Gullver með fínasta afla

Landað var úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonLandað var úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonÍ gær var landað úr ísfisktogaranum Gullver NS á Seyðisfirði. Skipið kom til hafnar aðfaranótt laugardags en vegna páskahátíðarinnar var beðið með löndunina. Skipstjóri í veiðiferðinni var Þórhallur Jónsson og segir hann að hún hafi gengið vel. „Aflinn var um 116 tonn og fékkst hann á fjórum sólarhringum eða svo. Uppistaða aflans var þorskur. Við vorum að veiðum í Hvalbakshallinu í ágætis veðri og vorum komnir til hafnar fyrir páskahretið,“ segir Þórhallur.
 
Gullver hélt til veiða á ný í gærkvöldi.

Loðnuvertíðin gekk eins og í sögu

Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonSegja má að nýliðin loðnuvertíð hafi gengið eins og í sögu. Alls varð afli íslensku skipanna á vertíðinni 70.726 tonn en 18 íslensk skip lönduðu afla og náðu þau öll sínum kvóta. Nánast allur aflinn fór til manneldisvinnslu, loðnan var heilfryst og undir lok vertíðar var öll áhersla lögð á hrognaframleiðslu. Beitir NK kom með mestan afla íslenskra skipa að landi, 7.330 tonn og Börkur NK var með þriðja mesta aflann, 6.465 tonn. Tekið skal fram að Beitir og Börkur höfðu samvinnu um veiðarnar. Bjarni Ólafsson AK, skip Runólfs Hallfreðssonar ehf. sem er dótturfélag Síldarvinnslunnar, landaði 2.099 tonnum á vertíðinni.
 
Á vertíðinni var landað 20.288 tonnum til vinnslu í Neskaupstað. Þar af lönduðu norsk skip 3.165 tonnum og grænlenska skipið Polar Amaroq landaði 1.169 tonnum.

Gullver með góðan afla

Landað úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonLandað úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonSíðdegis í gær kom ísfisktogarinn Gullver NS til Seyðisfjarðar með góðan afla að lokinni fimm daga veiðiferð. Aflinn var samtals 112 tonn og blandaður; mest af ýsu, 44 tonn og þorski, rúmlega 30 tonn. Steinþór Hálfdanarson stýrimaður segir að vel hafi fiskast þann tíma sem verið var að veiðum en tveir sólarhringar fóru í stím. „Við vorum að veiðum á Selvogsbankanum og því var drjúg vegalengd fram og til baka. Auk þess gerði kolvitlaust veður á laugardag og það hafði í för með sér 10-11 tíma frátöf frá veiðum. Við fórum upp undir Eyjar í brælunni en sem betur fer stóð hún stutt. Í túrnum vorum við því bara rúma þrjá daga að veiðum þannig að þetta voru yfir 30 tonna dagar hver um sig. Næsti túr verður hér á Austfjarðamiðum enda fáir dagar fram að páskum,“ segir Steinþór.
 
Löndun hófst úr Gullver strax og hann lagðist að bryggju og hélt skipið til veiða á ný í gærkvöldi.

Börkur er Benz

Smíðin á nýjum Berki er nú á lokastigi hjá skipasmíðastöð Karstensens í Skagen í Danmörku. Karl Eskil Pálsson fréttamaður hjá N4 heimsótti Skagen á dögunum og fræddist um smíði skipsins. Hér má skoða fréttamynd frá heimsókninni.