Jólatónleikar Síldarvinnslunnar og Eskju

Jólatónleikar Síldarvinnslunnar og EskjuSíldarvinnslan og Eskja bjóða starfsfólki sínu upp á glæsilega jólatónleika á netinu laugardaginn 12. desember nk. Útsending hefst kl. 20 og tónleikarnir hefjast kl. 20.30.
 
Á tónleikunum koma fram stórsöngvararnir Jóhanna Guðrún og Eyþór Ingi ásamt frábærri hljómsveit.
 
Nánari upplýsingar koma fram á auglýsingum á vinnustöðum.
                                                                          
Góða skemmtun !
 
 
 
 
 

Eyjarnar eru fyrir austan

Vestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonVestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson
Skip Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum hafa verið að veiða fyrir austan land að undanförnu og landað í Neskaupstað og á Eskifirði. Bergey VE landaði á þriðjudag í Neskaupstað og Vestmannaey VE á miðvikudag. Síðan landaði Bergey á ný á Eskifirði í gærmorgun. Nú liggja bæði skipin í höfn og bíða þess að óveðrið gangi yfir. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og spurði út í tíðarfarið. „Það eru búnar að vera helvítis brælur að undanförnu og erfitt tíðarfar, en það koma hlé inn á milli. Ég geri ráð fyrir að við förum út í nótt og það spáir vel næstu daga,“ segir Birgir Þór.

 

 

 

Enginn óútskýrður launamunur hjá Síldarvinnslunni þriðja árið í röð

Enginn óútskýrður launamunur hjá Síldarvinnslunni þriðja árið í röðÍ síðustu viku fór fram úttekt á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar. Fyrirtækið BSÍ á Íslandi framkvæmdi úttektina. Í slíkri úttekt er skoðað mjög ítarlega hvort fyrirtækið hagi launamálum í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Áður en til úttektar kom hafði farið fram greining á launagögnum þar sem skoðað var með svonefndri aðhvarfsgreiningu hvort einhvern óútskýrðan launamun væri að finna hjá fyrirtækinu. Svo reyndist ekki vera. Launagreiningin var framkvæmd af fyrirtækinu Intenta ehf. Úttekt BSÍ og launagreiningin staðfesta að Síldarvinnslan hagar launamálum sínum í samræmi við jafnlaunastaðalinn og að engan óútskýrðan launamun sé að finna hjá fyrirtækinu. Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar sagðist vera mjög ánægður með niðurstöðuna. “Við vitum alveg að launamálin hjá okkur eru faglega unnin, en það er alltaf gott að fá slíkt staðfest af óháðum aðilum. Það er skýrt í starfsmannastefnunni okkar, jafnréttis- og jafnlaunastefnunni, að þættir eins og kyn, kynhneigð og uppruni fólks eiga ekki að hafa nein áhrif á launasetningu. Slíkar úttektir staðfesta að svo er ekki, sem kemur okkur svo sem ekkert á óvart, enda er þetta þriðja úttektin af þessu tagi sem við förum í gegnum. Við stefnum nú sem endranær að því að borga laun samkvæmt samningum og lögum og að vera samkeppnishæf um góða starfsmenn af öllum kynjum,” segir Hákon.

Blængur úr Barentshafinu

Barentshafsfiski landað úr Blængi NK í gær. Ljósm. Smári GeirssonBarentshafsfiski landað úr Blængi NK í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun að loknum rúmlega mánaðar túr í Barentshafið. Afli skipsins var 536 tonn upp úr sjó og var verðmæti hans 176 milljónir króna. Heimasíðan bað Theodór Haraldsson skipstjóra um segja stuttlega frá veiðiferðinni. „Við héldum til veiða 22. október og það tók okkur þrjá og hálfan sólarhring að sigla þessar 1100 mílur á veiðisvæðið. Fyrstu tvo eða þrjá dagana var aflinn þokkalegur eða upp undir tvö tonn á tímann en það reyndist bara vera smá glenna. Það brældi síðan og þá hvarf fiskurinn að mestu. Það sem eftir var túrsins vorum við yfirleitt að fá 400-500 kg. á togtímann og það er of lítið til að menn séu sáttir. Við fengum fréttir um betri veiði annars staðar en sú reyndist ekki vera raunin. Við færðum okkur því aftur til baka og vorum í reynd að veiða allan tímann á Skolpenbankanum. Túrinn einkenndist því af heldur lítilli veiði og 15-20 metra vindi megnið af tímanum. Staðreyndin er sú að þetta var heldur lítið spennandi en geðheilsan um borð var samt ótrúlega fín. Þetta getur gerst og menn vita að það eru ekki alltaf jólin í þessum bransa, en auðvitað eru menn fegnir að koma heim. Heimsiglingin tók fjóra sólarhringa enda sigldum við suður með Noregi til að sleppa við illviðri og það lengdi siglinguna töluvert,“ segir Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða í fyrramálið.