Árshátíðin verður haldin í Sopot í Póllandi

Dagana 30. og 31. október mun starfsfólk fyrirtækja í Síldarvinnslusamstæðunni ásamt mökum og gestum halda til Póllands. Þar verður haldin árshátíð í Ergo – höllinni í Sopot, nágrannabæ Gdansk, á laugardagskvöldið 1. nóvember. Hópurinn sem heldur utan telur rúmlega 700 manns . Það er ferðaskrifstofan Verdi Travel sem skipuleggur ferðina.

Flogið verður frá Egilsstöðum og Keflavík til Gdansk og dvalið á fjórum hótelum í Sopot. Auk árshátíðargleðinnar á laugardagskvöldið verður fyrirpartí á föstudagskvöldið þar sem þjóðhátíðarstemmning í stíl Vestmannaeyinga mun ríkja.

Síldarvinnslan hefur áður efnt til árshátíða erlendis og hafa þær tekist einstaklega vel. Ferðarnar hafa verið hin besta skemmtun og stuðlað að auknum kynnum fólks innan fyrirtækisins. Aðalatriði árshátíðarferðarinnar er að allir komi saman, gleðjist og njóti.