Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í Neskaupstað í vikunni, Bergur á miðvikudag og Vestmannaey í gær. Afli skipanna var blandaður, mest þorskur, ýsa og ufsi. Bæði skip fóru óvenju víða í veiðiferðinni og átti veðrið þar hlut að máli. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana og bað þá um að segja frá túrnum. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, sagði að túrinn hefði hafist í brælu fyrir sunnan land en veðrið hefði verið mun skárra eftir að komið var austur fyrir landið. “Við fórum frá Eyjum á laugardagskvöld og hófum veiðar á Pétursey og Vík en þar fékkst aðeins þorskur. Þá var haldið á Ingólfshöfðann þar sem var góð þorskveiði. Við fengum ufsa á Breiðamerkurdýpi og ýsu við Hvalbakinn. Túrnum lauk svo á Tangaflakinu þar sem fékkst ýsa og þorskur með. Við héldum á ný til veiða strax að löndun lokinni en hann spáir norðanskít um helgina. Það kemur í ljós hvernig veðrið verður,” sagði Jón.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að túrinn hefði bara gengið vel miðað við aðstæður. “Við látum alls ekki illa af okkur þó veðrið hefði mátt vera betra. Það var víða farið í veiðiferðinni en veiðar hófust sunnan við Vestmannaeyjar og enduðu á Gerpisflakinu. Aflinn var mjög blandaður. Það er hægt að telja upp hvar veitt var í túrnum. Byrjað var við Eyjar og síðan var veitt í Meðallandsbugt, á Ingólfshöfða, í Breiðamerkurdýpi, Hornafjarðardýpi, Berufjarðarál, Hvalbakshalli, Litladýpi, á Skrúðsgrunni og í Reyðarfjarðardýpi og síðan endað á Gerpisflakinu. Haldið verður á ný til veiða fljótlega að löndun lokinni en sannast sagna líst mönnum ekkert alltof vel á veðurspána,” sagði Egill Guðni.