Jólakveðja

Jólakveðja

Skötuveislan sem engan svíkur

Skötumeistararnir, Ómar Sverrisson og Hafþór Eiríksson, klárir í veisluna og skatan tilbúin að fara í pottanaSkötumeistararnir, Ómar Sverrisson og Hafþór Eiríksson, klárir í veisluna og skatan tilbúin að fara í pottanaÍ tuttugu ár hefur verið boðið til skötuveislu á Þorláksmessu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Það eru starfsmenn verksmiðjunnar sem sjá um veisluna og er þá vísindalegri nákvæmni beitt. Líklega er þetta eina skötuveisla landsins þar sem mæling fer fram á styrk skötunnar. Ammoníak er mælt og síðan reiknað út svonefnt TVN-gildi. Þegar TVN-gildi hráefnis í verksmiðjunni fer yfir 100 heyrist í öllum viðvörunarbjöllum en öðru máli gegnir um skötuna. Í ár mældist TVN-gildi skötunnar 627 en það er mjög hóflegur styrkur því hæst hefur gildið hjá þeim í fiskimjölsverksmiðjunni farið í 974. Skatan í ár verður því í mildara lagi, ljúf og góð.
 
Þeir starfsmenn verksmiðjunnar sem sjá um skötuveisluna í ár eru Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri og Ómar Sverrisson. Þeir eru nýliðar á þessu sviði en ganga bjartsýnir til verks. Miðað við veislurnar í verksmiðjunni á undanförnum árum er eitt alveg víst og það er að skötuveislan þar svíkur engan.
 
Tekið skal fram að hörðustu sóttvarnarreglum verður fylgt í skötuveislunni þetta árið þannig að covid mun koma í veg fyrir þá stemmingu sem áður hefur ríkt í veislunum.

Seyðisfjörður

Seyðisfjörður á fögrum sumardegi, en myndin sýnir einmitt helsta hamfarasvæðið. Unga stúlkan á myndinni bjó í Framhúsinu sem gjöreyðilagðist í stóra aurflóðinu sem féll sl. föstudag. Ljósm. Ómar BogasonSeyðisfjörður á fögrum sumardegi, en myndin sýnir einmitt helsta hamfarasvæðið. Unga stúlkan á myndinni bjó í Framhúsinu sem gjöreyðilagðist í stóra aurflóðinu sem féll sl. föstudag. Ljósm. Ómar BogasonTjónið á Seyðisfirði er mikið. Fólk hefur misst eigur sínar, íbúar hafa orðið fyrir áfalli þar sem náttúran minnti á sig. Skarð hefur verið höggvið í bæinn, sem er á meðal merkustu þéttbýliskjarna á landinu og byggður að drjúgum hluta upp af erlendum athafnamönnum á seinni hluta 19. aldar. Mikil saga um djörfung og hug fyrri tíma hefur farið forgörðum. Sögufræg hús hafa horfið og sum þeirra hafa staðið í yfir 130 ár. Húsin á Seyðisfirði eru mikilvægar minjar um byggingarstíl fyrri tíma.
 
Það er guðs mildi að enginn skuli hafa slasast eða misst líf í þessum hamförum, en eftir stendur óttinn við náttúruöflin og sár á sálinni sem þarf að græða. Það er brýnt að allir sem eiga um sárt að binda hugi að því og fá þá aðstoð sem þeir þurfa. Leggja þarf árherslu á rannsóknir í fjallinu og koma þurfa fram trúverðugar lausnir til að tryggja öryggi íbúa. 
 
Hugur okkar allra er hjá íbúum Seyðisfjarðar og aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með öllu því fólki sem staðið hefur í þessum átökum. Sjálfboðaliðar björgunarsveitanna eru enn og aftur að standa vaktina þegar þörfin er mest, allt það fólk sem unnið hefur dag og nótt við aðgerðastjórn á vettvangi, fólk sem hefur þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Samheldni samfélagsins í kringum Seyðisfjörð sýnir enn og aftur hvað hjarta okkar er stórt þegar kemur að atburðum sem þessum.
 
Síldarvinnslan er með um 50 starfsmenn í fiskimjölsverksmiðju og frystihúsinu. Það er guðs blessun að ákveðið var að vera ekki með starfsemi daginn örlagaríka og því engir af okkar starfsmönnum í hættu við störf sín. Mannvirki fyrirtækisins voru utan hamfarasvæðanna, rafmagn og hiti fóru af frystihúsinu en með góðum samskiptum við aðgerðastjórn fékkst leyfi til að fara með starfsmenn inn á svæðið á sunnudaginn og koma frystivélum og búnaði í gang þannig að enginn skaði varð. Ferskur fiskur var í kæli hússins sem þurfti að koma í vinnslu annað. Á mánudag fengum við leyfi til að fara með starfsmenn inn á svæðið og ná í ferska fiskinn og nutum við aðstoðar  varðskipsins Týs við það verkefni.
 
Staðan er þannig núna að svæðið er lokað og óvíst er hvenær við getum farið með fólk inn á það.  Framundan er gríðarlegt hreinsunarstarf og óvíst er hvað það tekur langan tíma.  Við vonumst til að geta farið að vinna fisk í frystihúsinu hinn 6. janúar nk.,  en við munum halda góðu sambandi við aðgerðastjórn á Seyðisfirði og vonumst til að eiga gott samstarf við hana áfram.  Alla tímasetningar verða endurmetnar með tilliti til framgangs hreinsunarstarfsins.
 
Hugur minn og okkar allra er hjá Seyðfirðingum núna. Þetta er erfitt, en samheldni og samtakamáttur mun koma þeim í gegnum þetta. Guð gefi Seyðfirðingum öllum gleðileg jól. Það mun aftur koma „vor við Seyðisfjörð.“ 
 
Kveðja,
Gunnþór Ingvason

Rannsóknaverkefni sem skila árangri

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Síldarvinnslan tekur þátt í þremur rannsóknaverkefnum sem snúast um framþróun í framleiðslu fiskimjöls. Ljósm. Smári GeirssonFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Síldarvinnslan tekur þátt í þremur rannsóknaverkefnum sem snúast um framþróun í framleiðslu fiskimjöls.
Ljósm. Smári Geirsson
Undanfarin ár hefur Síldarvinnslan í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og síðar Matís lagt stund á rannsóknir á sviði meðferðar og nýtingu fiskfangs. Mörg þessara rannsóknaverkefna hafa verið unnin í samvinnu við önnur sjávarútvegsfyrirtæki, tæknifyrirtæki í sjávarútvegi og háskóla. Reyndar eru mörg verkefnanna doktorsverkefni, flest við innlenda háskóla en einnig við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.
 
Niðurstöður þessara verkefna hafa verið birtar í formi ritrýndra vísindagreina eða doktorsritgerða og nýtast þær öllum sem vilja, jafnt opinberum stofnunum sem fyrirtækjum. Síldarvinnslan hefur sótt um styrki til nokkurra verkefna sem unnið hefur verið að. Þeir styrkir sem veittir hafa verið hafa að mestu verið nýttir sem mótframlag á móti doktorsstyrkjum eða öðrum slíkum styrkjum ásamt því að þeir hafa verið nýttir til að greiða fyrir mælingar og aðra þjónustu sem Matís veitir, en Matís er reyndar eina fyrirtækið á landinu sem unnt er að leita til í því sambandi.
 
Síldarvinnslan er þátttakandi í þremur verkefnum sem fengu styrki úr Matvælasjóði nú í haust. Öll verkefnin snúast um breytingar og framþróun í framleiðslu fiskimjöls. Tvö þeirra eru á sviði þráavarnar í mjöli. Annað þeirra tekur til skoðunar hvort unnt sé að nýta afurðir þörungavinnslu sem þráavarnarefnis en hitt er unnið í samvinnu við Skinney-Þinganes og Ísfélagið og snýst um hitamyndun og þránun í mjöli. Þriðja verkefnið er samstarfsverkefni Síldarvinnslunnar og Matís um breytingar á vinnsluferli í fiskimjölsverksmiðjum með áherslu á fiskprótein í sem hreinustu formi.
 
Það er gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegsfyrirtæki og menntasamfélagið hafi samvinnu um verkefni á borð við þessi. Fyrri verkefni hafa þegar skilað miklum árangri og hafa verið fiskiðnaðinum til framdráttar og styrkt stöðu hans.
Hér á heimasíðunni mun verða gerð nánari grein fyrir verkefnunum þremur þegar niðurstöður liggja fyrir.