Landa fullfermi í dag

Bergey í aðgerð á Selvogsbanka í gær. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBergey í aðgerð á Selvogsbanka í gær.
Ljósm. Egill Guðni Guðnason
Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE munu báðir landa fullfermi í Vestmannaeyjum í dag. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey í morgun en þá var skipið á landleið. „Við erum að koma inn með fullt skip. Það er búin að vera fínasta veiði. Það er auðvelt að ná í þorsk og ýsu og svo er einnig reynt að ná í ufsa. Við vorum á Selvogsbankanum allan túrinn og menn eru bara kátir. Veiðiferðin hjá okkur tekur yfirleitt um eða tæpa tvo daga um þessar mundir þannig að það gengur talsvert á. Við reiknum með að fara strax út að löndun lokinni í dag þó spáin sé ekkert sérstök,“ segir Birgir.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tók undir með Birgi og segir aflast vel um þessar mundir. „Við erum á síðasta holinu hér á Selvogsbankanum og þetta er búið að ganga vel. Mér líst býsna vel á framhaldið nema að nú spáir hann austan stormi og bölvaðri brælu,“ segir Jón.

Eyjarnar landa annan hvern dag

Í lestinni á Bergey VE í morgun. Skipið er sneisafullt. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍ lestinni á Bergey VE í morgun. Skipið er sneisafullt.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
„Nú er stuð á þessu. Vestmannaey og Bergey hafa landað fullfermi annan hvern dag að undanförnu. Þær hafa landað fjórum sinnum undanfarna viku og eru að landa í dag. Þetta gerist vart betra og nú er hægt að tala um alvöru vertíð,“ segir Arnar Richardsson rekstrarstjóri Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum.
 
Bergey kom til löndunar í morgun og spurði heimasíðan Jón Valgeirsson skipstjóra hvort nú væri ekki hafin alvöru vertíð. „Jú, nú ríkir alvöru vertíðarbragur hérna en hann hófst heldur seinna en undanfarin ár. Það er góð veiði bæði austan og vestan við Eyjar. Við höfum verið á Selvogsbankanum, Pétursey og sunnan við Surt og það er alls staðar glimrandi góður fiskur. Það er til dæmis hægt að velja þá stærð sem menn vilja fá af þorski eftir því hvar er veitt. Þú getur valið frá millistærð og upp í algjörar beljur. Það er auðvelt að ná í fisk núna. Ég held að þetta sé níunda löndunin hjá okkur það sem af er mánuðinum og við höfum alltaf verið með fullt skip. Þetta er veisla. Við munum halda til veiða á ný annað kvöld,“ segir Jón.
 
Vestmannaey mun einnig landa í Eyjum í dag.

Fínasti túr hjá Blængi

Blængur NK kemur til hafnar. Ljósm. Grétar Örn SigfinnssonBlængur NK kemur til hafnar. Ljósm. Grétar Örn SigfinnssonLöndun hófst úr frystitogaranum Blængi NK í Norðfjarðarhöfn í morgun. Afli skipsins er rúm 750 tonn upp úr sjó að verðmæti 182 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að þetta hafi verið fínasti túr. „Aflinn er góð blanda, mest ufsi og síðan töluvert af gulllaxi og djúpkarfa en minna af öðrum tegundum. Við vorum 25 daga í túrnum og veður var gott allan tímann að undanskildum þremur fyrstu dögunum. Þessa þrjá fyrstu daga vorum við hér fyrir austan í grálúðu en síðan vorum við á suðvesturmiðum frá Selvogsbanka vestur í Skerjadýpi. Það var settur nýr veltitankur í skipið í janúar og hann hefur gjörbreytt því til hins betra. Skipið veltur miklu minna en áður og fer betur með mannskapinn – strákarnir vita vart af brælum,“ segir Bjarni Ólafur.
 
Ráðgert er að Blængur haldi til veiða á ný annað kvöld.

Síldarvinnslan fyrir 50 árum

Hér verður skyggnst hálfa öld aftur í tímann og fjallað stuttlega um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1971. Þá voru 14 ár liðin frá stofnun Síldarvinnslunnar en félagið var stofnað árið 1957 fyrst og fremst í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar.Hér verður skyggnst hálfa öld aftur í tímann og fjallað stuttlega um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1971. Þá voru 14 ár liðin frá stofnun Síldarvinnslunnar en félagið var stofnað árið 1957 fyrst og fremst í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar.
Barði NK, fyrsti skuttogari landsmanna, hóf veiðar í febrúarmánuði 1971.  Á myndinni er hann að veiðum innan um gamla síðutogara. Ljósm. Ásgrímur ÁgústssonBarði NK, fyrsti skuttogari landsmanna, hóf veiðar í febrúarmánuði 1971. Á myndinni er hann að veiðum innan um gamla síðutogara. Ljósm. Ásgrímur Ágústsson
 
  • Síldarvinnslan hafði fest kaup á framleiðslufyrirtækjum Samvinnufélags útgerðarmanna árið 1965, þar á meðal hraðfrystihúsi. Þar með hóf Síldarvinnslan að sinna fiskverkun almennt en ekki einungis vinnslu síldar. Á árinu 1969 var unnið að miklum endurbótum á hraðfrystihúsinu og framleiðslugeta þess aukin. Árið 1971 voru framleidd 1.799 tonn af frystum afurðum í húsinu.
  • Merk þáttaskil urðu í starfsemi Síldarvinnslunnar árið 1971 en þá var fyrst fryst loðna á vegum fyrirtækisins. Á þessu upphafsári loðnufrystingar framleiddi Síldarvinnslan 104 tonn af frystri óflokkaðri loðnu.
  • Saltfiskverkun hafði hafist á vegum Síldarvinnslunnar árið 1968 og var þá komið upp aðstöðu til verkunarinnar í einni af mjölskemmum fiskimjölsverksmiðjunnar. Fljótlega var farið að vélvæða verkunina. Árið 1971 flutti Síldarvinnslan út 155 tonn af óverkuðum saltfiski og 76 tonn af verkuðum. 
  • Síldarvinnslan hóf verkun á skreið í dálitlum mæli árið 1968 og var komið upp skreiðarhjöllum inni á Sandi fyrir botni Norðfjarðar. Árið 1971 flutti Síldarvinnslan út 246 pakka af skreið.
  • Fyrsti togari landsmanna með hefðbundinn skuttogarabúnað, Barði NK, hóf veiðar 11. febrúar 1971. Síldarvinnslan hafði fest kaup á Barða árið 1970 og kom skipið fyrst til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember það ár. Síldarvinnslan hóf útgerð síldarskipa árið 1965 en Barði var fyrsta togskip fyrirtækisins. Skuttogarinn Barði var smíðaður í Frakklandi árið 1967 og var hann 328 tonn að stærð. Skipið var búið 1200 ha vél af gerðinni Deutz.

Niðurlagningarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók til starfa árið 1971. Dós með niðurlögðum sjólaxi frá Síldarvinnslunni. Ljósm. Guðmundur SveinssonNiðurlagningarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók til starfa árið 1971. Dós með niðurlögðum sjólaxi frá Síldarvinnslunni.
Ljósm. Guðmundur Sveinsson

  • Árið 1971 tók fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á móti 12.190 tonnum af loðnu til vinnslu. Verksmiðjan framleiddi 2.054 tonn af loðnumjöli á vertíðinni og 440 tonn af lýsi. Loðnu var í fyrsta sinn landað til vinnslu í Neskaupstað 21. febrúar árið 1968 þannig að nokkur reynsla hafði fengist af vinnslu loðnu í fiskimjölsverksmiðjunni.
  • Eftir að síldin hvarf af Austfjarðamiðum árið 1968 var atvinnuástand í Neskaupstað erfitt rétt eins og í öðrum síldarbæjum. Ýmissa leiða var leitað til að bæta ástandið og var til dæmis aukin áhersla á bolfiskvinnslu liður í því. Í nóvembermánuði 1969 fól stjórn Síldarvinnslunnar framkvæmdastjóra fyrirtækisins að kanna leiðir til að stuðla að lausn atvinnuleysisvandans til dæmis með því að koma niðurlagningaverksmiðju. Fljótlega var tekin ákvörðun um að festa kaup á slíkri verksmiðju og jafnframt var ákveðið að byggja hæð ofan á austasta hluta fiskvinnslustöðvarinnar og koma þar verksmiðjunni fyrir. Í maímánuði 1970 hófust byggingaframkvæmdirnar og í desembermánuði komu vélarnar í verksmiðjuna. Þegar var hafist handa við að setja upp vélbúnaðinn og lauk því verki í janúar 1971. Framleiðsla í niðurlagningaverksmiðjunni hófst síðan 1. febrúar 1971. Fyrst var unnið við að leggja niður sjólax en síðar á árinu hófst einnig framleiðsla á gaffalbitum.
  • Á árinu 1971 voru skip Síldarvinnslunnar að síldveiðum við Hjaltland og komu 623 tunnur af sjósaltaðri Hjaltlandssíld á land í Neskaupstað.  Einnig var saltað í 181 tunnu af Suðurlandssíld á vegum Síldarvinnslunnar. Þá var notast við söltunaraðstöðuna sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965 þegar framleiðslufyrirtæki Samvinnufélags útgerðarmanna voru keypt (söltunarstöðin Ás).   Var þetta í síðasta sinn sem þessi söltunaraðstaða var notuð.

Síldarsöltunaraðstaðan sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965 (söltunarstöðin Ás) var notuð í síðasta sinn árið 1971. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSíldarsöltunaraðstaðan sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965 (söltunarstöðin Ás) var notuð í síðasta sinn árið 1971. Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar

  • Síldveiðiskip Norðfirðinga, þar á meðal skip Síldarvinnslunnar,  lögðu stund á síldveiðar í Norðursjó árið 1971 en þær veiðar hófust hjá norðfirskum skipum árið 1967.