Gunnþór Björn Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf.

Á áramótum er gott að staldra við og fara yfir liðið ár hvar hefði mátt gera betur og hvaða lærdóm hægt er að taka með sér í áskoranir komandi árs.

Það er klisja að tala um krefjandi ár í sjávarútvegi. Öll ár eru krefjandi enda erum við að glíma við náttúruöflin alla daga. Þannig hófst árið 2024 með loðnubresti eftir þrjú góð ár af loðnuvertíðum. Sjávarútvegurinn býr við slíkar sveiflur og þarf að aðlaga sig að þeim. Það getur hins vegar verið kostnaðarsamt þar sem miklar fjárfestingar liggja ónýttar. Ekki er búið að gefa út upphafskvóta fyrir næsta ár en ég er fullur bjartsýni á að svo verði gert. Samstarf útgerða og Hafró við rannsóknir á loðnunni hefur verið gott og vonum við að það beri árangur í vetur.

Þrátt fyrir að stoðum íslenskt efnahagslífs hafi fjölgað og þær orðið fjölbreyttari er mikilvægi sjávarútvegsins ótvírætt. Þetta birtist meðal annars í því að loðnubrestur olli verulegum samdrætti í hagvexti á árinu og þá hefur Hagsjá Landsbankans spáð því að meðalstór loðnuvertíð á nýju ári gæti aukið hagvöxt um 0,5-1% sem þýðir aukningu um22-30%.

Aðrar uppsjávarveiðar gengu með ágætum á árinu. Makrílveiðin var minni en undanfarin ár en á móti voru markaðir sterkir og verð góð. Kolmunnaveiðar gengu vel og síldarvertíðin var mjög góð og teygði sig frá september fram í desember. Það var ánægjulegt að sjá stóraukna manneldisvinnslu úr íslensku sumargotsíldinni strax að aflokinni norsk-íslensku síldinni í haust.

Í bolfisknum höfum við glímt við annars konar áskoranir af náttúrunnar völdum. Starfsfólk okkar í Grindavík hefur þurft að aðlaga sig að nýjum veruleika og erfitt er að setja sig í spor Grindvíkinga sem hafa þurft að yfirgefa heimili sin og rætur. Slíku fylgja óneitanlega erfiðar og sárar tilfinningar. Framan af ári varð starfsemin fyrir mikilli röskun. Frá og með haustinu tókst þó að keyra vinnslurnar þar nokkuð stöðugt. Við lokuðum frystihúsi okkar á Seyðisfirði á vormánuðum. Ákvörðun þess efnis hafði verið tekin nokkru áður enda vinnslan gömul og ekki samkeppnishæf.

Skipin hjá okkur veiddu 173 þúsund tonn á árinu og nam aflaverðmætið um 20 milljörðum króna. Frystitogarinn Blængur var fremstur í verðmætum með 3.500 milljónir króna. Uppsjávarfrystihúsið í Neskaupstað vann úr 61 þúsund tonnum af afla, þrátt fyrir loðnubrest, og fiskmjölsverksmiðjurnar tóku á móti 173 þúsund tonnum á árinu.

Ný ríkisstjórn tók við fyrir jól og óska ég henni velfarnaðar í sínum störfum fyrir land og þjóð. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er komið inn á málefni sjávarútvegsins og meðal annars fjallað um réttlát auðlindagjöld. Ég held að enginn sé því ósammála og hefur sjávarútvegurinn ekki hafnað réttlátum auðlindagjöldum.

Þegar rætt er um réttlát auðlindagjöld þarf hins vegar að hafa í huga hvernig staðan er í dag bæði hér á landi og hjá samkeppnisaðilum okkar erlendis. Það liggur fyrir að kolefnisgjöld, sem ekki eru til staðar í sumum samkeppnislöndum okkar í sjávarútvegi, eru að hækka mikið um áramótin. Orkukostnaður hefur sömuleiðis rokið upp á árinu og umhverfisvæn raforka er af skornum skammti. Þá liggur fyrir að veiðigjöld á uppsjávarfisk munu margfaldast um áramótin. Þannig að svigrúm til tvöföldunar á veiðigjöldum, eða stórfelldra hækkana á þeim, er ekki til staðar í núverandi umhverfi.

Ríkisstjórnin hyggst festa í sessi 48 daga í strandveiðunum en tilfærsla á aflaheimildum hefur verið nefnd í því samhengi. Verði um frekari tilflutning að ræða úr aflamarkskerfinu yfir í strandveiðina þýðir það einfaldlega að fyrirtækin verða að bregðast við með hagræðingu. Það getur falið í sér samþjöppun vinnslu og fækkun skipa og þar af leiðandi gæti sjómönnum, sem hafa atvinnu af veiðum, fækkað. Íslendingar tóku upp kvótakerfi og stýringu á veiðum því sjávarútvegurinn sem atvinnugrein var kominn í öngstræti sökum ofveiði og óhagkvæms rekstrar. Óheftar ólympískar strandveiðar, án stýringar á magni eða fjölda, eru síst til þess fallnar að auka verðmæti eða hag þjóðarinnar. Sagan sýnir okkur það og nægir einnig að horfa til Noregs þar sem verð lækkar á ákveðnum tímum ársins þegar smábátar keppast um að veiða óheft á ákveðnum tíma. Þess vegna á ég erfitt með að trúa að matvælaráðherra ætli að auka aflaheimildir umfram vísindalega ráðgjöf sem hefur verið hornsteinn íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Í dag byggja gildandi aflaregla og vottanir á þeirri stýringu.

Það eru almannahagsmunir að umgjörð atvinnulífsins sé fyrirsjáanleg og styðji við og efli samkeppnishæfni útflutningsgreina. Þannig mun okkur lánast að halda áfram á braut aukinnar verðmætasköpunar og byggja betur undir áframhaldandi lífskjarasókn þjóðarinnar.

Þann 20. desember síðastliðinn sótti ég minningarstund í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá snjóflóðunum í Neskaupstað árið 1974. Haldin var falleg ljósastund við minningarreit og heimamenn komu saman til að minnast þessara voveiflegu atburða. Blessuð sé minning allra sem fórust í snjóflóðunum en þau marka enn áþreifanleg spor í samfélaginu á Norðfirði.

Náttúruöflin hafa haldið áfram að minna á sig í þeim samfélögum sem Síldarvinnslan starfar í á undanförnum árum. Blessunarlega hafa þau ekki valdið mannfalli en eru mikilvæg áminning þess að gæta ítrustu varkárni í okkar störfum.

Ýmis krefjandi verkefni bíða okkar á komandi ári. Loðnan er enn spurningamerki, við sjáum fram á samdrátt í makrílheimildum og ósamið er um deilistofna. Á móti kemur að markaðsaðstæður eru góðar á flestum okkar mörkuðum og samstæða Síldarvinnslunnar býr yfir öflugu og úrræðagóðu starfsfólki sem er tilbúið að takast á við nýtt ár með sókn í huga. Við horfum því bjartsýn fram á veginn og mætum þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir hvort sem þær eru af náttúrunnar völdum eða manna.

Kæru samstarfsmenn, vinir og aðrir samferðarmenn, ég þakka góðar stundir á liðnu ári og óska ykkur og fjölskyldum ykkar farsældar og gæfu á nýju ári.

Áramótakveðja,
Gunnþór Ingvason