Barði NK að veiðum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun af afloknum kolmunnatúr. Aflinn var 930 tonn eftir fimm sólarhringa að veiðum. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvernig túrinn hafði gengið fyrir sig. “Við héldum til veiða á þriðjudagsmorgun og var haldð beint út í Rósagarð en þar höfðu bæði Hoffellið og Jón Kjartansson verið að fá ágætan afla. Þegar við komum þarna út var veiðin hins vegar orðin lítil. Þarna var dálítið lóð en það skilaði litlu. Við færðum okkur yfir línuna í færeysku lögsöguna og þar var skárri veiði. Alls tókum við fimm hol í túrnum og var afli í holi frá 280 tonnum og niður í 120 tonn. Það var dregið í 16 – 22 klukkustundir og það var blíða allan tímann. Nú er planið að við höldum vestur fyrir land og könnum íslensku sumargotssíldina. Vonandi gengur það vel. Það er semsagt einn síldartúr á dagskrá og síðan árshátíðarferð til Póllands,” sagði Theodór.