Þéttar lóðningar sem gefa mikið

lodna08

Loðna unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

                Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 2.550 tonn af loðnu. Allur aflinn er kældur og er verið að vinna hann í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason skipstjóri segir að vertíðin líti vel út. „Við vorum að veiða 68 mílur austnorðaustur af Norðfjarðarhorni og það verður að segjast að veiðiferðin gekk vel. Við fengum aflann í fimm holum og toguðum alltaf í fjóra tíma eða skemur. Í síðasta holinu fengum við 590 tonn og toguðum einungis í einn og hálfan tíma. Það er talsvert mikið að sjá af loðnu. Lóðningarnar eru þéttar og þær gefa vel. Sú breyting hefur orðið að nú fiskast jafnt að nóttu sem degi en fyrr á vertíðinni fékkst lítið yfir nóttina. Nú bíður maður spenntur eftir niðurstöðu mælinga en það hlýtur að verða bætt við kvótann. Það er samdóma álit manna á skipunum að það sé töluvert mikið af loðnu á ferðinni og hún sést víða. Skipin hafa verið að veiða á nokkrum blettum og það er langt á milli þeirra. Ég held og vona að þetta verði ágætis vertíð,“ segir Tómas.

                Slæmt veður er á loðnumiðunum núna og útlit fyrir leiðindaveður næsta sólarhringinn. Bjarni Ólafsson AK og Vilhelm Þorsteinsson EA eru á miðunum en það er lítið um að vera vegna veðurs. Börkur NK er í höfn að lokinni löndun og bíður þess að veðrið gangi niður. Polar Amaroq ætlaði að skipa frystri loðnu um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn í dag en vegna veðurs hefur skipið ekki komist inn í höfnina.

Fínasta loðnuveiði

Um borð í Beiti NK á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonUm borð í Beiti NK á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÞað hefur verið fínasta loðnuveiði síðustu daga. Beitir NK landaði tæplega 2.000 tonnum í Neskaupstað í gær og í dag er Bjarni Ólafsson AK að landa rúmlega 1.000 tonnum til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.
 
Börkur NK er á landleið með rúmlega 2.100 tonn og hafði heimasíðan samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra. „Það hefur verið fínasta veiði og töluvert að sjá. Loðnan virðist vera á stóru svæði og skipin eru víða að fá góðan afla. Það eru kannski 20 mílur á milli skipa og þau eru öll að gera það tiltölulega gott. Við fengum þennan afla í 5 holum og erum yfirleitt að draga í 4-5 tíma. Við fengum til dæmis 1.600 tonn á 16 tímum og það er fjarri því að vera slæmt. Í síðasta holinu drógum við í 6 tíma og fengum 660 tonn. Það er í reynd mokveiði. Nú bíða menn spenntir eftir niðurstöðu rannsóknaskipanna en tvö skip frá Hafró og grænlenska skipið Polar Amaroq hafa verið við mælingar að undanförnu. Ég er bjartsýnn á að bætt verði verulega við kvótann. Það er svo víða loðnu að finna og auk þess er þetta fínasta loðna sem veiðist,“ sagði Hjörvar.
 
Einungis eitt norskt loðnuskip, Endre Dyrøy, er komið á miðin en heyrst hefur að fleiri séu væntanleg á næstunni.

Bölvuð bræla í janúar þar til núna

Gullver NS að landa á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS að landa á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í morgun með 95 tonn. Aflinn er mest þorskur. Heimasíðan hafði samband við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Þessi túr gekk vel. Við vorum að veiðum í þrjá sólarhringa og aflinn var þokkalegur. Þetta var svona nudd. Það var alger blíða á miðunum og það var skemmtileg tilbreyting. Það er búin að vera bölvuð bræla allan janúar þar til í þessum túr. Aflinn framan af mánuðinum var takmarkaður en hafa ber í huga að veðrið truflaði veiðar, það virtist ekki vera mikill fiskur á miðunum hér eystra og við vorum jafnvel einskipa á slóðinni. Nú hefur veður skánað, allavega í bili, og við verðum varir við meira af fiski. Þá hefur skipum fjölgað mjög á Austfjarðamiðum vegna veðurfars á öðrum miðum við landið. Hingað eru komnir frystitogarar og eins eru Vestmannaeyjaskipin komin hingað austur. Með tilkomu þeirra fæst betri vitneskja um stöðuna á miðunum. Núverandi blíða gefur fyrirheit um að veðrið geti farið að lagast og þá verður þetta fínt,“ sagði Þórhallur.
 
Fyrir þessa veiðiferð landaði Gullver á Seyðisfirði sl. mánudag. Þá lönduðu Vestmannaeyjaskipin Bergey og Vestmannaey á Seyðisfirði sl. miðvikudag og þegar þetta er ritað er Bergey að landa á Eskifirði og Vestmannaey á Seyðisfirði.
 
Frystitogarinn Blængur NK millilandaði í Hafnarfirði sl. þriðjudag. Aflinn var 230 tonn upp úr sjó.

Halldór Hinriksson jarðsunginn

Halldór HinrikssonHalldór HinrikssonÍ dag verður Halldór Hinriksson jarðsunginn frá Norðfjarðarkirkju en hann lést 10. janúar sl. Halldór starfaði í áratugi hjá Síldarvinnslunni. Um 1960 hóf hann að gegna starfi verkstjóra í síldarverksmiðjunni en hóf síðan störf fyrir útgerð fyrirtækisins um 1970. Störfin fyrir útgerðina voru fjölbreytt og sinnti Halldór þeim af kostgæfni. Halldór hætti störfum vegna aldurs árið 1999 en þá var hann 72 ára. Halldór var alla tíð mikill Síldarvinnslumaður, bar hag fyrirtækisins fyrir brjósti og gladdist innilega við hvert framfaraskref sem það tók.
 
Síldarvinnslan vottar öllum aðstandendum Halldórs innilega samúð vegna fráfalls hans.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti tæplega 197 þúsund tonnum árið 2017

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Helguvík. Ljósm. Sigurður K. KolbeinssonFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Helguvík.
Ljósm. Sigurður K. Kolbeinsson
Árið 2017 var þokkalegt hjá fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar hvað magn áhrærir en verð á afurðum þeirra var hins vegar lágt. Samtals tóku verksmiðjurnar þrjár (í Neskaupstað, á Seyðisfirði og í Helguvík) á móti 196.697 tonnum af hráefni á árinu. Til samanburðar má geta þess að á árinu 2016 tóku þær á móti 131.460 tonnum, 259.394 tonnum árið 2015, 161.168 tonnum árið 2014 og 206.074 tonnum árið 2013. Það eru ekki síst loðnuvertíðirnar sem ráða því hve hráefni verksmiðjanna er mikið á ári hverju. Sem dæmi má nefna að loðnuvertíðir áranna 2016 og 2014 voru lélegar og þá kom lítið í hlut verksmiðjanna.
 
Hér verða birtar upplýsingar um móttekið hráefni hverrar verksmiðju á árinu 2017 og einnig upplýsingar um framleiðslu þeirra á mjöli og lýsi á árinu:
 
Staður Móttekið magn hráefnis Framleitt mjöl  Framleitt lýsi
 Neskaupstaður 118.523  24.684 7.944 
 Seyðisfjörður 59.420  12.235  1.607 
 Helguvík 18.754  3.325 1.457 
Til samanburðar má geta þess að á árinu 2016 tók verksmiðjan í Neskaupstað á móti 91.043 tonnum af hráefni, verksmiðjan á Seyðisfirði 28.501 tonni og verksmiðjan í Helguvík 11.916 tonnum.

Loðna á allstóru svæði – Norðfjarðarhöfn of lítil

Börkur NK á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með um 1.000 tonn af loðnu sem fara til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Vinnsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA landaði sl. sunnudag og er það önnur veiðiferð skipsins á vertíðinni.
 
Börkur NK er á loðnumiðunum og ræddi heimasíðan við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun. „Við erum komnir með um 900 tonn. Þetta er mjatl. Það er lítið að fá yfir nóttina en á daginn hafa skip verið að fá ágætis hol. Við fengum 470 tonn í gær eftir að hafa togað í um sjö tíma. Það var leitað í fyrrinótt og fram að hádegi í gær að aflokinni þriggja daga brælu. Skipin hafa verið að fá ágætis hol á daginn og það er loðna á allstóru svæði en hún hefur verið töluvert dreifð. Nú er hins vegar gott lóð hjá okkur og það er gott veðurútlit næstu daga. Við erum núna um 60 mílur norðaustur úr Langanesi,“ sagði Hjörvar.
 
Ráðgert var að grænlenska vinnsluskipið Polar Amaroq kæmi til Neskaupstaðar í dag og skipaði frosinni loðnu beint um borð í flutningaskip. Í ljós kom að ekkert pláss var fyrir skipið í Norðfjarðarhöfn og því var gripið til þess ráðs að láta umskipunina fara fram á Eskifirði. Staðreyndin er sú að á annatímum er Norðfjarðarhöfn of lítil þrátt fyrir að hún hafi verið stækkuð mikið á undanförnum árum. Umsvifin í höfninni á loðnuvertíð og einnig á makríl- og síldarvertíð eru oft þannig að þar skortir legurými. 
 
Það er oft þröng á þingi í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonÞað er oft þröng á þingi í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonGert mun vera ráð fyrir að tvö skip Hafrannsóknastofnunar haldi til loðnuleitar í dag. Þá er einnig ráðgert að Polar Amaroq haldi til rannsókna að lokinni löndun og jafnvel einnig Bjarni Ólafsson AK.
 
 
 
 
 
 
 
 

Áreitni og einelti verða ekki látin viðgangast

Sigurður Ólafsson. Ljósm. Hákon ErnusonSigurður Ólafsson. Ljósm. Hákon ErnusonÁ fundi Síldarvinnslunnar með stjórnendum og trúnaðarmönnum innan fyrirtækisins sem haldinn var 29. desember sl. var meðal annars fjallað um áreitni og einelti á vinnustöðum. Sigurður Ólafsson verkefnisstjóri fór yfir stefnu fyrirtækisins í þeim málum og vakti athygli á að fastar yrði tekið á þeim hér eftir en hingað til. Heimasíðan spurði hann út í þær reglur sem gilda eiga í framtíðinni á þessu sviði. „Með reglugerð nr. 1009 frá árinu 2015 voru þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja varðandi þessi mál bæði skýrðar og hertar verulega. Svo kemur þessi stórmagnaða #metoo umræða sem er afar þörf. Það er ljóst mál að kynferðisleg áreitni er miklu stærra og alvarlegra vandamál en marga hefur grunað. Þarna er verið að galopna umræðuna um þetta og það er jákvætt. Það er alveg skýrt að við horfum fram á breytta tíma í öllu sem snýr að samskiptum á vinnustað. Allir stjórnendur, þ.e. allir sem hafa eitthvað yfir öðru fólki að segja á vinnustað, þurfa að skilja þennan nýja veruleika og aðlaga vinnubrögð sín að honum. Þeir sem ekki gera það munu fyrr eða síðar lenda í alvarlegum vandræðum,“ sagði Sigurður.
 
Sigurður var spurður að því hvort frekar yrði fjallað um þessi mál innan fyrirtækisins á næstunni. „Já, ég ætla á þessu nýbyrjaða ári að hitta alla lykilstjórnendur og fara yfir stöðuna á hverjum vinnustað og skoða hvernig best er að tryggja að áðurnefndri reglugerð verði fylgt. Við ætlum og eigum að byggja upp fagleg samskipti á öllum okkar vinnustöðum og við munum veita stjórnendum bæði aðhald og stuðning. Það verður að tryggja að allir séu á sömu blaðsíðu og viti hvernig á að fyrirbyggja og síðan meðhöndla þessi mikilvægu og viðkvæmu mál ef þau koma upp. Einnig er ætlunin að fræða almenna starfsmenn um þessi málefni þannig að allir á vinnustöðunum séu meðvitaðir og upplýstir. Samhliða öllu þessu þurfum við svo að gera áætlanir um það hvernig má efla jafnrétti og einn mikilvægur þáttur í því verður að fara í gegnum svonefnt jafnlaunavottunarferli. Það eru því spennandi verkefni framundan og þau miða að því að bæta enn frekar upplifun fólks af því að vinna hjá Síldarvinnslunni og það mun hafa jákvæð áhrif á alla starfsemi,“ sagði Sigurður að lokum.

Hvaða síld er Íslandssíld?

Íslandssíld er stærsta síldin í norsk-íslenska síldarstofninumÍslandssíld er stærsta síldin í
norsk-íslenska síldarstofninum
Á síðustu árum hefur borið á því að fjölmiðlar og ýmsir starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja tali og skrifi um Íslandssíld þegar átt er við íslenska sumargotssíld. Þetta er ekki í neinu samræmi við hina hefðbundnu notkun hugtaksins því áður var stærsta og verðmætasta síldin úr norsk-íslenska síldarstofninum nefnd Íslandssíld.
 Heimasíðan hafði samband við Jakob Jakobsson, fyrrverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar og einn helsta síldarsérfræðing þjóðarinnar, og spurði hann þeirrar einföldu spurningar hvaða síld það væri sem nefnd væri Íslandssíld. Jakob svaraði spurningunni með eftirfarandi hætti: „Íslandssíld er stærsta og besta síldin í norsk-íslenska síldarstofninum. Það var þannig að elsti hluti síldarstofnsins leitaði lengst í vestur í ætisleit og þessi síld veiddist við Ísland. Þetta var síldin sem hentaði best til söltunar og var í reynd verðmætasta síldin í veröldinni. Þessi síld var nefnd Íslandssíld og hún var kynnt og seld á mörkuðum erlendis sem Íslandssíld. Meira að segja Norðmenn seldu þessa síld sem Íslandssíld. Ef síld úr norsk-íslenska síldarstofninum náði ákveðinni stærð og gæðum þá stóð hún undir nafni sem Íslandssíld þannig að þetta heiti á síldinni var ákveðið gæðamerki. Íslensk sumargotssíld var aldrei nefnd Íslandssíld fyrr en nú upp á síðkastið og að mínu mati er rangt að gera það. Hér áður var íslenska sumargotssíldin oftast nefnd Suðurlandssíld vegna þess að hrygning fór fram við suðurströnd landsins. Mér þykir það miður ef Íslendingar geta ekki haldið í rótgrónar hefðir hvað þetta varðar auk þess sem breytingar á notkun hugtaka af þessu tagi geta valdið ruglingi og misskilningi,“ sagði Jakob.
 
akob Jakobsson fiskifræðingur og fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Ljósm. Kristinn IngvarssonJakob Jakobsson fiskifræðingur
og fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Ljósm. Kristinn Ingvarsson
Þegar heimildir eru kannaðar staðfesta þær með eindregnum hætti orð Jakobs Jakobssonar hér að framan. Á fyrri hluta 20. aldarinnar var ávallt talað um Íslandssíld þegar fjallað var um stóru demantssíldina sem veiddist norður af landinu og hentaði best til söltunar. Þá upplýsti tímarið Ægir í frétt árið 1937 að Norðmenn selji síld sem þeir veiða hér við land undir nafninu Íslandssíld og Íslands – Matjes. Sama er að segja um þá umfjöllun sem átti sér stað þegar norsk-íslensk síld tók að veiðast við landið á ný eftir langt hlé árið 1994. Þá var fjallað um að Íslandssíldin væri loksins komin á Íslandsmið á ný, þ.e. stærsta síldin í norsk- íslenska síldarstofninum.
 
Hér með skal hvatt til þess að allir hlutaðeigendi hætti að nefna íslenska sumargotssíld Íslandssíld en nefni hana þess í stað einfaldlega íslenska sumargotssíld eða Suðurlandssíld. 

„Það á eftir að koma heilmikil loðna“

Beitir NK að loðnuveiðum norðaustur af Langanesi. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að loðnuveiðum norðaustur af Langanesi.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með rúmlega 2.200 tonn af loðnu. Hluti af aflanum fer til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og hófst vinnsla strax. Grænlenska skipið Polar Amaroq kom einnig til Neskaupstaðar í morgun með 1.650 tonn, þar af eru 650 tonn fryst.
 
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að ekki hafi verið mikið að sjá af loðnu. „Það var ekki stór bletturinn sem skipin voru að toga á,“ sagði hann. Geir Zoëga, skipstjóri á Polar Amaroq, tók undir með Sturlu og sagði að enn væri ekki mikið að sjá. „Mér líst hins vegar ekki illa á vertíðina. Það á eftir að koma heilmikil loðna. Við vorum í vikutúr en vorum einungis tvo daga á veiðum. Þrír daganna fóru í loðnuleit í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Við munum fara í frekari leit eftir löndun og það mun koma maður um borð til okkar frá Hafró áður en við leggjum úr höfn,“ sagði Geir.
 
Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdanar Hálfdanarsonar, skipstjóra á Berki NK til að fá fréttir af miðunum. „Við erum komnir með 1.700 tonn. Það var lítið að fá í gær og ekkert í nótt. Við leituðum í alla nótt og köstuðum ekki fyrr en nú rétt fyrir hádegi og nú er töluvert að sjá. Það eru allir bátarnir hérna, einir 6 talsins, búnir að kasta. Við erum núna norður af Langanesi og komnir að trolllínunni. Við megum ekki fara vestar til að veiða með trollinu,“ sagði Hálfdan.

Fyrstu loðnunni landað í Neskaupstað

Vilhelm Þorsteinsson EA. Ljósm. Hákon ErnusonVilhelm Þorsteinsson EA. Ljósm. Hákon ErnusonVilhelm Þorsteinsson EA kom með fyrstu loðnuna á vertíðinni til Neskaupstaðar í morgun. Aflinn er 540 tonn af frosinni loðnu og um 450 tonn sem fara til mjöl- og lýsisframleiðslu. Birkir Hreinsson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í trollhólfinu norðaustur af Langanesi. „Þetta er stór og falleg loðna en það virðist ekki vera mjög mikið af henni þó skipin hafi verið að reka í ágætis hol. Við munum landa í dag og halda til veiða á ný í kvöld. Það er bjartsýni ríkjandi varðandi vertíðina, lífið býður ekki upp á annað,“ sagði Birkir.

 

Halldór Þorsteinsson jarðsunginn

Halldór ÞorsteinssonHalldór ÞorsteinssonÍ dag verður Halldór Þorsteinsson jarðsunginn frá Norðfjarðarkirkju en hann lést 1. janúar sl. Halldór starfaði hjá Síldarvinnslunni í fjölda ára, bæði sem sjómaður og vélvirki. Hann sat í stjórn fyrirtækisins á árunum 1990-2000 og var auk þess varamaður í stjórninni á árunum 1988-1990 og 2000-2003. Halldórs er minnst fyrir góð störf í þágu Síldarvinnslunnar.
 
Síldarvinnslan vottar öllum aðstandendum Halldórs innilega samúð vegna fráfalls hans.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Loðnuveiðar hafnar

Lodna 2014Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir héldu til loðnuveiða frá Neskaupstað á laugardag. Heimasíðan hafði samband um kl 10.00 í morgun og fékk fréttir. Sigurður V. Jóhannesson stýrimaður á Beiti sagði að fyrsta holið hefði komið mjög á óvart. „Þetta byrjaði ansi vel. Við toguðum í sex tíma í gær og fengum 650 tonn. Það er býsna gott. Síðan toguðum við í eina tíu tíma í nótt og fengum 150 tonn,“ sagði Sigurður.
 
Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki sagði að þeir væru einnig búnir að taka tvö hol. „Við fengum rúm 300 tonn í því fyrra og um 200 í því síðara. Togað var fyrst í fimm tíma og síðan í átta. Það var ekki mikið að sjá í myrkrinu í nótt en núna er eitthvað að sjá. Vissulega er þetta engin mokveiði hjá okkur en þetta er byrjað og það er gott,“ sagði Hálfdan.
 
Bæði skipin voru að veiðum um 55 mílur norðaustur úr Langanesi og þar voru sjö skip að veiðum á svæðinu. Loðnan sem fæst er hin fínasta en í henni er einhver áta. Í nótt var leiðindaveður á miðunum en það skánaði mikið með morgninum.

Brunaæfing um borð í Blængi NK

Blængsmenn fengu þjálfun í meðferð slökkvitækja. Ljósm. Guðjón B. MagnússonBlængsmenn fengu þjálfun í meðferð slökkvitækja.
Ljósm. Guðjón B. Magnússon
Sl. miðvikudag fór fram brunaæfing um borð í frystitogaranum Blængi NK sem lá í Norðfjarðarhöfn. Æfingunni var stýrt af Slökkviliði Fjarðabyggðar og gekk vel í alla staði. Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri Síldarvinnslunnar, segir að æfing eins og þessi sé afar mikilvæg. Í henni séu æfð viðbrögð við eldi sem gæti komið upp um borð. Í því sambandi er lögð áhersla á að áhöfnin kynni sér staðsetningu á öllum öryggisbúnaði og æfi notkun á honum. Þá eru menn einnig þjálfaðir í reykköfun. Telur Guðjón að æfing eins og þessi auki mjög öryggi áhafnarinnar og segir hann að stefnt sé að því að hafa sambærilegar æfingar með áhöfnum allra skipa Síldarvinnslunnar. 
 
Guðmundur Sigfússon slökkviliðsstjóri segir að slökkviliðið sé afar ánægt með að efnt sé til brunaæfinga með áhöfnum skipa. „Við leggjum áherslu á forvarnir og hluti af því er að koma að æfingu eins og þessari. Slökkviliðið hóf samstarf við Síldarvinnsluna um brunaæfingar um borð í skipum árið 2014 en við teljum þörf á að efna til svona æfinga árlega. Sjómennirnir fara á fimm ára fresti í Slysavarnaskóla sjómanna og læra þar ákveðin grundvallaratriði en það er ekki síður mikilvægt að þeir hljóti þjálfun um borð í því skipi sem þeir eru á. Þeir þurfa að vita allt um staðsetningu öryggistækja um borð í eigin skipi, flóttaleiðir og fleiri öryggisatriði. Þá er ávallt farið yfir öryggisbúnaðinn um borð þegar efnt er til brunanámskeiða eins og þessa og þá er ekki óalgengt að í ljós komi eitthvað sem betur má fara eða þörf er á að lagfæra. Almennt má segja að námskeið af þessu tagi auki mjög öryggi áhafnar enda eru brunar um borð í skipum afar erfiðir viðfangs og hættulegir mönnum. Þekking á öryggisbúnaði skips gerir það að verkum að hver einstaklingur er líklegri til að gefa honum gaum reglulega og bregðast við ef eitthvað er athugavert við ástand hans,“ sagði Guðmundur slökkviliðsstjóri.
 
Frá brunaæfingunni um borð í Blængi NK. Ljósmynd: Guðjón B. MagnússonFrá brunaæfingunni um borð í Blængi NK.
Ljósmynd: Guðjón B. Magnússon
 

150 milljónir til heilbrigðismála á sex árum

Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartæki sem Síldarvinnslan gaf sjúkrahúsinu 2016. Ljósm. Hákon ErnusonJón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartæki
sem Síldarvinnslan gaf sjúkrahúsinu 2016.
Ljósm. Hákon Ernuson
Í tilefni af 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar 11. desember sl. var tilkynnt um ýmsa samfélagsstyrki fyrirtækisins. Á meðal þeirra var sjö milljón króna styrkur til Umdæmissjúkrahúss Austurlands (Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað) til kaupa á nýju sérhæfðu hjartaómskoðunartæki. Afhending þessa styrks leiddi til þess að vert þótti að athuga hve Síldarvinnslan ásamt Samvinnufélagi útgerðarmanna og Olíusamlagi útvegsmanna hefði styrkt sjúkrahúsið og heilbrigðismálefni mikið á sl. sex árum. Til skýringar skal þess getið að Samvinnufélagið og Olíusamlagið eiga hluti í Síldarvinnslunni og nýta drjúgan hluta af arði hlutabréfanna til að styrkja samfélagsleg málefni.
 
Á sl. sex árum hafa umrædd fyrirtæki annars vegar styrkt sjúkrahúsið til tækjakaupa og hins vegar lagt fram fjármuni til endurbóta á Norðfjarðarflugvelli en flugvöllurinn skiptir afar miklu máli fyrir sjúkraflug og er fyrst og fremst nýttur til slíks flugs. Ekkert fer á milli mála að umræddir styrkir hafa stuðlað að stórauknu öryggi Austfirðinga og gert sjúkrahúsið í alla staði hæfara til að sinna hinu mikilvæga hlutverki sínu. Hvað varðar framlög til tækjakaupa hafa fyrirtækin haft náið samráð við stjórnendur sjúkrahússins og Hollvinasamtök þess.
 
Framlög Síldarvinnslunnar og Samvinnufélagsins til endurbóta á flugvellinum voru samtals 50 milljónir króna en ríkið og sveitarfélagið Fjarðabyggð lögðu einnig af mörkum fjármuni til framkvæmdarinnar. Til viðbótar stóð Samvinnufélag útgerðarmanna, sveitarfélagið og verktakafyrirtækið Héraðsverk straum af kostnaði við gerð flughlaðsins. Framkvæmdum við völlinn lauk sl. sumar og var hann endurvígður í ágústmánuði. Til viðbótar kostaði Samvinnufélagið lýsingu á völlinn á árinu 2012. Fyrir utan framlag til endurbóta á flugvellinum hefur Síldarvinnslan styrkt sjúkrahúsið um 45 milljónir króna til tækjakaupa á sl. sex árum.
 
Árlega hefur Samvinnufélagið styrkt sjúkrahúsið til kaupa á mikilvægum tækjum og búnaði og eins hefur Olíusamlagið styrkt það til endurnýjunar á öllum sjúkrarúmum. Samtals hefur Samvinnufélagið veitt styrki til kaupa á tækjum að upphæð 45 milljónir króna á sl. sex árum og Olíusamlagið hefur veitt slíka styrki að upphæð 12,3 milljónir.
 
Þegar allt er saman tekið kemur í ljós að þessi þrjú fyrirtæki hafa veitt styrki til heilbrigðismála að upphæð rúmlega 150 milljónir króna á umræddu sex ára tímabili. Heimasíðan sneri sér til Guðjóns Haukssonar forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands og spurði hvaða máli þessir styrkir skiptu fyrir stofnunina. Guðjón sagði að sá stuðningur sem Heilbrigðisstofnun Austurlands hefði notið frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum væri algjörlega ómetanlegur og þar hefðu ofangreind fyrirtæki verið í fararbroddi. „Það er staðreynd að ef þessara styrkja nyti ekki við væri heilbrigðisþjónusta á Austurlandi á öðrum og verri stað en hún er í dag. Það er líka mikilvægt fyrir okkur sem vinnum innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands að finna hversu samfélagið stendur þétt við bakið á okkur, það hvetur okkur áfram í allri okkar vinnu. Það er auðvitað alltaf von okkar að þær fjárveitingar sem við fáum til reksturs heilbrigðisþjónustunnar dugi til tækjakaupa en hingað til hefur sú einfaldlega ekki verið raunin. Í því ljósi hefur sá stuðningur sem við höfum notið gert okkur kleift að sinna þjónustu sem við að öðrum kosti hefðum ekki getað sinnt,“ sagði Guðjón Hauksson.
 

2017 var þungt ár í bolfiskvinnslunni

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju framan við stöðina. Ljósm. Ómar BogasonFiskvinnslustöðin á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju
framan við stöðina. Ljósm. Ómar Bogason
Á árinu 2017 tók fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði á móti 2.625 tonnum af bolfiski til vinnslu, þar af var þorskur um 1.980 tonn og ufsi 491 tonn. Er þetta mun minna hráefni en unnið var á árinu 2016 en þá var tekið á móti um 3.500 tonnum. Ein helsta ástæða minnkandi vinnslu á milli áranna er sjómannaverkfallið í upphafi sl. árs. Ómar Bogason framleiðslustjóri fiskvinnslustöðvarinnar segir að árið 2017 hafi verið þungt í bolfiskvinnslunni. „Verkfallið í upphafi árs hafði sín áhrif og leiddi til þess að ekkert var unnið fyrstu tvo mánuði ársins. Hin sterka króna hafði neikvæð áhrif á afkomuna og eins lækkaði afurðaverð á okkar helstu mörkuðum, einkum varð verðlækkunin mikil á ufsaafurðum. Þá hefur launakostnaður aukist til muna. Á árinu lauk framkvæmdum við að klæða fiskvinnslustöðina að utan og nú er húsið orðið til fyrirmyndar sem okkur finnst afar jákvætt,“ sagði Ómar.
 
Aflinn sem kemur til vinnslu í fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði kemur frá togaranum Gullver NS og að hluta til frá Vestmannaeyjatogurunum Vestmannaey og Bergey. Gullver fiskaði 4.350 tonn á árinu 2017 og er það mesti afli sem skipið hefur borið að landi á einu ári. Afli Gullvers var 300 tonnum meiri en á árinu 2016 en aflaverðmætið hins vegur 15 milljón krónum minna.

Skipin til veiða á nýju ári

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS er fyrsta skipið í Síldarvinnsluflotanum sem heldur til veiða á árinu 2018. Gullver lét úr höfn á Seyðisfirði í dag kl 14.00. Frystitogarinn Blængur NK mun halda til veiða klukkan 10.00 í fyrramálið en Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey og Bergey munu leysa festar seinni partinn á fimmtudag.
 
Ekki liggur fyrir hvenær uppsjávarskipin halda til veiða. Gert var ráð fyrir að þau héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í byrjun ársins en þar sem ekki hefur tekist að semja um gagnkvæmar veiðar í lögsögum Íslands og Færeyja ríkir óvissa um það. Þá ber að geta þess að loðnuvertíð er á næsta leiti og eru menn þegar farnir að hyggja að henni. 

Athyglisverður fyrirlestur

Metoo

Fyrilestur Magnúsar Orra vakti athygli. Ljósm: Hákon Ernuson

Síldarvinnslan bauð upp á opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo í Egilsbúð í Neskaupstað í gær. Fyrirlesari var Magnús Orri Schram stjórnarmaður í UN Women á Íslandi.

                Fyrirlesturinn var athyglisverður og fjallaði Magnús Orri um ábyrgð karlmanna í breyttum heimi ekki síst í ljósi nýrra viðhorfa sem tengjast hinni svonefndu #metoo byltingu. Í máli hans kom fram hvatning til karlmanna um að endurskoða viðhorf sín og hegðun í garð kvenna. Það væri svo sannarlega þörf á að hlusta á hinar fjölmörgu raddir kvenna sem upplýstu um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni. Á fyrirlestrinum lásu þær Ingibjörg Þórðardóttir, Birta Sæmundsdóttir og Sólveig Helga Björgúlfsdóttir frásagnir kvenna sem orðið hafa fyrir áreitni. Um 70 manns sóttu fyrirlesturinn og höfðu margir orð á því að þarna væri um þarft og gott framtak að ræða.

                Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar kynnti fyrirlesarann í upphafi og hafði orð á því að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan þyrfti að taka fullt mark á þeirri umræðu sem byrjað hefði fyrir alvöru með #metoo byltingunni. Sagði hann að nauðsynlegt væri að hvert einasta fyrirtæki og hver einasta stofnun hugsaði sinn gang og gripi til aðgerða til að hindra að kynbundin mismunun og áreitni ætti sér stað. Þá tilkynnti hann að framvegis myndu hin hefðbundnu dagatöl með fáklæddum eða berum konum ekki fara upp á vegg á vinnustöðum og í skipum Síldarvinnslunnar. Þegar sendingar af slíkum dagatölum bærust fyrirtækinu í upphafi nýs árs færu þau öll með tölu beint í ruslið.

 

Vel heppnað jólaball

26178639 10213106762650919 888268967 o

Stúlkur úr 9. bekk Nesskóla leiddu söng og Jón Hilmar Kárason lék undir. Ljósm: Ragnhildur Tryggvadóttir

Hin árlega jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar var haldin í gær og var fjölsótt og vel heppnuð. Skemmtunin var haldin í Egilsbúð og var í umsjá 9. bekkjar Nesskóla eins og undanfarin ár. Stúlkur úr 9. bekk leiddu sönginn við undirleik Jóns Hilmars Kárasonar og allir tóku hressilega undir um leið og gengið var í kringum jólatréð. Jólasveinar komu í heimsókn með hollt og gott í poka og vöktu mikla athygli. Einnig var gestum boðið upp á veitingar.

                Jólaball Síldarvinnslunnar er fastur liður í jólahaldinu fyrir marga og skemmtu börnin sér vel í ár eins og ávallt áður.  

Opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo

Magnus Orri ScramMagnus Orri SchramSíldarvinnslan mun bjóða upp á opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo í Egilsbúð föstudaginn 29. desember kl. 15.00. Fyrirlesari verður Magnús Orri Schram stjórnarmaður UN Women á Íslandi.
 
Í fyrirlestrinum verður fjallað um eðli #metoo byltingarinnar og sjónum beint sérstaklega að Íslandi í þeim efnum. Áhersla verður lögð á ábyrgð karlmanna í breyttum heimi.
 
Allir eru hjartanlega velkomnir á fyrirlesturinn.
 

Jólakveðja

Síldarvinnslan hf. óskar starfsfólki sínu, viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Capture

Undirflokkar