Barði NK að landa síld. Ljósm. Smári Geirsson

Barði NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 530 tonn af norsk – íslenskri síld sem unnin er í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra og spurði fyrst hvar síldin hefði fengist. „Við fengum þessa síld í tveimur stuttum holum utan í Glettinganesgrunninu um það bil 25 mílur frá Norðfirði. Það var ekki mikið að sjá af síld á þessum slóðum í gær en það hafði orðið vart við töluverða síld þarna daginn áður. Það er dagamunur á þessu. Á landleiðinni var hins vegar töluvert að sjá á Glettinganesgrunninu. Þetta er afar falleg síld og er hún örugglega mjög góð til vinnslu. Í fyrra holinu var meðalþyngdin um 370 grömm og í því síðara 350 grömm. Mér líst vel á framhaldið á þessum veiðum en hafa verður í huga að það er ekki enn kominn september og við höfum venjulega ekki byrjað þessar veiðar fyrr en um miðjan september,“ segir Runólfur.