Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í heimahöfn í Vestmannaeyjum á miðvikudagskvöld. Bergur VE kom síðan í kjölfarið og landaði í gærmorgun. Afli beggja skipa var mest þorskur og ýsa. Bæði skip voru að veiðum fyrir austan land og var veiðin ágæt þar til brældi á þriðjudagskvöld, en þá var Vestmannaey búin að fylla og Bergur var við það að fylla. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og forvitnaðist um gang veiðanna.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að þeir hefðu verið að veiðum á Langabanka, í Berufjarðarál og á Papagrunni. “Veiðin var ágæt þar til veður versnaði á þriðjudagskvöld en þá vorum við að leggja af stað í land. Við höfum nú veitt 130 tonn á einni viku. Fyrst var landað í Neskaupstað og síðan í Eyjum. Veiðin hefur farið fram fyrir austan land og það hefur verið mikil keyrsla. Í þessari viku höfum við einungis verið að veiðum í 98 tíma en verið á siglingu í 65. Ef hefði verið gott veður hefðum við landað aftur í Neskaupstað en norðanáttin gerði það að verkum að ákveðið var að halda til Eyja,” segir Egill Guðni.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, hefur sömu sögu að segja. “Við vorum að veiðum í Berufjarðarál og á Papagrunni og vorum við það að fylla þegar gerði bölvaða brælu á þriðjudagskvöld. Það var flúið undan brælunni og vegna veðurs var ákveðið að fara til Eyja. Ég geri ráð fyrir að það verði farið austur aftur því það er enginn fiskur úti fyrir Suðurlandinu um þessar mundir. Við höfum reynt fyrir okkur úti fyrir suðurströndinni en niðurstaðan hefur verið virkilega döpur,” segir Jón.
Vestmannaey hélt á ný til veiða í gærkvöldi og Bergur mun halda til veiða í dag.