Frystitogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gær með fullfermi af frystum makríl eða 184 tonn. Veiðiferðin gekk vel og og nánast allan tímann var framleitt með fullum afköstum. Skipið var í sjö og hálfan sólarhring að veiðum og fór veiðin fram á miðunum sauðaustur af landinu.
Geir Stefánsson. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirÞessi veiðiferð var hin fyrsta sem Geir Stefánsson var með skipið. Geir réðist í skipsrúm á Barða árið 2004, fyrst sem háseti en um tveimur árum síðar sem 2. stýrimaður. Síðan hefur Geir mikið leyst af sem 1. stýrimaður og nú kom að því að hann gegndi stöðu skipstjóra.

Sjómennskuferill Geirs er fjölbreyttari en flestra annarra. Á árunum 1995 til 2003 var hann búsettur í Petropavlosk á Kamstjaka-skaga í Rússlandi og starfaði þar sem gæðastjóri um borð í rússneskum fiskiskipum og verksmiðjuskipum. Geir fluttist frá Rússlandi árið 2003 og áður en hann réðist í skipsrúm á Barða starfaði hann sem aðstoðarframleiðslustjóri á suður-afrísku skipi sem lagði stund á tannfiskveiðar í Indlandshafi.

Geir segir að vissulega sé nokkur munur á að vera á íslensku fiskiskipi en erlendum en hann kunni einstaklega vel við sig um borð í Barða og sé mjög ánægður að starfa hjá Síldarvinnslunni.