Hörku kolmunnaveiði í íslenskri lögsögu

DSC04579

Börkur NK. Ljósm: Hákon Ernuson

                Börkur NK landaði í gær 2.200 tonnum af kolmunna í Neskaupstað. Skipið var 8 daga í veiðiferðinni og fór víða en megnið af aflanum fékkst í íslenskri lögsögu. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að kolmunninn hafi verið stór og fallegur. „ Við hófum veiðiferðina á að leita í Rósagarðinum í tvo daga með litlum árangri. Síðan var haldið í færeysku lögsöguna en þar hafði verið einhver veiði. Sáralítið fékkst þar þannig að við héldum aftur inn í íslensku lögsöguna og leituðum norðar en áður. Þar fundum við kolmunnann og var talsvert að sjá. Þetta var norðaustur af Rauða torginu, um 100 mílur nánast beint út af Norðfjarðarhorni. Aflinn sem þarna fékkst var góður, allt upp í 500 tonn á sólarhring. Við fengum því megnið af aflanum sem við komum með að landi á þremur og hálfum sólarhring á þessu svæði,“ sagði Hjörvar.

                Börkur hélt til kolmunnaveiða á ný strax að lokinni löndun enda full ástæða til að nota tímann vel áður en makríl- og síldarvertíð hefst.

 

Eitt stykki bátur kr. 19.932.660

thumb Afmælismerki SVN litid 017c24718945cf402289632bdf7f7bc0

Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um kaupin á síldveiðiskipunum Berki og Beiti sem bættust í flota Síldarvinnslunnar á árunum 1966 og 1967.

               Samningur um smíði Barkar

Samningur um smíði á Berki NK var undirritaður 10. nóv. 1965 af framkvæmdastjóra Ankerlökken og Hermanni Lárussyni framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar.

 

Síldarvinnslan hóf útgerð með tveimur bátum árið 1965. Þetta voru Barði og Bjartur, systurskip smíðuð í Austur-Þýskalandi og 264 tonn að stærð. Bátarnir voru sérstaklega smíðaðir með síldveiðar í huga enda snerist allt um síldina á Austfjörðum þegar hér var komið sögu.

                Útgerð Barða og Bjarts gekk vel frá upphafi og fljótlega hófust umræður um að Síldarvinnslan ætti að festa kaup á fleiri síldarskipum. Á stjórnarfundi í fyrirtækinu í byrjun október 1965 var Hermanni Lárussyni framkvæmdastjóra falið að athuga með kaup á nýju skipi sem yrði þá þriðja skipið í eigu fyrirtækisins. Helst var rætt um að kaupa skip sem yrði smíðað í Austur- Þýskalandi og af svipaðri stærð og Barði og Bjartur. Rúmum mánuði síðar greindi Hermann frá því að undirritaður hefði verið samningur um smíði skips í Noregi. Samningurinn var undirritaður hinn 10. nóvember og kvað á um að skipið yrði smíðað í Ankerlökken Verft A/S í Florö. Gekk smíði skipsins samkvæmt áætlun og var því gefið nafnið Börkur.

Börkur NK 122. File6285 Ljósm. Guðm. Sveinsson

               Börkur NK kom nýr til Neskaupstaðar þann 7. nóvember 1966. Ljósm: Guðmundur Sveinsson

Einungis tæplega tveimur mánuðum eftir að samningurinn um smíði Barkar var undirritaður, eða hinn 5. janúar 1966, samþykkti stjórn Síldarvinnslunnar að láta smíða fjórða skipið fyrir fyrirtækið. Samningur um smíði þess var undirritaður 15. júní 1966 og tók Ankerlökken Verft A/S að sér að annast smíðina í samvinnu við Flekkefjord Slipp og Maskinfabrikk en skipið var smíðað í Flekkefjord. Rétt eins og í fyrra tilvikinu gekk smíði skipsins samkvæmt áætlun og fékk það nafnið Birtingur.

                Vélasalan hf. í Reykjavík var umboðsaðili Ankerlökken hér á landi á þessum árum og nýlega fékk Síldarvinnslan send ýmis gögn frá Vélasölunni sem tengdust smíði þessara tveggja skipa. Meðal annars bárust samningar um smíði beggja skipanna og reikningur fyrir Birting. Hljóðaði reikningurinn upp á kr. 19.932.660 eða 3.300.000 norskra króna. Hver norsk króna var rúmlega sex íslenskar á þessum tíma.

Birtingur NK 119. GS. File6946

               Birtingur NK kom í fyrsta sinn til heimahafnar fyrir rúmlega 50 árum eða þann 6. júlí 1967. Ljósm: Guðmundur Sveinsson

Börkur kom nýr til Neskaupstaðar 7. nóvember 1966 og þótti hið glæsilegasta skip. Hann var 302 tonn að stærð vel búinn í alla staði. Birtingur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 6. júlí 1967, 306 tonn að stærð og þótti ekki síður glæsilegur. Fyrsti skipstjóri á Berki var Sigurjón Valdimarsson en Filip Höskuldsson var fyrsti skipstjóri á Birtingi. Þeir höfðu áður verið skipstjórar á Barða og Bjarti.

Reikningur frá vélasölunni

               Reikningur frá Vélasölunni hf. í Reykjavík fyrir síldveiðiskipinu Birtingi NK

Fljótlega eftir að þessir tvö skip bættust í flota Síldarvinnslunnar lauk síldveiðiævintýrinu eystra. Þau hófu að leggja stund á togveiðar og loðnuveiðar auk þess sem þau veiddu síld á fjarlægum miðum en ljóst var að þau nýttust atvinnulífinu í Neskaupstað verr en áður. Árið 1972 var ákveðið að selja bæði skipin. Kaupandi Birtings var Þróttur hf. í Grindavík og fékk hann nafnið Albert en kaupandi Barkar var Runólfur Hallfreðsson á Akranesi og fékk hann nafnið Bjarni Ólafsson. Til gamans skal þess getið að Runólfur Hallfreðsson ehf. er nú eitt af dótturfélögum Síldarvinnslunnar.

Fyrsti makríllinn til Neskaupstaðar í sumar

Vilhelm Þorsteinsson EA kom með fyrsta makrílinn á vertíðinni til Neskaupstaðar í gær. Ljósm. Hákon Ernuson.Vilhelm Þorsteinsson EA kom með fyrsta makrílinn á vertíðinni
til Neskaupstaðar í gær.  Ljósm. Hákon Ernuson.
Í gær kom Vilhelm Þorsteinsson EA til Neskaupstaðar og landaði þar fyrsta makrílfarminum á vertíðinni. Afli skipsins var 700 tonn upp úr sjó og þar af voru 480 tonn fryst um borð. Guðmundur Jónsson skipstjóri sagði að veiðin hefði verið heldur döpur. „Við hófum veiðar á Breiðdalsgrunni og héldum síðan vestur eftir og enduðum við Vestmannaeyjar. Austur frá var aflinn nokkuð síldarblandaður en vestast fengum við hreinan makríl. Það var enginn kraftur í þessu en fiskurinn sem fékkst var góður; stór og fínn makríll, lítilsháttar áta í honum en fituprósentan var 18-20%. Helsti gallinn er sá að það var ekki nóg af honum á þeim slóðum sem við vorum á en nú munu brátt fleiri skip halda til veiða og þá skýrist allt betur,“ sagði Guðmundur.

Sumarfrí í frystihúsinu á Seyðisfirði

 

 Vinnslan hefur gengið vel. Ljósm. Ómar Bogason Vinnslan hefur gengið vel. Ljósm. Ómar Bogason

Frystihúsið á Seyðisfirði er komið í sumarstopp, en það hófst sl. föstudag.  Af þessu tilefni var slegið upp grillveislu í góða veðrinu á bryggjunni.
Einhverjir starfsmenn munu sinna viðhaldsverkefnum innanhúss á meðan sumarfríð stendur yfir.

Framleiðsla í frystihúsinu hófst ekki fyrr en 22. febrúar vegna verkfalls sjómanna í byrjun árs.

Að sögn Ómars Bogasonar framleiðslustjóra hefur mest verið unnið af þorski og ufsa á árinu.  Samdráttur hefur verið í ufsavinnslu vegna erfiðra markaðsaðstæðna fyrir ufsaafurðir.  Móttekið hráefni á fyrstu 6 mánuðum ársins eru 1.350 tonn en á sama tíma fyrir ári var móttekið hráefni 1.900 tonn.  Ástæðan fyrir lægri framleiðslutölum það sem af er ári eru tilkomnar vegna sjómannaverkfalls í janúar og febrúar.

 

Grillað í góðu veðri á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonGrillað í góðu veðri á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

 

Stöðug vinnsla hefur verið frá því að verkfalli lauk fram að sumarstoppi og hefur vinnsla gengið vel.  Gengisþróun og markaðsaðstæður hafa verið óhagstæðar og hefur það haft  áhrif á verðmæti framleiðslunnar, á sama tíma hafa flestir kostnaðarliðir verið að hækka. Uppistaðan af hráefninu kemur frá skipum Síldarvinnslunnar hf.

Reiknað er með að framleiðsla hefjist að nýju eftir verslunarmannahelgi.

Eistnaflug kynnir í samstarfi við Síldarvinnsluna föstudags og laugardagspassa á einungis 15.000 kr

dagskrá einstaflug

Síldarvinnslan hf. og forsvarsmenn Eistnaflugs hafa komist að samkomulagi um að bjóða þeim sem sækja Eistnaflug um helgina uppá helgarpassa á frábærum kjörum eða á 15.000kr en áður kostaði hann 22.500kr. Miða er hægt að kaupa á www.tix.is eða við dyrnar í íþróttahúsinu í Neskaupstað.

Þar sem nú er makrílvertíð á næsta leyti er tilvalið fyrir starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi að grípa þetta tækifæri og lyfta sér upp áður en vaktir byrja í fiskiðjuverum víða um Austurland.

Síldarvinnslan vill með þessu einnig hvetja aðra bæjarbúa og aðra Austfirðinga til að sækja hátíðina og njóta þeirra tónleika sem í boði eru en dagskráin í ár er einkar glæsileg. Margar bestu íslensku hljómsveitirnar um þessar mundir stíga á svið ásamt heimsfrægum erlendum rokkhljómsveitum. Má finna dagskránna hér fyrir ofan. 18 ára aldurstakmark er á hátíðina en ungmenni undir 18 ára mega vera til 23:00 í fylgd og á ábyrgð fullorðinna.

Eftirvænting í fiskiðjuverinu fyrir sumarvertíð

FV Gudbjartur juli 2015 HSGGuðbjartur Hjálmarsson segir flökunavélarnar verða klárar fyrir vertíð. Ljósm. Húnbogi SólonUm þessar mundir er unnið hörðum höndum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað við undirbúning fyrir vertíð. Búið er að ráða fjölmarga í vinnu fyrir sumarið og fasráðna fólkið er að snúa tilbaka eftir sumarfrí. Mikið kapp er lagt á viðhalds- og undirbúningvinnu í fiskiðjuverinu fyrir vertíðina auk þess að fegra umhverfið í kringum fyrirtækið.

Megnið af sumarstarfsfólkinu er skólafólk sem er ánægt með að komast í þessi uppgrip sem vertíðarvinna er, góð laun og næg atvinna. 
    
Fyrirtækið Skaginn er að bæta við nýjum frystiskápum og er reiknað með að afköst í frystingunni aukist enn meira en unnið hefur verið að því síðustu ár að byggja upp aukna afkastagetu. Aukning afkastagetu er liður í því að auka enn á verðmæti uppsjávarfisks með því að hafa afköst til að vinna hann á þeim tíma sem hann er verðmætastur og fylgja þannig eftir fjárfestingum sem átt hafa sér stað í stærri og öflugri skipum sl. ár.
 
Heimasíðan náði tali af Jón Gunnari Sigurjónssyni yfirverkstjóra og spurði hann um stöðuna í fiskiðjuverinu. “Við höfum ráðið inn u.þ.b. 50 sumarstarfsmenn fyrir vertíðina nokkrir komu til vinnu strax eftir sjómannadag en aðrir komu til vinnu í þessari viku. 
FV Skaginn juli 2015 HSGUppsetning nýrra frystiskápa gengur vel.
Ljósm. Húnbogi Sólon


Fastráðna starfsfólkið okkar er einnig að snúa tilbaka eftir sumarfrí og má segja að fjöldi starfsfólks aukist með hverjum deginum. Í heildina eru þetta um 90 starfsmenn sem munu vinna á þrískiptum vöktum eins og undanfarin ár. Núna er starfsfólkið að sinna viðhaldsvinnu og tiltekt bæði innan húss og utan.  Verið að fara yfir vélar og búnað til að vera klár í þá makríl- og síldarvertíð sem framundan er. Við reiknum með stöðugri keyrslu næstu 4 mánuðina“ sagði Jón Gunnar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Börkur landar kolmunna á Seyðisfirði í fallegu sumarveðri

Börkur NK kom til Seyðisfjarðar í morgun og landar þar tæplega 2.300 tonnum af kolmunna í fiskimjölsverksmiðjuna. Börkur NK kom til Seyðisfjarðar í morgun og landar þar tæplega 2.300 tonnum af kolmunna í fiskimjölsverksmiðjuna. 

Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri var að vonum kátur að fá afla til vinnslu. Hann sagði hráefnið gott til vinnslu og löndun gengi vel í fallegu sumarveðri á Seyðisfirði og reiknar með að klára löndun upp úr miðnætti.    

Heimasíðan náði tali af Hjörvari Hjálmarssyni skipstjóra í morgun og var hann að vonum ánægður með veiðina og hugðist hann nýta daginn á Seyðisfirði í fjallgöngu og hlaup áður en skipið heldur aftur út.

„Við erum að landa tæplega 2.300 tonnum af fallegum kolmunna sem fékkst austast í færeysku lögsögunni. Veiðin gekk vonum framar og fékkst aflinn í 7 holum. Við stefnum svo aftur á miðin á morgun og vonumst til að áfram verði gangur í þessu. Veðrið á miðunum var eins og best verður á kosið og hreyfði varla vind“ sagði Hjörvar.

Útlitið er ekki svart

Útlitið er ekki svartÍ tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um fyrstu skipin sem Síldarvinnslan festi kaup á.

Árið 1965 hóf Síldarvinnslan útgerð með tveimur nýjum bátum sem smíðaðir voru í Austur-Þýskalandi. Barði NK kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 5. mars tveimur mánuðum á eftir áætlun. Að öllu forfallalausu átti hann að koma í janúarbyrjun en skömmu fyrir jólin vildi það óhapp til að stórt skip sigldi á Barða þar sem hann var í reynsluferð á Elbufljóti. Skemmdist báturinn mikið við ásiglinguna og tók töluverðan tíma að lagfæra skemmdirnar.

Systurskipin Bjartur NK og Barði NK árið 1966.Systurskipin Bjartur NK og Barði NK árið 1966.Rúmlega tveimur mánuðum síðar kom Bjartur NK í fyrsta sinn til heimahafnar. Bjartur var systurskip Barða en þeir voru 264 tonn að stærð og einkum smíðaðir með síldveiðar í huga.

Skipstjóri á Barða var Sigurjón Valdimarsson en Filip Höskuldsson stóð við stjórnvöl á Bjarti. Auðvitað var bátunum vel tekið og fjölmenntu Norðfirðingar til að skoða þessi stóru og glæsilegu fley þegar þau lögðust í fyrsta sinn að bryggju í heimahöfn.

Lengi tíðkaðist að hagyrðingar og skáld settu saman fagnaðarljóð þegar ný skip bættust í flotann. Því miður hefur ekkert ljóð um Barða varðveist en Valdimar Eyjólfsson hagyrðingur í Neskaupstað orti meðfylgjandi í tilefni af komu Bjarts. Segist Valdimar í blaðapistli hafa verið veikur þegar Barði kom en þegar Bjartur kom var hann hressari og dreif sig um borð til að skoða hann. Um borð hitti hann góða menn sem báðu hann endilega að yrkja vísu um hið glæsilega fiskiskip. Enginn andi kom yfir hagyrðinginn á þeirri stundu en þegar hann kom heim settist hann niður og orti eftirfarandi:

Bjartur kom í heimahöfn
hlaðinn bestu kostum,
allvel fær í úfna dröfn,
illviðrum og frostum.

Semsagt fær í flestan sjó
farkostur hinn besti.
Honum gifta gefist nóg
og gæfa í veganesti.

Líkt er það með Barða og Bjart,
báðir í nýjum flíkum,
útlitið er ekki svart
með útgerðina á slíkum.

Bókin Fiskveiðar – fjölbreyttar áskoranir kynnt á Hildibrand á föstudaginn

hjortur oli

Hjörtur Gíslason þýðandi bókarinnar og Óli Samró höfundur bókarinnar. Mynd: Kvótinn.is

Bókin Fiskveiðar - fjölbreyttar áskoranir fjallar um fiskveiðistjórnun víða um heim. Sumir halda að íslenska kvótakerfið við fiskveiðistjórnun sé það besta í heimi, aðrir vilja breyta kerfinu og hefja uppboð á aflaheimildum. Bókin er eftir færeyska sjávarútvegsráðgjafann Óla Samró og hefur Hjörtur Gíslason, blaðamaður, þýtt hana úr færeysku. Höfundur mun koma til Neskaupstaðar á föstudaginn og kynna bókina á hótel Hildibrand kl 09:00 og er aðgangur ókeypis.Bókin Fiskveiðar - fjölbreyttar áskoranir fjallar um fiskveiðistjórnun víða um heim. Sumir halda að íslenska kvótakerfið við fiskveiðistjórnun sé það besta í heimi, aðrir vilja breyta kerfinu og hefja uppboð á aflaheimildum. Bókin er eftir færeyska sjávarútvegsráðgjafann Óla Samró og hefur Hjörtur Gíslason, blaðamaður, þýtt hana úr færeysku. Höfundur mun koma til Neskaupstaðar á föstudaginn og kynna bókina á hótel Hildibrand kl 09:00 og er aðgangur ókeypis.

Á íslensku er titill bókarinnar Fiskveiðar: fjölbreyttar áskoranir, og fjallar Óli þar meðal annars um þær ólíku leiðir sem farnar eru við stjórnun fiskveiða víða um heim. „Hann fer m.a. stuttlega yfir sögu fiskveiðistjórnunar með viðkomu í löndum á borð við Noreg og Færeyjar sem búa að gömlum lögum um fiskveiðar, útþenslu fiskveiðilögsögu og landhelgi þjóða, og setningu kvótakerfisins 1984 á Íslandi, og fljótlega þar á eftir á Nýja-Sjálandi. Óli kortleggur síðan allar þær leiðir sem notaðar eru til að stýra fiskveiðum. Fjallar bókin um nær allar helstu fiskveiðiþjóðir heims, nema að Kína og Rússland eru undanskilin því erfitt er að fá frá þeim áreiðanlegar upplýsingar um fyrirkomulag fiskveiða,“ segir Hjörtur Gíslason þýðandi bókarinnar á íslensku.

Óli hefur mikla alþjóðlega reynslu á þessu sviði og hefur víða farið, þekkir m.a. vel íslenskar aðstæður og umræður hér og ræðir þær í bók sinni.
Síldarvinnslan hvetur alla þá sem áhuga hafa á fiskveiðistjórnun að sækja þessa áhugaverðu kynningu á bókinni Fiskveiðar – fjölbreyttar áskoranir.

Makríll í þorski fyrir austan

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kom til löndunar á Seyðisfirði í gærkvöldi með um 90 tonna afla. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að þorskveiði hafi verið treg á hinum hefðbundnu austfirsku togaramiðum og áberandi sé að fiskurinn sé farinn að gæða sér á makríl. „Það sést makríll víða í þorski á okkar hefðbundnu miðum og staðreyndin er sú að þorskveiðin gengur illa. Það er að vísu ekki óalgengt að þorskur veiðist ekki hér eystra um þetta leyti árs og það var reyndar þannig áður en makríll varð áberandi á miðunum. Líklega er hann uppi í sjó að éta. Við reyndum fyrir okkur í Hvalbakshallinu, á Fætinum og á Breiðdalsgrunni og það var alls staðar sama sagan. Fengum dálítið af þorski út á Þórsbanka um tíma en svo hvarf hann líka. Það hefur verið töluvert um kolmunna á þessum slóðum en nú virðist þorskurinn ekki líta við honum, hann virðist hins vegar gráðugur í makrílinn – það er líklega veisla hjá honum. Mér þætti ekki ósennilegt að við færum vestur í næsta túr á meðan ástandið er svona hér eystra. En þetta ástand getur síðan breyst á örskammri stundu,“ sagði Steinþór.

Stór og falleg síld í Norðfirði

DSC03249

                Dragnótabáturinn Geir ÞH hefur verið að ýsuveiðum á Norðfjarðarflóa og fjörðunum sem ganga inn úr flóanum að undanförnu. Sigurður Kristinsson skipstjóri segir að óvenju líflegt sé á þessum slóðum miðað við árstíma. „Hér er býsna mikið af síld á ferðinni og það lóðaði á síld inn allan Norðfjörð fyrr í dag. Þá er líka mikið um átu. Við fáum nokkrar síldar í hverju kasti og þetta er stór og falleg síld. Ég hef ekki kannað það sérstaklega en það kæmi mér ekki á óvart að hér sé um norsk-íslenska síld að ræða. Við reyndum fyrir okkur í Viðfirði og þar fengum við eingöngu þorsk sem var fullur af síld. Síldinni fylgja hvalir og hér voru tvö stórhveli í flóanum í morgun,“ sagði Sigurður.

Samfélagsspor Síldarvinnslunnar 2016

1

Nú hefur endurskoðunarfyrirtækið Deloitte reiknað út svonefnt samfélagsspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árið 2016. Samfélagsspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar töldust árið 2016 auk móðurfélagsins Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurverksmiðjan Laxá hf., Runólfur Hallfreðsson ehf. og SVN eignafélag ehf.

Hér skal getið um nokkrar athyglisverðar niðurstöður samfélagssporsins:

-          Rekstrartekjur samstæðunnar námu 22,4 milljörðum króna á árinu 2016.

-          Fjöldi ársverka var 347.

-          Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu var 10,9 milljónir króna.

-          Samfélagssporið nam 13,2 milljónum króna fyrir hvern starfsmann á árinu 2016.

-          Til viðbótar við samfélagssporið styrkir Síldarvinnslan ýmis konar lista- og menningarstarfsemi, björgunarsveitir, íþróttafélög, sjúkrastofnanir og fleiri samfélagsleg verkefni að upphæð 50-60 milljónir króna á ári.

-          Veiðigjöld námu 600 milljónum króna árið 2016.

-          Á árinu 2016 greiddi samstæðan 110 milljónir króna í kolefnisgjald.

-          Alls námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna á árinu 2016. Ekki eru metin margfeldisáhrif vegna kaupa á innlendum vörum og þjónustu.

Hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um samfélagssporið. 

2

3

4

5

6

7

Síldarvinnslan hyggst endurnýja allan ísfisktogaraflota sinn

pjimage

Skipin sem verða endurnýjuð.

                Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var sl. föstudag kom fram að áformað er að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins á næstu árum. Skipin sem hér um ræðir eru Barði NK, Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE. Togararnir Barði og Gullver eru gerðir út af Síldarvinnslunni en Vestmannaey og Bergey eru gerðir út af dótturfélaginu Bergur-Huginn. Barði NK var smíðaður árið 1989, Gullver árið 1983, en Vestmannaey og Bergey árið 2007. Þegar er hafinn undirbúningur að þessu umfangsmikla verkefni og reyndar hófst hann á síðasta ári að sögn Gunnþórs B. Ingvasonar framkvæmdastjóra. „Sem liður í þessari endurnýjun var Bjartur NK seldur á síðasta ári til Íran og um þessar mundir er unnið að sölu á Barða NK til Rússlands. Blængur NK, áður Freri RE, hefur verið endurbyggður sem öflugur frystitogari og var hann tekinn í notkun fyrr á þessu ári. Hvað varðar söluna á Barða þá mun myndast eitthvað tómarúm frá sölunni og þar til nýtt skip kemur og verður leitast við að bjóða sjómönnunum sem lenda í slíku millibilsástandi störf á öðrum skipum félagsins eða í landi auk þess sem aðrar lausnir verða skoðaðar. Endurnýjun skipa eins og hér um ræðir er stór ákvörðun en stefnan er skýr; fyrirtækið vill vera í fremstu röð hvað varðar hagkvæmni í rekstri, meðhöndlun afla og starfsumhverfi sjómanna. Þetta er metnaðarfullt og ögrandi verkefni sem felur í sér stórt framfaraskref,“ sagði Gunnþór.   

Bæjarstjórinn með viðtalstíma í fiskiðjuverinu

Þriðjudaginn 20. júní á milli kl. 10 og 12 verður Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri í Fjarðabyggð með viðtalstíma á setustofu fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Er allt starfsfólk Síldarvinnslunnar sem telur sig eiga erindi við bæjarstjórann hvatt til að nota þetta tækifæri og ræða við hann. Hér er um að ræða ánægjulega nýjung þar sem bæjarstjórinn fer um bæjarkjarna sveitarfélagsins og býður starfsfólki stórra vinnustaða upp á samtal.

Bæjarstjórinn með viðtalstíma í fiskiðjuverinu

 

Stjórn Síldarvinnslunnar endurkjörin

DSC05074

Stjórn Síldarvinnslunnar ásamt Gunnþóri B. Ingvasyni framkvæmdastjóra. Ljósm: Smári Geirsson

Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. föstudag var stjórn félagsins endurkjörin. Stjórnin er þannig skipuð:

Anna Guðmundsdóttir

Björk Þórarinsdóttir

Guðmundur Rafnkell Gíslason

Ingi Jóhann Guðmundsson

Þorsteinn Már Baldvinsson

Varamenn:

Arna Bryndís Baldvins McClure

Halldór Jónasson

Stjórnarformaður er Þorsteinn Már Baldvinsson en hann hefur gegnt formennskunni frá árinu 2003.

Sjómannadagurinn 2017

DSC05055

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2016

SVN-LOGO2 Prent

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2016 var haldinn í dag, föstudaginn 9. júní.

 • Hagnaður ársins nam 4.100 milljónum króna.
 • Opinber gjöld af starfsemi fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4.600 milljónum króna. 
 • Eiginfjárhlutfall er 63%.
 • Afli skipa samstæðunnar var 138 þúsund tonn.
 • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 124 þúsund tonnum af hráefni.
 • Fiskiðjuverið tók á móti 53 þúsund tonnum af hráefni til frystingar.
 • Um frystigeymslur félagsins fóru 74 þúsund tonn af afurðum.
 • Framleiddar afurðir voru 90 þúsund tonn.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2016 voru alls 18,4 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 13,0 milljörðum króna.  EBITDA var 5.400 milljónir króna.   Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 580 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 5.100 milljónum króna. Reiknaður tekjuskattur nam 1.000 milljónum króna og var hagnaður ársins því 4.100 milljónir króna.  

Gjöld til hins opinbera

Á árinu 2016 greiddi Síldarvinnslan og starfsmenn 4.600 milljónir króna  til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur og veiðigjöld námu samtals 2.000 milljónum króna. Starfsmenn fyrirtækisins greiddu 1.300 milljónir í staðgreiðslu af launum.

Fjárfestingar

Samtals námu fjárfestingar félagsins 2.600 milljónum króna og voru þær þáttur í að auka verðmætasköpun félagsins. Stærsta einstaka fjárfesting ársins voru kaup félagsins á 37,2% hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Eftir kaupin á Síldarvinnslan 75,2% hlut í félaginu. Helstu fjárfestingarnar í fastafjármunum voru áframhaldandi uppbygging á  uppsjávarvinnslu félagsins.

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2016 voru bókfærðar á 46,6 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 9 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 17,3  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 29,3 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 63%.

Starfsemi

Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var um 19.500 tonn að verðmæti 4.700 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 118 þúsund tonn að verðmæti 4.500 milljónir. Heildaraflaverðmæti afla skipanna var 9.300 milljónir króna og aflamagn 138.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 124 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2016. Framleidd voru 28 þúsund tonn af mjöli og 8 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru framleidd 36 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu að verðmæti 6.800 milljónir króna.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 53 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru tæp 40 þúsund tonn. Þar vega makrílafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks loðnuafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 7.200 milljónir króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 74 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals nam framleiðsla á afurðum rúmum 90 þúsund tonnum á árinu 2016 að verðmæti 18,2 milljarðar króna.

Starfsmenn

Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 347 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 3.800 milljónir króna á árinu 2016 en af þeim greiddu starfsmenn 1.300 milljónir í skatta.

Aðalfundur

Á fundinum var samþykkt að greiða 1.200 milljónir króna í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2016. Þá var samþykkt að laun stjórnarmanna yrðu 165 þúsund kr. á mánuði.

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. föstudaginn 9. júní 2017.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.

550 tonna kolmunnahol í Rósagarðinum

Beitir NK að dæla kolmunna í Rósagarðinum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að dæla kolmunna í Rósagarðinum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÍ fyrradag var hörkuveiði hjá kolmunnaskipunum í Rósagarðinum 65 mílur suðaustur af landinu. Beitir NK tók tvö hol þennan dag og fékk 550 tonn í öðru og 500 tonn í hinu. Bjarni Ólafsson AK fékk einnig góðan afla og fiskurinn þarna er „ofboðslega fallegur og stór“ að sögn Runólfs Runólfssonar skipstjóra. Bjarni landaði 1.300 tonnum á Seyðisfirði í gær.

Beitir er að landa 1.900 tonnum í Neskaupstað í dag og þar af fengust 1.700 tonn í Rósagarðinum. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að veiðin hafi verið mjög góð í fyrradag en lítil í gær. „Það er mikil hreyfing á fiskinum þarna og veiðin er dálítið köflótt. Í fyrradag sást töluvert af fiski en minna í gær. Við fengum tvö yfir 500 tonna hol í fyrradag og það er ágætt. Vonandi verður áframhald á þessu,“ sagði Sturla.

Gert er ráð fyrir að kolmunnaskipin haldi á ný til veiða í Rósagarðinum eftir sjómannadagshelgina.

Blængur sneisafullur af úthafskarfa

Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með fullfermi af úthafskarfa. Veiðiferðin tók 21 dag en skipið var 16 daga að veiðum. Aflinn var 560 tonn upp úr sjó eða 15.600 kassar. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að Blængur sé einstaklega heppilegt skip til veiða eins og þessara, það sé öflugt og kraftmikið í alla staði. „Veiðin gekk afar vel þarna á Reykjaneshryggnum. Við enduðum til dæmis á því að taka 35 tonna hol eftir tíu tíma. Og vinnslan er alltaf að ganga betur og betur þó enn megi bæta afköstin. Það er ávallt verið að sníða vankanta af vinnslulínunni og það tekur dálítinn tíma. Afköstin hjá okkur voru 700 kassar á sólarhring fyrst í túrnum en í lokin vorum við komnir í 1140 kassa. Veðrið var fínt megnið af túrnum. Það kom ein bræla og við þurftum þá að stoppa í 18 tíma. Það voru einungis fjögur íslensk skip að úthafskarfaveiðum að þessu sinni. Auk okkar voru það Vigri, Þerney og Arnar. Að auki var þarna fjöldi erlendra skipa. Síðustu dagana vorum við eina íslenska skipið að veiðum auk eins Spánverja og nokkurra Rússa. Skipin höfðu lokið úthafskarfaveiðum, voru búin með kvóta sína,“ sagði Theodór.

Löndun hefst úr Blængi í fyrramálið en áhöfnin mun njóta sjómannadagshelgarinnar að lokinni þessari vel heppnuðu veiðiferð.

Sjómannadagshelgin er framundan

Sigling 2015

               Hópsigling norðfirska flotans á sjómannadegi 2015. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson

Fyrst var haldið upp á sjómannadaginn hér á landi árið 1938. Í Neskaupstað var hins vegar dagurinn fyrst haldinn hátíðlegur árið 1942 og voru það ýmis félagasamtök í bænum sem stóðu fyrir hátíðarhöldunum. Dagskrá hátíðarhaldanna í Neskaupstað árið 1942 mörkuðu að miklu leyti þá megindrætti sem einkenndu hátíðarhöldin um árabil. Í fyrsta lagi var efnt til hópsiglingar norðfirska flotans. Í öðru lagi fór fram sýning björgunartækja og björgunar í stól. Í þriðja lagi var efnt til kappróðurs. Í fjórða lagi var samkoma í skrúðgarðinum með ræðuhöldum og fjölbreyttri dagskrá. Í fimmta lagi var minningarathöfn við leiði óþekkta sjómannsins í kirkjugarðinum. Í sjötta lagi íþróttakeppni á íþróttavellinum og í sjöunda lagi dansleikur um kvöldið. Strax á árinu 1943 var útisamkoman í skrúðgarðinum flutt að sundlauginni sem einmitt var tekin í notkun það ár. Við sundlaugina fóru fram ræðuhöld, tónlistarflutningur, koddaslagur, stakkasundskeppni og fleira. Síðar var reiptogið einnig flutt að sundlauginni.

Róður 2016

Kappróður 2016. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson            

    Dagskrá sjómannadagsins höfðaði vel til íbúa bæjarins, ekki síst barnanna. Það var ævintýri fyrir þau að sigla með bátunum í hópsiglingunni og það var svo sannarlega spennandi að fylgjast með kappróðrinum svo ekki sé talað um koddaslaginn og reiptogið.

                Á árinu 1945 var ákveðið að sjómannadagsráð Neskaupstaðar yrði einungis skipað fulltrúum sjómanna og útvegsmanna og var svo um langt skeið. Undanfarna áratugi hefur ráðið að mestu verið skipað áhugamönnum um hátíðarhöldin og í þeim hópi hafa verið starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja og fyrrverandi sjómenn. Hafa hátíðarhöldin vaxið að umfangi og undanfarna áratugi hafa þau gjarnan staðið yfir í fjóra daga. Hefur sjómannadagsráð oft fengið félagasamtök til liðs við sig svo hátíðarhöldin geti verið sem glæsilegust.

reipitog 2016

Reiptog við sundlaugina á sjómannadegi 2016. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson

                Hér fylgir dagskrá sjómannadagshátíðarhaldanna um komandi helgi og kennir þar ýmissa grasa:

Hátíðarhöld Sjómannadagsins í Neskaupstað

2017

 

Fimmtudagur 8.júní

kl. 18:30-              Pizzahlaðborð í Capitano

kl. 20:30-21:30     Happy Hour   á Kaupfélagsbarnum opið til 01:00

kl. 22:00-              Egilsbúð  Brján ROCKNES,aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

Föstudagur     9.júní

kl. 10:00               Miðbærinn skreyttur og fánar dregnir að húni.

kl. 20–23.00         Unglingaball í Atóm

kl. 22:00-             Egilsbúð, Steinar og Bjarni, aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

kl. 23:00-01:00     Kaupfélagsbarinn opin

           

Laugardagur  10.júní

kl. 10:00               Myndlistasýning í Nesbæ kaffihúsi

kl.10:00-12:00      Hópsigling Norðfirska flotans – allir velkomnir - talsamband á rás 12

                             Smábátaeigendur eru hvattir til þátttöku á bátum sínum. Börn skulu vera í fylgd fullorðinna.

kl. 11:30-13:30     „Bröns“ í Hotel Capitano

kl. 13:00               Sjóva Kvennahlaup ÍSÍ farið frá Nesbæ kaffihúsi

kl. 13:00-15:00     Hoppikastalar á bryggju neðan við kirkjuna , sjá nánar á  http://www.hopp.is

kl. 14:00               Kappróður

kl. 23:00-01:00     Kaupfélagsbarinn opin

kl. 23.00-03:00    Egilsbúð, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannsonar  aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500 kr

           

Sunnudagur    11.júní

kl. 09:00               Sjómannadagsmót GN og Gjögurs á Norðfjarðarvelli

kl. 09:30               Skip og bátar draga íslenska fánann að húni –bæjarbúar flaggi sem víðast.

kl. 11:00               Dorgveiðikeppni 12 ára og yngri – skráning við Jósafatsafn

    Allir þátttakendur skulu vera í björgunarvestum og mæta vel fyrir tímann.

kl. 12:00               Grillveisla að hætti Jóns Gunnars í boði SVN og Fellabakarís

kl. 11:30-14:00              3 rétta Sjómannadagsmatseðill á 6900 kr í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel

kl. 14:00               Hátíðarmessa í Norðfjarðarkirkju.

Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson. Kór Norðfjarðarkirkju syngur. Að messu lokinni verður lagður blómsveigur við minnisvarðann um óþekkta sjómanninn í kirkjugarðinum

kl. 14:30 -18:00             Kaffisala Gerpis að Nesi   Allur ágóði rennur til björgunarstarfa sveitarinnar.

kl. 15:00               Leikfélagið Djúpið með andlitsmálingu og fleira fyrir börnin á bílastæði við sundlaug

kl. 15:30               Hátíðardagskrá við sundlaugina: 

 •           Heiðrun.
 •           Björgunarbátasund áhafna.
 •           Reiptog, koddaslagur, skráning hjá Halla Egils. 6611790.
 •           Verðlaunaafhendingar.

kl. 18:00-              3 rétta Sjómannadagsmatseðill á 6900 kr í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel             

                        Hvetjum alla sem hlotið hafa heiðursmerki Sjómannadagsins til þess að bera það.

 

Sjómannadagsráð Neskaupstaðar og samstarfsaðilar:

Bjsv Gerpir, Haki, Sún, SVN, G. Skúlason og Hafnarsjóður Fjarðabyggðar.                     

Allar fyrirspurnir vinsamlegast sendar á  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kaupið merki dagsins!

Undirflokkar