá Héraði í heimsókn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Þráinn SkarphéðinssonSíðastliðinn sunnudag komu eldri borgarar frá Héraði í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Það var Félag eldri borgara á Héraði sem skipulagði ferðina og taldi hópurinn 25 manns. Hópurinn fór einnig í heimsókn í Safnahúsið í Neskaupstað auk þess að skoða bæinn undir leiðsögn Ínu Gísladóttur.

Að sögn Þráins Skarphéðinssonar formanns ferðanefndar félagsins var heimsóknin til Neskaupstaðar einstaklega vel heppnuð og fyrir marga var heimsóknin í fiskiðjuverið einn af hápunktunum. Þeir sem treystu sér til fóru í skoðunarferð um fiskiðjuverið en aðrir létu sér nægja að horfa yfir helsta verksmiðjusalinn. Þá var hópnum boðið upp á glæsilegt „fermingarveisluhlaðborð“ í verinu þannig að allir fóru þaðan mettir og glaðir. Þráinn lýsir heimsókninni með svofelldum orðum: „Í fiskiðjuverinu ræður tæknin ríkjum og það er stórkostlegt að sjá hvernig fiskiðnaðurinn hefur breyst og þá um leið störfin sem honum tengjast. Enginn í hópi okkar Héraðsmanna hafði komið í fiskiðjuver af þessu tagi áður og í sannleika sagt voru allir gapandi af undrun um leið og menn voru alsælir með móttökurnar. Vélbúnaðurinn er ótrúlega fullkominn og það er ævintýri að fá að sjá og skynja allan framleiðsluferilinn, allt frá því að fiskurinn er flokkaður þegar hann kemur inn í húsið og þangað til honum er pakkað sem endanlegri frosinni afurð. Þá kom líka á óvart að sjá hve öll aðstaða fyrir starfsfólkið er glæsileg. Öllum sem tóku þátt í ferðinni er efst í huga þakklæti til þeirra sem tóku á móti hópnum og það er ljóst að ferðin spyrst vel út því ég hef hitt fólk sem hefur fengið fréttir af  þessari Norðfjarðarferð og dauðsér eftir að hafa ekki komið með“.

Árshátíð starfsmanna Síldarvinnslunnar verður í Búdapest

BúdapestDagana 17. og 18. október nk. munu starfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum halda í skemmti- og árshátíðarferð til Búdapest höfuðborgar Ungverjalands. Alls telur hópurinn rúmlega 360 manns.

Farið verður með flugi frá Egilsstöðum og þangað verður hópnum einnig skilað í lok ferðar. Hinn 17. október munu starfsmenn í Helguvík og áhafnir skipanna ásamt mökum halda til Ungverjalands og hinn 18. munu aðrir starfsmenn og makar þeirra fylgja í kjölfarið. Boðið verður upp á rútuferðir frá Neskaupstað og Seyðisfirði til Egilsstaða og sömu leið til baka að ferð lokinni. Nauðsynlegt er að farþegar séu komnir á flugvöllinn tveimur tímum fyrir brottför. Fyrri hópurinn mun halda heim á leið hinn 21. október en sá síðari degi seinna.

Árshátíð starfsmanna fyrirtækisins mun verða haldin laugardaginn 19. október og mun hún hefjast kl. 18. Árshátíðin mun fara fram á veitingastaðnum Larus sem er í um 5 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu sem gist verður á (Hotel Novotel City).

Fyrir utan árshátíðina munu starfsmennirnir nýta dvölina í Búdapest með ýmsum hætti. Meðal annars gefst þeim tækifæri til að fara í skipulagðar skoðunarferðir. Ein ferðin er borgarferð, þar sem helstu merkisstaðir borgarinnar verða skoðaðir. Önnur er kvöldsigling á Dóná og sú þriðja er ferð um Dónárdal.

Allar upplýsingar um árshátíðarferðina er unnt að fá með þvi að smella hér:  http://www.vita.is/borgarlif/stadur/item672972/Budapest


Undirflokkar