Veður hefur truflað kolmunnaveiðar að undanförnu.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Þessa dagana er verið að landa 7.400 tonnum af kolmunna í Neskaupstað úr fjórum skipum. Barði NK kom á þriðjudag með 1.350 tonn, landað var 2.700 tonnum úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í gær og í dag komu Beitir NK og Börkur NK til hafnar. Beitir er með um 1.400 tonn og Börkur með tæplega 2.000. Kolmunninn fékkst í færeyskri lögsögu, en veitt var suður af eyjunum á hinu svonefnda gráa svæði.

Samkvæmt upplýsingum frá skipstjórum kolmunnaskipanna hefur veiðin verið róleg að undanförnu og veður óhagstætt til veiða. “Þetta er búið að vera bölvað sarg,” sagði Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni og Þorkell Pétursson á Barða talaði um leiðindanudd. Veður var svo slæmt um tíma að skipin þurftu að leita vars og bíða af sér verstu lætin.

Skipstjórar skipanna gera ráð fyrir að kolmunnaveiðum í færeyskri lögsögu sé lokið að sinni en nú verði haldið á miðin við Rockall. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki og Ólafur Gunnar Guðnason skipstjóri á Beiti sögðu að nú yrðu tekin troll sem hentuðu vel til veiða á þeim slóðum en þau væru bæði minni og sterkari en trollin sem notuð eru í færeysku lögsögunni.

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sagði að kolmunninn sem nú bærist virtist vera þokkalegasta hráefni þrátt fyrir að skipin hefðu verið lengi að veiðum. “Aflinn er vel kældur um borð í skipunum og það skiptir öllu máli. Verksmiðjan er tvískipt og nú er unnið á fullum afköstum í stóru verksmiðjunni en sú minni er ekki í gangi eins og er. Minni verksmiðjan verður fljótlega gangsett líka og þá verður hráefnið sem skipin koma með unnið eins hratt og mögulegt er,” sagði Hafþór.