Minningareiturinn á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar. Ljósm. Eiríkur Karl Bergsson
Landið neðan við grunn gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar hefur verið mótað og bryggja smíðuð. Ljósm. Eiríkur Karl Bergsson

Í sumar hefur verið haldið áfram framkvæmdum við minningareit Síldarvinnslunnar sem er á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað. Smíðuð hefur verið lítil bryggja neðan við grunninn og er einstaklega ljúft að ganga út á hana og njóta útsýnis. Göngustígur verður gerður frá reitnum og niður að bryggjunni. Að undanförnu hefur landið neðan við grunninn verið mótað og sáð í það. Geir Sigurpáll Hlöðversson hefur haft umsjón með umræddum framkvæmdum og segir hann verkefnið langt komið. “Það á eftir að leggja síðustu hönd á framkvæmdirnar. Eftir er að ganga frá göngustígnum og ljúka endanlega við stoðveggi. Annars er þetta mjög langt komið og vonandi lýkur öllum framkvæmdum á svæðinu í sumar. Það er vilji allra að þetta svæði verði til fyrirmyndar,” segir Geir Sigurpáll.