Hluthafafundur Síldarvinnslunnar hf 26 mars 2021

Fundarboð Hluthafafundur Síldarvinnslunnar hf.

 

Verður haldinn föstudaginn 26. mars 2021 í Safnahúsinu, Neskaupstað, kl. 11:00. Athygli er vakin á því að vegna sóttvarnarreglna kann að vera nauðsynlegt að skipta upp fundinum.

 

Dagskrá:

 1. Breytingar á samþykktum félagsins skv. tillögu stjórnar

Breytingar eru fyrst og fremst gerðar vegna fyrirhugaðrar skráningar félagsins á verðbréfamarkað.

Helstu breytingar í 2. kafla:

 • Samþykki hluthafafundar þarf til hækkunar hlutafjár og hluthafar hafa forgangsrétt að öllum nýjum hlutum í hlutfalli við skrásetta hlutafjáreign sína, sbr. grein 2.02.
 • Hlutir verði gefnir út rafrænt, sbr. 2.03.
 • Heimilt er að nota rafræn skjalasamskipti og rafpóst í samskiptum milli félagsins og hluthafa, t.a.m. við boðun hluthafafunda, sbr. grein 2.06.

Helstu breytingar í 4. kafla:

 • Stjórn er heimilt að ákveða að hluthafar geti tekið þátt í fundarstörfum hluthafafunda með rafrænum hætti í samræmi við 80. gr. a hlutafélagalaga, sbr. grein 4.02.
 • Tekið út ákvæði þess efnis að hluthafafundur sé lögmætur ef hann sækja hluthafar sem hafa yfir að ráða a.m.k helming af atkvæðisbæru hlutafé. Nú kveðið á um að hluthafafundur sé lögmætur án tillits til fundarsóknar, ef löglega er til hans boðað, sbr. grein 4.04.
 • Bætt við ákvæði um að skjöl og upplýsingar í samræmi við 88. gr. d hlutafélagalaga skuli vera aðgengileg hluthöfum 21 degi fyrir hluthafafund.

Helstu breytingar í 5. kafla:

 • Breytingar á ákvæði um kynjahlutföll í stjórn, sbr. grein 5.02.
 • Bætt við ákvæði þess efnis að séu kjörnar nefndir á vegum stjórnar skuli niðurstöður þeirra eingöngu vera leiðbeinandi fyrir stjórnina, sbr. grein 5.05.

 

 1. Tillaga um að færa eignarhlut félagins í SVN eignafélagi ehf. yfir til hluthafa en farið er með afhendingu sem arðsúthlutun í skattalegu tilliti. Hluthafar eigi kost á því að fara fram á greiðslu í reiðufé að frádregnum fjármagnstekjuskatti.
 1. Önnur mál, löglega fram borin

 

Stjórn Síldarvinnslunnar hf.

Vinnslan gengur vel í frystihúsinu á Seyðisfirði

Frystihús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonFrystihús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonÁvallt er full starfsemi í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Að sögn Ómars Bogasonar rekstrarstjóra er húsið nánast fullmannað og enginn skortur á hráefni. „Við höfum að undanförnu mest verið að frysta á Ameríku og Evrópu en upp á síðkastið hefur heldur lágt verð verið á mörkuðum fyrir ferskan fisk. Vinnslan gengur vel enda höfum við verið að fá frábært hráefni. Við höfum mest verið að vinna þorsk og höfum fengið fisk af Eyjunum, Vestmannaey VE og Bergey VE, og síðan hefur fiskur einnig verið keyptur á mörkuðum. Heimaskipið Gullver NS hefur verið í togararalli og því hefur ekki komið hráefni frá honum, en rallinu lauk í gærkvöldi þannig að brátt fer hann að færa okkur fisk eins og hann hefur gert. Ég get ekki annað sagt en staðan hjá okkur sé býsna góð og auk þess er vor í lofti,“ segir Ómar.
 
Í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði starfa 35 manns og er það stærsti vinnustaðurinn í bænum.
 
 

Skipin fyllt á innan við tveimur sólarhringum

Landað úr Eyjunum í Vestmannaeyjahöfn í gærmorgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Eyjunum í Vestmannaeyjahöfn í gærmorgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Eyjarnar tvær, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Skipin höfðu farið út á fimmtudag og komið til hafnar á laugardag eftir að hafa aflað vel. Það er dótturfélag Síldarvinnslunnar, Bergur-Huginn, sem gerir Eyjarnar út og Arnar Richardsson rekstrarstjóri Bergs-Hugins segir að engin leið sé að kvarta undan aflabrögðum. „Hér eru menn ágætlega brattir og okkur líst vel á vertíðina. Það þykir gott að þurfa ekki tvo sólarhringa til að fylla skip eins og okkar. Þau voru að veiða hérna við Eyjarnar og aflinn var blandaður, en þessa dagana leggjum við einmitt mikla áherslu á blandaðan afla. Við erum komnir í vertíðargírinn og hér eru menn bjartsýnir,“ segir Arnar.
 
Báðar Eyjarnar héldu til veiða í hádeginu í gær að löndun lokinni.
 
 
 

Fínasta fiskirí

Landað úr Bergey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Bergey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÞað hefur verið fínasta fiskirí hjá Eyjunum að undanförnu. Bæði Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum sl. sunnudag og Bergey landaði á ný fullfermi á þriðjudag og Vestmannaey á miðvikudag. Bergey kom síðan til hafnar með 45 tonn í gær. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að það sé að koma vertíðarbragur á veiðarnar. „Við höfum verið að afla vel og aflinn hefur verið blandaður. Við höfum mest verið á Víkinni og Pétursey, Selvogsbankanum og sunnan við Surt. Það hefur að mestu verið gott veður þannig að þetta hefur bara gengið nokkuð vel,“ segir Jón.
 
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Jóni og segir að vel hafi gengið að fiska. „Tveir síðustu túrar hjá okkur hafa gengið vel. Við höfum fyllt skipið á um tveimur sólarhringum. Annars finnst mér vertíðarfiskurinn vera heldur seint á ferðinni til dæmis inn á Selvogsbankann. Það er ekki enn komið það magn inn á svæðið sem gera má ráð fyrir þó fiskist ágætlega. Við höfum verið að eltast við allar tegundir að undanförnu og höfum helst verið að veiða á Pétursey og Vík, í Háfadýpinu og á Planinu við Einidrang. Mér finnst þetta líta ágætlega út,“ segir Birgir Þór.