Samfelld loðnuvinnsla og víða loðnu að sjá

Loðnuvinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonLoðnuvinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað.
Ljósm. Hákon Ernuson
Samfelld loðnuvinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað síðustu dagana. Lokið var við að landa 1100 tonnum úr Berki NK sl. nótt og var þá hafist handa við að þrífa en Beitir NK kom síðan klukkan sjö í morgun með 1200 tonn. Aflann fékk Beitir að mestu í Háfadýpinu austan við Vestmannaeyjar og er um að ræða fínustu Japansloðnu með upp í 19% hrognafyllingu og lítilli átu. Bjarni Ólafsson AK hélt til loðnuveiða sl. miðvikudagskvöld og er gert ráð fyrir að hann verði kominn með afla til Neskaupstaðar þegar vinnslu úr Beiti lýkur.
 
Það fréttist víða af loðnu. Til dæmis fékk grænlenska skipið Polar Amaroq góðan afla í gær út af Hornafirði og norsk skip greindu frá því að margar góðar torfur væru austur af Norðfjarðarhorni. Þá hafa einnig borist loðnufréttir frá Grímsey. Heimasíðan ræddi við Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq í morgun en þá var skipið statt á Selvogsbankanum. „Þetta er bara hörkuloðnuvertíð. Auðvitað mætti vera meiri kvóti en menn eru að gera mikil verðmæti úr því sem aflast. Þetta er fimmti veiðitúrinn hjá okkur en við erum búnir að landa fjórum sinnum fullfermi af frystri loðnu. Nú liggjum við bara og erum að vinna, það eru engin vandræði að fá í vinnsluna hæfilega skammta. Það virðist vera loðna alveg héðan frá Selvogsbankanum og austur fyrir land. Þetta er heilmikil veisla. Við gerum ráð fyrir að landa á þriðjudaginn í Hafnarfirði,“ segir Geir.
 
Loðnan sem berst að landi er stór og fallleg. Ljósm. Smári GeirssonLoðnan sem berst að landi er stór og fallleg.
Ljósm. Smári Geirsson
Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að vinnslan á loðnunni gangi mjög vel og afköstin séu góð. „Þetta er fínasta loðna með góðri hrognafyllingu og við heilfrystum hana.  Japanirnir eru afar sáttir við þessa loðnu þannig að það er allt í góðu standi. Við gerum síðan ráð fyrir að hefja framleiðslu á loðnuhrognum um mánaðamótin. Þá verður loðnan farin að losa pokann og þá er kominn tími til að byrja að kútta,“ segir Jón Gunnar.
 
 
 
 
 
 
 

Áhyggjur af ýsunni – allt of mikið af henni miðað við kvóta

Landað úr Vestmannaey VE og Bergey VE í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Vestmannaey VE og Bergey VE í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBæði skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu fullfermi eða rúmlega 70 tonnum í Vestmannaeyjum í gær. Afli beggja skipa var blandaður; þorskur, ufsi og karfi. Heimasíðan ræddi við skipstjórana, Birgi Þór Sverrisson á Vestmannaey og Jón Valgeirsson á Bergey, og spurði þá hvort vertíðarfiskur væri farinn að sjást. Birgir sagði að hann væri að byrja að ganga og drjúgur hluti afla Vestmannaeyjar hefði verið stór vertíðarþorskur. “Við byrjuðum á Selvogsbankanum með fótreipistroll en færðum okkur síðan í Háfadýpið. Það gekk vel að fiska. Það sem ég hef helst áhyggjur af um þessar mundir er ýsan. Það er búið að veiða mjög mikla ýsu miðað við kvóta og ég er hræddur um að mörg skip lendi í vandræðum á vertíðinni vegna þess að ýsan vill blandast þorskinum. Það er semsagt lítill ýsukvóti en gífurleg ýsugengd og það er ýsa alls staðar, hún er fyrir vestan, sunnan, norðan og austan. Og þetta er bæði smá ýsa og stór. Við á skipum Bergs-Hugins erum vel settir með ýsukvóta miðað við aðra en samt höfum við áhyggjur af stöðunni. Ég held að magnið af ýsu við landið sé í hámarki, allavega man ég ekki eftir slíku áður og það eru allir að flýja ýsuna,” segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson tekur undir með Birgi hvað ýsuna varðar. “Það er rétt að ýsan er að verða vandamál. Það má kannski kalla það lúxusvandamál vegna þess að það er óþægilega mikið af henni alls staðar og hvergi friður fyrir henni. Annars gekk vel hjá okkur í veiðiferðinni. Við vorum á Selvogsbankanum og fengum þar rígaþorsk og dálítið af ufsa og fleiri tegundum. Það er aðeins að koma vertíðarbragur á þetta. Sannast sagna var þessi túr eins þægilegur og hugsast getur; stutt að fara, blíðuveður og fínt fiskirí,” segir Jón.

17% hrognafylling

Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Verið að ljúka við að landa úr Beiti NK og Börkur NK kominn með 1100 tonn af gæðaloðnu. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonFrá Norðfjarðarhöfn í morgun. Verið að ljúka við að landa úr Beiti NK og Börkur NK kominn með 1100 tonn af gæðaloðnu. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1100 tonn af loðnu. Byrjað var að vinna úr honum um hádegi en þá var lokið við að vinna 900 tonn sem Beitir NK kom með í gær. Heimasíðan ræddi stuttlega við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði út í veiðiferðina. „Við fengum aflann í fjórum köstum í Meðallandsbugtinni. Tókum þrjú köst í gær og eitt 200 tonna kast á mánudagskvöld. Þetta er fínasta loðna; hrygnuhlutfall er gott, 17% hrognafylling og átan einungis 0,3. Þetta hlýtur að vera gott í Japanann. Það var ekki mikið að sjá af loðnu þarna í bugtinni í gær. Það var mun meira að sjá á mánudaginn. En þarna eru öll skipin að berja á þessu. Ég tel að þetta sé alls ekki fremsti hluti loðnugöngunnar og það eigi eftir að gjósa upp loðna í Háfadýpinu eða við Eyjar á næstu dögum. Annars er loðna mjög víða, meðal annars hérna fyrir austan,“ segir Hjörvar.

 

Þokkalegur brælutúr

Gullver NS kom til löndunar í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kom til löndunar í gær. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 83 tonn og uppistaða hans var þorskur og ýsa. Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri segir að veiði hafi verið nokkuð jöfn en túrinn hafi verið brælutúr. „Þetta var fjögurra daga túr og veiðin var þokkaleg eða allt í lagi. Við vorum mest að veiða á Herðablaðinu og í Litladýpi en í lokin fórum við í Lónsdýpið að leita að ufsa með afar litlum árangri,“ segir Rúnar.
 
Gullver mun halda á ný til veiða á morgun.