Vestmannaey VE og Bergur VE í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Ísfisktogarinn Bergur VE kom til Neskaupstaðar sl. nótt með 65 tonna afla. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að veður hafi verið gott í túrnum þar til í blárestina. “Aflinn er mest ýsa og þorskur og hann fékkst allur á Tangaflakinu. Það var komið leiðindaveður í gær og á að vera verra í dag samkvæmt spá. Við förum út þegar vindur gengur niður,” segir Jón.

Systurskipið Vestmannaey VE kom til Neskaupstaðar í kjölfar Bergs og landar þar í dag. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri segir að túrinn hafi verið stuttur og aflinn sé um 45 tonn, mest ýsa. “Við vorum að veiðum á Glettinganesflaki, Gerpisflaki og á Skrúðsgrunni og það var rólegheitakropp allan tímann. Við höldum til veiða á ný í nótt þegar lægir,” segir Birgir Þór.