
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 1.500 tonn af síld veiddri út af Austfjörðum og í kjölfar hans kom Börkur NK með 1.030 tonn. Hér er væntanlega um að ræða síðustu síldarfarmana sem fást á Austfjarðamiðum í ár. Barði NK hélt til veiða á íslenskri sumargotssíld fyrir vestan land í morgun en heildarkvóti Síldarvinnslunnar í íslenskri sumargotssíld er um 12.000 tonn.
Heimasíðan ræddi við skipstjórana á Beiti og Berki og spurði hvernig þessir lokatúrar á miðunum fyrir austan landið hefðu gengið. Ólafur Gunnar Guðnason, skipstjóri á Beiti, sagði að síldin sem fékkst hefði verið töluvert blönduð. „Þetta var, eins og verið hefur, blanda af norsk – íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Við byrjuðum á að taka eitt hol á Héraðsflóanum og fengum þá 270 tonn. Þá fréttist af mjög góðri veiði á Rauða torginu og þá var haldið þangað. Reyndin var sú að þessari góðu veiði var lokið þegar við komum en við tókum þarna tvö hol, fengum 160 tonn í því fyrra og 240 í því seinna. Að þessu loknu fórum við að leita og fundum síld um 30 mílum nær landi eða í kantinum út af Reyðarfjarðardýpi á slóðum sem togaramenn kalla Utanfótar. Þarna tókum við tvö hol og var dregið í um þrjá tíma í hvoru þeirra. Í fyrra holinu fengust 600 tonn og 250 í því síðara. Þegar við lukum veiði voru um 60 mílur í Norðfjarðarhornið þannig að það var skammt til hafnar. Þetta er fallegasta síld sem fékkst í túrnum en það þurfti að hafa dálítið fyrir því að sækja hana að þessu sinni,“ sagði Ólafur Gunnar.
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki var ánægður með túrinn. „Við vorum Utanfótar, á sömu slóðum og Beitir var á undir lokin og veiðin gekk vel. Við fengum þarna rúmlega 1.000 tonn í þremur stuttum holum. Það var dregið í um þrjá tíma í hverju holi. Nú skilst mér að kvótinn í norsk – íslensku síldinni sé búinn og þá snúa menn sér að veiðum á íslenskri sumargotssíld fyrir vestan land. Það eru nokkur skip að halda til leitar á síld fyrir vestan landið núna og Barði lagði af stað þangað í morgun,“ sagði Hálfdan.