Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast hér á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.

Kjartan Viðarsson

Kjartan Viðarsson er fæddur og uppalinn í Grindavík og segist vera Grindvíkingur í húð og hár. Hann gegnir nú starfi útgerðarstjóra Vísis og hefur svo sannarlega nægum verkefnum að sinna. „Ég byrjaði á sjó hjá Vísi 16 ára gamall. Þá var ég á Hrungni á netum. Síðan var ég á fleiri Vísisbátum. Um tíma var ég á Sighvati á línu og á Mána á humri. Að því kom að ég byrjaði að starfa hjá Vélsmiðju Grindavíkur og þá vann ég mikið við viðhald Vísisbáta. Segja má að alla mína starfsævi hafi ég verið tengdur Vísi með einum eða öðrum hætti. Um 2000 tók ég síðan við starfi útgerðarstjóra fyrirtækisins og hef gegnt því síðan. Þegar ég tók við útgerðarstjórastarfinu átti Vísir 10 skip en núna gerir fyrirtækið út fimm skip auk þess sem Fjölnir liggur um þessar mundir og er ekki í rekstri. Vísir hefur þróast mikið og breyst á síðustu árum og ég tel allar þær breytingar vera jákvæðar. Vísir hefur eignast gömul skip sem þurfa töluvert viðhald með einni undantekningu; Páll Jónssson var smíðaður fyrir Vísi og kom nýr árið 2019. Sumir þessara gömlu báta hafa verið endursmíðaðir og má þar til dæmis nefna Sighvat og Fjölni. Það er í mínum verkahring að hugsa um allt sem að skipunum snýr eins og viðhald og veiðarfæri og það er alltaf meira en nóg að gera. Það breyttist margt þann 10. nóvember síðastliðinn þegar Grindavík var rýmd. Ég hef verið svolítið reittur síðan. Ég þeytist um á bílnum enda heimahöfnin ekki til staðar lengur. Ég hef skrifstofuaðstöðu í Reykjavík en ég er afskaplega lítið þar. Í sannleika sagt hefur alltaf gengið illa að beisla mig á skrifstofu. Ég er í miklum og góðum tengslum við skipstjórana og vélstjórana á bátunum og tek allslags ákvarðanir í samstarfi við þá. Eins á ég í afar góðu samstarfi við Pétur Hafstein framkvæmdastjóra. Útgerðin er með varahlutalager í Grindavík en hann er ekki stór. Við höfum ekki flutt lagerinn enda erum við alltaf á leiðinni heim. Útgerðarstjórastarfið er erilsamt en það er fjölbreytt og skemmtilegt og aldrei verkefnaskortur. Þegar Síldarvinnslan festi kaup á Vísi urðu sumir dálítið óvissir og kvíðnir en ég held að allur kvíði sé gjörsamlega horfinn. Vísir styrktist með kaupum Síldarvinnslunnar á fyrirtækinu og ég tel að í þeim hremmingum sem við Grindvíkingar erum að ganga í gegnum skipti miklu máli að eiga sterkt bakland,“ segir Kjartan.