
Loðnukvótinn sem gefinn var út í gær var ekki merkilegur en engu að síður skapaði hann þessa klassísku loðnuspennu. Barði NK mun taka loðnunótina um borð í dag og halda til veiða. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði hvernig honum litist á. “Hér um borð eru allir spenntir og glaðir. Það er alltaf gaman að glíma við loðnuna þó kvótinn sé eins og upp í nös á ketti. Þegar nótin verður komin um borð verður haldið rakleiðis í Faxaflóann en loðnan er sennilega komin þangað. Það er tilhlökkun að fá að kasta á loðnu og vonandi verður gott veður. Mér skilst að stefnt sé að því að vinna hrygnuna sem veiðist fyrir Japansmarkað og hænginn þá fyrir markað í Austur-Evrópu,” sagði Þorkell.