Stöð 2 um borð í Beiti

Fréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson og myndatökumaðurinn Sigurjón Ólason um borð í Beiti NKFréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson og myndatökumaðurinn Sigurjón Ólason um borð í Beiti NKFréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson og myndatökumaðurinn Sigurjón Ólason frá Stöð 2 fóru með loðnuskipinu Beiti NK í veiðiferð sl. laugardag. Efni úr veiðiferðinni hefur þegar birst í fréttum og meðal annars var sent beint út frá miðunum. Ráðgert er að sýna meira efni frá veiðiferðinni í þættinum Um land allt sem á að fjalla um loðnuvertíðina og verður væntanlega á dagskrá í lok mánaðarins. Heimasíðan ræddi við Kristján Má og spurði hvernig hefði verið að upplifa loðnuveiðarnar. „Það var alveg stórkostlegt. Veðrið var gott og þarna vorum við á öflugasta fiskiskipi flotans bæði með tilliti til burðargetu og vélarstærðar. Það var líka tekið svo vel á móti okkur um borð. Við fórum um borð í skipið í Helguvík klukkan átta á laugardagsmorguninn og okkur var skilað þangað aftur að loknum veiðunum upp úr miðnætti þannig að ekki var um langa veiðiferð að ræða. Haldið var á miðin og veitt 5-6 mílur suðvestur af Lóndröngum og þarna var hörkuveiði. Beitir byrjaði á að dæla úr nótum Polar Amaroq og Hugins og síðan var kastað þrisvar. Í fyrsta kasti fengust 200 tonn, 680 tonn í því næsta og í síðasta kastinu voru 700 tonn. Síðan var haldið áleiðis til Neskaupstaðar með 2200 tonn með viðkomu í Helguvík. Þetta var falleg loðna sem hentar vel til hrognavinnslu, hrognahlutfallið var afar hátt,“ segir Kristján.
 
Kristján Már Unnarsson og Sturla Þórðarson skipstjóri í brúnni á Beiti NKKristján Már Unnarsson og Sturla Þórðarson skipstjóri í brúnni á Beiti NKKristján sagði að þessi veiðiferð markaði tímamót að því leyti að líklega hefði aldrei áður verið sent beint út frá fiskveiðum við Ísland. Þá gat hann þess einnig hvað þeir Sigurjón hefðu orðið hrifnir af öllum aðbúnaði um borð í skipinu. „Þarna um borð er allt svo hreint og fínt og hver og einn úr áhöfninni hefur sína svítu,“ segir Kristján að lokum.
 
 
 
 
 
 
 
 

Samningur um smíði 380 tonna verksmiðju undirritaður

Frá undirritun samningsins í gær. Talið frá vinstri: Hafþór Eiríksson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja, Jón Már Jónsson yfirmaður landvinnslu, Gunnar Pálsson verkfræðingur hjá Hamri, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri, Ragnar Sverrisson framkvæmdastjóri Hamars og Jakob Valgarð Óðinsson tæknifræðingur hjá Hamri. Ljósm. Smári GeirssonFrá undirritun samningsins í gær. Talið frá vinstri: Hafþór Eiríksson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja, Jón Már Jónsson yfirmaður landvinnslu, Gunnar Pálsson verkfræðingur hjá Héðni, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri, Ragnar Sverrisson framkvæmdastjóri Héðins og Jakob Valgarð Óðinsson tæknifræðingur hjá Héðni Ljósm. Smári GeirssonÍ gær var undirritaður samningur við vélsmiðjuna Héðin um smíði á 380 tonna fiskimjölsverksmiðju sem sett verður upp í Neskaupstað. Nýlega var greint frá því að Síldarvinnslan hygðist stækka fiskimjölsverksmiðju sína í Neskaupstað úr 1400 tonna sólarhringsafköstum í 2000 tonna afköst og jafnframt yrði komið upp lítilli verksmiðjueiningu sem gæti afkastað allt að 380 tonnum á sólarhring en umræddur samningur fjallar einmitt um þá einingu. Heildarafköstin verða þannig 2380 tonn á sólarhring eftir þessar framkvæmdir.
 
Samningurinn við Héðin um smíði á litlu verksmiðjueinunginni er upp á 1,7 milljarð króna og samkvæmt honum er gert ráð fyrir að verksmiðjan verði afhent í maímánuði 2022.
 
Tilgangurinn með því að koma upp lítilli verksmiðjueiningu er að auka hagkvæmni til dæmis með því að spara orku og gert er ráð fyrir að á síldar- og makrílvertíð verði einungis litla verksmiðjan starfrækt enda fer megnið af síldinni og makrílnum til manneldisvinnslu. Á smærri loðnuvertíðum ætti einnig að vera nægilegt að reka einungis litlu verksmiðjueininguna. Sem dæmi má nefna að á yfirstandandi vertíð voru 9700 tonn af loðnu fryst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en einungis 120 tonn fóru til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni. Vinnsla á kolmunna mun hins vegar fara fram í stóru verksmiðjunni sem verður þá rekin með hámarksafköstum.
 
Síldarvinnslan hefur um nokkurra ára skeið unnið að þróunarverkefnum með MATÍS þar sem skoðaðir eru möguleikar á að framleiða verðmætara prótein og lýsi úr því hráefni sem kemur til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni. Það er ekki síst aukinn ferskleiki hráefnisins sem gerir það kleift að auka verðmætin. Samhliða þeim framkvæmdum sem áður er lýst hefur verið unnið að uppsetningu á lítilli tilraunaverksmiðju með spreyþurrkun og ýmsum öðrum búnaði með möguleika á annars konar framleiðslu en hefð er fyrir.  

Hrognavinnslan fer vel af stað

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri fylgist náið með hrognavinnslunni. Ljósm. Hákon ErnusonJón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri fylgist náið með hrognavinnslunni. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á loðnuhrognum hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í gærkvöldi þegar byrjað var að landa úr Beiti NK sem kominn var með liðlega 2000 tonn. Þegar var byrjað að kútta loðnuna og hreinsa og dreina hrognin en pökkun átti að hefjast nú um hádegisbil. Heimasíðan ræddi við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra og spurði hvernig hrognavinnslan færi af stað. „Hún fer vel af stað og allur búnaður hefur reynst vera í besta lagi og virkar vel en hann hefur ekki verið notaður í þrjú ár. Við fórum frekar rólega af stað en erum að kútta um það bil 70 tonn á tímann. Það eru allir ánægðir með að hrognavinnslan skuli vera hafin og þá ekki síst fulltrúar japönsku kaupendanna sem hér eru og fylgjast nákvæmlega með öllu. Það verður unnið í hrognunum á tveimur vöktum og það eru 25 manns á hvorri vakt þegar iðnaðarmenn eru meðtaldir. Við gerum ráð fyrir að ljúka við loðnuna í Beiti í fyrramálið en þá mun Börkur væntanlega koma og síðan Bjarni Ólafsson. Veiðin er fyrir vestan land og það er 30 tíma sigling til Neskaupstaðar af miðunum en hann spáir blíðuveðri þannig að þetta lítur allt afar vel út,“ segir Jón Gunnar.

Hrognavinnslan komin í fullan gang. Ljósm. Hákon ErnusonHrognavinnslan komin í fullan gang. Ljósm. Hákon Ernuson

Hrognin eru að koma

Beitir NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 2000 tonn af hrognaloðnu og er væntanlegur í kvöld. Þar með mun hrognavinnsla hefjast í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Beitir fékk 1750 tonn á Faxaflóa í gær í þremur köstum. Börkur NK tók síðan eitt rúmlega 400 tonna kast og var afla hans dælt um borð í Beiti.
 
Gert er ráð fyrir að Börkur veiði í dag og Bjarni Ólafsson AK á morgun en skipulag veiðanna tekur mið af afkastagetu hrognavinnslunnar. Það skiptir mjög miklu máli hvernig gengur að veiða hrognaloðnuna og vinna hrognin en þau eru verðmætasta afurð vertíðarinnar. Móttaka hrognaloðnunnar hefur verið undirbúin að undanförnu og nú er allt klárt.