Góð kolmunnaveiði vestur af Írlandi

Beitir NK að kolmunnaveiðum vestur af Írlandi í gærmorgun. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að kolmunnaveiðum vestur af Írlandi í gærmorgun. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonKolmunnaskipin eru að veiða vel vestur af Írlandi en þau héldu til veiða um síðustu helgi og það tók þau um þrjá sólarhringa að sigla um 800 mílur á miðin. Bjarni Ólafsson AK fyllti í gærmorgun og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar á sunnudag með 1700 tonn. Margrét EA lagði af stað í nótt með 2000 tonn og Börkur NK í morgun með 2300 tonn. Þá var Beitir NK kominn með góðan afla þegar síðast fréttist.
 
Heimasíðan ræddi stuttlega við Þorkel Pétursson stýrimann á Bjarna Ólafssyni. Sagði hann að aflinn hefði fengist í fimm holum. „Í þessum fimm holum var aflinn á bilinu frá 240 og upp í 735 tonn. Í stærsta holinu var einungis dregið í rúmlega 20 mínútur. Við misstum eitt hol vegna þess að pokinn sprakk, það var allt of mikið í honum. Þarna eru alveg feiknalegar lóðningar, þetta er bara eins og veggur. Menn þurfa að gæta sín vel á að fá ekki of mikið í trollið. Það var blíða á miðunum allan tímann sem við vorum að veiðum en nú er spáð verra veðri og við munum líklega fá einhver leiðindi á síðari hluta leiðarinnar. Þegar við lukum veiðum voru 820 mílur til Neskaupstaðar, þannig að siglingin er engin smádorra,“ segir Þorkell.

Öskudagsheimsóknum frestað vegna veðurs

Öskudagsheimsóknum frestað vegna veðursÖskudagurinn var í gær en þá var leiðindabylur í Neskaupstað. Vegna veðursins var öskudagsheimsóknum syngjandi barnahópa frestað þar til í dag. Í dag hefur síðan  hver hópurinn af öðrum heimsótt skrifstofur Síldarvinnslunnar og sungið af krafti vel æfða söngva. Kennarar Nesskóla hafa fylgt hópunum og skín gleði úr hverju andliti. Fyrir sönginn hefur unga fólkið þegið harðfisk, enda er það vel viðeigandi að sjávarútvegsfyrirtæki gefi sælgæti úr hafinu.
 
Það er bæði hressandi og upplífgandi að fá öskudagsheimsóknirnar og fylgja hér nokkrar myndir af kátum og syngjandi krakkahópum sem Ragnhildur Tryggvadóttir tók.
 
Öskudagsheimsóknum frestað vegna veðurs    Öskudagsheimsóknum frestað vegna veðurs

Vertíðarbragur; Vestmannaey og Bergey með fullfermi

Vestmannaey VE kemur til hafnar. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE kemur til hafnar.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Bæði skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, komu til Vestmannaeyja í gær með fullfermi. Skipstjórarnir segja að nú sé vertíðin hafin og mikið sé af fallegum vertíðarfiski við Eyjarnar. Heimasíðan ræddi við báða skipstjórana og sagði Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, að vel hefði fiskast af þorski og karfa í veiðiferðinni. „Við vorum að koma að norðan þar sem verið var að breyta millidekki skipsins. Við byrjuðum að veiða í Hvalbakshallinu en mestan afla fengum við út af Ingólfshöfða og í Skeiðarárdýpi. Túrinn gekk alveg ljómandi vel og millidekkið svínvirkar. Nú er byrjuð mokveiði hér við Eyjarnar og sannkölluð vertíðarstemmning hafin,“ sagði Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tók undir með Birgi Þór og sagði að það væri kominn vertíðarbragur á veiðarnar við Eyjar. „Það er að færast fjör í leikinn og þorskurinn er farinn að sýna sig hressilega. Í síðasta túr byrjuðum við að veiða í Skeiðarárdýpinu og fengum þar góða blöndu og töluvert af karfa en síðan færðum við okkur út af Vík og þar fékkst þorskur og ufsi. Þetta lítur allt saman býsna vel út,“ sagði Jón.
 
Nú er leiðinda austanátt og bræla við Eyjar og reiknuðu skipstjórarnir ekki með að fara út fyrr en á morgun. 

Loðnan er á leið upp í fjöruna í Lónsbugtinni

PA ad veidum TBPolar Amaroq á veiðum.

Bergmálsgögn frá loðnumælingum Barkar NK, Polar Amaroq og Hákonar EA sl. sunnudag sýna samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar 90 þúsund tonn af loðnu. Mælingin fór fram á svæðinu við Papey.

                Polar Amaroq hélt á ný til mælinga sl. mánudagskvöld og fylgist með loðnugöngunni í samráði við Hafrannsóknastofnun. Heimasíðan ræddi stuttlega við Sigurð Grétar Guðmundsson skipstjóra á Polar Amaroq í morgun og var fyrst spurt hvort hann teldi meira af loðnu á ferðinni en sést hafði sl. sunnudag. „Já, það er að bætast í þetta. Það var ágætt að sjá í gær, lóðin voru þétt en það var allt annað form á þessu en á sunnudaginn. Þarna er loðnan komin í heitari sjó og hún er heldur dreifðari og heldur sig dýpra en á sunnudag. Hún er líka á mun stærra svæði. Við byrjuðum núna að krussa gönguna í austurátt og síðan var farið yfir svæðið aftur. Loðnan er komin grynnra en var. Hún er á leiðinni upp í fjöruna á Lónsbugtinni. Við munum kanna hve langt vestur gangan nær og síðan munum við halda til Neskaupstaðar og senda gögnin á Hafrannsóknastofnun þar sem þau verða yfirfarin og metin. Þetta eru svo þung gögn að erfitt er að senda þau rafrænt. Síðan er spáin ekkert sérstök þannig að best er að fara að hafa sig í land fljótlega,“ segir Sigurður.

 

 

Haldið til kolmunnaveiða og loðnutorfur kannaðar

Beitir NK er fyrsta skipið sem lagðist að hafnarbakkanum við nýju netagerð Hampiðjunnar í Neskaupstað sl. föstudag. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK er fyrsta skipið sem lagðist að hafnarbakkanum við nýju netagerð Hampiðjunnar í Neskaupstað sl. föstudag.
Ljósm. Smári Geirsson
Sl. föstudag hélt Beitir NK til kolmunnaveiða á miðunum vestur af Írlandi. Áður en skipið hélt til veiða lagðist það að hafnarbakkanum við hina nýju netagerð Hampiðjunnar í Neskaupstað til þess að fá þar þjónustu netagerðarmannanna. Var þetta í fyrsta skipti sem skip lagðist að garðinum. Sl. laugardag héldu síðan Bjarni Ólafsson AK og Börkur NK áleiðis á kolmunnamiðin. Þegar Bjarni Ólafsson var kominn um 10 mílur austur af Papey kom hann í mikið hvalalíf og varð var við stóran loðnuflekk. Fór hann um svæðið og sáust þá allmargar loðnutorfur. Í kjölfar þessa var ákveðið í samráði við Hafrannsóknastofnun að Börkur, Polar Amaroq og Hákon EA myndu kanna svæðið en öll þessi skip eru með kvarðaða mæla til loðnuleitar. Skipin þrjú krussuðu hið umrædda svæði í samvinnu við fiskifræðinga og kom Polar Amaroq með gögnin sem safnað var til Neskaupstaðar í morgun og voru þau síðan send suður til Reykjavíkur með flugi  þar sem þau verða yfirfarin á Hafrannsóknastofnun. Þegar loðnuleitinni var lokið í gær hélt Börkur áfram ferð sinni áleiðis á kolmunnamiðin. 
 
Heimasíðan ræddi stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti áður en skipið hélt til kolmunnaveiða. Fyrst var spurt hve langt væri á miðin. „Það eru tæplega 800 mílur á þessi mið og það tekur okkur um þrjá sólarhringa að sigla þangað í góðu veðri. Þarna hefur fiskast ágætlega á þessum árstíma síðustu árin en veðrið er helsta áhyggjuefnið. Á þessum slóðum hefur ekki vantað fiskinn, það er klárt. Skip víða að eru að kolmunnaveiðum þarna, auk okkar Íslendinganna og skipa frá Írlandi eru þarna skip frá Noregi, Færeyjum, Rússlandi og Hollandi svo eitthvað sé nefnt. Nýjustu fréttir segja að töluvert af fiski sé að sjá á þessum slóðum en veðrið hefur verið að stríða mönnum mikið að undanförnu. Veiði hefur hins vegar verið góð á milli lægða,“ segir Tómas.

Fiskurinn enn ekki genginn á Selvogsbankann

Bergey VE kemur til hafnar með góðan afla. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE kemur til hafnar með góðan afla.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarinn Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum sl. miðvikudag. Aflinn var að mestu þorskur, ufsi og karfi. Ragnar Waage Pálmason var skipstjóri í veiðiferðinni og var það í fyrsta sinn sem hann stýrði hinu nýja skipi. Aflinn fékkst út af Vík í Mýrdal og á Selvogsbanka. Bergey hélt á ný til veiða aðfaranótt fimmtudags og heyrði heimasíðan  í Jóni Valgeirssyni skipstjóra í gær þar sem skipið var að toga á Selvogsbankanum. „Við erum á Selvogsbankanum að vakta stöðuna. Það er rólegt hér ennþá, þorskurinn er ekki kominn hér enn í ríkum mæli til hrygningar. Venjulega er þorskurinn mættur hingað í lok febrúar eða í byrjun mars þannig að þetta hlýtur að fara að koma. Þorskurinn er að ganga til dæmis að austan og hann gengur með fjörunum. Það hefur líka verið fín veiði í Háfadýpinu. Það er alls ekki hægt að kvarta undan fiskiríinu að undanförnu, það fékkst til dæmis stór og fallegur fiskur í síðasta túr. Nýja skipið reynist vel og það verður gaman þegar hin eiginlega vertíð byrjar af krafti,“ segir Jón.
 
Smáey VE landaði 45 tonnum í Vestmannaeyjum sl. þriðjudag og Vestmannaey VE hélt til veiða frá Akureyri í nótt, en þar var verið að lagfæra millidekk skipsins.

Þreyttir á veðurlaginu

Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 85 tonn, mestmegnis þorskur. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við vorum að veiðum á Gerpisflakinu og í Reyðarfjarðardýpi. Við sáum loðnupeðrur út um allt og fiskurinn var stútfullur af loðnu. Þarna var svo sannarlega líflegt. Við ætluðum að fara út í gær en því var frestað vegna leiðindabrælu og erum fyrst að fara út núna. Það er búin að vera ótrúlega leiðinleg tíð að undanförnu og það var kaldafýla allan síðasta túr.  Menn eru orðnir þreyttir á veðurlaginu, endalausum veltingi og látum. Það hefur oftast verið haugasjór að undanförnu. Vonandi fer þetta að lagast og okkur finnst vera kominn tími til,“ segir Þórhallur.

Enginn hlunnfarinn í verðlagningu á uppsjávarfiski hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað

Beitir sildarhol okt 2017 GL

Vegna umræðu um verðlagningu á uppsjávarfiski vil ég sýna fram á og undirstrika að Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur staðið við sinn hlut gagnvart öllum sínum starfsmönnum og samfélaginu í heild, eins og henni ber að gera. Enginn hefur verið hlunnfarinn í þeim samskiptum eins og látið hefur verið í veðri vaka. Síldarvinnslan leitast ætíð eftir því að selja afurðir á hæsta mögulega verði, skila afrakstrinum heim og afsetur engan hagnað í félögum á erlendri grundu, enda ekki tengd neinum félögum þar. Við höfum ekkert að fela í þessum efnum enda lagt metnað okkar í að hafa allt uppá borðum og er ég tilbúinn að ræða við hvern þann sem telur sig geta bent á hið gagnstæða.

Tilefni skrifa minna er að undanfarin misseri hafa grasserað gróusögur í samfélaginu um verðlagningu á uppsjávarfiski, sem fást ekki staðist þegar gögn eru skoðuð. Ýmsir málsmetandi menn hafa látið að því liggja að íslensk fyrirtæki stundi óheiðarleg viðskipti og séu hreinlega að svindla og stela af þjóðinni. Síldarvinnslan í Neskaupstað stundar ekki neitt slíkt og vísar því til föðurhúsanna.

Forsendur verðútreikninga liggja fyrir

 • Hráefnisverð á Íslandi er myndað samkvæmt samkomulagi milli fyrirtækja og áhafna. Það tekur mið af verðmæti afurðanna sem framleiddar eru hverju sinni.
 • Verðlagsstofa, sem er opinber stofnun, hefur fengið sölusamninga og forsendur verðútreikninga til yfirferðar frá Síldarvinnslunni án þess að hafa nokkurn tíma gert athugasemdir þar við, enda er farið eftir gildandi samkomulagi í uppgjöri við sjómenn. Hér ræður engin hentistefna eða undanskot.
 • Við hittum okkar áhafnir reglulega og förum yfir ástand markaða og útlit hverju sinni. Áhöfnin getur hvenær sem er fengið aðgang að upplýsingum hjá okkur, labbað inn og út úr vinnslunum og fylgst með framleiðslunni, trúnaðarmaður hefur aðgang að sölusamningum og framleiðslutölum.

 

Gagnsæ virðiskeðja hjá SVN

 • Síldarvinnslan selur frystar afurðir að stærstum hluta í gegnum sölufyrirtæki sem tekur umboðslaun, greiðir frakt og umsýslu ef einhver er og skilar verðinu sem eftir stendur.
 • Mjöl og lýsi selur Síldarvinnslan til erlendra kaupenda, á milli í þeim viðskiptum er erlendur umboðsaðili sem tekur ákveðna þóknun eins og venjan er í umboðssölu.
 • Lítill hluti af mjöli og lýsi er seldur innanlands til Fóðurverksmiðjunnar Laxár, verðlagningin tekur mið af markaðsverði hverju sinni.
 • Síldarvinnslan á ekki hlut eða tengist neinu af þeim erlendu félögum sem verslað er við. Við sum þeirra er viðskiptasamband sem staðið hefur í áratugi.
 • Síldarvinnslan á í miklum samskiptum við sína stærslu viðskiptavini erlendis.

 

Hráefnisverð samkvæmt samningum

 • Í gildi er samkomulag milli útgerða og sjómanna um með hvaða hætti staðið skuli að verðmyndun hráefnis.
 • Hjá Síldarvinnslunni er þetta alveg skýrt. Miðað er við, að lágmarki, að 33% af skilaverði til manneldisvinnslu fer til skips og 55% af skilaverði til mjöl- og lýsisvinnslu. Þetta eru þau hlutföll sem stuðst við í útreikningum á hráefnisverði.
 • Áskorunin í okkar kerfi er að við erum að áætla verð á hráefni og greiða fyrir til skipa jafnóðum, en afurðir seljast oft ekki fyrr en mörgum mánuðum seinna. Því getur þetta oft sveiflast í báðar áttir, bæði er markaðsverð sveiflukennt og eins þekkja nú flestir flöktið á íslensku krónunni.
 • Aðferðir til að tryggja rétt verð til áhafna eru skilgreindar í samningum og geta trúnaðarmenn þeirra farið yfir allar forsendur verðlagningar. Einnig fær Verðlagsstofa skiptaverðs afrit af sölusamningum send. Gagnsæið verður varla mikið meira og uppgjör miðast ávallt við gildandi samninga.

 

Útkoman jákvæð fyrir sjómenn

Hráefnisverð fiskimjöl 13 18

 • Ef við skoðum hvernig hráefnisverð hefur þróast í mjöl- og lýsisvinnslu á árunum 2013-2018 sést að hlutfallið sem fer til til áhafnar hefur verið í kringum 55% af söluverðmæti en fer niður í 51,9% og uppí 57,1%. Á þessu 6 ára tímabili fer þetta 3 sinnum yfir og 3 sinnum undir og meðaltalið er um 55%.

Hráefnisverð manneldi 13 18

 • Ef við skoðum manneldisvinnsluna hjá Síldarvinnslunni, það er sá hluti vinnslunnar á uppsjávarafurðum sem fer til manneldis, á árunum 2013-2018 sést að þar er hlutfallið af skilaverðinu sem fellur áhöfnum í skaut frá 34,4% uppí 43,3%. Meðalverð þessa tímabils er 39,1% en samkvæmt samningum skal það ekki vera lægra en 33%.

Mismunur á greiddu og samnings

 • Þegar við skoðum fyrrnefnt samkomulag og greitt verð samtals að teknu tilliti til manneldis- og fiskimjölsvinnslunnar sést að þrátt fyrir framangreindar sveiflur þá liggur verðið allstaðar yfir því sem kveðið er á um í samkomulaginu.

 

 

Ósanngjarn málflutningur sjómanna

Forsvarsmenn sjómanna Síldarvinnslunnar hafa farið fram með auglýsingar og dylgjað um það í fjölmiðlum að fyrirtækin geri hlutina eins og þeim sýnist. Slíku vísa ég til föðurhúsanna í tilfelli Síldarvinnslunnar. Málflutningur eins og þessi er engum til framdráttar og allra síst til þess fallinn að bæta samskipti útgerða og sjómanna. Rétt er að hafa í huga að sjómenn og útgerðir eiga nú í kjaraviðræðum og kann það að skýra að einhverju leyti framferði forystumanna sjómanna. Telji menn á sér brotið verða þeir að benda á hina brotlegu og tilkynna þá til viðeigandi aðila, eða setja fram trúverðug rök fyrir málflutningi sínum.

Ef sjómenn telja sig svikna tel ég rétt að gera grein fyrir hverju sú aðferðarfræði og það samkomulag, sem hér hefur verið lýst, skila uppsjávarsjómönnum Síldarvinnslunnar, en þeir eru launahæstu starfsmenn fyrirtækisins.

Engir sjómenn eru sviknir um greiðslur samkvæmt þessu kerfi sem samkomulag er um, enda skila verðmætin sér í greiðslum fyrir þeirra störf. Í töflunni fyrir neðan má sjá greiðslur til þeirra fyrir árin 2016-2019.   Hér kemur fram að laun á úthaldsdag 2019 voru 162 þúsund, á sama tíma voru laun á frystitogara fyrirtækisins um 82 þúsund á úthaldsdag og 81 þúsund á ísfisktogaranum.

Beitir NK

2016

2017

2018

2019

Verðmæti:

 1.799 millj. kr.

 1.398 millj. kr.

 1.716 millj. kr.

 1.535 millj. kr.

Hásetahlutur án orlofs:

   30,5 millj. kr.

   24,4 millj. kr.

   28,8 millj. kr.

   25,4 millj. kr.

Úthaldsdagar:

         221

         172

         230

         177

Hásetahlutur m/orlofi:

   34,3 millj. kr.

   27,5 millj. kr.

   32,4 millj. kr.

   28,6 millj. kr.

Hlutur á úthaldsdag:

      155.424 kr.

      160.041 kr.

      141.120 kr.

      161.587 kr.

Skipstjórahlutur m/orlofi

   80,0 millj. kr.

   62,2 millj. kr.

   76,3 millj. kr.

   68,3 millj. kr.

         
         
         

Börkur NK

2016

2017

2018

2019

Verðmæti:

 1.779 millj. kr.

 1.394 millj. kr.

 1.693 millj. kr.

 1.541 millj. kr.

Hásetahlutur án orlofs:

   30,0 millj. kr.

   24,5 millj. kr.

   28,4 millj. kr.

   25,5 millj. kr.

Úthaldsdagar:

         210

         191

         199

         171

Hásetahlutur m/orlofi:

   33,8 millj. kr.

   27,6 millj. kr.

   32,1 millj. kr.

   28,7 millj. kr.

Hlutur á úthaldsdag:

      161.075 kr.

      144.957 kr.

      160.990 kr.

      167.637 kr.

Skipstjórahlutur m/orlofi

   79,1 millj. kr.

   62,0 millj. kr.

   75,3 millj. kr.

   68,5 millj. kr.

Verð til erlendra skipa

 • Samdráttur hefur orðið mjög mikill á uppsjávarhráefni til fiskimjölsvinnslu síðastliðin ár og afkastageta því ónýtt og reksturinn óstöðugur. Við þessar aðstæður getur borgað sig að ná í viðbótarhráefni til að nýta afkastagetuna þrátt fyrir að hærra verð sé greítt.
 • Þetta tíðkast einnig í öðrum fisktegundum þar sem fiskverkendur ná oft í viðbótarhráefni á fiskmarkaði til að fullnýta afkastagetu. Þannig að það er ekkert öðruvísi í uppsjávarfiski, enda skapar þessi afli vinnu í landi.
 • Í samanburðafræði er bent á verðlagningu erlendis. Það liggur fyrir að þar er mikil umframafkastageta og er verð þar einfaldlega yfir því verði sem við getum selt vöruna á frá okkar vinnslum. Það liggur fyrir að norskar vinnslur eru gjarnan að greiða yfir 90% af skilaverði til skipa.
 • Samkvæmt því væri það oft skynsamlegt, ekki bara fyrir sjómennina heldur fyrirtækið líka, að sigla með aflann og fá þetta verð fyrir hann erlendis. En þá mun fólkið í vinnslunum heima sitja eftir aðgerðarlaust.
 • Þegar talið berst að makrílverðum þá liggur fyrir að við höfum ekki langa reynslu af makrílveiðum. Við erum að veiða hann í öðru ástandi en til dæmis Norðmenn, notum troll þar sem skipstjórnarmenn okkar telja hann ekki veiðanlegan í nót á þeim tíma sem við höfum aðgang að stofninum. Þetta er því verðminni afurð sem við framleiðum, stóran hluta af vertíðinni.
 • Norðmenn eru með mun sterkari stöðu t.d. á Asíumarkaði sem er best borgandi markaðurinn fyrir makríl. En þar liggur öll áhættan hjá vinnslunum sem oft á tíðum eru að borga allt uppí 95% af skilaverði afurða fyrir fiskinn.

 

 

Lokaorð

Við höfum langa reynslu af því hvernig samspil veiða og vinnslu getur tryggt ákveðinn stöðugleika, bæði á sjó og landi, í sveiflukenndu umhverfi þar sem markaðir eru síbreytilegir og ekki er gengið að aflanum vísum. Ég veit að allir í þessari virðiskeðju eru að gera sitt besta, hvort heldur er sjómenn, fólkið í vinnslunum eða þeir sem eru að selja fiskinn. Það er sjálfsagt að hafa allt uppi á borðum og ræða hlutina opinskátt og jafnvel beinskeytt. En við verðum að láta staðreyndir tala sínu máli í stað þess að hafa uppi ósanngjarnar og á stundum ófyrirleitnar upphrópanir. Ég vil vinna að sátt með samtali, samfélaginu okkar til hagsbóta.

Gunnþór Ingvason

 

 

Upplýsingar um kórónaveiruna

Upplýsingar um kórónaveirunaFyrirtæki hafa verið hvött til að miðla upplýsingum til starfsfólks um kórónaveiruna. Sóttvarnarlæknir hefur fundað með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og lagt áherslu á að fyrirtæki hafi ákveðnu hlutverki að gegna þegar heimsfaraldrar brjótast út. Fyrirtækjunum er ætlað að sinna kynningarstarfi og miðla til dæmis upplýsingum frá Landlæknisembættinu til starfsmanna sinna, sérstaklega þeirra starfsmanna sem þurfa að sinna erindum erlendis.
 
Sóttvarnarlæknir vill hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína að:
 
 • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
 • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með hósta og almenn kvefeinkenni.
 • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
 • Nota pappír/klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
 • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.
 
Nánari upplýsingar um eðli kórónaveirunnar og sýkingavarnir er að finna á vef Landlæknisembættisins og eru starfsmenn Síldarvinnslunnar hvattir til að kynna sér þær: 
 

Óveðrið setur strik í reikninginn

Óveður truflar veiðar. Ljosm. Guðmundur AlfreðssonÓveður truflar veiðar. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÓveðursspáin fyrir næstu daga setur strik í reikninginn hjá skipum Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins. Smáey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í nótt með um 50 tonn eftir stutta veiðiferð og Bergey VE landaði fullfermi í gærmorgun. Ekki er gert ráð fyrir að skipin haldi til veiða á ný fyrr en á sunnudag. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að mjög vel gangi að fiska en nú muni veðurhamurinn taka völdin. „Við vorum að veiða á Skeiðarárdýpinu, út af Ingólfshöfða og í Sláturhúsinu út af Hornafirði og alls staðar fiskaðist vel. Aflinn var mest þorskur,ufsi, ýsa og skarkoli. Það er allt farið að snúast mjög vel hér um borð í nýja skipinu og við höfum sko ekki undan neinu að kvarta. Framundan eru helvítis læti. Það verður kolvitlaust veður á föstudag og hundleiðinlegt á laugardag þannig að líklega verður ekki farið út fyrr en á sunnudag. En nú er vertíðin framundan og hún er alltaf mikið tilhlökkunarefni. Vertíðin er bara skemmtilegasti tími ársins, svo einfalt er það,“ segir Jón.
 
Síldarvinnsluskipin Gullver NS og Blængur NK munu einnig leita hafnar vegna veðurs. Ísfisktogarinn Gullver mun væntanlega koma til Seyðisfjarðar í fyrramálið en frystitogarinn Blængur er væntanlegur til Neskaupstaðar í nótt.

Vart hefur orðið við vertíðarfisk

Smáey VE landaði fullfermi í morgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonSmáey VE landaði fullfermi í morgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarinn Smáey VE landaði fullfermi eða 70 tonnum í Vestmannaeyjum í morgun. Aflinn var blandaður en mest var af karfa, ufsa og þorski. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra þegar löndun var lokið og skipið var að láta úr höfn. Fyrst var spurt hvar veitt hefði verið. „Við byrjuðum á Kötlugrunni og enduðum út af Ingólfshöfða. Það gekk ágætlega að veiða og þetta var stuttur túr, einungis þrír sólarhringar. Núna er gott veður, norðanátt og sléttur sjór, en hann spáir brælu á föstudag og laugardag. Við erum orðnir vanir brælum, allur janúar var vægast sagt hundleiðinlegur. Það hefur orðið vart við vertíðarfisk en hann er þó ekki kominn af neinum krafti. Hann hefur verið tiltölulega seint á ferðinni síðustu árin. Ég held að hann verði kominn fyrir alvöru eftir tvær til þrjár vikur. Höfnin hér í Vestmannaeyjum er full af síld núna og það virðist vera töluvert af síld við Eyjar. Síldinni fylgir mikið fuglalíf og það er tignarlegt að sjá súlurnar og skarfana sækja sér síld í matinn. Þetta er mikið sjónarspil,“ segir Birgir Þór.

Það er áhöfnin á Vestmannaey sem nú rær á Smáey en Vestmannaey er á Akureyri þar sem unnið er að lagfæringum á millidekki. Gerir Birgir Þór ráð fyrir að framkvæmdum við skipið verði lokið um miðja næstu viku.

Hin árlega loðnuspenna

Nú bíður fjöldi fólks eftir fréttum úr loðnuleiðangri sem nú er í gangi.  Grænlenska skipið Polar Amaroq fór til leitar á laugardag.  Árni Friðriksson fór frá Reykjavík á mánudag,  Aðalsteinn Jónsson fór frá Eskifirði á þriðjudag og þá héldu einnig Börkur NK og Margrét EA til leitar.  
 
Mikið er í húfi og því öllu tjaldað til, verðmæti loðnunnar hafa aukist mjög á undanförnum árum.  Hefur aukin áhersla á hrognavinnslu og frystingu til manneldis skilað mikilli verðmætasköpun miðað við það sem áður var. Þannig má reikna með að 180 þúsund tonna loðnukvóti myndi gefa einhverja 26 milljarða í útflutningstekjur.   Þetta eru miklir fjármunir sem munar virkilega um fyrir þjóðarbúið.  En ef loðnan skilar sér ekki er að sjálfsögðu tapið mest í þeim samfélögum þar sem loðnan er unnin og skipin gerð út.
 
Tekjur til starfsmanna af 180 þúsund tonna kvóta gætu numið rúmum 6 milljörðum.  Þar erum við að tala um sjómannslaun og laun verkafólks í landi.  Margfeldið af afleiddum störfum í þjónustu í kringum útgerðina eins og  netaverkstæði, vélaverkstæði og önnur þjónusta er ótalin.  Í þessum samfélögum skiptir loðna miklu máli og er stór hluti af árstekjum starfsfólks og skapar vinnu t.d. á nótaverkstæðum lungað úr árinu við yfirferð á loðnunótum, auk viðhaldsverkefna fyrir iðnaðarmenn.  Þarna eru Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar stærstu löndunarstaðir fyrir loðnu og því mikið í húfi fyrir þessi byggðarlög.
 
Ef svo ólíklega vill til að það verði loðnubrestur annað árið í röð þá er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála.  Því eins og komið hefur fram þá eru loðnuafurðir verðmætar á mörgum mörkuðum og detti þær alveg út getur verið erfitt að endurheimta þá markaði þegar loðnan fer að veiðast á ný. Einnig ber að geta þess að loðnan skiptir umtalsverðu máli í rekstri margra fyrirtækja í Asíu.
 
Asíumarkaður er okkar verðmætasti markaður fyrir loðnuhrogn og hrygnu sem er komin með ákveðna hrognafyllingu,  síðan hefur hængurinn verið frystur á Austur Evrópu.  Í Asíu hafa menn gjarnan haft góða birgðastöðu til að mæta sveiflum á framboði milli ára en nú er svo komið að þær birgðir eru að klárast.  Aldrei í sögunni hefur verið loðnubrestur tvö ár í röð og því er ástæða til að trúa því að fiskurinn muni á endanum skila sér í mælingum í ár.
 
Okkar verðmætasti markaður fyrir loðnuafurðir í Asíu er Japansmarkaður og sveiflast verð þar mjög í takt við framboð og eftirspurn hverju sinni. Nær öll loðna sem flutt er til Japans kemur frá Íslandi og Noregi. Nú er verið að leita að loðnunni við Ísland og fyrir liggur að enginn kvóti verður gefinn út í Barentshafi þannig að viðskiptavinir okkar í Asíu hafa miklar áhyggjur af stöðu mála og fylgjast grannt með. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá innflutning á loðnuafurðum til Japans eftir löndum:
 
Hin árlega loðnuspenna
  
Þegar myndin er skoðuð kemur í ljós að uppistaða innflutnings á loðnu til Japans kemur frá Íslandi eða 58% af magninu sl. 6 ár. Veiðin í Barentshafi hefur ekki verið mikil, þannig að stór hluti af loðnunni sem kemur frá Noregi er veiddur á Íslandsmiðum.
 
Hin árlega loðnuspenna
 
Á ofangreindri  mynd sést hvernig innflutningur á loðnuhrognum hefur verið sl. ár beint til Japans og hvernig verðin hafa hækkað á sama tíma og magn minnkar.  En þessi mynd sýnir að beinn innflutningur hefur minnkað því að hluta til hefur vinnslan færst t.d. til Kína, auk þess sem eftirspurn eftir loðnuhrognum hefur aukist í öðrum löndun Asíu og eins í Austur Evrópu.  Þegar mikið er veitt kaupa Japanir gjarnan meira á lægri verðum og geyma til jöfnunar á magni í upp- og niðursveiflum.
 
Af framansögðu er ljóst að mikið er í húfi, fiskurinn er brellinn og getur verið erfitt að ná utan um hann.  Loðnan er mikilvæg í fæðukeðjunni við Íslandsstrendur, hún flytur mikla orku inn í lífríkið þannig að nauðsynlegt er að afla vitneskju um atferli og göngumynstur með rannsóknum.  Eins þarf að kanna afrán hvala og annarra sjávardýra.  Fyrir liggur að fjölgun hvala síðastliðin 20 ár er búin að vera gríðarleg.
 
Tekin var upp ný aflaregla með breyttri aðferðafræði við að meta stofninn fyrir nokkrum árum.  Nauðsynlegt er að fara ofan í þessa reiknireglu og huga að því hvort tekin væri áhætta með stofninn þó gefinn væri út ákveðinn byrjunarkvóti. Þá myndi flotinn fara af stað og finna loðnuna og unnt yrði að sinna okkar mikilvægustu mörkuðum.  Í gegnum tíðina hefur oft verið örðugt að hitta á loðnugöngur og hefur flotinn þurft að hafa töluvert fyrir því að finna þær. Það segir okkur að þrjú til fjögur leitarskip geta auðveldlega siglt framhjá göngunum og orðið einskis vör. 
 
Allir sem starfa við loðnuútveg og –vinnslu verða að vera bjartsýnir og hafa fulla trú á að það náist að mæla loðnuna og gefa út kvóta svo hægt verði að draga björg í bú.  Menn voru svartsýnir 2017 en þá var sjómannaverkfall í upphafi árs, lítið mældist í janúarleiðangri og menn nánast búnir að afskrifa vertíð.  Í loðnuleiðangri dagana  3.-11.  febrúar fannst hins vegar loðna í töluverðu magni fyrir norðan land og úr varð góð vertíð.
Gunnþór B. Ingvason
 
Nánar af yfirstandandi loðnuleit:
 
Á meðfylgjandi mynd má sjá skipulag yfirstandandi  loðnuleitar eins og það leit út þegar haldið var af stað, síðan tekur skipulagið breytingum eftir því hvernig aðstæður eru.  Í leitinni taka þátt þrjú skip mönnuð rannsóknarmönnum frá Hafró, Árni Friðriksson, Aðalsteinn Jónsson og Polar Amaroq, síðan eru hjálparskipin Börkur og Margrét.   Uppleggið er að hjálparskipin taka grunninn og útkantinn til að stytta leggi mæliskipanna. Árið 2017 voru færri skip við leit en þá voru Norðmenn að veiðum og gátu veitt miklvægar upplýsingar.  Skipstjórar annarra skipa eru einnig duglegir að melda upplýsingar um loðnu sem þeir verða varir við og sem hægt er að skoða, þannig eru fréttir utan af Dohrnbanka frá grænlenskum skipum.
 
Hin árlega loðnuspenna 
 
Hægt er að fylgjast með leitarskipunum. Meðfylgjandi mynd (hér fyrir neðan) er lifandi á síðunni skip.hafro.is.   Samstarf útgerðar og Hafrannsóknastofnunar í þessari vinnu er til fyrirmyndar enda kemur saman reynsla skipstjórannna og þekking fiskifræðinganna.   Á myndinni sjást lykkjur á leiðum skipanna en þar hafa skipin tekið tog til að ná í sýni af loðnunni.  
 
Hin árlega loðnuspenna
 

Flúið norður

Gullver NS kemur til hafnar. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til hafnar. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði 88 tonnum á Seyðisfirði sl. þriðjudag. Aflinn var að mestu þorskur. Heimasíðan ræddi stuttlega við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði út í fiskiríið. „Það er búið að vera heldur lélegt hérna fyrir austan að undanförnu og því vorum við allan túrinn á Rifsbankanum norður af Melrakkasléttunni. Þarna urðum við áþreifanlega varir við loðnu en hún sást bæði í netinu og í fiskinum. Nú held ég að fiskiríið sé að lagast hér eystra og það gerist með loðnunni. Þarna á Rifsbankanum voru fimm togarar ásamt okkur. Vonandi getum við veitt hérna fyrir austan í næsta túr,“ segir Rúnar.
 
Gullver hélt á ný til veiða í gær.
 
 

Loðnan er laus á kostunum

Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur var fyrstur hér á landi til að rannsaka loðnunaBjarni Sæmundsson
náttúrufræðingur var
fyrstur hér á landi til að
rannsaka loðnuna
Þessa dagana er mikið rætt um blessaða loðnuna og margir bíða með öndina í hálsinum eftir að hún finnist. Fyrsti maðurinn hér á landi til að fjalla um loðnuna með vísindalegum hætti var án efa Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur. Bjarni var brautryðjandi á sviði rannsókna á lífríki sjávar og hóf rannsóknir sínar fyrir aldamótin 1900. Fiskirannsóknir sínar dró hann síðan saman og birti í bókinni Fiskarnir sem út kom árið 1926. Hér skal vitnað orðrétt í umfjöllun Bjarna um loðnuna í bókinni:
 
Hrygningin fer fram á vorin og fram eftir sumrinu, og þegar að henni líður, leitar loðnan inn að löndum, oft afar mikil mergð, í þéttum torfum, sem ná yfir löng svæði, jafnvel tugi kílómetra, og má þá oft óbeinlínis sjá til ferða hennar í fjarlægð, af fuglagerjunum og hvalablæstrinum... Gengur hún oft mjög nærri landi, einkum í aflandsvindi, alveg upp í fjörur og inn í árósa og lón; en hún er yfirleitt mjög „laus á kostunum“ og óviss í öllum göngum sínum; sum ár er mergð af henni en önnur sést hún ekki á sama staðnum; stundum er hún spök og dvelur lengi (t.d. í Hornafirði á veturna), en stundum verður aðeins vart við hana nokkura daga og ræður þar sennilega um bæði hiti í sjó, veður og fæða.
 
Í bók Bjarna er einnig fjallað um nafnið á loðnunni og útskýrir hann tilkomu þess með eftirfarandi hætti:
 
Nafn sitt dregur loðnan af því, að hreistur hennar er smágert, þunnt og laust, og á hængnum eru hreisturblöðin í nokkrum röðum ofan við rákina, ílöng og hin lengstu dregin út í alllanga totu, svo að úr þeim verður loðin rák eftir endilangri hlið fisksins. Algengasta nafnið á fiskinum er loðna.
 
Í skrifum sínum upplýsir Bjarni að fyrir norðan séu einnig eftirfarandi nöfn notuð: Loðsíli, vorsíli, loðka, loðsíld og kampasíld. Í Austur-Skaftafellssýslu segir hann að hrygnan sé nefnd barsíli en í Vestmannaeyjum sé hún nefnd hrognasíli eða hrognaseiði. Þá greinir hann frá því að á Akranesi sé hængurinn nefndur hæringur.
 

Þetta er svo sannarlega fínn bátur

Landað úr Bergey VE í gærmorgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Bergey VE í gærmorgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Hinn nýi ísfisktogari Bergs-Hugins, Bergey VE, kom úr sinni fyrstu alvöru veiðiferð til heimahafnar í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Aflinn var fullfermi eða um 75 tonn. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við byrjuðum út af Vík í Mýrdal, fórum síðan í Skeiðarárdýpið og undir lokin vorum við í Sláturhúsinu út af Hornafirði. Það gekk vel að fiska og aflinn var blandaður. Nú fengum við fyrir alvöru að reyna bátinn og ég er mjög hrifinn af honum. Þetta er svo sannarlega fínn bátur en við erum enn að slípa til og læra á hann og allt um borð. Á millidekkinu virkaði allt vel en böndin þar eru tölvustýrð og við erum enn að læra á þau. Þá þarf eitthvað að laga þarna til fyrir stærri fisk. En þetta lítur afskaplega vel út og menn ánægðir. Þá eru spilin súpergóð. Þetta eru rafmagnsspil sem mjög skemmtilegt er að vinna með. Enn á eftir að stilla þau fullkomlega. Það eru alls engin vonbrigði með þetta skip og hér er allt stærra og rýmra en í gömlu skipunum. Þessir bátur er mjög skemmtilegur; það er gott að fiska á hann, hann er góður í lausagangi og virðist vera mjög gott sjóskip, segir Jón.

Blængur með fínan túr þrátt fyrir brælu

Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt mánudags eftir ágætan túr. Afli skipsins var rúmlega 540 tonn upp úr sjó að verðmæti 153 milljónir króna. Aflinn er blandaður en mest af gulllaxi, karfa og ufsa. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri er ánægður með túrinn. „Þetta var þriggja vikna túr en við fórum út 12. janúar. Veðrið gerði okkur erfitt fyrir fyrstu tvær vikurnar. Vegna brælunnar urðum við að veiða fyrir austan og norðan land en að því kom að við gátum fært okkur suður fyrir. Fyrir sunnan landið veiddum við frá Lónsdýpinu og vestur í Skerjadýpi og þar var ágætis kropp í gulllaxi, karfa og ufsa. Við verðum að vera ágætlega sáttir við niðurstöðu túrsins því veðrið truflaði okkur verulega framan af,“ segir Bjarni Ólafur.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða nk. fimmtudagskvöld.
 
 

Aukin áhersla á umhverfismál og samfélagsábyrgð

Hildur Hauksdóttir sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonHildur Hauksdóttir sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS.
Ljósm. Karl Jóhann Birgisson
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa að undanförnu lagt aukna áherslu á umhverfismál og samfélagsábyrgð. Til marks um þetta var Hildur Hauksdóttir ráðin til samtakanna í októbermánuði sl. sem sérfræðingur í umhverfismálum. Hildur lauk  BS-prófi í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MBA-prófi að auki frá Griffith háskólanum í Ástralíu. Áður en hún hóf störf hjá SFS starfaði hún að umhverfis- og markaðsmálum hjá HB Granda sem nú nefnist Brim.
 
Sl. miðvikudag kom Hildur til Neskaupstaðar í þeim tilgangi að halda fund með fulltrúum sjávarútvegsfyrirtækja eystra um umhverfismál og samfélagsábyrgð. Til fundarins komu yfir 20 fulltrúar frá Síldarvinnslunni ,Eskju og Loðnuvinnslunni og að mati fundarmanna var umfjöllunarefnið bæði áhugavert og gagnlegt. Í samtali við tíðindamann heimasíðunnar sagði Hildur að fundurinn hefði heppnast vel. „Eitt af verkefnum SFS þessa dagana er að vinna að stefnumótun í umhverfismálum með aðildarfyritækjum. Á því sviði standa öll fyrirtækin frammi fyrir sambærilegum áskorunum og skynsamlegt að víðtæk samvinna sé höfð um stefnumótunina. Á fundinum var farið yfir stöðu umhverfismála hjá fyrirtækjunum eystra og reyndar einnig um stöðu umhverfismála almennt, bæði hér á landi og á heimsvísu. Við í sjávarútvegi höfum til dæmis náð góðum árangri á sviði loftslagsmála en þó eru mörg tækifæri til að gera betur. Í þessu sambandi fjölluðum við um hvað sjávarútvegsfyrirtækin eystra geta gert betur. Eins var fjallað sérstaklega um sorpmál á fundinum og rætt hvernig skynsamlegt væri að auka samvinnu á því sviði. Fyrir utan hin augljósu umhverfisverkefni var fjallað um samfélagsábyrgð sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þegar rætt er um samfélagsábyrgð er lögð áhersla á þrjár meginstoðir. Í fyrsta lagi umhverfismál, í öðru lagi efnahagslega þætti og í þriðja lagi samfélagsmál. Nú er sett krafa á fyrirtæki um gagnsæi og upplýsingagjöf og í því sambandi var rætt um svonefnda samfélagsskýrslu sem veitir þá upplýsingar um bæði fjárhagslega þætti og aðra þætti sem tengjast umhverfi og samfélagi. Á fundinum var rætt um gerð samfélagsskýrsla og hvernig hugsanlegt væri að innleiða útgáfu þeirra. Á þessu sést að viðfangsefni fundarins eystra var víðtækt og mér fannst fundurinn einkar ánægjulegur,“ segir Hildur. 

Starfsmannahátíðin í ár verður í Gdansk

Sopot, nágrannabær Gdansk, en þar gistu starfsmenn Síldarvinnslunnar 2017. Ljósm. Guðlaugur BirgissonSopot, nágrannabær Gdansk, en þar gistu starfsmenn
Síldarvinnslunnar 2017. Ljósm. Guðlaugur Birgisson
 
Ákveðið hefur verið að næsta starfsmannahátíð Síldarvinnslunnar verði haldin í Gdansk í Póllandi 14. nóvember nk. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þess að starfsmanna- og afmælishátíð fyrirtækisins árið 2017 var einmitt haldin í Gdansk og tókst frábærlega vel. Ráðgert er að flogið verði frá Egilsstöðum til Gdansk 12. og 13. nóvember og til baka 15. og 16. nóvember. Mun  hópurinn væntanlega gista á tveimur til þremur hótelum á meðan á dvölinni í Póllandi stendur. Nánari upplýsingar um ferðina og hátíðina verða veittar síðar.
 
Ferðaskrifstofa Akureyrar mun annast skipulagningu ferðarinnar.
 
Gdansk er áhugaverð borg sem á sér merka sögu. Ljósm. Guðlaugur BirgissonGdansk er áhugaverð borg sem á sér merka sögu.
Ljósm. Guðlaugur Birgisson

Loksins komin langþráð bongóblíða

Smáey VE hefur fiskað vel að undanförnu. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonSmáey VE hefur fiskað vel að undanförnu.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarinn Smáey VE landaði fullfermi eða 70 tonnum í Vestmannaeyjum sl. þriðjudag og kom aftur inn í morgun með rúmlega 30 tonn. Heimasíðan ræddi við Egil Guðna Guðnason stýrimann og spurði hvernig veiðar hefðu gengið. „Það verður að segjast að veiðarnar gengu vel. Í fyrri túrnum vorum við í Breiðamerkurdýpinu og uppistaða aflans þar var ufsi og ýsa. Við vorum þá fjóra sólarhringa á veiðum og fyrri tvo sólarhringana var veðrið hundleiðinlegt  en síðan kom loksins langþráð bongóblíða sem hefur ríkt síðan. Það er svo gríðarlegur munur að vinna í góðu veðri, það verður allt svo mikið einfaldara og þægilegra. Í seinni túrnum vorum við einungis að veiðum í einn og hálfan sólarhring og þá var fiskað í Háfadýpinu. Aflinn var 32 tonn og uppistaðan var karfi. Á þessu sést greinilega að það er búið að vera hörkufiskirí,“ segir Egill Guðni.

 

 

Síldarvinnslan fyrir 60 árum

Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar eins og hún leit út árið 1960. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSíldarverksmiðja Síldarvinnslunnar eins og hún leit út
árið 1960. Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar
Hér á eftir verður horft 60 ár aftur í tímann og fjallað lítillega um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1960. Árið 1960 var Síldarvinnslan að slíta barnsskónum en félagið var stofnað árið 1957 í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar. Þegar var ráðist í að byggja síldarverksmiðjuna og hóf hún starfsemi sumarið 1958.
 
  • Alls tók verksmiðja Síldarvinnslunnar á móti 13.245 lestum af síld til vinnslu sumarið 1960. Framleidd voru 2.121 tonn af mjöli og 2.356 tonn af lýsi. Síldinni, sem verksmiðjan tók til vinnslu, var landað við bryggjuna sem var framan við hraðfrystihús Samvinnufélags útgerðarmanna. Frá bryggjunni lágu síðan færibönd sem fluttu síldina í þrær verksmiðjunnar. Ekki var byggð sérstök löndunarbryggja fyrir verksmiðjuna fyrr en árið 1962.
  • Fyrstu árin sem verksmiðja Síldarvinnslunnar var starfrækt var árlegur starfstími stuttur. Yfirleitt hófst móttaka síldar í júnímánuði og vinnslu lauk oftast í lok ágúst. Starfstíminn var því einungis 10-12 vikur. Þetta breyttist ekki fyrr en árið 1964 þegar haustveiðar hófust á síldarmiðunum úti fyrir Austfjörðum.
  • Í upphafi var þróarrými verksmiðjunnar 10.000 mál og var það ekki aukið fyrr en árið 1962. Þá var geymslurými fyrir afurðir afar takmarkað. Í fyrstu var samið við Olíuverslun Íslands um afnot af tanki sem var í eigu hennar fyrir geymslu á lýsi en á árinu 1959 festi Síldarvinnslan kaup á steintankinum fyrir utan hraðfrystihús Samvinnufélags útgerðarmanna og hóf að nýta hann undir lýsi. Geymsla á síldarmjöli var einnig vandamál. Fyrstu tvö árin var mjölið geymt í bogaskemmu Bæjarútgerðar Neskaupstaðar og í húsum vítt og breitt um bæinn en árið 1960 var reist sérstakt mjölgeymsluhús vestan við verksmiðjuhúsið og áfast því.

Síldarsöltun á söltunarstöð Sæsilfurs. Ljósm. Björn BjörnssonSíldarsöltun á söltunarstöð Sæsilfurs.
Ljósm. Björn Björnsson

  • Í upphafi ríktu nokkur vonbrigði með afköst verksmiðjunnar. Gert hafði verið ráð fyrir að hún gæti unnið allt að 2.400 málum síldar á sólarhring en í ljós kom eftir vertíðina 1959 að meðalafköst hennar hefðu einungis verið 1.360 mál. Gerð var úttekt á verksmiðjunni eftir þessa vertíð og var niðurstaða hennar sú að verksmiðjan ætti að geta afkastað 2.000-2.200 málum á sólarhring ef hráefnið væri eins og best yrði á kosið. Þá kom fram að brýn nauðsyn væri að auka rými fyrir lýsi inni í verksmiðjunni og tryggja aukin afköst mjölkvarnar og mjölblásara. Í kjölfar úttektarinnar var ráðist í fyrstu umbætur á verksmiðjunni fyrir vertíðina 1960.
  • Aðstaða til síldarsöltunar í Neskaupstað gjörbreyttist til batnaðar með tilkomu síldarverksmiðjunnar, en það hafði háð síldarsöltuninni að skip gátu ekki losað þann afla í síldarverksmiðju sem ekki reyndist söltunarhæfur. Fyrir tilkomu síldarverksmiðjunnar var unnt að bræða síld í lítilli fiskimjölsverksmiðju Samvinnufélags útgerðarmanna en einungis í sáralitlu magni. 

Gullfaxi NK kemur að landi með síldarfarm sumarið 1960. Ljósm. Björn BjörnssonGullfaxi NK kemur að landi með síldarfarm sumarið 1960.
Ljósm. Björn Björnsson

  • Árið 1960 var einungis ein síldarsöltunarstöð starfrækt í Neskaupstað. Það var söltunarstöð Sæsilfurs hf. Sumarið 1960 voru saltaðar 4.578 tunnur á stöðinni. Eftir þetta fjölgaði síldarsöltunarstöðvunum í bænum. Árið 1961 voru þær tvær og ári síðar fjórar en flestar urðu þær sex á síld sarárunum svonefndu.
  • Alls voru þrettán Norðfjarðarbátar gerðir út til síldveiða árið 1960. Flestir bátanna voru af stærðinni 60-90 lestir en tveir þeirra voru nýir og stærri og höfðu báðir bæst í flotann árið áður. Þetta voru Stefán Ben, 147 lesta skip smíðað í Noregi og Hafþór, 249 lesta skip smíðað í Austur-Þýskalandi.

 

 

 

 

 
 
 

Undirflokkar