Barði NK millilandar í Hafnarfirði 18. maí s.l.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK hélt til úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg hinn 8. maí sl. og hefur skipið aflað mjög vel. Barði hélt til Hafnarfjarðar og millilandaði þar tæplega 7900 kössum eða 166 tonnum af frystum afurðum laugardaginn 18. maí. Að löndun lokinni hélt hann strax aftur á miðin og er væntanlegur til Neskaupstaðar fyrir sjómannadag eða þegar lokið verður við að veiða kvóta skipsins.

Bjarni  Ólafur Hjálmarsson skipstjóri lætur afar vel af úthafskarfaveiðinni. Hann segir að þeir á Barða séu yfirleitt að fá um 30 tonn eftir 13 tíma hol og það þýði að frystitækin um borð séu fullnýtt og allt gangi eins og í sögu. Eftir hvert hol þarf skipið að bíða í alllangan tíma til að geta togað á ný en mikill fjöldi skipa er á miðunum og raða þau sér upp og toga hvert á eftir öðru á veiðisvæðinu.