
Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í gær, Vestmannaey í Eyjum og Bergur í Þorlákshöfn. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að veiðin hefði verið fín. “Þetta var tveggja daga túr. Það fór einn dagur í stím og við vorum einn dag að veiðum. Við byrjuðum á Péturseynni og þar var þokkalegur afli. Síðan færðum við okkur á Ingólfshöfðann og þar var hörkugóð ýsuveiði. Hér um borð eru menn bara sallaánægðir með þennan túr,” sagði Birgir Þór.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi lét einnig vel af sér. ”Við vorum mest með þorsk og ýsu. Aflann fengum við á Péturseyjarbleiðunni og á Planinu vestan við Eyjar. Það var gott veður og ágætis gangur í þessu. Það er víða töluvert af ýsu en við bíðum svolítið eftir því að þorskur gangi á okkar hefðbundnu vertíðarmið,” sagði Jón.
Bæði skip héldu til veiða fljótlega eftir löndun.