Birtingur NK 119 kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað í gærkvöldi. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu nýverið en Skinney – Þinganes á Hornafirði var fyrri eigandi og þá hét það Þórir SF 77. Skipið var smíðað í Taiwan árið 2009 en það var lengt um 10 metra í Póllandi árið 2019 og þá var ýmsu breytt í því og margt endurnýjað. Heimasíðan ræddi við Grétar Örn Sigfinnsson rekstrarstjóra útgerðar Síldarvinnslunnar og spurði fyrst hvernig honum litist á skipið. “Mér líst afar vel á það. Mest allur búnaður um borð er nýlegur og skipið er vel um gengið, snyrtilegt og allt lítur vel út. Ég tel að þetta skip sé afar góð viðbót við flota Síldarvinnslunnar og það eigi eftir að koma sér vel fyrir fyrirtækið. Skipið hefur ekki verið nýtt frá því í fyrrahaust og virðist hafa verið ofaukið í flota Hornfirðinganna. Mögulegt er að nota þetta skip bæði til togveiða og netaveiða. Nú verður skipið gert klárt á togveiðar og ætti það jafnvel að geta haldið til veiða síðar í vikunni. Skipstjóri á Birtingi til að byrja með verður Egill Guðni Guðnason en í fyrsta túrnum verða tveir Hornfirðingar sem gjörþekkja skipið um borð, skipstjóri og vélstjóri. Gert er ráð fyrir að 12 -13 menn verði í áhöfn Birtings,” segir Grétar Örn.