
Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa bæði landað í heimahöfn í Grindavík í vikunni. Páll Jónsson landaði 122 tonnum á mánudag og Sighvatur 125 tonnum í dag. Heimasíðan heyrði hljóðið í skipstjórunum og forvitnaðist um gang veiðanna. Jónas Ingi Sigurðsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði að þar um borð væru menn afar sáttir við túrinn. „Þessi túr gekk býsna vel. Lagnirnar voru sex talsins, þrjár á Eldeyjarbanka og þrjár í Jökuldýpinu. Aflinn var 14 – 30 tonn í lögn. Um 70% aflans var þorskur en síðan var mest af ýsu og löngu. Það var ágætt veður til að byrja með í túrnum en síðan kaldaskítur. Það er ekki hægt annað en að vera þokkalega ánægður með svona túr þó aflasamsetningin hefði mátt vera önnur. Í næsta túr er ráðgert að byrja í Grindavíkurdýpinu en fara síðan út í kant og freista þess að fá annað en þorsk,“ sagði Jónas Ingi.
Páll Jónsson hélt til veiða að löndun lokinni strax á mánudagskvöld.
Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, skipstjóri á Sighvati, var einnig sáttur við veiðina síðustu daga. „Þetta var góður túr enda komið að landi með fullfermi. Við vorum að veiðum vestur af landinu og það var alls staðar mokveiði. Þetta voru fimm og hálf lögn og allvíða farið til að freista þess að fá annað en þorsk. Staðreyndin er hins vegar sú að það er alls staðar þorskur og hann er stór, fallegur og vel haldinn. Við byrjuðum í Flákakantinum en færðum okkur svo upp á Flákann. Þá var haldið út í Kolluál og því næst dýpra í Kolluálinn. Síðan lá leiðin suður á Jökultungu og á Dritvíkurgrunn og loks endað á Búðagrunni. Menn eru mjög hressir með veiðiferðina en þorskur er um 90 tonn af aflanum og það er helst til of mikið,“ sagði Aðalsteinn Rúnar.
Sighvatur mun halda til veiða á ný í kvöld.