
Það hefur gengið vel að fiska hjá línuskipum Vísis og togaranum Jóhönnu Gísladóttur GK að undanförnu. Línuskipin, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa verið að veiðum suður af landinu en Jóhanna Gísladóttir hefur hins vegar veitt á Látragrunni. Heimasíðan ræddi við skipstjóra skipanna og byrjaði á að spyrja Benedikt Jónsson, skipstjóra á Páli Jónssyni, hvort aflinn hefði fengist í mörgum lögnum, en Páll Jónsson landaði 140 tonnum í Grindavík á mánudaginn. “Við fylltum skipið í fimm lögnum. Við byrjuðum á Sneiðinni djúpt út af Surti og þar fékkst góður afli, mest langa og keila. Þarna lögðum við tvisvar. Síðan var lagt á Holtshrauni og út af Kastrup og þar fengust 25 tonn af góðri blöndu. Þá var haldið austur á Vík og ein lögn tekin þar. Síðast var lagt við Kötlugrunnshólfið og það var alger sprengilögn. Það fengust 47 tonn í lögninni og það var einnig blandaður afli. Segja má að þessi veiðiferð hafi gengið vel í alla staði en fiskurinn sem fékkst var stór og það reyndi mikið á áhöfnina. Hér um borð er frábær mannskapur sem leysir öll verkefni vel af hendi. Veiðiferð eins og þessi væri óhugsandi ef þessi mannskapur væri ekki til staðar,” sagði Benedikt.
Sighvatur er að landa 103 tonnum í Grindavík í dag og var Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson skipstjóri mjög sáttur við túrinn. ”Við fengum aflann í sex lögnum og það gekk vel að fiska í góðu veðri. Veðrið að undanförnu hefur í reyndinni verið betra en það var lengst af síðasta sumar. Í upphafi veiðiferðar var lagt við Surtsey en síðan færðum við okkur út í kantana suður af Selvogsbanka og Grindavíkurdýpi. Við lögðum áherslu á að ná blönduðum afla og þegar upp var staðið voru 35 tonn af þorski í aflanum en hitt var langa, ýsa og fleiri tegundir. Sighvatur heldur á ný til veiða í kvöld,” sagði Benedikt.
Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur lét einnig vel af sér en togarinn landaði fullfermi í Grundarfirði á laugardaginn og aftur í Hafnarfirði í gær. ”Við vorum að veiðum á Látragrunni í báðum túrum. Aflinn var mest ýsa og síðan þorskur og steinbítur. Veiðiferðirnar voru stuttar og það var fínasta veður þannig að það er engin ástæða til að kvarta,” sagði Einar Ólafur.